Ársþing bókavarða - ávarp
Ávarp á 14. ársþingi Bókavarðafélags Íslands
11. maí í Norræna húsinu kl. 11.00
Ágætu fundarmenn!
Í tilmælunum um að ég flytti hér ræðu var greint frá því, að bókaverðir hefðu mikinn áhuga á því, sem ég og menntamálaráðuneytið hefðum gert í málefnum bókasafna og upplýsingatækni á undanförnum mánuðum. Þakka ég þennan áhuga og ætla því í nokkrum orðum fara yfir þau atriði, sem hæst hefur borið.
Hið markverðasta birtist í ritinu Í krafti upplýsinga sem kom út í byrjun mars og í skýrslu nefndar um tengingu íslenskra bókasafna í stafrænt upplýsinganet sem mér var afhent í upphafi þessa árs.
Í þeim hugmyndum sem unnar hafa verið á vegum ráðuneytisins undanfarna mánuði er bókasöfnum ætlað veigamikið hlutverk við að innleiða upplýsingatækni og veita almenningi, skólum og rannsóknarstofnunum aðgang að upplýsingalindum heimsins. Gerðar hafa verið tillögur um hvernig stuðla beri að því að bókasöfn geti gegnt hlutverki sínu sem alhliða upplýsingamiðstöðvar. Meðal annars er lagt til að tækjakostur þeirra verði bættur. Mikilvægi samstarfs og samræmingar er undirstrikað, bæði af hálfu embættis bókafulltrúa ríkisins og Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns.
Lögð er áhersla á að tryggja þurfi öfluga grunn- og símenntun fyrir bókasafnsfræðinga til þess að gera þeim kleift að takast á við breytt hlutverk með tilliti til upplýsingatækni. Einnig þurfi að tryggja framboð á menntun fyrir ófaglærða bókaverði, t.d. með fjarnámi.
Áhersla er lögð á það, að sett verði á laggirnar sérsök kjarnabókasöfn sem samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga. Þannig á að byggja upp í ákveðnum bókasöfnum sérþekkingu og reynslu við nýtingu upplýsingatækni í þágu almennings. Gert er ráð fyrir að kjarnasöfn verði fyrirmynd annarra bókasafna hvað varðar beitingu upplýsingatækni í þjónustu við almenning. Lagt er til að tryggt verði að ekki sé alltaf um sömu bókasöfn að ræða en í tillögunum er gert ráð fyrir að fyrstu kjarnabókasöfnin taki til starfa á næsta ári.
Í skýrslu nefndarinnar um tengingu bókasafna sem starfaði undir forystu Þóru Óskarsdóttur bókafulltrúa er nákvæm lýsing á því hvernig bókasöfnin tengjast og ítarlegleg umfjöllun er um bókasafnskerfin Gegni og Feng. Niðurstaða nefndarinnar var meðal annars sú að þessi tvö samskrárkerfi ættu að starfa hlið við hlið og að ekki væri ástæða til að steypa þeim saman. Í skýrslunni er tekið raunhæft á málum og kostnaðarmat lagt á tillögur. Þá eru einnig gerðar tillögur um nokkrar breytingar á lögum um almenningsbókasöfn, sem ættu í sjálfu sér ekki að valda neinum ágreiningi.
Öll bókasöfn landsins hafa fengið ritið Í krafti upplýsinga þannig að ég sé ekki ástæðu til að rekja frekar þær tillögur sem þar birtast.
Í þeim umræðum sem ég hef tekið þátt um bókasafnsmál á undanförnum mánuðum hafa komið fram áhyggjur manna af því að samvinnu og samstöðu skorti á milli þeirra sem starfa að þessum málum hér á landi. Raunar má segja, að ríkisvaldið vanti viðmælanda, sem kemur fram fyrir hönd safnanna. Ég var nýlega á fundi Bókís, notendafélags Fengs, og þar sagði ég meðal annars að mikilvægt væri til að stefnumótun stjórnvalda næði fram að ganga að stofnanirnar sem undir ráðuneyti heyra sýndu þann styrk sem í þeim býr en það gerðu þær fyrst og fremst með samvinnu. Ég sagði einnig að næðist að skapa góða samvinnu á milli ríkisvalds, sveitarfélaga og bókasafna efaðist ég ekki um að íslensk bókasöfn gætu haldið með reisn áfram inn í 21. öldina.
Á fundinum greindi ég frá því að í samræmi við stefnu ráðuneytisins í upplýsingatækni hefði ég sent Sambandi íslenskra sveitarfélaga bréf þar sem óskað væri eftir viðbrögðum þess við þeim hugmyndum sem eru reifaðar í skýrsluni Í krafti upplýsinga og þar á meðal þeirri hugmynd, að sett yrðu á laggirnar sérstök kjarnabókasöfn og kjarnagrunnskólar. Mikilvægt væri að ríkisvaldið og sveitarfélögin ynnu sameiginlega að því að koma þessu í framkvæmd þannig að kjarnabókasöfn gætu tekið til starfa á næsta ári.
Ég hef nú fengið svar við erindi mínu til sambandsins. Í því kemur meðal annars fram að þó rekstur almenningsbókasafna og grunnskóla færist undir forsjá sveitarfélaga frá 1. ágúst nk. þá sé sambandið sjálft ekki beinn rekstraraðili þessara stofnana. Hlutverk sambandsins sé fyrst og fremst að samræma þau verkefni, sem varða öll sveitarfélög eða mörg þeirra. Í bréfinu segir, að Samband íslenskra sveitarfélaga sé reiðubúið að taka þátt í undirbúningi þess að setja kjarnasöfn á laggirnar og vera ráðuneytinu innan handar um framkvæmd verkefnisins.
Á næstu vikum verður að taka ákvarðanir um hvernig að framhaldinu verður staðið. Hvert verði nákvæmlega hlutverk ríkisins, sveitarfélaga og safnanna sjálfra. Einnig hlýtur að vera spurning hvernig samtök bókasafna og bókasafnsfræðinga koma að málinu auk þeirra samræmingaraðila sem starfa á vettvangi bókasafnanna. Menntamálaráðuneytið hefur falið embætti bókafulltrúa ríkisins að hafa umsjón með framkvæmd almennrar stefnu í bókasafnamálum þjóðarinnar. Hlutverk hans er að stuðla að samræmingu og samvinnu meðal allra opinberra bókasafna til að ná fram hagræðingu og tryggja að allir landsmenn hafi aðgang að íslensku mennta- og menningarneti. Af hálfu ráðuneytisins hefur einnig verið lögð áhersla á, að Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn geti sinnt því lögbundna hlutverki sínu að stuðla að samræmingu starfshátta í íslenskum bókasöfnum, veita þeim faglega ráðgjöf og eiga við þau sem víðtækast samstarf.
Frá mínum bæjardyrum séð er enginn einn aðili málsvari allra bókasafna í landinu. Vil ég þó alls ekki gera lítið úr því að tilgangur Bókavarðafélags Íslands er meðal annars að marka stefnu í málum sem varða bókasafnsstarfsemi í landinu og að koma fram fyrir hönd íslenskra bókasafna og bókavarða gagnvart innlendum og erlendum aðilum. Hvet ég félagið til að velta því fyrir sér, hvort og hvernig eigi að bregðast við þeirri skoðun, að ríkið vanti öflugri viðmælanda um málefni og þróun bókasafna.
Ein þeirra hugmynda sem komið hafa fram til að stuðla að samhæfingu alls bókasafnakerfisins er að stofnað verði embætti ríkisbókavarðar. Þetta var ein megintillagan í skýrslu sem unnin var á vegum menntamálaráðuneytisins árið 1990 undir forystu Sigrúnar Klöru Hannesdóttur. Í þeirri skýrslu var einnig lagt til að öll bókasöfn án tillits til staðsetningar eða notendahóps væru þátttakendur í sameiginlegu bókasafnskerfi landsins og tengdust í gegnum eina sameiginlega tölvuvædda samskrá bókasafna. Í skýrslunni segir að óljóst sé hver eigi að hafa frumkvæði og marka stefnu í bókasafna- og upplýsingamálum í framtíðinni. Skortur sé á yfirstjórn og samræmingu. Tengsl milli safna séu tilviljanakennd og þau byggist á samstarfsvilja starfsmanna en ekki því að einstökum söfnum sé markaður bás eða þau hafi ákveðnum skyldum að gegna.
Hugmyndum nefndarinnar var ekki hrundið í framkvæmd og segja má að þær hafi verið settar í biðstöðu á meðan lög um Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn voru samin. Hið sameinaða bókasafn hefur nú starfað í eitt og hálft ár. Ef til vill er skynsamlegt fyrir ríkisvaldið að fela því aukið hlutverk sem stjórnsýslustofnun í þágu menntamálaráðuneytisins í bókasafnsmálum almennt. Slík ráðstöfun styrkti hins vegar ekki endilega stöðu bókasafnanna, sjálf þurfa þau að sýna sameiginlegt frumkvæði.
Þó að ég leggi áherslu á samstarf og samvinnu bókasafna er ég ekki maður forsjárhyggju og miðstýringar. Ég tel hins vegar, að með góðu samstarfi megi draga úr tvíverknaði, stuðla að góðri nýtingu á opinberum fjármunum og styrkja almennt stöðu þess, sem á hlut að máli.
Ágætu fundarmenn!
Í lok máls míns vil ég ítreka, að það er hvorki hlutverk ríkisvaldsins að standa að rekstri skólasafna í grunnskólum né almenningsbókasafna. Hlutverk ráðuneytisins er fyrst og fremst að vinna að stefnumótun sem nær til allra bókasafna og setur þeim metnaðarfull markmið. Það eru síðan sveitarfélögin, sem kosta framkvæmdina og bera ábyrgð á henni.
Í Bókavarðafélagi Íslands eru um 400 félagar og ljóst er að félagið hefur styrk til að stuðla að umbótum í bókasafnsmálum. Bókavarðafélagið hefur beitt sér í þeim tilgangi og bera ályktanir félagsins á undanförnum árum þess merki. Ég vil hvetja ykkur til að nota þetta ársþing til að stuðla að aukinni samvinnu bókasafna og styrkja þannig stöðu þeirra í upplýsingasamfélagi framtíðar.