19.6.1997

Handritaafhending

Dansk-íslenskt málþing um handrit
19. júní 1997

Sólbjart var og svalt yfir hinum langþráða degi 21. apríl 1971, þegar sendinefnd danskra ráðherra og þingmanna, sem fylgdi þjóðargersemunum Flateyjarbók og Konungsbók Eddukvæða til Íslands, sté á land í Reykjavíkurhöfn og mannfjöldinn á bryggjunni og götum borgarinnar fagnaði af gleði og vinarhug. Frá því á fyrsta áratug aldarinnar hafði alþingi Íslendinga skorað á dönsku stjórnina að skila aftur íslenskum skjölum og handritum. Koma danska herskipsins Vædderen til Reykjavíkur og afhending handritanna við hátíðlega athöfn batt enda á mikilsvert og vandasamt úrlausnarefni í samskiptum Íslendinga og Dana. Það var leitt til lykta með þeim hætti, sem síðan er vitnað til, þegar nefnd eru góð fordæmi í samskiptum þjóða.

Nú komið þið saman hér í dag og næstu daga til að fjalla um fræðilegt gildi hins forna menningararfs og minnast þannig með verðugum hætti, að afhendingu handritanna er lokið. Er mér ánægja að bjóða hina erlendu þátttakendur í málþinginu sérstaklega velkomna. Það er okkur ekki síst fagnaðarefni að rektor Kaupmannahafnar-háskóla er hér kominn til að ljúka afhendingunni með formlegum hætti.

Samkvæmt handritasamningi Dana og Íslendinga frá 1965 skyldu handritin sem flytja átti til Íslands úr Árnasafni og Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn afhent á 25 árum frá 1971. Að lokaafhendingin er ekki fyrr en nú stafar ekki af öðru en því að undirbúningur reyndist nokkru tímafrekari en fyrirfram var ætlað og að kostað hefur verið kapps um það af danskri hálfu að búa handritin sem best úr garði.

Lögum samkvæmt lúta handritin forsjá ríkisstjórnar Íslands. Sæmd íslensku þjóðarinnar er að veði við varðveislu þeirra. Verkefni skortir ekki, þegar hugað er að fræðilegu gildi handritanna og útgáfustarfi á grundvelli þeirra. Raunar gerir ný tækni kleift að sinna þessu starfi með allt öðrum hætti en áður og vísa ég þar til hugmynda um að gera stafrænar myndir allra handrita Árnasafna í Danmörku og á Íslandi aðgengilegar á Internetinu. Nýta ber nýja og fullkomna tækni til að koma list handritanna á framfæri við sem flesta. Þessi tækni leysir vanda Íslendinga vegna öflunar mynda af þeim íslensku handritum, sem verða eftir í Árnasafni í Kaupmannahöfn.

Í þessu sambandi er einnig ástæða til að minnast þess, að fyrir fáeinum vikum var gengið frá samningi milli Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns og Cornell-háskóla með aðild Stofnunar Árna Magnússonar, um að á næstu þremur árum skuli unnið að því að setja öll íslensk fornrit og handrit þeim tengd fram til ársins 1900 með stafrænum hætti inn á Internetið. Er þetta mikla verk unnið fyrir styrk úr Mellon-sjóðnum í Bandaríkjunum, úr ríkissjóði Íslands og með stuðningi einkaaðila. Gangi þetta stórvirki eftir verður með einstæðum hætti séð til þess, að þessi mikli forni menningararfur verði til taks fyrir hvern þann, sem vill kynna sér hann. Við það mun öll aðstaða til rannsókna á handritum einnig gjörbreytast.

Handritin skapa Norðurlöndum sameiginlegan menningargrunn. Þegar þau verða orðin öllum tiltæk fyrir tilstuðlan nýrrar tækni, ættu Norðurlöndin sameiginlega að gera átak til að ýta undir rannsóknir í norrænum fræðum við menntastofnanir og háskóla um heim allan.

Þegar við minntumst þess við hátíðlega athöfn á síðasta ári, að 25 ár voru liðin frá komu fyrstu handritanna hingað til lands, afhenti Ole Vig Jensen menntamálaráðherra Dana, mér eintak af fyrsta bindi hinnar miklu Ordbog over det norrøne prosasprog, sem þá var nýkomið út á vegum Den aramagnæanske komisions ordbog.

Hinir ágætu dönsku gestir okkar hér í dag vita, að vinna við þetta mikla verk hefur staðið í 58 ár. Leyfið mér aðeins að minna ykkur öll á, hve hér er um merkilegt framtak í þágu norrænnar menningar að ræða og hve mikið gildi það hefur fyrir frekari samvinnu þjóða okkar á þessu sviði. Orðabókin verður gríðar mikilvægt hjálpargagn fyrir þá, sem stunda íslensk fræði, ekki aðeins í Danmörku og á Íslandi heldur um alla heimsbyggðina, þar sem bókleg miðaldararfleifð Íslendinga er kynnt og krufin. Miklu skiptir að skýringar eru bæði á dönsku og ensku, en fram til þessa hefur orðabók Cleasbys og Guðbrands Vigfússonar verið eina orðabókin um íslenskt fornmál, sem aðgengileg er enskumælandi mönnum.

Í hinni miklu nýju orðabók er gerð grein fyrir orðaforða allra íslenskra texta í óbundnu máli frá því um 1150-1540 er Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar birtist á prenti. Orðabók Árnastofnunar í Kaupmannahöfn nær því fram til þess tíma er fyrirhuguð orðabók Háskóla Íslands hefst. Spyrja má hvers vegna verk sem þetta sé unnið í Danmörku. Svarið felst m.a. í því hve ágætt og einstakt samstarf Íslendinga og Dana hefur verið á sviði norrænna fræða sem mörgum öðrum. Er orðabókarverkið var hafið voru flestar frumheimildir um íslenskt mál fyrri alda í Danmörku, en þótt Danir hafi nú skilað Íslendingum miklum hluta handritanna eru enn í dönskum söfnum ýmsar heimildir um íslenska tungu sem hvergi annars staðar er að finna.

Allt sýnir þetta að ekki þarf að draga úr mikilvægi norrænna rannsókna við Kaupmannahafnar-háskóla þótt hluti handritanna hafi verið fluttur til Íslands. Hann getur því áfram verið eitt af helstu fræðasetrum heims á þessu sviði.

Í febrúar 1986 rituðu menntamálaráðherrar Danmerkur og Íslands undir samstarfssamning í tengslum við lyktir handritamálsins. Þar er lýst vilja til þess að styrkja hinar tvær Árnastofnanir til að stunda rannsóknir á grundvelli handritasafnanna. Í því efni er lögð áhersla á náið og skipulagt samstarf stofnananna tveggja.

Ég lít þannig á, að þetta málþing sé því til staðfestingar að samstarfstengslin séu góð og fullur vilji sé til að rækta þau áfram. Vil ég leggja mitt af mörkum til að svo megi verða.

Góðir áheyrendur!

Um aldir hafa Danir og Íslendingar staðið að því að varðveita íslensku handritin. Nú þökkum við Dönum fyrir gæslu þeirra og góða umsjá - við þökkum einnig fyrir hve vel þau hafa verið búin úr garði við afhendingu þeirra.

Við fögnum því, hve vel hefur verið staðið að framkvæmd samnings þjóðanna. Við væntum góðs samstarfs um alla framtíð svo lengi sem menn kunna að meta gildi þessara dýrgripa.

Megi starf ykkar, sem stundið mikilvægar rannsóknir á þessum gamla og trausta grunni, bera mikinn ávöxt. Hið dansk-íslenska málþing um handrit er sett.