Upplýsingatæknin - ávarp á ESPRIT-kynningarfundi
Ávarp á kynningafundi ESPRIT-IMPACT áætlana ESB að Hótel Sögu
Þriðjudaginn 7. febrúar kl. 12.00.
Ágætu gestir!
Ég vil í upphafi fagna því framtaki að efnt skuli til þessa fundar til að kynna það nýjasta sem er að gerast á vegum Evrópusambandsins á sviði upplýsingatækni.
Á kynningu þessa fundar má meðal annars sjá að Íslendingar leggja ríka áherslu á að taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi um upplýsingatækni. Það er ekki undrunarefni því viðurkennt er að með markvissri notkun þessarar tækni geti þau samfélög hagnast mest sem lengst eru frá hringiðu atburða, hvort sem er á alþjóðlegum vettvangi eða landsvísu. Fáum ætti að vera meiri akkur í slíkri breytingu en þjóðum, sem búa utan alfaraleiða líkt og Íslendingar auk þess sem tæknin ætti að geta styrkt stöðu landsbyggðarinnar. Í þessum fáu orðum ætla ég ekki að fjalla um samstarf Evrópuríkja á þessum vettvangi, um það ræða aðrir mér fróðari, heldur líta á málin frá sjónarhóli þeirra, sem hér starfa og einkum að mennta- og menningarmálum.
Kostir upplýsingatækni eru margvíslegir. Ef hún er notuð á réttan hátt, getur hún verið uppspretta efnahagsframfara, betri lífsgæða, nýrra starfa og bættrar þjónustu, bæði opinberra aðila og einkaaðila. Upplýsingatækni getur breytt stöðu Íslendinga í samfélagi þjóðanna og skapað ný tækifæri til samskipta og samvinnu. Hún eykur einnig tækifæri fólks til að bæta við og viðhalda þekkingu sinni og eykur burði þess til að leysa vandamál. Tæknin getur gert dægrastyttingu fólks fjölbreytilegri og ánægjulegri. Nú þegar þekkjum við dæmi þess að íslensk fyrirtæki hagnýti sér nýja tækni til að ná betri árangri í samkeppni á alþjóðavettvangi og einstaklingar nota tölvur til æ fjölbreytilegri nota. Hægt er er stunda nám í gegnum tölvur, eiga bankaviðskipti, versla, lesa dagblöð, horfa og hlusta á fréttir, fara á söfn o.fl. Sífellt bætast nýir kostir við og tækifærin aukast með ódýrari og hraðvirkari tækni. Við erum á þessari stundu líklega aðeins við upphaf nýrra tíma og enn meiri breytingar munu verða á þessu sviði.
Því verður ekki haldið fram að upplýsingatækni leysi allan vanda og hafa þarf í huga að henni fylgja vandamál sem mikilvægt er að leysa. Í Evrópu er lögð mikil áhersla á að bilið aukist ekki á milli þeirra sem hafa aðgang að upplýsingum og þeirra sem hafa ekki aðgang að upplýsingum. Með hröðu og öflugu upplýsingastreymi víða um heim verður að gæta að sérkennum og sérstöðu þjóða og að einstaklingar glati ekki menningararfleið sinni. Hætta er á að lítil málsvæði eigi undir högg að sækja og til dæmis eru um 90% af þeim upplýsingum sem finna má á Internetinu á ensku. Einnig er það áhyggjuefni margra að með því að samfélagið verði æ háðara tækni og tölvum megi maðurinn sín æ minna. Hann verði ósjálfstæðari einstaklingur. Þó að söfnun upplýsinga sé yfirleitt kostur þá getur hún líka verið varhugaverð. Þannig er hægt að safna saman miklu magni af persónulegum upplýsingum um einstaklinga og með því má stefna friðhelgi einkalífs þeirra í hættu. Verndun höfundaréttar hefur verið vandamál í netsamskiptum og sömuleiðis greiðslur fyrir þann rétt. Einnig velta menn fyrir sér hvaða lög og siðareglur eigi að gilda í netsamskiptum.
Til að Íslendingar geti nýtt sér þá kosti upplýsingatækni sem ég hef nú rakið og sömuleiðis varast ókostina skipaði ég nefndir sl. haust sem fengu það verkefni að gera tillögur að stefnu menntamálaráðuneytisins í upplýsingamálum. Nefndirnar eru um þessar mundir að ljúka sínum störfum og munu þær eflaust gera margar tillögur um hvernig menntakerfið og menningarlífið geti nýtt sér upplýsingatækni til öflugri starfsemi og meiri hagkvæmni.
Á vettvangi ríkisstjórnarinnar er nú einnig unnið að almennri stefnumótun fyrir upplýsingasamfélagið og gert er ráð fyrir að því starfi verði lokið síðar á þessu ári. Fjölmargar þjóðir hafa nú þegar mótað stefnu í upplýsingamálum þannig að ljóst að stefnumótunin hér á landi er komin skemmra á veg en víða annars staðar. Framkvæmdin er hins vegar að mörgu leyti betur á vegi stödd og hafa íslenskir skólar til dæmis vakið athygli fyrir það að yfir 90% þeirra eru nettengdir.
Stefnumótunin sem slík er ekki aðalatriði til að upplýsingatækni nái fótfestu í íslensku samfélagi. Mikilvægara er að sá árangur sem náðst hefur með upplýsingatækni hér á landi, í menntakerfinu, menningarlífinu og annars staðar, hefur fyrst og fremst byggst á framtaki áhugasamra aðila. Þannig á það líka að vera, að hvatinn til uppbyggingar séu hagsmunir einstaklinga, fyrirtækja eða stofnana. Hið opinbera getur þó stuðlað að hraðari og öruggari þróun á þessu sviði en fyrst og fremst á það að vera hlutverk hins opinbera að sjá til þess að engar hindranir séu í vegi fyrir eðlilegri þróun.
Hlutverk menntamálaráðuneytisins í upplýsingamálum er að móta almenna stefnu á sviði mennta- og menningarmála, sjá um samræmingu, fylgjast með því að stefnumótuninni sé framfylgt og stuðla að faglegum rannsóknum á þessu sviði. Það er hlutverk menntamálaráðuneytisins að sinna áfram fjölþjóðlegu samstarfi um upplýsingamál og miðla þeirri þekkingu til sveitarfélaga, mennta- og menningarstofnana og annarra aðila, sem geta fært sér hana í nyt. Með umfjöllun sinni um upplýsingatækni getur ráðuneytið jafnframt skapað umræður um hana og hvatt til þess að landsmenn færi sér tæknina í nyt. Ekki má heldur gleyma því að menntamálaráðuneytið getur verið mikilvæg fyrirmynd á þessu sviði. Eitt af því mikilvægasta sem ráðuneytið getur gert til að styrkja stoðir íslenska upplýsingasamfélagsins er að stuðla að því að upplýsingatækni sé sjálfsagður og eðlilegur hluti menntakerfisins, þar sem menntun mótar að miklu leyti viðhorf, venjur og atferli fólks.
Margir stærstu notendur upplýsingatækni hér á landi eru á starfsvettvangi menntamálaráðuneytisins. Því verður ráðuneytið að stuðla að því að þeir geti fengið sem hagkvæmastan og greiðastan aðgang að upplýsingasamfélaginu.
Ágætu gestir!
Upplýsingatæknin eða upplýsingasamfélagið er ekki markmið í sjálfu sér. Tæknin er einungis tæki sem getur greitt okkur leið til betri lífskjara og betra mannlífs. Tölvur koma ekki í staðinn fyrir kennara eða þá ánægju að fara á tónleika, en tæknin getur bætt kennsluna og gert fleiri einstaklingum kleift að njóta tónleikanna.
Á tímum hraðra tæknibreytinga og umfangsmikils alþjóðasamstarfs er spurningin ekki sú hvort við Íslendingar viljum vera með í upplýsingasamfélaginu. Við erum með hvort sem okkur líkar betur eða verr. Spurningin er hins vegar hvort við viljum vera virkir og stefnumarkandi þátttakendur, sem njótum alls hins besta af upplýsingatækninni. Ísland hefur alla burði til að vera fyrirmynd annarra þjóða í þessum efnum. Þó að margir kostir hafi fylgt því fyrir Íslendinga að vera fjarri öðrum löndum hefur það einnig háð landsmönnum í margvíslegum skilningi. Upplýsingatæknin auðveldar okkur til muna samskipti við aðrar þjóðir og færir okkur nær þeim í tíma. Fjarlægðin að því leyti skiptir minna máli. Ef við viljum færa okkur tæknina í nyt verðum við að láta verkin tala og sigla hraðbyri inn í þekkingarsamfélag framtíðarinnar.