19.10.1996

Ráðstefna um ofbeldi í ljósvakamiðlum

Ráðstefna um ofbeldi í ljósvakamiðlum
Ávarp 19. október 1996.


Í upphafi máls míns vil ég fagna því frumkvæði útvarpsréttarnefndar að efna til þessarar ráðstefnu. Er það tvímælalaust á verksviði þeirrar ágætu nefndar að stuðla að opinberum umræðum um þetta brýna málefni.

Frelsi til að nýta ljósvakann fylgir mikil ábyrgð. Á þetta ekki síst við um þá, sem stunda rekstur sjónvarpsstöðva. Þær ná til flestra og það eru einkum börn, sem eru berskjölduð gagnvart því efni, sem þar er að finna.

Tvær meginleiðir sýnast færar til að veita börnum vernd gegn því ofbeldi, sem birtist á skjánum. Í fyrsta lagi að setja hömlur við því, að slíkt efni sé sýnt. Í öðru lagi að kenna börnum og ungmennum að umgangast þetta efni.

Þegar rætt er um hömlur, byggjast þær hér á landi á lögum frá 1995 um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum. Þar segir, að á vegum Kvikmyndaskoðunar fari fram skoðun allra kvikmynda sem ætlaðar eru til sýninga eða dreifingar hér á landi. Kvikmyndaskoðun á að meta, hvort kvikmynd teljist vera ofbeldiskvikmynd í skilningi laganna og hvort kvikmyndin sé við hæfi barna. Í lögunum er sjónvarpsstöðvum veitt sérstaða, því að samkvæmt þeim skulu stöðvar, sem leyfi hafa til útsendinga, annast skoðun kvikmynda í dagskrá sinni, að höfðu samráði við Kvikmyndaskoðun. Menntamálaráðherra getur þó ákveðið, að tiltekin kvikmynd skuli skoðuð af Kvikmyndaskoðun og hefur hún þá úrskurðarvald um það hvort sýning kvikmyndarinnar brjóti gegn ákvæðum laganna. Með öðrum orðum hefur Alþingi ákveðið, að opinber stjórnvöld eigi að meginstefnu til ekki að skoða dagskrárefni sjónvarpsstöðva fyrirfram. Ábyrgðin hvíli á stjórnendum stöðvanna.

Þessi löggjöf tekur meðal annars mið af hinni alþjóðlegu þróun. Þótt lögin séu ný, hafa þegar vaknað spurningar um, hvort þau séu nægilega víðtæk. Má þar nefna, hvort ástæða sé til að lögfesta bann við því, að kvikmyndir, sem beinlínis má skilgreina sem ofbeldi, megi alfarið banna. Hér er átt við myndir, þar sem sérstaklega er sóst eftir að sýna, hvernig unnt er að misþyrma mönnum eða dýrum eða drepa með hrottafengnum hætti.

Sem betur fer búum við Íslendingar ekki við það, að slíku efni sé markvisst haldið að okkur á ljósvakanum. Nóg er nú samt að margra mati. Minnist ég þess til dæmis, þegar nýsett lög voru til umræðu á Alþingi, að menn ræddu um það, hvernig við því ætti að bregðast, að kaflar úr hrottafengnum myndum væru sýndir sem auglýsingar á barnasýningum í kvikmyndahúsum og nú síðast rétt fyrir fréttir í sjónvarpi.

Þá var því einnig velt fyrir sér, hvort sýna ætti í fréttum eða heimildarmyndum sumt af því, sem þar bregður fyrir augu. Um þann þátt sagði ég, að ekki væri unnt að ganga svo langt í kröfum um bann, að komið væri í veg fyrir, að menn fengju nasasjón af þeim óhugnaði, sem gerðist í nágrenni við þá á jarðarkringlunni. Finnst mér mikill munur á því, þegar sýnt er frá hörmulegum eða grimmdarlegum atburðum eða hinu, þegar menn eru að velta sér upp úr því, sem að allra mati ætti að vera viðbjóðslegt.

Um leið og þetta er sagt og rætt um úrræði til að hafa eftirlit með því, sem okkur er boðið á ljósvakanum, skulum við minnast þess, að hugmyndir okkar um það taka mið af þeirri tækni, sem nú er beitt. Hún úreldist hins vegar hraðar en áður. Dreifing á sjónvarpsefni verður sífellt auðveldari. Skortur á senditíðnum á eftir að hverfa.

Al Gore, varaforseti Bandaríkjanna, skýrir þessa tæknibreytingar með því að bera saman bíla og tölvukubba. Ef bílar hefðu þróast jafn hratt og tölvukubbar á undanförnum árum, segir hann, myndi Rolls Royce komast milljón mílur á klukkustund og kosta 25 cent. Varaforsetanum hefur verið bent á, að hann mætti þó ekki gleyma því, að þá væri Rollsinn ekki nema millimeter á lengd!

Bill Gates, ríkasti maður Bandaríkjanna og forstjóri Microsoft, heldur því fram, að innan skamms tíma verði fjölmiðlun orðin einstaklingsmiðlun, af því að menn geti valið sér eigin dagskrá og náð til hennar hvar og hvenær sem er. Menn geti stýrt því hvað þeir vilji sjá og heyra.

Í greinargerð sérstakrar úttektarnefndar Evrópusambandsins frá árinu 1994 um framtíð kvikmyndaiðnaðar í ríkjum sambandsins kemur fram, að spurn eftir dagskrárefni í sjónvarpi hafi vaxið úr 200 000 klst. á árinu 1981 í 650 000 klst. á árinu 1992 og sjónvarpsstöðvum hafi fjölgað á sama tímabili úr 40 í 100. Jafnframt kemur fram að stöðvunum muni fjölga í 500 og útsendingartímum úr 650 000 klst. í 3,5 milljónir klst. til ársins 2000.

Í skýrslu frá Evrópusambandinu um samruna fjarskipta og sjónvarps, sem kom út nú í september segir, að mörk milli fjarskiptasendinga annars vegar t.d. flutnings efnis um símalínur og sjónvarps hins vegar verði óglögg, og kalli á endurskoðun allrar löggjafar sem að þessum málaflokkum lýtur.

Í nýjasta hefti tímaritsins The Economist segir, að vöxtur Internetsins sé óvæntasta fyrirbærið í tækniþróuninni á síðasta áratug þessarar aldar. Á árinu 1990 hafi aðeins fáeinir fræðimenn heyrt þess getið en nú noti um 50 milljónir manna það. Talan geti orðið 100 milljónir innan árs. Í Internetinu sameinast miðlun allra upplýsinga á þann veg, að venjuleg tölva tengd símalínu gerir manni fært að lesa fjarlægan texta, skrifa og senda texta hvert á land sem er og nú orðið einnig að hlusta á útvarp eða senda útvarpsefni, horfa á sjónvarp og senda sjónvarpsefni. Fyrir tilstilli netsins geta menn einnig efnt til sjónvarpsfunda með búnaði, sem þarf ekki að vera einstaklingi ofvaxið að kaupa.

Spyrja má, hvers vegna ég tíundi þetta allt saman. Ástæðan er einföld. Tækniþróunin leiðir til þess, að af opinberri hálfu verður ógerlegt að stemma stigu við því, hvaða efni er flutt með þessum nýju boðleiðum.

Ef ætlunin er að treysta á opinber boð og bönn, þarf að hindra framleiðslu frekar en treysta á hömlur á dreifingu. Við heyrum af því, að í forsetakosningabaráttunni í Bandaríkjunum er þetta mál, ofbeldi í kvikmyndum og öðrum miðlum, ofarlega á dagskrá. Þar er spjótum ekki síst beint gegn framleiðendum. Áhrifamiklir Bandaríkjamenn eru einnig teknir til við lögsókn á hendur framleiðendum fyrir að ýta undir ofbeldishneigð með myndefni sínu.

Þá eru framleiðendur á sjónvarpstækjum og tölvum að búa þannig um hnúta, að forráðamenn barna og unglinga geti lokað þessum tækjum með rafrænum ofbeldissíum, eins og það hefur verið kallað á íslensku.

Leyfið mér enn að vitna til þess, sem er að gerast á vettvangi Evrópusambandsins, þegar rætt er um vernd fyrir börn í þessu umróti tæknibreytinga og upplýsingaflóðs. Sambandið gaf í þessum mánuði út svonefnda græna bók um varnaraðgerðir í þessu tilliti. Í slíkum bókum er varpað fram tillögum og hugmyndum, sem síðan kunna að breytast í tilskipanir en samkvæmt samningnum um evrópska efnahagssvæðið ber okkur Íslendingum að taka mið af þeim í löggjöf okkar.

Þau úrræði sem menn velta fyrir sér í þessari grænu bók byggjast á því, að foreldrar fylgist betur með því framboði á efni, sem börn þeirra geta nálgast, og dreifingaraðilar sýni aðgát með því að fara að reglum, til dæmis um val á tíma til að sýna efni, sem ekki er við hæfi barna. Þá er mælt með því, að sjónvarpsstöðvar auðkenni dagskrárefni sérstaklega, ef það er ekki talið við hæfi barna. Slíkar merkingar geti auðveldað rafrænum ofbeldissíum að gegna hlutverki sínu.

Um þetta má segja, að ekki séu úrræðin mjög frumleg. Þau höfða einfaldlega til ábyrgðar hvers einstaklings á sér og sínum og fela í sér, að við hinar nýju aðstæður sé ekki unnt að treysta á það, að opinber forsjá komi stað slíkrar ábyrgðar.

Er þá komið að hinu meginatriðinu, sem ég nefndi í upphafi máls míns, það er fræðslunni um eðli þess efnis, sem okkur er boðið, og tæknina, sem notuð er til að flytja það. Þessi fræðsla á í senn að höfða til foreldra og barna. Foreldrarnir þurfa að átta sig á tækninni og hvernig þau geta nýtt hana til að stýra því, sem börnin sjá. Til hvers að treysta foreldrunum fyrir því að nota tæknina í þessu skyni, ef þau þurfa að spyrja börnin, hvernig þau eiga að fara að því? Þess vegna þarf sérstaka fræðslu um þetta fyrir foreldra.

Fyrr á þessu ári gaf menntamálaráðuneytið út áætlun um þau verkefni, sem ég tel brýnt að sinna á þessu kjörtímabili. Þar segir meðal annars:

“Í framhaldi af nýrri löggjöf um bann við ofbeldiskvikmyndum og skoðun kvikmynda þarf að huga að jákvæðum aðgerðum til að ná markmiði laganna. Meðal annars þarf að kanna hvernig bæta megi aðstöðu unglinga til að spreyta sig við notkun myndmiðla í skapandi starfi ekki síst hvernig efla megi fræðslu um myndmiðla og stuðla þannig að gagnrýnu gildismati varðandi það efni sem í boði er."

Lítið fer fyrir skipulegri fræðslu um kvikmyndir í skólum, að minnsta kosti í samanburði við þann tíma og föng, sem til dæmis er varið til bókmenntakennslu. Meginmarkmið allrar listfræðslu í skólum er væntanlega að stuðla að því að nemendur fái notið þess, sem listin hefur að bjóða og þeir verði færir um að greina kjarnann frá hisminu í þeim efnum. Náist þetta markmið er um leið hamlað gegn ofbeldisefni. Ef vel tekst til um að glæða skilning nemenda á gildi vandaðra kvikmynda ætti að vera von til að smekkur þeirra hneigðist í þá átt að þykja minna koma til efnis, sem ekkert skilur eftir nema hrollkenndan tómleika. Nokkur þekking á aðferðum í kvikmyndagerð og tæknibrögðum, sem þar er beitt ætti einnig að geta stuðlað að því að efla með nemendum gagnrýna matshæfni.

Í þessu ljósi tel ég, að hamla megi gegn ásókn í gróft ofbeldisefni í kvikmyndum og sporna við óheillavænlegum áhrifum slíks efnis með því að auka fræðslu um kvikmyndamiðlun. Nota eigi skóla og tómstundamiðstöðvar til að koma þessari fræðslu á framfæri.

Hef ég í hyggju að skipa starfshóp, sem kanni og geri tillögur í þessu efni. Einnig hef ég óskað eftir því, að við endurskoðun á námskrám grunn- og framhaldsskóla, sem nú er að hefjast, verði hugað að þætti myndmiðlunar og hvernig best verði staðið að fræðslu um hana.

Góðir áheyrendur!

Ég hef hér rætt þessa tvo almennu þætti. Bannið annars vegar og fræðsluna hins vegar. Ég er þeirrar skoðunar, að síðari þátturinn eigi eftir að verða mikilvægari en hinn fyrri, vegna þess að tæknin er að gera okkur ókleift að beita almennum bannreglum, sem byggjast á löggjöf einstakra landa.

Staðan er í stuttu máli sú, að framboð á myndefni eykst stórkostlega en heðbundin úrræði til eftirlits í þágu barna minnka eða nánast hverfa. Verið er að þróa tækni til þess að auðvelda leiðsögn um hvort efni er við hæfi barna eða ekki. Með rafrænum hætti ætti að vera unnt að sía efni fyrir börn. Foreldrar hljóta að bera ábyrgð á uppeldi barna sinna að þessu leyti. Þá þarf að mennta til þess um leið og veita verður börnunum fræðslu um eðli myndmiðlanna og það efni, sem þeir flytja.