23.1.1998

Vaxtarbroddar - sýning í RáhúsinuVaxtarbrodda - sýning í Ráðhúsi
23. janúar 1998

Á þessari sýningu gefst okkur tækifæri til að kynnast verkum nýútskrifaðra arkitekta, landslagsarkitekta, innanhússhönnuða og iðnhönnuða. Okkur birtist einnig önnur hlið á höfundum verkanna í dansmyndinni Í heimsókn, sem er hluti sýningarinnar.

Sýningin minnir okkur á þá staðreynd, að enn er ekki unnt að sækja háskólanám hér á landi í þessum greinum. Þeir, sem hér eiga verk, hafa stundað nám í 12 ólíkum skólum í átta löndum í Evrópu og Norður-Ameríku.

Íslenskir arkitektar hafa lengi barist fyrir því, að kennd verði byggingarlist hér á landi. Var samþykkt á félagsfundi í Arkitektafélagi Íslands árið 1985 að hefja undirbúning að kennslu í greininni. Fyrir tæpum tíu árum lá fyrir skýrsla nefndar, sem starfaði á vegum menntamálaráðherra, þar sem lagt var til að kennsla í þessari grein yrði hafin hér sem fyrst.

Arkitektafélag Íslands stofnaði síðan Íslenska arkitektaskólann, ÍSARK í apríl 1994. Hefur skólinn það meginmarkmið að miðla kennslu í byggingarlist með sérstöku tilliti til íslenskra aðstæðna, með ríkri áherslu á samfélagslega vitund, umhverfislega víðsýni, faglegan metnað og listrænt innsæi.

Þessi lýsing á inntaki námsins í ÍSARK gefur til kynna metnaðarfull markmið og hefur þeim verið fylgt eftir á fjórum sumarnámskeiðum skólans, sem 73 nemendur, þar af 10 Íslendingar, hafa sótt. Stjórn ÍSARK telur ekki unnt að halda fleiri sumarnámskeið nema þau séu þáttur í starfsemi raunverulegs skóla, eins og það er orðað. Boðar stjórnin, að hún muni á grunni sumarnámskeiðanna undirbúa enn frekar jarðveginn fyrir stofnun viðurkennds arkitektaskóla á Íslandi. Gæti námið í upphafi verið 1-2 ár fyrir lengra komna nemendur sem stunda nám við erlenda arkitektaskóla.

Góðir áheyrendur!

Ég rek þetta hér vegna þess að undanfarið hefur verið unnið markvisst að því af hálfu menntamálaráðuneytisins að auðvelda framkvæmd þeirra áforma, sem arkitektar hafa í menntamálum.

Með lögum frá 1995 hefur menntamálaráðherra heimild til að ganga til samninga við einkaaðila um að annast menntun á háskólastigi í listum, sem fram færi á vegum sjálfstæðrar stofnunar og er gert ráð fyrir að háskólinn verði til húsa á Laugarnesi hér í Reykjavík. Frá því snemma árs 1997 hefur bráðabirgðastjórn fyrir Listaháskólann starfað og lagt á ráðin um stofnun hans.

Hinn 1. janúar 1998 gengu fyrstu íslensku heildarlögin um háskóla í gildi. Samkvæmt þeim hefur menntamálaráðherra heimild til þess að veita einkaskólum leyfi til að starfa sem háskólastofnun. Jafnframt ber að gefa út skrá um viðurkenndar prófgráður og inntak þeirra og setja reglur um gæðaeftirlit með námi og kennslu.

Á grundvelli þessara lagaheimilda er ýmsum eldri, formlegum hindrunum rutt úr vegi og skapað nýtt svigrúm til að þróa nám á háskólastigi með allt öðrum hætti en áður. Tel ég, að þeir, sem vilja stuðla að háskólanámi í byggingarlist eða öðrum nýjum greinum hafi nú fengið vísbendingu og heimild frá löggjafanum til að láta að sér kveða með nýjum hætti. Háskólar verða þó að sjálfsögðu að starfa á þeim grunni, að ekki verði véfengt, að nemendur þeirra öðlist menntun, sem standist alþjóðlegar kröfur.

Lokaátakið við að koma Listaháskóla Íslands á laggirnar er eftir. Þar standa menn helst frammi fyrir því viðfangsefni að ganga frá húsnæðinu að Laugarnesvegi 91. Vinnur bráðabirgðastjórn skólans ötullega að því að gera tillögur um lausn þess máls og bind ég miklar vonir við þær.

Ég hef oftar en einu sinni lýst þeirri skoðun, að gróskan í íslenskri menningu og listum um þessar mundir eigi ekki síst rætur að rekja til þess, hve þjóðfélagið er opið fyrir alþjóðlegum straumum, sem eru virkjaðir með íslenskum höndum svo að úr verður eitthvað nýtt og spennandi. Þess vegna er það ekki markmið okkar með því að efla hér listmenntun á háskólastigi að slíta hin alþjóðlegu tengsl eða sporna gegn því að ungt fólk sæki menntun til annarra landa. Við verðum hins vegar að hafa innlendan vettvang, þar sem menn fá tækifæri til að nálgast viðfangsefni á fræðilegan hátt frá íslenskum sjónarhóli. Hann yrði aðeins til að styrkja tök íslenskra, skapandi handa þegar þær virkja erlenda strauma okkur öllum til góðs.

Ég óska aðstandendum sýningarinnar innilega til hamingju með verk þeirra. Við sjáum að margir þeirra hafa verið með hugann við Ísland við val og úrlausn verkefna. Við skulum kynna okkur verkin vel. Unga fólkið, sem hér sýnir, mun móta marga þætti í umhverfi okkar og hafa mikil áhrif á þróun þjóðlífsins með verkum sínum.

Ég lýsi sýninguna opna.