30.9.1996

Sjónvarpið 30 ára

Sjónvarpið 30 ára
ávarp 30. september 1996

Saga sjónvarps á Íslandi endurspeglar að sjálfsögðu að verulegu leyti þjóðarsöguna á þeim 30 árum, sem liðin eru frá því, að Ríkisútvarpið hóf sjónvarpssendingar. Stafar þetta ekki aðeins af því, að sjónvarpið er í senn spegill samtímans og tæki til að hafa áhrif á framvindu mála, heldur hlýtur það sem stofnun að taka mið af þjóðfélagsgerðinni á hverjum tíma.

Þegar ákvarðanir um að komið skyldi á fót sjónvarpi á vegum íslenska ríkisins um miðjan sjöunda áratuginn eru skýrðar, er það rifjað upp, að á þessum tíma náðust sendingar frá sjónvarpi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur. Í mars 1964 birtist ávarp sextíumenninganna svonefndu, þjóðkunnra einstaklinga úr öllum flokkum, þar sem þeir kröfðust þess, að sendingar frá Keflavíkurstöðinni næðu ekki út fyrir herstöðina. Við þessari áskorun var brugðist með því að stofna fjölmennt félag sjónvarpsáhugamanna, sem litu á það eins og hver önnur mannréttindi að fá að horfa á Keflavíkursjónvarpið.

Þetta sama ár, 1964, er ákveðið að stofna íslenskt sjónvarp á vegum Ríkisútvarpsins. Skömmu áður en það hóf síðan sendingar haustið 1966 tilkynnti yfirmaður varnarliðsins, að takmarka þyrfti sendingar frá sjónvarpi þess við Keflavíkurflugvöll vegna reglna um kaup bandaríska hersins á sjónvarpsefni.

Íslenska Sjónvarpið sat þannig eitt að markaðnum. Fyrstu ellefu mánuðina sýndi það tvo daga í viku, síðan í sex þar til í október 1987. Fram til 1985 voru útsendingar einnig felldar niður allan júlímánuð vegna sumarleyfa. Þessir starfshættir Sjónvarpsins vöktu athygli erlendis og þóttu álíka merkilegt tákn um sérvisku okkar Íslendinga og bann við hundahaldi í Reykjavík eða bann við bjórsölu. Man ég eftir því, að Helmut Schmidt, þáverandi kanslari Vestur-Þýskalands, taldi hinn sjónvarpslausa vikudag okkar til eftirbreytni, það myndi gefa mönnum færi á að njóta einkalífs síns betur en undir sífelldu sjónvarpsáreiti.

Þróunin hefur þó orðið í aðra átt bæði hér og erlendis. Sjónvarpið hefur orðið æ ágengara, ef ég má orða það svo. Mikil umskipti urðu hér í október 1986 eða fyrir 10 árum, þegar Stöð 2 hóf útsendingar sínar. Má segja, að leiðtogafundurinn, sem efnt var til í sama mund og Stöð 2 kom til sögunnar, hafi hrifsað okkur Íslendinga inn í nýja sjónvarpsöld. Tvær innlendar stöðvar hófu að keppa um áhorf og öll þjóðin fylgdist með því, hvernig stærstu sjónvarpsstöðvar heims breyttu Íslandi í fréttamiðstöðvar sínar og voru með beinar útsendingar frá Reykjavík.

Tækninni fleygði fram. Fyrir 21 ári eða haustið 1975 heimilaði menntamálaráðherra Sjónvarpinu að senda út í lit. Fram til þess tíma, hafði það orðið að senda allt efni út í svart-hvítu, jafnvel þótt það bærist í lit. Þótti mörgum þetta leyfi hið mesta óráð og töldu meðal annars, að ásókn almennings í litasjónvörp myndi eyða öllum gjaldeyrisforða þjóðarinnar og koma henni á vonarvöl.

Vegna hinnar hröðu tækniþróunar og breyttra hugmynda um starfsemi fjölmiðla, ekki síst sjónvarps, þykir margt skondið úr sögu þess, þegar það er rifjað upp núna. Flest bendir til þess, að eftir 30 ár muni mönnum þykja viðfangsefnin, sem nú eru til úrlausnar, næsta léttvæg. Tæknibreytingarnar eiga líklega eftir að valda mun róttækari umskiptum en felast í því að skipta úr svart-hvítu í lit eða heimila öðrum en ríkisstofnun að senda út sjónvarpsmyndir.

Fyrstu áratugina í starfi sínu var sjónvarp Ríkisútvarpsins mikilvægur samnefnari þjóðarinnar, ef ég má orða það svo. Skorti menn umræðuefni, var ávallt unnt að brydda upp á einhverju, sem hafði verið í sjónvarpinu kvöldið áður. Allir höfðu horft á það og höfðu á því einhverja skoðun. Viðræðuþáttum var haldið áfram í heitum pottum eða morgunkaffitímum um landið allt. Þeir, sem komu fram reglulega í Sjónvarpinu, urðu þjóðkunnir. Varð það mörgum stökkpallur til áhrifa í stjórnmálum eða á öðrum vettvangi.

Enn valda sjónvarpsþættir deilum og enn geta menn áunnið sér traust þjóðarinnar eða vantraust með því að birtast á skjánum. Staðan hefur þó breyst, því að ekki er jafnöruggt, að menn viti, hvað í boði hefur verið kvöldið áður.

Þegar ég lít nú til Sjónvarpsins eftir 30 ára starfsemi, undrar mig hvað mest, að ekki skuli hafi orðið meiri breytingar á innra skipulagi þess eða starfsháttum. Spyrja má, hvort stofnunin hafi alist upp í of vernduðu umhverfi og eigi þess vegna í erfiðleikum með að laga sig að breyttum tímum og kröfum.

Þótt lengi hafi verið rætt um, að öll starfsemi Ríkisútvarpsins fari undir eitt þak, hefur það markmið ekki enn náðst. Má raunar segja, að það sé fyrst núna á þessu ári, sem liggja fyrir raunhæfar tillögur um sameiningu starfsemi RÚV á einum stað. Hitt er svo matsatriði, hvort verja eigi hundruð milljónum króna í það verkefni, vegna þess að á sínum tíma var byggt við vöxt fyrir útvarpið. Þeir, sem vinna að framleiðslu efnis fyrir sjónvarp utan veggja þess, vilja að minnsta kosti að fjármunum sé frekar varið til að gera íslensk sjónvarpsefni.

Þrátt fyrir ásetning margra menntamálaráðherra síðan 1985, þegar Alþingi samþykkti útvarpslög, hefur ekki enn tekist að smíða frumvarp að nýjum slíkum lögum, sem nýtur stuðnings meiri hluta þingmanna. Er það enn til marks um þá tregðu og jafnvel tortryggni, sem tengist fljótt öllum umræðum um breytingar á þessari ríkisstofnun.

Raunar hef ég leyft mér að orða það svo, að fyrir engan sé meira í húfi í þessu efni en Ríkisútvarpið sjálft. Sem starfsmaður þess myndi ég hafa af því meiri áhyggjur, ef ekkert væri hugað að endurskipulagningu og nýrri markmiðssetningu, en að þau mál væru til umræðu. Hnignun er fylgifiskur stöðnunar á þessu sviði eins og öðrum. Reynslan hér á landi er sú sama og annars staðar, að breytingar ganga best, þegar menn taka höndum saman um þær. Á vettvangi Pósts og síma áttuðu menn sig á því, að nauðsynlegt væri að breyta fyrirtækinu í hlutafélag til að það þróaðist. Flutningur grunnskóla til sveitarfélaga, þar sem rúmlega 3.700 starfsmenn áttu mikið í húfi, tókst vegna samstarfs þeirra, sem að málinu komu.

Af minni hálfu liggur fyrir álit nefndar um það, hvernig standa megi að breytingum á útvarpslögunum. Kýs ég, að á grundvelli þess verði smíðaðar tillögur að nýjum lögum, sem um takist sæmileg sátt.

Hér á landi hafa ekki farið fram sömu umræður og erlendis um hlutverk opinberra fjölmiðla við nýjar aðstæður. Enska hugtakið “public service" er notað til að réttlæta þátttöku ríkisins í sjónvarps- og útvarpsrekstri, á íslensku má nota orðið “almannaheill" í þessu samhengi. Menn eru þó alls ekki á einu máli, hvernig eigi að skilgreina hvað í hugtakinu felst. Að sjálfsögðu er grundvallaratriði, að á því sé sameiginlegur skilningur, hvert eigi að vera markmið ríkisrekstrar á þessu sviði.

Ríkisstöðvar hafa átt í erfiðleikum með að finna sér hæfilegan sess við nýjar samkeppnisaðstæður. Opinberar sjónvarpsstöðvar verða að endurskilgreina hlutverk sitt og þær eru alls ekki einar um að sinna almannaheill, því að einkastöðvar gera það einnig. Við takmarkaða samkeppni hingað til hafa ríkisstöðvar haft undirtökin á markaðnum en þetta breytist, þegar samkeppni eykst. Þróunin getur orðið hin sama og í Bandaríkjunum, þar sem sjónvarpsstöðvar styrktar af opinberu fé eru til hliðar við einkastöðvar. Hlutverk ríkisstöðva verður að bjóða fleiri kosti en einkareknar útvarps- og sjónvarpsstöðvar.

Tæknin mun auðvelda einkaaðilum að stofna til sjónvarpsrekstrar. Sagt hefur verið, að meginrökin fyrir opinberri fjölmiðlun í einni eða annarri mynd muni felast í kröfunni um, að í opnu þjóðfélagi eigi borgararnir rétt á opinberu fjarskiptakerfi, sem veiti öllum jafnan rétt til upplýsinga, menningar og skemmtunar.

Góðir áheyrendur!

Hér á þessari stundu ætla ég ekki að fara fleiri orðum um þetta. Hitt er ljóst, að Ríkisútvarpið og sjónvarp þess stendur á merkum tímamótum í fleiri en einum skilningi.

Á sínum tíma lagðist ég á sveif með þeim, sem töldu Keflavíkurstöðina ekki ógna íslenskri menningu. Ég var einnig eindreginn talsmaður þess, að einokun ríkisins á útvarpsrekstri yrði afnumin. Hvorugt tel ég í andstöðu við Ríkisútvarpið, sem að mínu mati hefur enn mikilvægu hlutverki að gegna.

Vegna þess hve íslenska mál- og menningarsvæðið er lítið er jafnvel ríkari þörf fyrir ríkisútvarp í einni eða annarri mynd hér en víða annars staðar. Ég lít á það sem mikilvægt opinbert framlag til íslenskrar menningar að starfrækja hér sjónvarp. Gegni Sjónvarpið ekki þessu hlutverki verður það rótlaust. Þegar verkefni Sjónvarpsins er skilgreint á grundvelli almannaheillar, ræður framleiðsla á innlendu efni úrslitum.

Ég óska Sjónvarpinu til hamingju með daginn og læt í ljós þá von, að það megi þróast á þann veg, að ávallt gefist Íslendingum tækifæri til að njóta góðs íslensks sjónvarpsefnis, hver sem tækniþróunin verður.