ESB-skollaleik utanríkisráðuneytisins verður að ljúka
Evrópuvaktin 26. október 2010 - leiðari
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, brást hart við áskorun 100-menninga meðal vinstri-grænna (VG), sem hvöttu forystumenn flokks síns til að starfa í samræmi við stefnu hans gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu og aðlögunarferlinu, sem hófst með aðildarumsókninni frá alþingi 16. júlí, 2009.
Viðbrögð Össurar voru þau, að efni áskorunarinnar væri „ tóm vitleysa“ , „fjarri sannleikanum“ og „spunnið upp“. Upphrópanir utanríkisráðherra eru ekki annað en tilraun til að slá ryki í augu fólks.
Hinn 14. júlí, 2010, tók gildi breyting á reglugerð ESB um for-aðildaraðstoðarsjóð (Instrument for Pre-Accession Assistance (IPA), þar sem mælt var fyrir um, að Ísland gæti notið for-aðildaraðstoðar. Ísland væri hæft til að njóta fjárhagslegrar aðstoðar frá ESB til að búa sig undir ESB-aðild, eins og öll önnur stækkunar-lönd. Úr IPA-sjóðnum yrðu einkum veittir styrkir til að „styrkja stofnanalega og löggjafarlega getu til að innleiða ESB-lagabálkinn,“ eins og það var orðað í fréttatilkynningu ESB.
Vegna breytingarinnar á IPA-reglugerðinni í þágu Íslands sagði Štefan Füle, stækkunarstjóri ESB: „Þessi ákvörðun áréttar skuldbindingu okkar um að styðja aðlögunarferli Íslands. Við hvetjum landið til að gera það, sem nauðsynlegt er til að tryggja farsæla aðlögun að Evrópusambandinu.“
Í fréttatilkynningu ESB sagði einnig:
„Árið 2007 kom IPA í stað ýmissa for-aðildar áætlana til stuðnings umsóknarríkjum við undirbúning þeirra undir ESB-aðild. Í gegnum IPA, hefur ESB veitt aðstoð á sviðum eins og til að styrkja lýðræðisstofnanir og réttakerfið, endurbætur á stjórnsýslu og hagstjórn, til að auka mannréttindi og styrkja stöðu minnihlutahópa og jafnrétti kynjanna, til að stuðla að þróun samfélagsins og efla samvinnu milli ólíkra landsvæða. Sjóðurinn hefur einnig stuðlað að sjálfbærri þróun og minnkun fátæktar.“
Ekkert af því, sem fram hefur komið af hálfu Evrópusambandsins styður þá skoðun Össurar Skarphéðinssonar, að í áskorun 100-menninganna innan VG sé að finna „tóma vitleysu“. Miðað við ESB-boðskapinn hafa 100-menningarnir rétt fyrir sér en Össur rangt.
Eitt er að Össur Skarphéðinsson kjósi að miðla röngum upplýsingum til þjóðarinnar. Hann hefur gert það frá upphafi þessa máls. Hann blekkti þingmenn með því að segja þeim, að þeir væru að greiða atkvæði um könnun gagnvart ESB en ekki aðlögun að kröfum ESB.
Annað er að Steingrímur J. Sigfússon og Árni Þór Sigurðsson leiði VG í blindgötu í ESB-málinu. Hjörleifur Guttormsson, VG-maður, segir í Morgunblaðinu 26. október um VG: „Flokkur sem lýst hefur yfir andstöðu við ESB-aðild getur hvorki sóma síns vegna né siðferðilega leikið áfram tveim skjöldum eins og hann gerir nú.“ Hjörleifur telur forystu flokks síns í „bóndabeygju hjá Samfylkingunni“ í ESB-málinu.
Alvarlegast er, ef íslenskir embættismenn, sem eru gjörkunnugir aðlögunarkröfum Evrópusambandsins, halda því að íslenskum stjórnmálamönnum, að unnt sé að ganga fram á þann veg, sem utanríkisráðherra og fjármálaráðherra kjósa að gera í þessu máli. ESB-skollaleiknum í utanríkisráðuneytinu verður að ljúka. Þar ber mönnum að losa trefilinn frá augunum, sjá hlutina eins og þeir eru og skýra frá þeim í samræmi við það.
Štefan Füle boðaði, að hann kæmi til Íslands í september. Nú dregur að lokum október og hann hefur ekki enn komið. Getur verið, að utanríkisráðuneytið vilji Füle ekki til landsins, af ótta við, að hið sanna um eðli aðlögunarkrafna ESB komi í ljós?