500 frambjóðendur - einfalt val um varðveislu fullveldis
Evrópuvaktin 21. október 2010 - leiðari
Um 500 manns hafa gefið kost á sér til að sitja stjórnlagaþing. Kjósa á 25 til 31 til setu á þinginu hinn 27. nóvember nk. Þingið kemur saman í febrúar 2011 og á að standa í tvo til fjóra mánuði. Þingfulltrúar verða kosnir persónukosningu og er landið eitt kjördæmi við kosninguna. Stjórnlagaþinginu er ætlað að undirbúa frumvarp að endurbættri stjórnarskrá og hafa til hliðsjónar við þá vinnu niðurstöður þjóðfundar, sem haldinn verður 6. nóvember 2010. Sérstök nefnd vinnur að undirbúningi þjóðfundarins og efnir hún þessa daga til funda um land allt.
Stofnað hefur verið stjórnarskrárfélag, þar sem áhugamenn um nýja stjórnarskrá hittast. Formaður þess sagði í samtali við ljósvakamiðil, að nú gæfist þjóðinni einstakt tækifæri til að setja sér sína eigin stjórnarskrá, af því að sú, sem nú gilti væri útlend. Taldi hann það greinilega brýnt verkefni að þurrka þennan erlenda blett á brott. Danakonungur hefði gefið íslensku þjóðinni stjórnarskrá árið 1874, við það mætti ekki lengur una. Efni stjórnarskrárinnar frá 1874 byggðist á hugmyndum manna um stjórnarhætti eftir byltingarnar í Evrópu á fyrri hluta 19. aldar.
Barnalegur áróður af þessu tagi um íslensku stjórnarskrána frá formanni félags, sem helgar sig málefnum stjórnarskrárinnar, sýnir, hve umræður um efni hennar rista grunnt. Mesta breytingin á stjórnarskránni, eftir að hún var löguð að þörfum íslenska lýðveldisins við stofnun þess 1944, varð um hálfri öld síðar, þegar mannréttindaákvæðum hennar var breytt. Í stuttu máli má segja, að þau hafi verið löguð að erlendum fyrirmyndum. Um þær var farið íslenskum höndum, eins og gert hafði verið, við fyrri breytingar á stjórnarskránni.
Þá gerðist það einnig á fyrri hluta tíunda áratugs 20. aldar, að mannréttindasáttmáli Evrópu var lögfestur hér á landi. Litið er á hann sem ígildi stjórnarskrár í ýmsu tilliti. Mannréttindadómstóll Evrópu dæmir eftir þeim sáttamála. Dómstóllinn hefur óbeint yfirþjóðlegt vald. Séu rök formanns stjórnarskrárfélagsins notuð, mætti halda því fram, að við þyrftum ný mannréttindalög hér á landi, af því að gildandi lög á þessu sviði séu útlend.
Ólíklegt er, 500 manns sjái ástæðu til að bjóða sig fram til stjórnlagaþings til að afmá „útlend“„ stjórnarskrá. Eitthvað annað býr að baki þessum mikla áhuga á að láta að sér kveða á þessum vettvangi. Því miður kynna frambjóðendur almennt viðhorf sín á þann veg, að erfitt er að átta sig á tilgangi framboðs þeirra.
Telji einhverjir sér trú um, að með ákvæðum í stjórnarskrá sé unnt að útiloka efnahagssveiflur eða tryggja stöðugan hagvöxt, eiga þeir ekkert erindi á stjórnlagaþingi. Vilji menn hins vegar setja forseta Íslands skýrari valdmörk, svipta hann rétti til að ýta málum í átt til þjóðaratkvæðagreiðslu og fela öðrum það vald, hafa þeir eitthvað til mála að leggja á stjórnlagaþingi. Sömu sögu er að segja, ef þeir vilja binda í stjórnarskrá, að ekki megi fela neinum myndun minnihlutastjórnar, fyrr en fullreynt sé, að ekki takist að mynda meirihlutastjórn.
Hinn mikli fjöldi frambjóðenda kallar á, að kjósendum sé auðveldað valið með því að vita sem mest um afstöðu þeirra til einstakra álitamála á liðandi stund. Stóra stjórnarskrárspurningin nú er þessi: Viltu, að sett sé ákvæði í stjórnarskrá Íslands, sem heimilar afsal fullveldis íslensku þjóðarinnar?
Að vita svar frambjóðanda við þessari spurningu, mundi auðvelda mörgum val í persónukjöri til stjórnlagaþings. Fyrir fiskveiði- og strandþjóð eins og Íslendinga skiptir máli að vita, hvort hún sé að kjósa fólk til stjórnlagaþings, sem vill, að Ísland hætti að verða strandríki en Evrópusambandið taki við sem strandríki þjóðarinnar.
Um leið og því er hafnað, að uppruni íslensku stjórnarskrárinnar knýi á um, að henni sé breytt, er varað við hinu, að til stjórnlagaþings veljist þeir, sem vilja í raun, að stjórnarskrá Íslands verði kennd við Lissabon.