7.5.1996

Starfshópur um útvarpsmál - ræða

Ræða á fundi ungra sjálfstæðismanna og menningarmálanefndar Sjálfstæðisflokksins um útvarpsmál
7. maí 1996.

Í fyrirtækjarekstri á heimsmælikvarða eða fjárfestingu er á fáum sviðum meiri gerjun eða meira um spennandi viðfangsefni en á því, sem lýtur að rekstri útvarps og sjónvarps. Verkefnin snúast ekki um starfsemi þessara miðla í þröngum skilningi heldur um þróun þeirra í tengslum við breytt starfsumhverfi, nýja tækni og ný tækifæri.

Hvarvetna eru einstaklingar, fyrirtæki og stjórnvöld að velta því fyrir sér, hvernig eigi að nýta hin nýju tækifæri og hvað gera skuli til að bregðast við nýjum aðstæðum. Jafnt á sviði útvarpsrekstrar og símaþjónustu er einokun ríkisins á undanhaldi. Þar sem frelsi hefur ríkt á þessum sviðum, er tekist á um það, hve langt á að leyfa símafyrirtækjum að ganga inn á ljósvakasviðið. Deilur um þetta taka meðal annars mið af því, að innan seilingar er, að sími, sjónvarp og tölva verði í sama heimilistækinu. Tæknin verður einnig á þann veg, að sé tækið notað er unnt að sníða sjónvarpsdagskrána að eigin vild með því að sérpanta þá þætti, sem eru í boði og láta þá birtast, þegar tími manns sjálfs leyfir.

Þegar þetta er sagt, kann ýmsum að þykja næsta fánýtt að setja á deilur um það hér á landi, hvort leyfa skuli auglýsingar í ríkisfjölmiðlum eða ekki. Þó virðist einmitt það atriði vekja mestan titring hjá mönnum, eftir að birt var skýrsla starfshóps, sem ég setti í laggirnar í júlí síðastliðnum. Hlutverk hans var að gera tillögur um breytingar á útvarpslögum, meðal annars með tilliti til breyttra aðstæðna á íslenska ljósvakanum, fjölgunar ljósvakamiðla, aukinnar samkeppni, tæknibreytinga og annarra atriða, sem komið hafa til sögunnar frá því að einokun ríkisins á hljóðvarps- og sjónvarpsrekstri var afnumin með nýjum útvarpslögum frá árinu 1985. Starfshópurinn lauk skýrslu sinni í byrjun mars en hún var birt hinn 2. maí síðastliðinn.

Þetta eru ekki einu tillögurnar, sem hafa komið fram vegna umræðna um breytingar á útvarpslögum á undanförnum 10 árum. Margir hafa eytt tíma og kröftum við hugmyndasmíð í því efni. Allir virðast sammála um, að lögin duga ekki lengur. Hitt reynist erfiðara að finna hin gullna meðalveg milli ólíkra skoðana.

Almennt séð er ég mest undrandi á því, hve starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa lítið sótt á um róttækar breytingar á stofnuninni. Þvert á móti finnst mér þeir fljótir að fara í varnarstöðu, þegar tillögur til breytinga eru kynntar. Fyrir nokkrum árum var til dæmis aukasetning í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins, sem snerti rás 2 og spurninguna um það, hvort ríkið þyrfti að standa að slíkri starfsemi. Allt annað, sem á þeim landsfundi gerðist, féll í skuggann fyrir umfjöllun á rás 2 um það, að framtíð hennar í faðmi ríkisins væri í hættu. Var tal sjálfstæðismanna um það efni meira að segja talið til marks um andúð þeirra á landsbyggðarfólki.

Í skýrslu starfshópsins er að finna fróðlega úttekt á því, hvernig ríkismiðlar hafa brugðist við sívaxandi samkeppni annars staðar í Evrópu. Þar hafa ríkismiðlarnir brugðist við aukinni samkeppni með tveimur ólíkum aðferðum - annars vegar með því að líkja eftir dagskrá einkamiðla og hins vegar með því að undirstrika sérstöðu sína og ímynd. Í skýrslunni er bent á, að Ríkisútvarpið hafi fetað þá braut að gerast beinn keppinautur einkastöðvanna um áhorf vegna auglýsingatekna, sem því fylgir. Ég tek undir með skýrsluhöfundum, þegar sagt er, að stofnunin ætti ef til vill fremur að huga að sérstöðu sinni, eins og margir aðrir ríkismiðlar hafa gert, og keppa við hinar stöðvarnar með gæði dagskrárefnis, þjónustu við almenning og öflugri innlendri dagskrárgerð að vopni.

Einnig er á það bent, að starfsfólki ríkisútvarpsstöðva í Evrópu hefur fækkað jafnt og þétt á undanförnum samkeppnisárum, þrátt fyrir lengri dagskrá. Mest hefur starfsfólki miðlungs og lítilla miðla fækkað. Er þetta liður í því að styrkja stöðvarnar í samkeppninni. Ríkismiðlarnir keppa að því að veita sem mestu af ráðstöfunarfé sínu til dagskrárgerðar og útsendingar. Þeir hafa fært sig nær þessu marki með því að lækka fastakostnað sinn, endurskipuleggja innra starf sitt og draga úr yfirbyggingu.

Í skýrslunni kemur fram, að á samkeppnisárunum hefur þessi þróun ekki orðið hjá Ríkisútvarpinu. Föstum starfsmönnum þess hefur fjölgað verulega frá 1987, lausamenn hafa verið fastráðnir og nýir starfsmenn komið til sögunnar.

Ég hef ekki séð nein rök, sem hníga að því, að önnur lögmál eigi að gilda um rekstur ríkismiðils hér á landi en annars staðar. Þess vegna er það skynsamleg niðurstaða starfshópsins, þegar hann segir, að við endurskipulagningu á stjórnskipan og starfsskipulagi Ríkisútvarpsins beri að taka mið af því höfuðhlutverki þess að kaupa, framleiða og senda út efni. Móta skuli tillögur með það fyrir augum, að fjármunir og starfsemi stofnunarinnar verði almenningi sýnilegri, skili sér til áhorfenda og hlustenda í auknum mæli sem útsent dagskrárefni.

Fellur þetta vel að því, sem segir í fjölmiðlakafla verkefnaáætlunar menntamálaráðuneytisins fyrir þetta kjörtímabil. Þar er meðal annars bent á nauðsyn þess að skilgreina hlutverk ríkisins í þessum rekstri með menningarskyldur þess að leiðarljósi um leið og áréttað er, að samkeppni verði að vera með þeim hætti, að einkafyrirtæki standi jafnfætis opinberum.

Til að tryggja Íslendingum fjölbreytt val efnis við hinar nýju aðstæður, sem ég nefndi í upphafi máls míns, er nauðsynlegt, að íslenska ríkið standi að hljóð- og sjónvarpsrekstri. Séu menn sammála um þessa grundvallarforsendu er næsta verkefni að skilgreina, hvað í henni felst. Starfshópurinn gerir það með ágætum hætti, þegar hann segir:

„Lagt er til að Ríkisútvarpið verði skilgreint sem opinber þjónustustofnun. Lagt er til að menning og menningarhlutverk RÚV verði skilgreint vítt en í höfuðatriðum sem kaup, gerð og útsending dagskrárefnis af ýmsu tagi, svo sem menningar-, lista-, fræðslu-, frétta- og skemmtiefnis og vandaðs erlends efnis. Meginhlutverk Ríkisútvarpsins er því að bjóða landsmönnum upp á innlent dagskrárefni á sviði menningar, fræðslu, upplýsinga og afþreyingar, svo og vandað erlent efni. RÚV skal leggja höfuðáherslu á að senda frá sér vandað og uppbyggilegt efni á áðurnefndum sviðum. Stofnunin skal sinna þessu hlutverki með tvennum hætti - með framleiðslu efnis og kaupum á efni af sjálfstæðum framleiðendum. Ástæða er til að hvetja sérstaklega til aukningar hins síðarnefnda."

Frá mínum bæjardyrum séð skiptir ekki máli, hvað Ríkisútvarpið sendir hljóð- og sjónvarpsefni á mörgum rásum. Mestu skiptir, að starfsemin sé hagkvæm, innan fjárhagsramma og í samræmi við hið menningarlega hlutverk. Þess vegna á ekki að skylda ríkismiðil til að senda á einni, tveimur eða þremur rásum, heldur heimila honum að nýta eins margar rásir og hann telur sig þurfa til að þjóna almenningi sem best.

Ríkisúvarpið skal rekið með hagkvæmum hætti. Með þeim rökum er lagt til að innheimta afnotagjalda verði lögð niður og annað hvort verði nefskattur tekinn upp eða stofnunin sett á fjárlög. Í fjölmiðlum hefur komið fram að til að útvarpið haldi sínum tekjum vegna afnáms auglýsinga þurfi nefskatturinn að vera hærri en afnotagjöldin eru nú. Þær fullyrðingar standast ekki og bera þess merki að viðkomandi hafi ekki kynnt sér efni skýrslu starfshópsins nægilega vel. Í skýrslunni segir að forðast beri að bæta Ríkisútvarpinu upp tekjumissi með auknum opinberum álögum, heldur fremur leitast við að efla stofnunina með því að endurskipuleggja starfsemina, ástunda almennan sparnað í rekstri og dagskrárgerð, fjölga útboðum og auka skilvirkni.

Einnig kemur fram að unnt sé að létta af stofnuninni einhverjum af skyldum hennar til mótvægis við tekjumissinn. Þar er m.a. vísað til þess að með því að hætta innheimtu afnotagjalda sem kostar yfir 70 milljónir króna á ári mætti spara tölvuvert. Ef Póstur og sími tæki að sér að reka dreifikerfið væri einnig hægt að ná fram umtalsverðum sparnaði, en kostnaður við rekstur dreifikerfisins var um 180 milljónir króna árið 1994. Þá telja forsvarsmenn stofnunarinnar tímabært að hugað verði að endurnýjun dreifikerfisins en slík aðgerð myndi kosta hundruð milljóna króna. Ríkisútvarpið á ekki að reka eigið dreifikerfi heldur semja um þá hluti við Póst og síma og taka upp afnot af ljósleiðarakerfinu. Er ljóst, að Póstur og sími stendur tæknilega mjög framarlega og á að geta veitt fullnægjandi þjónustu. Alþjóðleg símafyrirtæki kunna einnig að verða álitlegur kostur fyrir Ríkisútvarpið, ef ekki nást samningar við Póst og síma og þróunin verður til aukins og sjálfsagðs frjálsræðis á þessu sviði.

Það brýtur gegn réttlætiskennd sífellt fleiri, að þeir geti ekki horft á sjónvarpsstöðvar einkaaðila án þess að greiða afnotagjald til ríkismiðils, sem þeir nota ef til vill aldrei. Séu menn sammála um, að ríkið eigi að reka hljóð- og sjónvarp, þarf að fá fjármagn til þess og gera það á þann veg, að ekki sé gengið á rétt þeirra, sem keppa við ríkið.

Meirihluti starfshópsins vill jafna samkeppnisaðstöðuna með því að ríkið hverfi af auglýsingamarkaði. Að mínu áliti hlýtur ákvörðun um það að taka mið af því, hvort um raunverulega samkeppni milli einkaaðila sé að ræða. Er ekki réttlætanlegt að afhenda aðila, sem fengið hefur leyfi til áskriftarsjónvarps, allar auglýsingatekjur ríkissjónvarps, svo að dæmi sé tekið. Ákvörðun um brottfall auglýsingatekna Ríkisútvarpsins verður ekki tekin án tillits til stöðunnar á einkamarkaðnum.

Ég tek undir eftirfarandi skoðun starfshópsins: „Ríkismiðill á borð við Ríkisútvarpið á sér tilvistargrundvöll og er mikilvægur hluti íslenska ljósvakans. Hins vegar ber því að haga rekstri sínum svo að hann samrýmist hlutverki og sérstöðu stofnunarinnar, veiti öðrum ljósvakamiðlum aðhald og viðmið með vandaðri dagskrá og metnaðarfullri dagskrárstefnu, án þess þó að raska samkeppnisstöðu á ljósvakamarkaðnum í krafti forréttinda."

Í því starfi, sem er framundan, eftir að þessi skýrsla liggur fyrir, ræðst farsæl lausn af skynsamlegri leið að þessu markmiði. Við þurfum í senn að tryggja framtíð Ríkisútvarpsins og þeirra, sem við það keppa. Enginn vill hverfa aftur til ríkiseinokunar í útvarpsrekstri.

Sumir telja, að besta lausnin felist í því að ríkið bjóði upp rásir. Er þá væntanlega átt við aðrar rásir en ríkið notar sjálft. Hvað þætti mönnum um það, ef hér væri stunduð ríkisútgerð, sem bæri vegna stærðar höfuð og herðar yfir keppinauta sína, og hún fengi alltaf að halda sínum kvóta en afgangurinn væri boðinn upp á fimm ára fresti eða svo? Ekkert myndi réttlæta slíkt fyrirkomulag nema annars konar skerðing á starfsemi ríkisútgerðarinnar. Mundu menn sætta sig betur við að Ríkisútvarpið hyrfi af auglýsingamarkaði, ef það héldi alltaf sínum rásarhlut, en hinn hlutinn yrði reglulega á uppboði? Spurningum sem þessum þarf að svara. Ég er þeirrar skoðunar, að uppboð á rásum eigi einnig að skoða í ljósi tækniþróunar.

Uppboð á rásum til tekjuauka fyrir ríkissjóð kynni að leiða til þess, að farið yrði hægar en ella inn á þá tæknibraut, sem opnar enn fleiri leiðir á ljósvakanum. Ríkisvaldinu kynni að þykja vegið að hagsmunum sínum, ef of margar rásir kæmu til sögunnar. Að mínu áliti yrði það öfugþróun.

Góðir áheyrendur!

Ég sagði í upphafi máls míns, að þetta svið væri hvað mest spennandi við rekstur fyrirtækja í samtímanum. Þess vegna höfðar það einnig til þeirra, sem vilja takast á við nýjungar og eru tilbúnir til að hætta til þess nokkrum fjármunum.

Reynslan hér á landi sýnir, að árangur næst ekki nema menn séu reiðubúnir til að taka áhættu. Ríkismiðill, sem situr og bíður eftir því, að einhverjir utan veggja hans tryggi honum ávallt bestu starfsskilyrði trénar á meðan vöxturinn er annars staðar. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga, þegar rætt er um framtíð Ríkisútvarpsins.

Ljóst er, að ekki hafa allar ákvarðanir um fjárfestingar í nafni RÚV verið jafnskynsamlegar. Hér bendi ég til dæmis á stórhýsið við Efstaleiti, sem staðið hefur autt að stórum hluta um langt árabil. Hefur sú skoðun jafnvel verið uppi að byggja þyrfti meira til að sjónvarpið kæmist þar fyrir. Nýlega fékk ég skýrslu, þar sem bent er á hagkvæmari leið en áður til að taka hið ónýtta húsnæði í notkun og flytja sjónvarp ríkisins þangað án þess að byggja meira.

Á vettvangi stjórnmálamanna verður á næstunni brugðist við skýrslunni um endurskoðun útvarpslaganna og tillögunni um flutning RÚV undir eitt þak. Ég ítreka, að fleiri þurfa að láta að sér kveða og á annan hátt en þann að fara alltaf í varnarstöðu, þegar breytingar ber á góma. Í þessu efni eins og svo mörgum öðrum jafngildir stöðnun afturför.