17.10.1995

Kirkjuþing

Kirkjuþing í Bústaðarkirkju.
17. október 1995

Í fjarveru dóms- og kirkjumálaráðherra var ég sem staðgengill hans beðinn að ávarpa Kirkjuþing í dag. Mér er það ljúf skylda. Vil ég nota einstakt tækifæri til að fara nokkrum orðum um tengsl kirkju og þeirra málaflokka, sem ég sinni í störfum menntamálaráðherra.

Þess verður minnst eftir fimm ár, að 1000 ár verða liðin frá því að kristni var lögtekin á Íslandi. Þáttur kristninnar í menntun og menningu þjóðarinnar er svo ótvíræður, að um hann þarf í sjálfu sér ekki að fara mörgum orðum. Kirkjan hefur gegnt lykilhlutverki við að varðveita menningararfinn og efla. Verður það gildi hennar aldrei metið til fulls.

Sagnamenntun og skáldskaparmennt Íslendinga sker sig úr, þegar litið er til norrænna þjóða á miðöldum. Þar telja fræðimenn að greina megi gelísk eða írsk áhrif meðal landnámsmanna. Hitt er ljóst, að okkur hefði aldrei tekist að varðveita dýrgripi þessa tíma, okkar frægu bækur, nema vegna þess að Íslendingum bættist tækni og þekking úr lærdómshefð kaþólsku kirkjunnar.

Hið elsta, sem varðveitt er skjalfest á norræna tungu, er Reykjaholtsmáldagi. Þar er að finna skrá yfir eignir kirkjunnar í Reykholti í Borgarfirði. Má af máldaganum fá góða hugmynd um þær en hann er auk þess einstök heimild um íslenskt mál, íslenska stafagerð og íslenskar ritvenjur í lok 12. aldar og á ýmsum skeiðum 13. aldar.

Við siðaskiptin gerðist það síðan með helgisögublæ, að Biblían var þýdd á íslensku. Þar með var tryggt, að íslensk tunga hélt áfram að lifa og dafna en varð ekki lágþýsku eða öðru erlendu tungumáli að bráð.

Kirkjunni verður aldrei fullþakkað, hve mikinn þátt hún á í menntun og menningu þjóðarinnar. Á biskupstólunum fornu, Skálholti og Hólum, hefur þróunin orðið í þá átt á undanförnum árum og áratugum, að þar er sögu þeirra minnst með verðugum hætti. Kirkjur eru glæsilegar og viðleitni til menningar og mennta setur svip sinn á staðarhaldið. Nýlega ritaði ég undir skipulagsskrá Snorrastofu í Reykholti með fulltrúum heimamanna og hefur hún nú verið gefin út í Stjórnartíðindum staðfest af dómsmálaráðuneyti. Þar er lagður grunnur að menningar- og fræðastarfi í samræmi við sögulegt gildi Reykholts. Snorrastofa er tengd nýrri kirkjubyggingu á staðnum og hafa öll verk þar verið unnin með reisn.

Leyfið mér að minna á gildi klaustranna fyrir menningu okkar. Þegar ég hlýddi á erindi á Skálholtshátíð nú í sumar, kom í hugann, hve mikils við Íslendingar förum á mis, ef við leggjum ekki rækt við hið kaþólska menningarskeið okkar. Er þörf á að gildi þess sé haldið á loft. Yrði það ef til vill best gert með því að koma á fót minjasafni, sem dregur athygli að skipan hinna fornu klaustra, lífi og starfi innan þeirra.

Slíkt safn kann að rísa í Viðey, þar sem myndarlega hefur verið staðið að rannsóknum og staðarhaldi. Með aukinni þjónustu við ferðamenn eykst áhugi á því að draga fram hið merkasta á hverjum stað og er ekki ólíklegt að í kjölfar þess sigli óskir um auknar rannsóknir á fornum minjum á sögufrægum stöðum. Staldra menn þá ekki síst við gömul höfuðból, þar sem áður voru klaustur. Nefni ég til dæmis Þingeyrar í Húnavatnssýslu en Hörður Ágústsson, sá Íslendinga, sem hefur mesta þekkingu á fornum húsum og húsagerðarlist, hefur einmitt rannsakað byggingarsögu kirkna og klausturs á Þingeyrum sérstaklega.

Í tengslum við undirbúning vegna hátíðarinnar árið 2000 væri æskilegt, að á sviði þjóðminjavörslu og húsafriðunar yrði gerð áætlun í samvinnu við kirkjuleg yfirvöld um brýn verkefni, sem tengjast kirkjubyggingum og kirkjustöðum.

Um þessar mundir er að hefjast viðgerð á Þingvallarkirkju. Hefur verið staðið vel að öllum undirbúningi þess verks í samvinnu Þingvallanefndar, Húsafriðunarnefndar og húsameistara ríkisins með þátttöku sóknarprests og þjóðgarðsvarðar. Er það Þingvallanefnd, sem stendur fyrir þessu verki.

Sérstök staða getur myndast, þar sem ný kirkja leysir gamla af hólmi. Vakna þá spurningar um það, hvert eigi að verða hlutverk gamla hússins. Ekki er unnt að svara þeim með einhlítum hætti, því að aðstæður eru mismunandi. Í slíkum tilvikum á hið sama við og um viðhald gamalla kirkna, að nauðsynlegt er að góð samvinna takist milli forráðamanna hússins og þeirra, sem fara með yfirstjórn húsafriðunar en hún er eins og þjóðminjavarslan á verksviði menntamálaráðuneytisins. Oft getur það verið söfnuðum ofviða að halda við hinu gamla húsi, eftir að flutt hefur verið í nýtt. Getur þá komið til álita að gera eldri bygginguna að hluta byggðasafns undir forsjá Þjóðminjasafns.

Heiti ég góðri samvinnu við kirkjuleg yfirvöld um þennan þátt í starfi þeirra. Hann er nátengdur varðveislu menningararfsins í víðtækasta skilningi. Æ betur verður okkur ljóst, að þessi arfur er ekki byrði, heldur má nýta hann og ávaxta, ekki síst með því að gleðja þá, sem ferðast um landið og þyrstir í að njóta fleira en náttúru þess.



--------------------------------------------------------------------------------

Ný grunnskólalög eru að komast í gildi og eiga að hafa gert það í öllum megindráttum 1. ágúst 1996, þegar grunnskólinn flyst til sveitarfélaganna, ef allt fer samkvæmt áætlun.

Ákvarðanir um námskrá verða áfram í höndum menntamálaráðherra og lít ég á það sem næsta stórverkefni í skólamálum að endurskoða námskrár grunnskóla og framhaldsskóla. Vil ég reyna að nálgast málið þannig, að fyrst sé gerð úttekt á því námi, sem nú er í boði, og síðan tekin ákvörðun um úrbætur og við hana höfð hliðsjón af því, sem best er talið erlendis. Er það í góðu samræmi við gamlar íslenskar hefðir, því að sú vitneskja, sem til er um skólabækur sem notaðar voru hér á miðöldum, bendir til að námsefni hafi verið svipað hér og annars staðar í álfunni. Heimildir virðast sýna að íslenskir klerkar hafi hlotið svipaða menntun og stéttarbræður þeirra erlendis og haldið hafi verið uppi fræðslu á vegum kirkjunnar eftir fyrirsögn kirkjunnar laga.

Í þeirri aðalnámskrá, sem nú er í gildi fyrir grunnskóla, segir, að gert sé ráð fyrir að kennsla í kristnum fræðum feli meðal annars í sér að siðferðileg vandamál séu skoðuð í ljósi kristinnar trúar og kristins skilnings á manninum og stöðu hans í tilverunni. Um leið og kristin trú kalli manninn til samfélags við Guð, skaparann, og Jesúm Krist, frelsarann, kalli hún manninn jafnframt til ábyrgðar á sjálfum sér og til samfélags við náunga sinn og ábyrgðar á honum og gjörvallri náttúrunni.

Í aðalnámskránni er einnig komist þannig að orði, að allt frá upphafi Íslandsbyggðar hafi kristin trú verið mótandi afl í íslensku þjóðlífi og þó einkanlega eftir kristnitöku. Sagan sé auðug af dæmum um hvernig kristin trú og boðskapur hennar hafi mótað líf einstaklinga og þar með genginna kynslóða og svo sé enn. Vestræn menning öll beri sömuleiðis svipmót hinnar hebreskkristnu arfleifðar, þannig að ætla megi að hvorki saga og menning þjóðarinnar né saga og menning Vesturálfu verði skilin án þekkingar á kristinni trú og sögu kristinnar kirkju. Kristnifræðinni sé því meðal annars ætlað að gera nemendur læsa á menningararfleifð Vesturlanda almennt og Íslands sérstaklega.

Hér er vikið að grundvallaratriðum, sem áfram ber að hafa í heiðri og jafnvel halda enn betur fram en gert hefur verið, fylgi hugur máli og við viljum standa vörð um hið dýrmætasta í menningu okkar. Að þessum þáttum er sótt úr ýmsum áttum og með mismunandi rökum eins og sjá má af deilum um róðukrossa í skólastofum í Bæjaralandi.

Ljóst er, að sú tíska gengur einnig yfir Ísland, sem mælir gegn kristnum áhrifum á ungt fólk. Birtist hún í ýmsum myndum og fær liðsinni úr ólíkum áttum. Hér í Reykjavík hafa til dæmis orðið umræður um hlut borgaryfirvalda að borgaralegri fermingu, sem segja má að stefnt sé gegn gildum kristninnar. Þegar um þessi gildi er að ræða eiga stjórnmálamenn ekki að hika við að taka afstöðu með þeim sjónarmiðum, sem reifuð eru í aðalnámskrá grunnskólans. Síst á það við í þessu efni að hlaupa á eftir tískustraumum. Þeir, sem bjóða sig fram til forystu, eiga að hafa þrek til að taka skýra afstöðu í málum, er lúta að rótum lýðræðislegra stjórnarhátta okkar og snerta auk þess kjarna hinna siðferðilegu gilda og byggjast á kristinni trú.



--------------------------------------------------------------------------------

Þú skalt vera stjarna mín Drottinn
yfir dimm höf
yfir djúpa dali
og eyðimerkur
ég geng í geisla þínum
og eitt sinn mun geisli þinn verða að gullstiga
þar sem ég geng upp fagnandi skrefum.

Þetta ljóð er eftir Ragnhildi Ófeigsdóttur og birtist í bók hennar Hvísl en ég valdi það út lítilli bók, Trúarleg ljóð ungra skálda, sem kom út árið 1972. Völdu þeir Jóhann Hjálmarsson og Erlendur Jónsson ljóðin. Töldu þeir, að bókin ætti erindi á þessum tíma, af því að unga fólkið hefði þá meiri áhuga á trúarefnum en áður og tískan hvetti til að tala opinskátt um þessi mál gagnstætt því, sem áður gerðist.

Um allar aldir hafa listamenn fundið hjá sér þörf til að lýsa trú í verkum sínum. Meistaraverkin eru óteljandi því til sönnunar. Innan íslensku kirkjunnar og fyrir hennar frumkvæði hafa á undanförnum árum orðið nokkrar umræður um list og kirkju. Má þar nefna ráðstefnu, sem var haldin í Skálholti á vegum Kirkjuritsins vorið 1981 um myndlist og kirkju. Tíu árum síðar eða vorið 1991 var rætt um tengl listar og kirkju á kirkjulistarviku í safnaðarheimili Akureyrarkirkju.

Í tilefni af þeim umræðum sagði séra Þórhallur Höskuldsson: "Trúin og listin hafa allt frá fyrstu tíð átt farsæla samleið og stutt hvor aðra og í víðasta skilningi má segja að öll skapandi list sé trúarlegs eðlis. Við getum í raun sagt að Guð sé faðir listarinnar og hæfileikinn til listsköpunar náðargáfa frá honum og því hlýtur okkur líka að vera skylt að hvetja listafólk til að leggja rækt við þá náðargáfu og án tillits til þess hvort listaverkið ber kristið vörumerki hverju sinni eða ekki."

Allar listgreinar eiga skjól í kirkjunni. Menn öðlast einnig dýpri skilning á listum, ef þeir tileinka sér það, sem kirkjan hefur að boða. Nýlega skoruðu móðurmálskennarar á yfirvöld kirkju og menntamála að auka kennslu byggða á Biblíunni til að efla skilning nemenda á bókmenntum og móðurmálinu. Sá maður, sem hefur ekki öðlast þekkingu á sögum Biblíunnar eða táknum trúarinnar, fer á mis við margt í bókmenntum, húsagerðarlist, myndlist og kvikmyndum. Sækir á hugann, hvort ekki sé ástæða fyrir kirkjuna að auka upplýsingamiðlun um þessa lykla að leyndardómum margra stórbrotinna listaverka. Til þess mætti nota þann miðil, sem ríkið rekur til að leggja rækt við menningararfinn, Ríkisútvarpið. Hlutur þess í þágu kirkjunnar hefur jafnan verið mikill.

Tónlist verður ekki skilin frá messunni. Fyrir nokkrum dögum stofnaði Félag íslenskra organleikara sjóð í minningu dr. Páls Ísólfssonar. Hefur sjóðurinn að markmiði að styrkja efnilega orgelnemendur til náms. Dr. Páll beitti sér einarðlega fyrir því á fyrri hluta aldarinnar, að sem flestar íslenskar kirkjur eignuðust orgel. Nú er svo komið, að hið glæsilega Klais-orgel í Hallgrímskirkju kallar hingað orgelleikara úr fjarlægum löndum. Hefur tónlistarstarf innan kirkjunnar ómetanlega þýðingu auk þess sem kirkjur eru vettvangur margra bestu tónleika í landinu.

Er ástæða til að fagna auknum áhuga listamanna á því að eiga samstarf við kirkjuna og hve vel hefur verið tekið á móti þeim þar. Þeir, sem sinna málefnum menningar og lista á vettvangi menntamálaráðuneytisins, munu veita þessu starfi stuðning eftir mætti.

Góðir áheyrendur!

Ég þakka þetta einstaka tækifæri við upphaf Kirkjuþings til að ræða þessi sameiginlegu viðfangsefni kirkju og menntamálaráðuneytis. Af mörgu fleiru er að taka en hér skal látið staðar numið.

Viðfangsefni Kirkjuþings lúta að öðru en þessum málaflokkum og af hálfu dóms- og kirkjumálaráðuneytis verða því kynntar tillögur um önnur efni. Nefni ég þar tillögur um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar, frumvarp um breytingu á lögum um veitingu prestakalla og tillögur um breytt fyrirkomulag á embættiskostnaðarhaldi presta og fyrir aukastörf þeirra auk þess sem fyrir liggja nýjar tillögur varðandi helgidagalöggjöfina.

Að lokum vil ég árna ykkur heilla í störfum á þessu Kirkjuþingi.