26.6.2010

Utanríkismál á landsfundi

25. og 26. júní, 2010.
 

Utanríkismálanefnd flokksins lagði þrjú umræðuefni fyrir málefnastarf hér á fundinum með stuttri greinargerð, sem samstaða var um innan nefndarinnar. Í fyrsta lagi, að rætt yrði um ESB-málið og stöðu þess, í öðru lagi varnar- og öryggismál og í þriðja lagi norðurslóðir-loftslagsmál.

Tæplega áttatíu manns tóku þátt í starfinu á sviði utanríkismála. Vil ég þakka þá góðu þátttöku og þeim, sem stjórnuðu umræðum á borðunum og rituðu þar fundargerð. Mikill fengur er að því, sem fyrir liggur af skriflegu efni eftir umræðurnar og mun það nýtast utanríkismálanefndinni í störfum hennar.

Flokki ég umræður eftir þessu þremur sviðum er niðurstaðan sú, að menn hafi helst greint á um afstöðuna gagnvart ESB, mikil samstaða ríki í varnar og öryggismálum og áhugi sé á því, að frekar sé rætt um norðurslóðir og loftslagsmál.

Þótt ágreiningur sé um ESB, kom fram skýr vilji um, að Sjálfstæðisflokkurinn móti sér ákveðna stefnu í málinu. Í því efni voru þrjár leiðir til umræðu:

1.      Leggja umsókn um ESB til hliðar eða draga hana til baka.

2.      Ganga viðræðurferlið til enda og láta reyna á niðurstöðuna í þjóðaratkvæðagreiðslu.

3.      Stefna markvisst á aðild.

Mitt mat er, eftir lestur þeirra gagna, sem mér voru afhent, að flestir aðhyllist fyrsta kostinn, það er að leggja umsóknina til hliðar og taka hana ekki upp að nýju nema með sérstakri ákvörðun í samráði við þjóðina. Fellur sú niðurstaða að þeirri skoðun, sem fram kom í ræðu formanns flokksins í gær og drögum að stjórnmálaályktun.

Fram kom, að óskynsamlegt væri að halda ESB-aðildarmálinu áfram við núverandi aðstæður í þjóðfélaginu, önnur mál væru brýnni, bæði að því er varðar nýtingu tíma við landstjórnina og ráðstöfun opinberra fjármuna. Þá væri uppnám og spenna innan Evrópusambandsins vegna fjármálalegrar óvissu, einkum á evru svæðinu. Aðrir sögðu, að úr því að alþingi hefði samþykkt að fara inn á þessa braut, ætti að ganga hana til enda. Einhver tók svo djúpt í árina að halda því fram, að afturkall umsóknar kynni að leiða til brottreksturs af evrópska efnahagssvæðinu.

Minnt var á, að með ESB-aðild yrði gengist undir reglur yfirþjóðlegs valds varðandi nýtingu auðlinda til lands og sjávar. Lúta yrði óviðunandi kostum í Icesave-málinu. Svigrúm til samskipta við þjóðir utan ESB yrði takmarkað. Í einstökum greinum eins og hvalveiðum yrði Íslendingum settur stóllinn fyrir dyrnar. Á móti komu röksemdir um meiri aga við efnahagsstjórn, lægri vexti og meiri stöðugleika með upptöku evru. Utan ESB kynni þjóðin auk þess að einangrast um of.

Eindregin samstaða var um aðildina að NATO í umræðum um varnar- og öryggismál. Sú spurning var rædd, hvort bandalagið hefði teygt sig of langt með aðild að stríðsátökum í Afganistan.

Þá var einnig einhugur um nauðsyn varnarsamnings við Bandaríkin. Rætt var um áherslur í samstarfi Íslendinga og Bandaríkjamanna, hvort ekki ætti að efla það, að því er varðar öryggi á hafinu og siglingaleiðum á Norður-Atlantshafi. Í því efni beindist áhugi einnig að samvinnu við Kanadamenn og Grænlendinga og jafnvel Rússa. Þá var minnst á aukið samstarf Norðurlanda í anda Stoltenberg-skýrslunnar svonefndu.

Fyrir mörgum er óljóst, hvað vakir fyrir stjórnvöldum með nýjum lögum um varnarmálastofnun. Leggja bæri meiri áherslu á eftirlit á hafinu og í höfnum landsins en í lofthelginni og efla bæri landhelgisgæsluna með því að færa starfsemi varnarmálastofnunar undir dómsmálaráðuneyti. Þá væri nauðsynlegt að auka innlenda þekkingu á sviði varnar- og öryggismála.

Lof var borið á starf lögreglu og talið nauðsynlegt að efla hana að mannafla, tækjum og búnaði. Huga bæri að því að koma á fót varaliði lögreglu.

Bæði í umræðum um ESB-mál og öryggismálin var vakið máls á aðild Íslands að Schengen-samstarfinu. Nokkur ótti er við vegabréfalaust ferðafrelsi íbúa EES-landanna innan evrópska efnahagssvæðisins, þar sem íbúar eru nú um 500 milljónir. Var það talinn liður í að efla öryggi landsmanna að auka eftirlit með útlendingum, sem koma til landsins.

Samhljómur var um þá skoðun, að ekki steðjaði hernaðarleg ógn að Íslendingum en hér eins og annars staðar yrðu menn að hafa varann á vegna skipulagðrar glæpastarfsemi, hryðjuverka eða óeðlilegrar ásælni annarra þjóða. Mestu skipti að leggja áherslu á friðsamleg samskipti, sem byggðust á gagnkvæmum hagsmunum, þar á meðal viðskiptum.

Í umræðum um norðurslóðir og loftslagsmál var einmitt vikið að nauðsyn góðs samstarfs ríkja á norðurslóðum til að tryggja öryggi á hafinu og skynsamlega nýtingu auðlinda. Ísland er eitt af átta aðildarríkjum norðurskautsráðsins og var talið mikilvægt að nýta þann vettvang til að styrkja framtíðarstöðu Íslands. Minnt var á, að innan Evrópusambandsins séu þau rök notuð til stuðnings aðildar Íslands að sambandinu, að þar með fái það nýja gátt til norðurskautsins.

Meira samstarf um málefni norðurslóða var einnig talið til þess fallið að auka samvinnu við Kína, Japan og Kóreu, ef reglulegar siglingar hæfust norðurleiðina milli Kyrrahafs og Atlantshafs. Ástæðulaust væri þó að vekja of miklar vonir um, að þessar siglingar skiptu máli í náinni framtíð, en sjálfsagt og eðlilegt væri að búa í haginn fyrir aukna þjónustu við skip.

Vakið var máls á, að ef til vill mætti finna nýtanleg olíuvinnslusvæði á svonefndu Drekasvæði í áttina að Jan Mayen. Ekki ætti að bregða fæti fyrir framhald þess máls en setja skýrar reglur um verndun hafsins. Þá bæri að halda áfram baráttu fyrir viðurkenningu á íslenskum rétti á Rockall-svæðinu í áttina til Skotlands og Írlands.

Lögð var áhersla á, að Íslendingar létu ekki undir höfuð leggjast að tryggja stöðu sína í loftslagsmálum eins og gert var með sérákvæði í Kýótó-samkomulaginu.

Talið var nauðsynlegt að efla rannsóknarstarf varðandi norðurslóðir og var starfsemi stofnunar Vilhjálms Stefánssonar nefnd þar til sögunnar. Jafnframt var hvatt til þess, að Sjálfstæðisflokkurinn tæki frumkvæði í umræðum um norðurslóðamál á stjórnmálavettvangi, meðal annars með ráðstefnu með þátttöku erlendra sérfræðinga.

Góðir fundarmenn,

ég læt þessari frásögn hér með lokið. Utanríkismálanefnd flokksins fékk gott veganesti frá þeim, sem tóku þátt í umræðunum. Fyrir það þakka ég enn á ný.