15.3.1996

Iðnþing - ræða

Ræða á Iðnþingi
Stefna iðnaðarins - viðhorf stjórnvalda
15. mars 1996

Góðir áheyrendur!

Af hálfu menntamálaráðherra liggur beint við að ræða um rannsóknir og vísindi og hlut þeirra í nýsköpun á sviði iðnaðar, þegar hann fær tækifæri til að tala á Iðnþingi. Að þessu sinni ætla ég þó að leyfa mér að hafa skólastarf og menningarmál sem leiðarljós. Í því efni vakna tvær meginspurningar:

Í fyrsta lagi hvernig er háttað menntun þeirra, sem iðnað stunda? Í öðru lagi hvar eru mörkin á milli menningarstarfs og iðnaðar eða iðnaðar og þjónustu?

Ljóst er, að svörin við þessum spurningum verða ekki tæmandi. Breytingar eru svo örar nú þegar 21. öldin er að ganga í garð að við getum í raun frekar velt vöngum en veitt svör.

Menntun er orðin æviverk. Við verðum sífellt að tileinka okkur nýja hluti til að vera gjaldgeng. Ný tækni í upplýsingamálum veldur þáttaskilum. Mikilvægt er að bæði menntakerfið og atvinnulífið lagi sig að henni og nýti jafnframt þá kosti sem hún býður. Að þessum meginatriðum ætla ég að víkja undir lok máls míns.

Þróunin í skólakerfi okkar hefur verið á þann veg að starfsmenntun er að færast á háskólastig. Þess vegna er meiri áhugi en ella á því að taka stúdentspróf. Þar með er stuðlað að því að bóknám ýti starfsnámi til hliðar í framhaldsskólum. Jafnframt er ljóst, að fyrirtæki og þeir, sem þeim stjórna, gefa ekki nægilega skýrar vísbendingar til framhaldsskólanema um gildi starfsmenntunar á því skólastigi.

Í verkefnaáætlun menntamálaráðuneytisins ,,Menning og menntun - forsenda framtíðar" sem kynnt var í síðasta mánuði segir að með nýju framhaldsskólafrumvarpi sé stefnt að því að framhaldsskólar verði efldir, einkum starfsnám og verkmenntun. Á næstu árum sé brýnt að gerðar verði tilraunir með að auka aðild atvinnulífsins að starfsmenntun og rekstri starfsmenntaskóla. Menntakerfið gegni veigamiklu hlutverki í uppbyggingu atvinnulífs. Starfsnámi á framhaldsskólastigi sé ætlað að veita nemendum vandaðan undirbúning og efla almenna menntun þeirra og þroska til virkrar þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi.

Nú sinna tæplega 20 skólar hér á landi einhvers konar iðnfræðslu. Á vegum menntamálaráðuneytisins er nú unnið að því að skipta verkum með þessum skólum á markvissari hátt en áður. Á þetta til dæmis við um málmiðnaðinn á höfuðborgarsvæðinu, sem er að meginhluta að flytjast í Borgarholtsskóla og matvælanám sem fer í Menntaskólann í Kópavogi. Aðeins með slíkri verkaskiptingu er unnt að byggja upp góða námsaðstöðu, en án hennar næst ekki viðunandi árangur. Staðreyndin er hins vegar því miður sú að iðnnám hefur lengi vel átt undir högg að sækja þó vonir séu bundnar við að það muni eflast.

Brýnt er að hugarfarsbreyting verði á þessu sviði og unnið er að því í grunnskólum til dæmis með INN-verkefninu, en með því er verið að kynna ungu fólki þau tækifæri sem felast í iðnnámi og störfunum sjálfum. Í iðnaði eru nú rúmlega 20.000 ársverk sem er um 17% af vinnuafli hér á landi. Stærsti hlutur þess fólks starfar við hefðbundnar iðngreinar, svo sem byggingarstarfsemi, matvælaiðnað, pappírsiðnað og málmiðnað. Margar hefðbundnar iðngreinar hafa átt í erfiðleikum á undanförnum árum. Umsvif þeirra hafa farið minnkandi og iðnaðarmenn hafa orðið fyrir barðinu á atvinnuleysi. Þetta hefur meðal annars lýst sér í því að iðnnemar hafa átt í erfiðleikum með að komast á samning og margir hafa átt erfitt með að ljúka námi vegna þess. Má til dæmis nefna húsasmíði og bifvélavirkjun í þessu sambandi. Vaxtarbroddur hefur verið annars staðar og er lyfjaiðnaðurinn og framleiðsla rafeindavoga dæmi um iðngreinar sem hafa sótt í sig veðrið.

Ég er þeirrar skoðunar, að innan fyrirtækjanna hafi menn ekki gert sér grein fyrir gildi menntunar á öllum sviðum. Áætlað hefur verið að á vinnumarkaðinum séu um 65.000 manns aðeins með grunnskólapróf. Skólakerfið nær ekki til þessa hóps nema fyrir tilstilli vinnuveitenda. Þeim ætti ekki síst að vera hagur af því að gefa fólkinu tækifæri til að öðlast meiri menntun og þjálfun.

Á árum áður var iðnaður skilgreindur sem framleiðsla á hlut eða efni úr ákveðnu hráefni og segja má að svo sé það enn í hugum margra. Nýrri skilgreining er sú að meginmarkmið iðnaðarframleiðslu sé að framleiða lausnir á vanda. Ekki síst í ljósi þessa er mikilvægt að menn velti fyrir sér hvort ekki sé þörf á að breyta áherslum í menntun starfsfólks. Nýjar iðngreinar spretta ekki af engu, heldur nýrri þekkingu og þeim sem tileinka sér hana og hagnýta.

Þegar rætt er um nýjar greinar, er það einkum tvennt sem helst snýr að mér sem menntamálaráðherra . Annars vegar hugbúnaðariðnaður eða upplýsingatækni og hins vegar menningariðnaður, ef ég má orða það svo.

Erfitt er að mæla umfang hugbúnaðariðnaðarins hér á landi, meðal annars vegna þess, að mikil hugbúnaðarvinna fer fram, án þess að hún sé seld eða hún sé mælanleg á annan hátt, dæmi um það eru tölvudeildir ríkisstofnana. Ef við mælum hins vegar veltu þeirra fyrirtækja, sem skilgreina sig sem hugbúnaðarfyrirtæki er hún um 1,7 milljarðar á ári, samkvæmt upplýsingum frá samtökum hugbúnaðarframleiðenda. Umfang upplýsingaiðnaðar eða tölvuiðnaðar er hins vegar talið vera á annan tug milljarða og þá er til dæmis talin með sala á tölvum og hugbúnaðarpökkum. Vil ég vekja athygli ykkar á því, að í þessari grein aukast umsvif og fjárfestingar mest á heimsmælikvarða. Eitt af vandamálum hugbúnaðargerðar hér á landi er því miður skortur á menntuðu fólki og aðsókn í tölvunarfræði er talin minni en eftirspurn.

Hugbúnaðarframleiðsla hefur staðið meira á eigin fótum en margar aðrar iðngreinar hér á landi. Til að mynda hefur oft verið torsóttara fyrir þessi fyrirtæki að fá fyrirgreiðslu í bönkum og erfiðara hefur verið að fá menn til að fjárfesta í hugviti en gamalgrónum atvinnugreinum. Svo virðist sem hugarfarsbreyting sé að verða á þessu sviði og skemmst er að minnast nýlegrar fréttar þar sem sagði að markaðsvirði hugbúnaðarfyrirtækisins OZ væri 1,6 milljarðir króna. Fjárfesting í OZ er þó í raun aðeins fjárfesting í mannauði. Vafalaust munum við sjá fleiri dæmi þess á næstunni að mannauðurinn verði viðurkenndur sem arðbærari fjárfesting en áður hefur verið.

Víða eru menn að velta fyrir sér þátttöku í fjarskiptabyltingunni, sem er einn þáttur upplýsingatækninnar. Þar er sú breyting að verða, að ekki er lengur litið á það, sem sjálfsagðan hlut, að ríkisfyrirtæki annist alla þjónustu. Spyrja má: Leiðir þetta til þess að í stað ríkisfyrirtækis verður til iðnfyrirtæki, sem veitir þjónustu og stuðlar að tækniframförum? Eða er að verða til þjónustufyrirtæki, sem ekki flokkast undir iðnað? Væri ég í Samtökum iðnaðarins þætti mér kappsmál að skilgreina starfsemi fjárskiptafyrirtækja á þann veg, að samtökin yrðu starfsvettvangur allra fyrirtækja á þessu sviði.

Menningariðnaðinn má einnig líta á sem atvinnugrein. Á mörgum sviðum er hann blómlegur og má í því sambandi nefna að tónlistariðnðurinn skapar 750-1.000 ársverk þegar allt er talið. Í fáum eða nokkrum samfélögum á stærð við okkar er listastarfsemi jafnöflug og hér. Hins vegar hefur okkur ekki enn tekist að lyfta henni á sama atvinnustig og gerst hefur hjá fjölmennari þjóðum. Minnumst þess að útflutningur á kvikmyndum er þungamiðjan í alþjóðaviðskiptum Bandaríkjanna.

Íslensk kvikmyndagerð er vaxtabroddur. Kvikmyndaiðnaðurinn hefur verulega sótt í sig veðrið og standast margar íslenskar kvikmyndir fyllilega þá hörðu samkeppni sem ríkir á alþjóðlegum vettvangi. Mikill fjöldi ungs fólks hefur stundað nám í kvikmyndagerð eða henni tengdri. Margt af þessu fólki hefur þegar sannað hæfileika sína og brýnt er að því verði sköpuð viðundandi starfsumhverfi og tækifæri hér á landi.

Deilt hefur verið um hvernig á að skilgreina þessa atvinnugrein og til dæmis hefur verið ágreiningur um það í Evrópusambandinu hvort líta beri á kvikmyndagerð sem iðnað eða þjóðlega listsköpun og viðleitni til að viðhalda og efla menningu einstakra þjóða. Þessar deilur hafa iðulega tengst umræðum um styrki. Ef tekið er mið af framkvæmd styrkjastefnu ESB er þar líklega fremur litið á kvikmyndagerð sem iðnað en menningarstarf. Ein rökin fyrir styrkjum til kvikmyndagerðar eru þau störf sem hún skapar. Áætlað er að útsendum klukkustundum í sjónvarpi í Evrópu fjölgi úr 1 milljón í 3,5 milljón klukkustunda fram að aldamótum. Talið er að sjái Evrópubúar um að framleiða allt það efni þýði það um 1,8 milljón ný störf. Engin ástæða er til að ætla að við Íslendingar getum ekki átt okkar skerf í væntanlegri framleiðsluaukningu. Til þess að svo megi verða þarf að skjóta traustari stoðum undir atvinnugreinina. Það er til dæmis unnt með því að lánakerfi iðnaðarins taki í auknum mæli mið af kvikmyndagerð sem arðvænlegri framleiðslu.



--------------------------------------------------------------------------------

Því miður er það svo, að á stjórnmála- og fjármálavettvangi líta enn of margir þannig á, að lista- og menningarstarf byggist á samskotum, af því að þeir, sem að því starfa geti ekki staðið á eigin fótum. Þetta er mikill misskilningur. Hér er að mínu mati um fjárfestingu að ræða og nauðsynlegt að hvetja fjárfesta til að taka áhættu. Frábær árangur Sinfóníuhljómsveitar Íslands í New York á dögunum sýnir, að hér er ekki síður en annars staðar unnt að fjárfesta í gæðum á þessu sviði. Víða erlendis er það stolt fyrirtækja, að nöfn þeirra séu tengd slíkum sveitum. Þeir sem starfa að prentun og bókagerð eru iðnaðarmenn og starfsemi þeirra er fjármögnuð á þeim forsendum. Þeir vinna hins vegar að lista- og menningarstarfi. Hið sama er að segja um kvikmyndagerð eða framleiðslu á tónlist. Í þessu samhengi vil ég fagna frumkvæði prentiðnaðarins í fræðslumálum og því góða samstarfi, sem tekist hefur um nýjungar á því sviði. Lít ég þannig á, að það hafi meðal annars orðið hvati að stofnun hins ágæta Starfsmenntafélags fyrir nokkrum mánuðum.
Of mikill greinarmunur á atvinnugreinum og of rótgróin atvinnugreinaskipting hér á landi hefur eflaust gert mörgum nýjum atvinnugreinum erfitt um vik. Hefðbundnu atvinnuvegaráðuneytin hafa barist ötullega fyrir þeim greinum sem undir þau falla, svo sem sjávarútvegi, landbúnaði og gamalgrónum iðnaði. Hins vegar hafa aðrar atvinnugreinar frekar fallið í skuggann, hvort sem um er að ræða hið almenna starfsumhverfi þeirra, fyrirgreiðslu eða aðstoð. Þessum viðhorfum verður að breyta. Ég nota orðin "hefðbundin atvinnuvegaráðuneyti" af ásettu ráði, því að menn gleyma því gjarnan að menntamálaráðuneytið er í raun stærsta atvinnuvegaráðuneytið bæði þegar litið er til starfsmannafjölda og gildi menntunar, rannsókna og vísinda fyrir atvinnulífið allt. Það er bæði hagur hefðbundinna atvinnugreina og nýrra að vinna saman. Þannig hefur til dæmis verið unnt að tengja verðmæta þekkingu okkar Íslendinga á sviði sjávarútvegs við framleiðslu á nútímalegum hátæknivörum.

Stefnumörkun í fyrirtækjum verður að vera framsýn. Hið sama á við um mótun menntastefnu. Nú fer að hefjast endurskoðun á aðalnámskrám grunnskóla og framhaldsskóla. Við það starf verður að líta til allra átta. Einnig hefur verið leitast við að gera það, þegar fjallað er um hina nýju tækni, sem sameinar tölvur og fjarskipti.

Í skýrslu sem kom út á vegum menntamálaráðuneytisins fyrr í þessum mánuði og ber heitið ,,Í krafti upplýsinga" eru gerðar tillögur um hvernig menntakerfið nýti upplýsingatækni. Lögð er áhersla á að nota verði hana til að bæta menntun þjóðarinnar og þar með samkeppnishæfi hennar. Einnig er lögð áhersla á að einstaklingar fái notið símenntunar til að geta brugðist við nýjum þörfum upplýsingasamfélagsins þannig að þeir fjarlægist ekki vinnumarkaðinn. Íslenskt skólakerfi verður að taka mið af samfélagsþróun og starfa í takt við hana. Til að svo megi verða er mikilvægt, að skólakerfið sé sveigjanlegt og taki fagnandi á móti breytingum en setji sig ekki í varnarstöðu.

Einnig verður að vera náin samvinna á milli menntakerfis og atvinnulífs við þróun nýs náms þannig að nemendur séu sem best búnir þegar þeir koma út í atvinnulífið. Til dæmis er mjög mikilvægt að bæta sérmenntun á sviði upplýsingatækni og um það eru tillögur í upplýsingastefnu ráðuneytisins.

Góðir áheyrendur!

Stefna iðnaðarins, viðhorf stjórnvalda, var það efni, sem mér var sett fyrir af þeim, sem kölluðu mig til þessa þings. Ég hef litið á viðfangsefnið frá sjónarhóli menntamálaráðherra.

Við aldahvörf blasir við okkur Íslendingum að aðeins þróast hér samkeppnishæft þjóðfélag ef hér býr vel menntuð þjóð, sem getur nýtt sér öll tækifæri til menningarauka og auðsköpunar. Menntun, rannsóknir og vísindi verður að nefna þegar tíunduð eru þau atriði, sem mestu skipta við framkvæmd langtímstefnu í efnahags- og atvinnumálum. Framlög til þessara þátta eru arðbær fjárfesting, því að góð menntun er besta tryggingin fyrir því, að íslenska þjóðin skari fram úr á alþjóðavettvangi. Menningarstarf gefur lífinu aukið gildi og getur auk þess skilað góðum fjárhagslegum arði.

Góð menntun er grunnurinn að því að hér dafni blómlegar atvinnugreinar, hvort sem það er á vettvangi iðnaðarins eða annars staðar. Það er þó eins með iðnaðinn og menntakerfið að hann verður að fylgja alþjóðlegri samfélagsþróun. Segja má að markaðurinn sé mettaður fyrir margar af hinum hefðbundnu iðngreinum og meðal annars vegna þess að með nýrri tækni hafa afköst manna aukist hröðum skrefum. Í stað þess að berjast gegn þróuninni er mikilvægt að reynt verði að leysa vandann. Tæknin verði notuð til uppbyggingar og atvinnusköpunar. Til að það sé unnt þurfa menntakerfið og atvinnulífið að taka höndum saman og skapa nýjar námsbrautir, nýjar áherslur og ný störf. Mikilvægt er að menn líti fram á veginn í leit að lausnum en ekki til glataðra tækifæra í von um að endurheimta þau. Lífið snýst ekki um þau tækifæri heldur hin sem eru til marks um nýja sigra.