23.11.1995

Grunnskólinn til sveitarfélaga

Fjármálaráðstefna Sambands ísl. sveitarfélaga
Hótel Saga, 23. nóvember 1995

Ágætu sveitarstjórnarmenn!

Flutningur grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga er viðamesta verkefni af þessu tagi, sem við höfum staðið frammi fyrir í íslensku stjórnkerfi. Til að ná því fram þarf ekki aðeins að skapast traust og trúnaður milli ríkis og sveitarfélaga heldur einnig gagnvart kennurum og nemendum eða réttara sagt foreldrum í umboði nemenda. Þá má ekki missa sjónar á þeirri staðreynd, að við höldum í raun á fjöreggi þjóðarinnar, þar sem grunnskólinn er. Án öflugrar og markvissrar starfsemi hans er til lítils barist fyrir framtíðina í landi okkar. Hún verður ekki björt nema hér búi vel menntuð þjóð, sem getur nýtt sér öll tækifæri við síbreytilegar aðstæður. Minnumst þess, að sá sem gengur sín fyrstu skólaskref eftir 1. ágúst 1996 er að hefja göngu um íslenska skólakerfið sem lýkur ekki fyrr en árið 2010, fari hann í grunn- og framhalds-skóla. Við þurfum að leggja grunn að því í skólanum, allt frá leikskólaaldri, að nemandinn verði fær um að takast á við veröldina eins og hún lítur út eftir áratugi, sem er ekki lítið ætlunarverk á miklum breytingatímum..

Með því að færa grunnskólann til sveitarfélaganna er því verið að sýna þeim mikinn trúnað og traust. Ég efast ekki um vilja þeirra og getu til að reynast traustsins verð. Lítum á þetta viðamikla mál eins og það blasir nú við mér.

Allt frá því að ný lög um grunnskóla voru samþykkt á Alþingi í febrúar á þessu ári hefur verið unnið markvisst að því að fylgja þeim eftir og koma í framkvæmd. Kjarni hinna nýju grunnskólalaga er sú ákvörðun, að sveitarfélög taki alfarið við ráðningu kennara og skólastjórnenda og launagreiðslum til þeirra svo og að sérfræðiþjónusta, sem hefur verið í verkahring fræðsluskrifstofa, færist yfir til sveitarfélaga.

Fyrsta stóra verkefnið eftir samþykkt laganna var að gefa út reglugerð samkvæmt ákvæði í 57. grein þeirra. Reglugerðin kom út í júnímánuði og segir til um það hvaða greinar laganna komu til framkvæmda þá þegar og hvaða greinar koma til framkvæmda síðar og í síðasta lagi 1. ágúst 1996. Það er til dæmis verkefni sveitarfélaganna frá 1. júní næstkomandi að ráða kennara að grunnskólum.

Í júní síðastliðnum skipaði ég sérstaka verkefnisstjórn til að hafa yfirumsjón með flutningi grunnskólans til sveitarfélaga, fylgja áætlunum eftir og samræma aðgerðir. Samtímis voru skipaðar þrjár sérnefndir til að fjalla um og gera tillögur um ákveðna málaflokka. Ein nefndin fjallar um breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga, önnur um réttindamál kennara og skólastjórnenda og sú þriðja um fyrirkomulag sérfræðiþjónustu á vegum sveitarfélaga.

Nefndirnar þrjár hafa unnið ötullega að sínum málaflokkum og hinn 9. október skiluðu þær áfangaskýrslum til verkefnisstjórnar og formenn nefndanna gerðu grein fyrir stöðu mála. Nefndin sem fjallar um fyrirkomulag sérfræðiþjónustu skilaði tillögum sínum í lokaskýrslu 24. október. Nefndin mun þó starfa áfram og vera Sambandi íslenskra sveitarfélaga og verkefnisstjórn til ráðuneytis og aðstoðar um skipan þeirra mála sem hafa verið á verksviði fræðsluskrifstofa. Nefndin sem fjallar um kostnað og tekjustofna getur eðli málsins samkvæmt ekki lokið störfum fyrr en hinar nefndirnar hafa skilað af sér, enda kunna tillögur þeirra að fela í sér nýjar forsendur fyrir útreikningum. Nefndin sem fjallar um réttindamál kennara og skólastjórnenda er vafalaust að glíma við erfiðasta og flóknasta verkefnið.

Hinn 17. nóvember gerðu formenn nefndanna þriggja verkefnisstjórn grein fyrir stöðu mála. Þar kom fram að nefndin sem er að fást við réttindamál kennara á enn nokkuð í land. Nefndin hefur unnið að því að gera ítarlega úttekt á réttarstöðu kennara og skilgreina lið fyrir lið hvað felst í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Nefndin lítur svo á að ekki náist fullt samkomulag um meðferð ýmissa vafamála fyrr en að þessari greiningu lokinni. Hér er um að ræða tímafrekt og vandasamt verk og hefur beinni tillögugerð nefndarinnar seinkað fyrir vikið. Á móti kemur að meiri líkur eru á viðunandi lausnum og sæmilegri sátt um réttindamál kennara og skólastjórnenda við flutning grunnskólans eftir þessa ítarlegu greiningu.

Ég hef ekki orðið var við annað en einlægur áhugi sé hjá öllum, sem að þessu máli vinna, á því að takmarkið náist, grunnskólinn flytjist til sveitarfélaganna 1. ágúst 1996. Starfi menn áfram með því hugarfari tekst að ná þessu mikilvæga markmiði.

Á þessari stundu er ekki við hæfi, að ég fjalli um einstök úrlausnarefni, sem snerta samskipti þeirra þriggja aðila, sem einkum koma að lokaákvörðunum vegna flutnings grunnskólans. Fulltrúar kennara, sveitarfélaga og ríkisins sitja enn á rökstólum og að lokum þarf að komast að samkomulagi. Kröfur eru og verða gerðar á hendur ríkinu. Við þeim verður brugðist, þótt ég geri það ekki hér og nú, enda er málið ekki komið á það stig, að ljóst sé, hvað út af stendur og kemur til kasta okkar stjórnmálamannanna.

Ég vil ekki leyna þeirri skoðun minni, að þunginn að því er varðar ákvarðanir um framtíð grunnskólans hefur nú þegar að nokkru leyti flust og er markvisst að flytjast frá ríkinu til sveitarfélaganna. Þetta á til dæmis við um launamál kennara. Þeir huga nú að því, hvernig sveitarfélögin ætla að taka á kröfum þeirra. Allt er þetta til marks, um að vilji þeirra, sem að flutningi grunnskólans koma, stendur til þess að verkefnið takist innan samþykktra tímamarka.

Spurt hefur verið hvert verði valdsvið menntamálaráðuneytisins eftir yfirfærsluna. Samkvæmt 9. grein grunnskólalaganna fer menntamálaráðherra með yfirstjórn málaflokksins og hefur eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem lögin, reglugerðir og aðalnámskrá kveða á um. Ráðuneytið annast upplýsingaöflun um skólahald og skólastarf og er ráðherra skylt að gera Alþingi grein fyrir framkvæmd þess á þriggja ára fresti. Menntamálaráðherra leggur gunnskólanum til samræmd próf og ber ábyrgð á því að fram fari mat á skólum og skólastarfi. Hann hefur umsjón með Þróunarsjóði grunnskóla og getur haft forgöngu um þróun og tilraunastarf í grunnskólum að fengnu samþykki sveitarstjórnar. Loks hefur ráðherra úrskurðarvald í einstökum málum er snerta skólahald og skólastarf í grunnskólum. Ríkið mun halda áfram útgáfu námsgagna.

Um tengsl menntamálaráðuneytisins og sveitarstjórna vísast annars vegar til almennra lagaákvæða og hins vegar grunnskólalaga. Samkvæmt þeim er yfirstjórn málaflokksins í höndum menntamálaráðherra, það er stefnumótun, mat, þróunarstarf, eftirlit og úrskurðarvald. Sveitarfélög verða hins vegar sjálfstæðir rekstaraðilar grunnskólans. Þau sjá um framkvæmd skólahalds og skólastarfs innan ramma gildandi laga, reglugerða og aðalnámskrár.

Sérnefndirnar, sem enn eru að störfum og eiga eftir að skila tillögum sínum og skýrslu, vinna verk, er tengjast forræði fjármálaráðherra, að því er hlut ríkisins varðar og vil ég því ekki ganga hér inn á það svið. Á hinn bóginn vil ég láta þess getið, að við úrlausn þeirra verkefna kunna einstök ákvæði í nýsettum grunnskólalögum að koma til álita. Má þar nefna skylduna samkvæmt þeim til að ljúka einsetningu skóla árið 2000-2001. Af 204 grunnskólum eru margir einsetnir og sumir hafa verið það um árabil. Á þetta einkum við um skóla í dreifbýlinu. Vandinn er fyrst og fremst í Reykjavík og bæjum í örum vexti.

Stefnt hefur verið að því að reyna til hins ýtrasta að ná góðri sátt milli samtaka kennara, sveitarfélaganna og ríkisins um lausnir viðkvæmra mála, sem við blasa í réttindamálum kennara og skólastjórnenda vegna flutningsins. Staðan nú gefur ekki annað til kynna en aðilar geti náð samkomulagi. Spurningin um æviráðningu er ofarlega í huga margra, þegar þessi þáttur er ræddur. Henni verður ekki svarað einhliða hér og nú, því að um svarið þarf að semja, svo að sátt náist.

Ég hef sagt það áður og endurtek nú, að ríkið gefi engin fyrirmæli um arftaka fræðsluskrifstofanna, sem verða lagðar niður. Til þess hefur ríkið engar lagaforsendur, málið er alfarið í höndum sveitarfélaganna. Sérnefndin um hin faglegu mál leggur til, að komið verði á fót skólamálaskrifstofum sveitarfélaga og þurfi 1500-2000 nemendur á bakvið hverja þeirra, svo að reksturinn sé hagkvæmur og nægileg fjölbreytni í starfsliði til að veita lögbundna lámarksþjónustu.

Flestar reglugerðir, sem setja þarf vegna grunnskólalaganna, eru í smíðum. Tvær veigamiklar reglugerðir, sem varða flutning grunnskólans beint, sérkennslureglugerð og reglugerð um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga, hafa þegar verið sendar út til umsagnar.

Góðir fundarmenn!

Ágætur formaður samtaka ykkar vildi, að ég byggi mig undir þennan fund með því að lesa nokkrar spurningar frá honum og síðan auðvitað svara þeim hér á þessum stað.

Spurningarnar las ég, en svörin get ég ekki gefið einn, því að þau hljóta að ráðast af afstöðu fleiri, þegar gengið er til verka með þeim hætti, sem hér hefur verið lýst. Allir sem að þessu mikla máli koma hafa tekið höndum saman um að leysa það með sameiginlegu átaki. Hér nefni ég atriði eins og fjölda nemenda í bekkjardeildum. Í því efni hafa kennarar ákveðna kröfu. Unnt er að bregðast við henni á fleiri en einn hátt, sé réttmæti hennar á annað borð viðurkennt.

Nokkur ótti er við, að tómarúm kunni að skapast, þegar fræðsluskrifstofur fara að draga saman seglin en skólaskrifstofur eða aðrir staðgenglar þeirra eru ekki komin af stað. Gera þarf ráðstafanir til að brúa þetta bil og eyða óvissu.

Þannig gæti ég haldið áfram að tíunda verkefnin, sem við blasa. Ég ætla ekki að gera það heldur láta staðar numið með því að ítreka, að ég verð ekki var við annað en einlægur áhugi sé hjá öllum á því, að sveitarfélögin fái þetta mikla verkefni að fullu í hendur frá og með 1. ágúst 1996. Ég vona, að fundur ykkar hér í dag staðfesti réttmæti þessarar skoðunar.