16.1.1998

Nýtt húsnæði Listasafns Íslands

Ný aðföng Listasafn Íslands
16. janúar 1998

Hinn 30. janúar næstkomandi verða rétt 10 ár liðin frá því að Listasafn Íslands hóf formlega starfsemi sína hér í þessu húsi, því að þá var fyrsta listsýningin opnuð hér við hátíðlega athöfn. Á þeim tíma sem síðan er liðinn hefur ýmissa úrræða verið leitað til að ljúka því ætlunarverki að búa allri starfsemi safnsins viðunandi framtíðaraðstöðu hér á þessum reit í hjarta Reykjavíkur.

Öllum er okkur ljóst, að síðustu 10 ár hafa staðfest réttmæti þeirra orða, sem féllu á vígsludag hússins, að hér eignaðist íslensk myndlist verðugan samastað. Það er þó ekki fyrr en á þessari stundu, sem unnt er að skýra frá því, að með farsælum hætti hefur tekist að leysa húsnæðisvanda safnsins til langrar framtíðar þannig að allir geti vel við unað. Þetta hús var aðeins fyrsti áfangi mannvirkjagerðar í þágu Listasafns Íslands hér við Tjörnina. Starfsmenn hafa ekki enn fengið viðunandi vinnuaðstöðu, þannig hafa aðeins þrjár skrifstofur dagsbirtu og safnið hefur ekki heldur enn aðstöðu til að þróa mikilvæga þjónustu, til dæmis á sviði rannsókna, fræðslu og upplýsingamiðlunar.

Í því skyni að bæta úr brýnni þörf fékk Listasafn Íslands Landshöfðingjahúsið eða Næpuna til umsjónar og notkunar í febrúar 1993. Hafa verulegir fjármunir síðan verið lagðir til þess að gera við húsið án þess að það hafi nýst safninu í daglegu starfi. Frá upphafi var einnig ljóst, að Landshöfðingahúsið fæli aðeins í sér bráðabirgðalausn á húsnæðisvanda Listasafnsins.

Um mitt síðasta ár vöktu Karla Kristjánsdóttir, starfandi forstöðumaður Listasafnsins, og Knútur Bruun, formaður safnráðs, máls á því við mig, að unnt yrði að tryggja framtíðarlausn í húsnæðismálum safnsins, ef tækist að kaupa húsið að Laufásvegi 12, sem er hér á þessum reit og er vel búið til skrifstofuhalds, alls um 850 fermetrar að stærð. Eftir góðar undirtektir Friðriks Sophussonar fjármálaráðherra og samþykki ríkisstjórnar var Listasafninu heimilað að gera tilboð í þessa húseign. Er skemmst frá því að segja, að hinn 5. janúar síðastliðinn var ritað undir kaupsamning og fær Listasafn Íslands húsið afhent 1. júlí næstkomandi.

Með þessari farsælu ráðstöfun hefur tekist að leysa flest af því, sem stefnt var að með öðrum byggingaráfanga safnsins. Yfirstjórn safnsins verður til húsa að Laufásvegi 12, bóka- og heimildasafn, skrifstofur sviða, forvarsla, starfsmannahald, bókalager, skjalageymslur, kennslustofa og fundarherbergi. Síðast en ekki síst skapast gjörbreytt aðstaða til að veita almenningi þjónustu með aðgangi að bókasafni og annarri miðlun upplýsinga.

Góðir áheyrendur!

Ég kýs að beina athygli ykkar að þessum tímamótun í starfi Listasafns Íslands við upphaf sýningar á nýjum aðföngum. Listasöfn eru meira en sýningarsalir og það, sem í þeim er, þau eiga að vera alhliða upplýsingalind og stuðla þannig að auknum áhuga á því, sem þau hafa að bjóða. Nú skapast nýjar og betri forsendur fyrir Listasafn Íslands til að sinna þessu hlutverki auk hefðbundinna sýninga.

Leyfið mér að minna á, að undanfarna mánuði hefur ríkisstjórnin að tillögu minni tekið mikilvægar ákvarðanir um söfn í eigu ríkisins. Markvisst er unnið að því að búa Safnahúsið við Hverfisgötu undir nýtt hlutverk sem þjóðmenningarhús og er viðgerðum utanhúss lokið og hefur húsið líklega aldrei verið glæsilegra á að líta.

Vegna nýs hlutverks Safnahússins hefur framkvæmdum við endurbætur á húsakosti Þjóðskjalasafns Íslands verið hraðað. Lokið er viðgerðum á húsi Listasafns Einars Jónssonar. Ákvörðun hefur verið tekin um framtíðaraðsetur Þjóðminjasafns Íslands og hafa samningar náðst við Háskóla Íslands um aukið rými fyrir safnið. Ætti að vera unnt að opna það í nýjum búningi sumarið árið 2000. Af sanngirni verður ekki annað sagt, en að af hálfu ríkisstjórnarinnar hafi verið tekið til hendi í þessum húsnæðismálum. Skortur á ákvörðunum eða viljaleysi til að framkvæma þær ættu ekki að standa starfi safnanna fyrir þrifum.

Að svo mæltu lýsi ég sýningu á nýjum aðföngum Listasafns Íslands opna og óska safninu til hamingju með hin nýju verk og starfsmönnum þess og okkur öllum til hamingju með hið nýja hús safnsins, sem verður starfsemi þess lyftistöng og íslenskri myndlist til styrktar.