31.8.1996

Skólastarf og upplýsingatækni

Skólastarf og upplýsingatækni
Ráðstefna Skýrslutæknifélags Íslands, 31. ágúst 1996.

Íslenska skólakerfið hefur skipt sköpum fyrir þróun upplýsingatækninnar hér á landi. Þegar litið er til þeirra vandræða, sem ýmsar aðrar þjóðir glíma við, þegar rætt er um netvæðingu skóla, er ævintýri líkjast að rifja það upp, hvernig Pétur Þorsteinsson á Kópaskeri sá fyrir nýtingu þessarar nýju tækni hér á landi og braut henni leið innan skólakerfisins. Nú er svo komið að fáar þjóðir eða nokkur búa betur að þessu leyti en við. Í okkar huga er næsta framandi að fylgjast með umræðum í öðrum löndum um tilraunir til að netvæða skólakerfið ofan frá, ef þannig má að orði komast.

Þegar fyrirtæki Péturs, Íslenska menntanetið, stóð frammi fyrir miklum fjárhagslegum erfiðleikum á síðasta ári, lét ég hlutlausa menn utan menntamálaráðuneytisins meta áhrif þess á skólastarf, ef starfsemi Ísmenntar legðist fyrirvaralaust niður. Var það eindregin niðurstaða þeirrar athugunar, að það myndi valda miklum vandræðum. Auk þess yrði dýrt að koma á fót nýju kerfi til að þjóna skólunum. Á þessari forsendu lagði ég til við ríkisstjórnina, að menntamálaráðuneytinu yrði heimilað að kaupa þann hluta Íslenska menntanetsins, sem starfaði beinlínis í þágu skólanna. Gekk það eftir og hefur ráðuneytið falið Kennaraháskóla Íslands að sinna rekstri fyrirtækisins.

Ég tel brýnt, að þessi eigendaskipti verði ekki til þess að draga úr þeim baráttu- og hugsjónaanda, sem einkenndi starf Péturs. Þess vegna á Ísmennt að standa áfram á eigin grunni, notendur eiga að vita, hvað þjónustan kostar og þeir eiga á rétt á bestu þjónustu, sem unnt er hverju sinni. Þróunin á þessu sviði er mjög ör og aldrei má áhuginn á nýjungum dvína, því að þá eru menn fljótir að dragast aftur úr.

Pétur Þorsteinsson beindi athygli sinni einkum að grunnskólum landsins. Innan háskóla og vísindastofnana spratt einnig áhugi á alþjóðasamskiptum í gegnum netið. Þessar stofnanir, sem starfa margar hverjir undir forsjá menntamálaráðuneytisins, stofnuðu síðan hlutafélag um alþjóðanetengingu og heitir það nú Intís. Þá hófu einkafyrirtæki á borð við Miðheima hf. að bjóða almenningi áskrift að netinu og ruddu þá braut með miklum dugnaði.

Allir þessir aðilar hafa orðið að eiga viðskipti við Póst og síma, sem enn hefur einokunarrétt á að selja símaþjónustu hér á landi. Má segja, að stofnað hafi verið nýtt viðskiptasvið Pósts og síma með þessu framtaki einkaaðila, skóla og vísindastofnana. Stofnað var til nýrra verkefna, sem juku umsvif Pósts og síma og jafnframt tekjur hans. Símakostnaður réðst af gjaldskrá Pósts og síma, þeir, sem þurftu að hringja milli gjaldsvæða til að tengjast, urðu að greiða hærra gjald en hinir. Á ferðalögum um landið fyrir síðustu þingkosningar flutti ég þann boðskap, að jafna ætti þennan aðstöðumun í landinu með breytingum á gjaldskrá Pósts og síma, sem ætti þannig að koma til móts við nýja viðskiptavini. Til að draga úr þessum mun greip Íslenska menntanetið til þeirra ráða að setja upp innhringingarmiðstöðvar inni á gjaldsvæðum Pósts og síma. Var þetta töluverð fjárfesting, sem átti ríkan þátt í vanda Ísmenntar og olli því, að fyrirtækið riðaði til falls.

Undanfarið hefur verið vakin athygli á því, ekki síst í Morgunblaðinu, að Póstur og sími lætur sér ekki nægja að hirða ágóða af þessum nýja markaði, sem einkafyrirtækin mynduðu, heldur ryðst ríkiseinokunarfyrirtækið nú inn á svið einkaaðilinna og ætlar að hrifsa allt til sín, gleypa mjólkurkúna. Menn hafa ekki aðeins gagnrýnt þá ráðstöfun heldur einnig vinnubrögðin við hana.

Ég vil ekki fara í launkofa með þá skoðun mína, að þessi framganga Pósts og síma gengur þvert á sjónarmið, sem ég hef hreyft. Ég óttast, að Póstur og sími kunni að raska þessari viðkvæmu starfsemi með óviðunandi hætti.

Á ráðstefnu um skólastarf og upplýsingatækni er eðlilegt að rifja upp þessa sögu. Það er síður en svo sjálfsagt, að við Íslendingar stöndum jafnvel að vígi í þessu efni og raun ber vitni. Unnt er að spilla þessum árangri á vettvangi skóla, ef starfsumhverfi þeirra kemst í uppnám. Öllum er ljóst, að miklir fjárhagslegir hagsmunir eru hér í húfi. Þegar litið er til heimsviðskipta eru átök Netscape og Microsoft nærtæk. Fjárhæðirnir, sem þar eru nefndar, eru svo miklar, að við náum tæplega upp í þær. Átök risanna snúast um tækniþróunina og undirtökin við mótun nýjunga. Í sjálfu sér eigum við fullt í fangi með að fylgjast með þróuninni og nýta það, sem í boði er. Ættum við því að rækta eigin garð í friði og leyfa risunum að berjast utan landsteinanna í stað þess að stofna til átaka heima fyrir.

Nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar undir formennsku Tómasar Inga Olrichs alþingismanns hefur unnið að því að móta opinbera stefnu í upplýsingamálum. Líður brátt að því, að hún skili niðurstöðu sinni. Að mínu mati skiptir miklu, að í kjölfarið verði teknar ákvarðanir um fjárveitingar til opinberra aðgerða í samræmi við stefnuna.

Menntamálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti hafa þegar kynnt upplýsingastefnu sína. Fjármálaráðuneytið gaf út ritið Ísland og upplýsingasamfélagið og menntamálaráðuneytið ritið Í krafti upplýsinga. Þar er með ítarlegum hætti lagt á ráðin um það, hvernig unnt er að nota upplýsingatækni í þágu menntunar og menningar. Einnig verður hlutverk stofnana á borð við Námsgagnastofnun endurmetið með hliðsjón af því, hvernig þær geta lagað sig að breyttum aðstæðum. Guðbjörg Sigurðardóttir tölvunarfræðingur og kennari mun kynna það rit betur hér á eftir.

Tímaritið Le Magazine sem gefið er út af Evrópusambandinu var nýlega helgað upplýsingasamfélaginu. Í blaðinu er grein um nýjar aðferðir við nám. Greinarhöfundur segir, að vegna upplýsingatækninnar breytist aðferðir við miðlun fróðleiks og nám. Greiðari aðgangur verði að upplýsingum og ódýrara að nálgast þær. Háskólar muni breytast og annars konar skólar koma til sögunnar. Ábyrgð nemenda á eigin námi verði meiri. Þeir hafi fleiri leiðir og meira sjálfstæði til að afla sér upplýsinga . Á hinn bóginn þurfi að aðstoða þá við að breyta upplýsingunum í þekkingu. Kennarinn hafi áfram hlutverki að gegna en við aðrar aðstæður en áður. Kennarar muni einnig nýta tæknina í störfum sínum, starfshættir þeirra verði fjölbreyttari og miðlun upplýsinga á annan hátt en í fyrirlestrum eða með því að skrifa með krít á töflu.

Þessi lýsing er í samræmi við áherslur í ritinu Í krafti upplýsinga. Þar segir meðal annars, að upplýsingatækni eða upplýsingasamfélagið sé ekki markmið í sjálfu sér. Tæknin sé tæki sem geti greitt okkur leið til betri lífskjara og betra mannlífs. Tölvur komi ekki í staðinn fyrir kennara en tæknin geti bætt kennsluna.

Þegar sífellt er lagt að okkur, sem að menntamálum störfum að axla okkar skerf við sparnað í ríkisrekstri, ber til dæmis að huga rækilega að því, hvort með notkun margmiðlunarkennsluefnis sé unnt að draga úr kennslumagni í skólum. Tölvustýrt nám hefur verið kynnt hér á landi og unnt er með boðritun að búa til kennsluefni. Við gerð kennsluforrita er mikilvægt að líta til þeirra þjóða, sem standa fremstar í þróun tölvutækninnar, eins og Bandaríkjamanna. Í sjálfu sér kemur ekki á óvart, að kennarar kunni að hafa lítinn áhuga á tölvustýrðu námi, því að þeir óttist um eigin hag. Hitt er þá nauðsynlegt að árétta, að kennarar hverfa síður en svo heldur breytist hlutverk þeirra.

Úrlausnarefnin, sem bíða okkar vegna hinnar nýju tækni, eru mörg. Áfram þarf að gæta þess, að ekki skapist óbrúanlegt bil á milli þeirra, sem tileinka sér tæknina og hinna, sem hún er framandi. Upplýsingaöflun má ekki verða til þess að rjúfa friðhelgi einkalífsins. Réttur höfunda til verka sinna verður að vera tryggður. Verjast verður þeim, sem vilja misnota tæknina fjárhagslega í eigin þágu, eða beita henni til að opinbera lágar hvatir sínar.

Hvað sem þessum viðfangsefnum líður er ég ekki í neinum vafa um að kostirnir eru miklu meiri en gallarnir. Kostina eigum við að nýta okkur til hins ýtrasta og halda hinu í skefjum með öllum tiltækum ráðum, án þess þó að svipta menn því frelsi, sem gerir netheima spennandi.

Ágætu fundarmenn!

Skólar landsins hafa verið og verða stórir neytendur á fjarskiptamarkaði og þá skiptir miklu, að verðlag sé lágt, þjónustan góð og bandbreiddin fullnægjandi. Til að það geti orðið verða einkarekin fyrirtæki, sem sinna þessari þjónustu, að fá að dafna. Síst af öllu mega opinberir aðilar raska jafnvæginu eða skapa öryggisleysi.

Raunar er ég þeirrar skoðunar, að með því að leggja rækt við starfsemi einkaaðila og framtak skóla og menntastofnana, sé unnt að skapa hér forsendur fyrir því, að erlendir fjárfestar hafi áhuga á að nýta sér hæfni og þekkingu Íslendinga á þessu sviði. Hér eru allar aðstæður til að að laða að áhættufjármagn frá útlöndum til frekari uppbyggingar á sviði upplýsingatækni. Þar eiga skólamenn að vera óhræddir að bjóða þjónustu stofnana sinna. Hvers vegna skyldum við ekki geta látið verulega að okkur kveða utan landsteina eins og einn maður á Kópaskeri gat nettengt næstum alla íslenska skóla?

Ég þakka Skýrslutæknifélaginu fyrir að efna til þessarar metnaðarfullu ráðstefnu. og vona, að hún verði til þess að efla enn þekkingu og áhuga á því að nýta upplýsingatæknina í þágu skólastarfs.