13.11.2010

Utanríkis­ráðuneytið segir ekki alla söguna um ESB-aðildar­viðræðurnar

Evrópuvaktin 13. nóvember 2010 - leiðari


Eins og fram kom hér á Evrópuvaktinni 10. nóvember bárust þá svör við spurningum hennar til utanríkisáðuneytisins um viðræðuramma ESB gagnvart Íslandi og afstöðu ráðuneytisins til hans. Svarið var skýrt. ESB hefur sett þennan viðræðuramma. Hann gildir um það en ekki íslenska viðmælendur ESB.

Hér skal dregið í efa að þessi afstaða utanríkisráðuneytisins standist gagnrýni. Hún er í ætt við tálbeituna sem lögð var fyrir flokksráð vinstri-grænna til að knýja fram samþykkt þess við aðild að ríkisstjórn, sem hefði ESB-aðild á stefnuskrá sinni. Flokksráðinu var sagt, að þetta væri aðeins ESB-stefna utanríkisráðherra. Ríkisstjórnin stæði ekki að henni. Hjörleifur Guttormsson hefur í grein skýrt frá því, að þessi túlkun stóð, þar til ríkisstjórnin flutti tillögu um að sótt skyldi um aðild að ESB. Með öðrum orðum: Um hreina pólitíska blekkingu var að ræða.

Hér skal því haldið fram, að utanríkisráðuneytið tali sér þvert um hug, þegar látið er að því liggja að viðræðurammi ESB gagnvart Íslandi gildi aðeins fyrir viðræðuhóp ESB en ekki hinn íslenska. Að leggja álit meirihluta utanríkismálnefndar alþingis að jöfnu við viðræðuramma ESB eins og utanríkisráðuneyti Íslands gerir er fráleitt, Þetta er eftir-á-skýring utanríkisráðuneytisins, lögð fram, þegar í óefni er komið, vegna þess að hið rétta aðlögunareðli samskipta þess og ESB er komið í ljós.

Rannsóknarskýrsla alþingis vegna bankahrunsins snýst að nokkru um skyldu stjórnvalda til að skýra eftir bestu vitund og rétt frá öllum hliðum mála, sem varða þjóðarhag. Fjársýsla skiptir vissuleg miklu í þessu tilliti þegar opinberir aðilar eiga í hlut. Fullveldi og sjálfstæði vega hins vegar enn þyngra þegar litið er til skyldna embættismanna utanríkisráðuneytisins eða utanríkirsáðherra. Spurningin varðandi viðræðuramma ESB er ekki, hvort hann gildi gagnvart Íslandi heldur hvenær utanríkisráðuneytið viðurkennir að hann geri það.

Menn þurfa að vera sérfræðingar við lestur milli lína, ef túlka má einhver orð Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, á þann veg að viðræðurammi ESB gildi ekki gagnvart Íslandi. Hafni utanríkisráðherra viðræðurammanum ber honum að skýra frá því á þann hátt, að ekki ríki neinn vafi um þá afstöðu hans.

Í spurningum Evópuvaktarinnar til utanríkisráðuneytisins um efni viðræðuramma ESB var meðal annars vísað til þessara orða í rammanum:

„Á tímabilinu fram að aðild er gerð sú krafa að Ísland samræmi í áföngum stefnumið sín gagnvart þriðju löndum og afstöðu sína innan alþjóðastofnana við þau stefnumið og afstöðu sem Evrópusambandið og aðildarríki þess hafa samþykkt,“ og spurt hvernig ætti að standa að framkvæmd þeirra.

Utanríkisráðuneytið segir í svari sínu, að afstaða Íslands á alþjóðavettvangi sé í yfirgnæfandi fjölda tilvika þegar í samræmi við afstöðu ESB og hafi verið svo um áraraðir, enda sé Ísland lýðræðisríki og markaðshagkerfi sem deili grundvallargildum vestrænnar samvinnu með aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Síðan eru talin upp ýmis alþjóðasamtök og sagt að þar sem kunni að bera í milli Íslands og ESB snerti m.a. svið sem komi til skoðunar í aðildarviðræðum svo sem á sviði sjávarútvegs-, landbúnaðar- og umhverfismála og getið sé í áliti meirihluta utanríkismálanefndar sem liggi „lýðræðislegri meirihlutaákvörðun Alþingis til grundvallar um að sækja um aðild að Evrópusambandinu,“ eins og ráðuneytið orðar það.

Ráðuneytið lætur með öllu hjá líða að líta til samskipta við þriðju ríki, það er ríki utan ESB, og lýsa áhrifum ESB-aðildar á þau. Þá minnist ráðuneytið ekki á þá staðreynd, að ESB verður strandríki í stað Íslands og kemur fram í stað Íslands í öllum viðræðum um sjávarútvegsmál, svo að dæmi sé nefnt.

Þegar til þessa er litið auk alls annars sem rætt er um í hálfkveðnum vísum varðandi ESB og Ísland er dæmigert, að ESB og utanríkisráðuneyti Íslands skuli helst hafa gegnsæi og nauðsyn haldgóðrar upplýsingamiðlunar á vörunum, þegar rætt er um aðildarviðræður ESB og Íslands.