27.11.2010

Stjórnlagaþing - forsetaembættið - ESB-aðild

Evrópuvaktin 27. nóvember 2010 - leiðariÍ dag er kosið til stjórnlagaþings.

Þegar boðskapur frambjóðenda er lesinn má segja að við blasi 522 skoðanir, þótt greina megi á milli manna með nokkur alkunn sjónarmið að leiðarljósi, til dæmis hvort landið eigi að verða eitt kjördæmi eða ekki, ráðherrar eigi að vera þingmenn eða ekki. Þessi úrlausnarefni hafa verið á dagskrá alþingis oftar en einu sinni án þess að ná fram að ganga. Stjórnlagaþing skiptir engum sköpum varðandi umræður um þau.

Að sjálfsögðu er þó eðlilegt að umræður verði um atriði eins og þessi þegar rætt er um stjórnarskrána. Mikilvægari grundvallarþætti þarf hins vegar að ræða til hlítar.

Þar kemur forsetaembættið til álita og staða þess. Núverandi stjórnarskrá sætir meðal annars gagnrýni á þeirri forsendu að hún sé ekki íslensk, hún hafi verið afhent okkur af danska konunginum. Engu að síður var stjórnarskráin samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu við stofnun lýðveldis 1944. Íslenskari getur varla nokkur ákvörðun verið.

Sé eitthvað arfleifð úr fortíðinni er það forsetaembættið og umgjörð þess sem sniðin er að stöðu konungs í Danmörku. Fyrsti forseti lýðveldisins var kjörinn á alþingi en síðan hafa forsetar verið kosnir af þjóðinni og til að greina eðli embættisins frá embætti konungs er bent á aðferðina við kjörið bent. Þjóðkjörinn forseti Íslands hafi ríkara umboð til að hlutast til um stjórnarmálefni en danska drottningin. Henni mundi aldrei koma til hugar að hafa afskipti af stjórnmálum á þann veg sem Ólafur Ragnar Grímsson hefur gert í tvígang, það er í fjölmiðlamálinu 2004 og Icesave-málinu í ársbyrjun 2010.

Djúpstæður ágreiningur er milli ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Ólafs Ragnars Grímssonar um vald forseta og afskiptarétt hans af stjórnarmálefnum. Þessi ágreiningur braust enn fram föstudaginn 26. nóvember, þegar Ólafur Ragnar gaf til kynna í samtali við Bloomberg-fréttastofuna að hann kynni að vísa þriðja Icesave-samningi Steingríms J. Sigfússonar til þjóðarinnar. Steingrímur J. greip til þess ráðs að segja að orð Ólafs Ragnars gætu ekki verið rétt eftir honum höfð! Væri svo færi Ólafur Ragnar á svig við stjórnskipunina.

Þarna er um brýnt úrlausnarefni að stjórnlögum að ræða. Með öllu er óviðunandi að valdsvið forseta Íslands sé svo óljóst að deilur af þessu tagi, sem meðal annars snerta samskipti þjóðarinnar út á við, endurtaki sig hvað eftir annað eftir að Ólafur Ragnar varð forseti. Ráðist afskipti forseta af störfum alþingis og ríkisstjórnar af duttlungum þess sem embættið skipar er augljóst að skerpa verður stjórnskipulegar reglur um embættið. Eftir að hin gæfulausa ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur settist að völdum hefur Ólafur Ragnar einfaldlega séð sér leik á borði til að efla vinsældir sínar með því að grípa fram fyrir hendur hennar. Í fjölmiðlamálinu gekk hann til samstarfs við auðmenn til að tryggja völd þeirra og áhrif.

Ísland verður ekki aðili að Evrópusambandinu nema stjórnarskráin heimili það. Á þjóðfundi sem efnt var til vegna stjórnlagaþings var fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar sett í fyrirrúm. Aðild að ESB samræmist ekki þeim grundvallaratriðum. Núverandi stjórnarskrá heimilar ekki ESB-aðild.

Staða forsetaembættisins og varðastaða um fullveldi þjóðarinnar eru meginmál sem koma til kasta þeirra sem veljast á stjórnlagaþing. Það er miður hve fáir í hinum 522 manna hópi hafa skýrt afstöðu sína til þessara mála. Þau eru raunar bæði þess eðlis að skynsamlegast væri að takast á um þau sérstaklega í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá stæði þjóðin öll frammi fyrir skýrum kostum og fengi tækifæri til að segja álit sitt á þeim. Fengist sú niðurstaða á stjórnlagaþingi yrði það ekki haldið til einskis.