23.10.2010

Ræðum ESB-aðildarmálið á íslenskum forsendum

Evrópuvaktin 23. október 2010 - leiðari




Á skömmum tíma hafa málsvarar ESB-aðildar leitað skjóls í orðum erlendra gesta, sem hafa helgað sig störfum í þágu ESB, annars vegar Evu Joly, ESB-þingmanns, og hins vegar Pats Cox, fyrrverandi ESB-þingmanns og forseta ESB-þingsins. Bæði eru þau eindregið þeirrar skoðunar, að Íslendingar eigi að ganga í ESB.

Í augum Joly og Fox er í raun óskiljanlegt, að nokkurri þjóð, sem stendur til boða að ganga í ESB, skuli detta í hug að láta það ógert. Þótt þau þekki til hjá ESB og séu sannfærð um það frá sjónarhóli eigin þjóða, að ESB sé nauðsynlegt fyrir þau, skortir þau alla þekkingu til að leggja mat á stöðu Íslendinga.

Nú er brátt hálf öld liðin frá því, að fyrst var rætt um aðild Íslands að Efnahagsbandalagi Evrópu. Það var á fyrstu árum viðreisnarstjórnarinnar í upphafi sjöunda áratugarins. Kannski hefur málið aldrei verið rætt af meiri alvöru en þá. Þegar það var gert, bjó ekki hið sama að baki umsóknarhugleiðingum og nú, það er að gera á hlut Sjálfstæðisflokksins.

Samfylkingin taldi víst, að vorið 2009 vildu vinstri grænir gera allt til að halda sjálfstæðismönnum frá landstjórninni, meira að segja samþykkja ESB-aðildarumsókn Íslands. Hún hafði rétt fyrir sér. Þetta neikvæða hugarfar býr að baki ESB-umsókn Íslands en ekki jákvætt mat á nauðsyn aðildar. Ekkert slíkt mat liggur fyrir. Ríkisstjórnin hefur ekki mótað nein samningsmarkið, enda snerist umsóknin ekki um það heldur að mynda ríkisstjórn gegn Sjálfstæðisflokknum.

Evrópuumræðurnar á sjöunda áratugnum leiddu ekki til neins gagnvart efnahagsbandalaginu. Þar réðu tvær meginástæður. Charles de Gaulle, Frakklandsforseti, hafnaði aðild Breta að bandalaginu og vildi ekki stækka það meira. Forystumenn viðreisnarstjórnarinnar töldu aðild ekki fýsilega, þegar þeir höfðu kynnt sér málið. Þeir beittu sér hins vegar fyrir því, að Ísland gerðist aðili að EFTA árið 1970. Nokkru síðar opnað efnahagsbandalagið dyr sínar fyrir nágrannaþjóðum okkar í Danmörku, Englandi og á Írlandi.

Þessar þrjár jaðarþjóðir hafa síðan allar viljað skapa sér sérstöðu gagnvart meginlandsþjóðunum. Danir hafa fyrirvara á þátttöku sinni í ESB. Þeir hverfa ekki nema eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Á Bretlandi eru mestu efahyggjumenn um ágæti ESB. Þar þorði ríkisstjórn Gordons Browns ekki að bera Lissabon-sáttmálann undir þjóðaratkvæðagreiðslu af ótta við, að hann yrði felldur. Írsku ríkisstjórninni var hins vegar skylt samkvæmt írsku stjórnarskránni að leita álits þjóðar sinnar. Lissabon-sáttmálinn hlaut ekki samþykki Íra fyrr en í annarri atkvæðagreiðslu.

Norðmenn, Færeyingar og Grænlendingar hafa allir tekið afstöðu gegn aðild að ESB. Strandþjóðirnar við Norður-Atlantshaf átta sig á því, að hagsmunir þeirra felast ekki í því að verða hluti af ESB-strandríkinu, þar sem enginn skilningur né þekking er á hagsmunum þeirra þjóða, sem eiga hafið sem sitt annað föðurland.

Í því felst uppgjöf ESB-aðildarsinna á Íslandi að leita til annarra þjóða manna og hlaupa í skjól þeirra í leit að röksemdum fyrir málstað sinn. Ummæli þessa ágæta fólks bera einnig með sér, að það veit í raun ekkert um, hvað það er að tala, þegar það tekur að sér að skýra Íslendingum frá því, að tekið verði mið af hagsmunum þeirra. Óljósum orðum er gefið til kynna, að skilningur verði á því, að Íslendingar vilji sjálfir ráða lífsbjörg sinni í hafinu, þegar við blasir, að hún hefur alls staðar orðið að bitbeini við hrossakaup í ráðherraráði ESB. Allir fiskstofnar innan ESB eru ónýtir nema makrílstofninn, sem sækir nú inn á Íslandsmið. Sjómenn í Skotlandi sæta málsókn fyrir ólöglegar veiðar á makríl á sama tíma og hæst er hrópað á Íslendinga og Færeyinga fyrir að veiða fisk, sem gengur inn í lögsögu þeirra.

Eitt er að aðildarviðræðurnar séu á forsendum ESB vegna forystuleysis íslenskra stjórnvalda. Annað að umræðurnar innan lands séu færðar á forsendur ESB með ummælum erlendra manna, sem hafa ekkert vit á íslenskum hagsmunum og engan skilning á íslenskri þjóðarvitund. Ísland verður ekki sterkara með slíkum málflutningi.