19.4.2000

Handritahátíð - ávarp

Hátíðarsamkoma í Háskólabíói - Minnst afhendingar handritanna
21. apríl 1996

Íslandssagan geymir ýmsa minningardaga sem tengjast samskiptum Íslendinga og Dana. Er það síður en svo óeðlilegt í ljósi aldalangra samvista þjóðanna. Við fögnum nú slíkum degi vegna atburðar, sem gerðist 21. apríl 1971. Þegar frá því var skýrt, að efnt yrði til hátíðar í dag var haft á orði við mig, að nær hefði verið að miða frekar við sumardaginn fyrsta, því að þann dag fyrir 25 árum hefði danska herskipið "Vædderen" siglt inn á Reykjavíkurhöfn með fyrstu handritin frá Kaupmannahöfn innan borðs.

Nú er þess að geta, að 21. apríl 1971 var síðasti vetrardagur. Hann hefur hins vegar í minningu margra tekið á sig mynd sumardagsins fyrsta, þess dags sem löngum hefur verið íslensku þjóðinni hvað mestur feginsdagur ár hvert.

Sólbjart var og svalt yfir þessum langþráða degi fyrir 25 árum, þegar sendinefnd danskra ráðherra og þingmanna, sem fylgdi þjóðargersemunum Flateyjarbók og Konungsbók Eddukvæða til Íslands, sté á land og mannfjöldinn á bryggjunni og götum borgarinnar fagnaði af gleði og vinarhug. Frá því á fyrsta áratug aldarinnar hafði Alþingi Íslendinga skorað á dönsku stjórnina að skila aftur íslenskum skjölum og handritum. Koma danska herskipsins og afhending handritanna við hátíðlega athöfn hér í þessu húsi batt enda á mikilsvert og vandasamt úrlausnarefni í samskiptum Íslendinga og Dana. Það var leitt til lykta með þeim hætti, sem síðan er vitnað til, þegar nefnd eru góð fordæmi í samskiptum þjóða.

21. apríl er því dagur til að minnast drenglyndis og vinarhugs Dana, ríkisstjórnar þeirra og þjóðþings, í garð okkar Íslendinga. Þess vegna er sérstakt ánægjuefni, að Ole Vig Jensen menntamálaráðherra Danmerkur og Else Vig Jensen eiginkona hans hafa þekkst boð ríkisstjórnar Íslands um að vera hér gestir í dag. Býð ég þau innilega velkomin.

Við minnumst einnig þeirra, sem handritin skópu og varðveittu á langri vegferð í gegnum dimmar aldir. Loks leitar hugurinn til þeirra, sem af einurð og lagni fylgdu á þessari öld eftir málstað Íslendinga. Hér í dag er dr. Gylfi Þ. Gíslason, fyrrverandi menntamálaráðherra, verðugur fulltrúi þeirra, sem af þrautseigju unnu að hinni farsælu lausn.

Samkvæmt handritasamningi Dana og Íslendinga frá 1965 skulu handritin, sem flytja á til Íslands úr Árnasafni og Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn, afhent á 25 árum frá 1971. Danir hafa staðið við ákvæði samningsins með sóma og myndarskap.

Handritaflutningnum verður lokið að fullu snemma á næsta ári. Lögum samkvæmt lúta handritin forsjá ríkisstjórnar Íslands. Sæmd íslensku þjóðarinnar er að veði við varðveislu þeirra. Verkefni skortir ekki, þegar hugað er að fræðilegu gildi handritanna og útgáfustarfi á grundvelli þeirra. Þá bíður mikið verk við að afla vandaðra ljósmynda af íslenskum handritum, sem verða eftir í dönskum söfnum. Nýta ber nýja og fullkomna tækni til að koma list handritanna á framfæri við sem flesta.

Góðir áheyrendur!

Á hafnarbakkanum í Reykjavík 21. apríl 1971 minnti Jóhann Hafstein forsætisráðherra á þá staðreynd, að við Íslendingar litum ekki á handritin sem einstök verk þeirra handa, sem skráðu þau, heldur þess anda, sem skóp þau. Danir hefðu fært okkur heim fornan íslenskan menningararf.

Þennan minningardag eigum við að nota til að árétta heit okkar um að leggja rækt við þennan arf.

Að svo mæltu segi ég þessa hátíðarsamkomu setta.