4.11.2010

Össur tekur hinn rússneska Lavrov í einkatíma

Evrópuvaktin 4. nóvember 2010 - leiðari
Össur Skarphéðinsson er sagður hafa fullvissað Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, um það á fundi í tengslum við fund Norðurvíddarinnar í Ósló þriðjudaginn 2. nóvember, að Ísland væri strandríki. Össur lét ekki við það sitja heldur kenndi hann Rússanum þá landafræði að umtalsverður hluti af efnahagslögsögu lægi norðan heimskautsbaugs. Jafnframt lýsti Össur andstöðu Íslands við að tiltekin ríki, þ.e.a.s. Kanada, Bandaríkin, Rússland, Noregur og Danmörk, héldu sérstaka fundi um norðurslóðir utan Norðurskautsráðsins.

Hér að ofan er vitnað í fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins um fund þeirra Össurar og Lavrovs. Hvers vegna Össur taldi nauðsynlegt að vekja máls á því við Lavrov, að Ísland sé strandríki, er ekki skýrt í frétt utanríkisráðuneytisins. Engu er líkara en Lavrov hafi dregið í efa, að svo væri. Hann hefur kannski talið, að aðlögun Íslands að ESB væri svo langt komin, að Íslendingar hefðu nú þegar afsalað sér strandríkisréttinum í hendur ESB.

Sergei Lavrov veit að sjálfsögðu hvað bíður Íslendinga eftir aðild lands þeirra að ESB. Hann áttar sig á því, að eftir aðild verður Ísland ekki lengur strandríki að alþjóðalögum. ESB tekur við því hlutverki fyrir Íslands hönd. Vilji rússnesk yfirvöld ræða eitthvað um málefni er varða strandríkisrétt tengdan Íslandi eftir ESB-aðild landsins snúa þau sér til stjórnvalda í Brussel en ekki í Reykjavík.

Hitt er ekki síður merkilegt að í fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins skuli þess sérstaklega getið að Össur hafi sagt Lavrov frá hnattstöðu Íslands. Var Össur smitaður af viðræðum sínum við Michel Rocard, sérlegan heimskautasendiherra Frakklands? Rocard virtist haldinn þeim misskilningi, ef marka mátti fréttir, að Ísland lægi að Norður-Íshafi. Ummæli Össurar um Norður-Íshafsríkin fimm í samtalinu við Lavrov benda til hins sama. Var Össur að gefa rússneska utanríkisráðherranum til kynna að Íslendingar gerðu kröfu sem strandríki að Norður-Íshafi?

Hvort sem Össuri og Íslendingum líkar betur eða verr er staðreynd, að vegna hnattstöðu geta Íslendingar ekki gert kröfu um að sitja við sama borð og Bandaríkin, Kanada, Grænland/Danmörk, Noregur og Rússland, þegar rætt er um rétt strandríkja að Norður-Íshafi.

Hin undarlega þverstæða í öllum þessum málatilbúnaði Össurar er, að á sama tíma og utanríkisráðherra Íslands talar á þennan veg við utanríkisráðherra Rússlands er þessi sami utanríkisráðherra Íslands á biðilsbuxunum gagnvart ESB. Þar á bæ segja menn: Helsti ávinningur okkar af aðild Íslands að ESB felst í því að þá öðlast ESB strandríkisrétt Íslands. Þá færist ESB nær Norður-Íshafi. Þá getur ESB látið að sér kveða á nýjan hátt gagnvart Bandaríkjunum, Kanada og Rússlandi.

Var kannski tilgangur Össurar sá með talinu við Sergei Lavrov að hækka Ísland í verði í augum ESB? Óttast Össur að áhugi ESB á að ræða við Ísland sé að minnka? Hvers vegna skyldi hann ekki beita blekkingum gagnvart ESB eins og þegar hann segir Íslendingum að grasið sé mikið grænna í ESB-túninu en í heimskautalandinu Íslandi?