22.3.1997

Gylfi Þ. Gíslason áttræður

Hátíðarsamkoma fyrir Gylfa Þ. Gíslason áttræðan, Íslensku óperunni
22. mars 1997

Engum Íslendingi, sem kominn var til vits og ára hinn 21. apríl 1971, líður sá dagur nokkru sinni úr minni. Hans verður jafnan minnst sem eins af feginsdögum þjóðarinnar, því að þá afhentu Danir okkur fyrstu handritin.

Þeim manni, sem við heiðrum að verðleikum á þessari hátíð, hlýtur þó að vera þessi dagur ofar í huga en öllum öðrum, því að hann batt enda á sigursæla baráttu fyrir endurheimt þjóðardýrgripanna, baráttu, sem staðið hafði í þau tæpu fimmtán ár, sem dr. Gylfi Þ. Gíslason hafði þá starfað sem menntamálaráðherra og raunar nokkru lengur eða allt frá því við endurheimtum fullt sjálfstæði okkar.

Sjálfur komst Gylfi þannig að orði, þegar hann ávarpaði Dani af þessu tilefni, að með lausn þessa síðasta deilumáls í aldalangri sambúð Dana og Íslendinga þætti okkur Íslendingum, að við værum að stíga spor í áttina til himanríkis - og hann bætti því við, að við hefðum sannarlega ekkert á móti því, að Danir kæmust þangað líka.

Öll erum við alltaf vonandi að stíga spor til himnaríkis, en spor Gylfa eru orðin fleiri og áhrifameiri en flestra annarra samtímamanna okkar.

Þegar rætt er um ritun Íslendingasagnanna og því velt fyrir sér, hver sé uppruni þeirra og aðdragandi þess að þær voru festar á skinn, staldra menn við hina munnlegu geymd og benda á, að á öllum tímum sé uppi fólk, sem sameini með einstæðum hætti fortíð, samtíð og framtíð og flytji með sér hið góða og skili því heilu til sporgöngumannanna.

Dr. Gylfi Þ. Gíslason er í hópi þessara manna. Faðir hans Þorsteinn Gíslason, sem starfaði við blaðamennsku og ritstjórn samfellt í 43 ár, fæddist fyrir réttum 130 árum eða 1867. Hafa þessir áhrifamiklu feðgar með ævistarfi sínu sett svip sinn á hið mesta breytingaskeið, sem orðið hefur í Íslandssögunni, og lagt sitt lóð á vogarskálina á mörgum sviðum.

Enginn hefur lengur verið menntamálaráðherra á Íslandi en Gylfi. Þótt 26 ár séu liðin frá því að hann lét af því embætti eftir 15 ára samfellda setu, er hann enn í dag sá menntamálaráðherra, sem helst er minnst. Fyrir okkur, sem vorum í skóla allan þennan tíma, var það fastur punktur í tilverunni, þegar við fluttumst á milli skólastiga, að ráðherrann var þó alltaf hinn sami.

Má segja, að flest hafi verið í föstum og traustum skorðum, þar til undir lok ráðerratímans, þegar viðhorf, sem síðan eru kennd við umrótið '68, fóru að gera vart við sig. Er að mínu mati ljóst, að ýmislegt af því, sem innleitt var í þeim anda stenst ekki tímans tönn og frekar beri að miða skóla við að sinna kennslu en uppeldi, þótt hvoru tveggja sé að sjálfsögðu mikilvægt.

Þó eru það ekki síður áhugamenn um íslenska menningu, sem minnast ráðherratíma Gylfa með nokkrum söknuði. Áhugi hans á menningu og fögrum listum er öllum ljós og ótvíræður. Glæsileg framganga hans á þeim vettvangi hefur orðið mörgum góðum listamanni hvatning til frekari dáða. Höfum við kynnst því hér í dag, að framlag hans til tónlistar á ekki síður eftir að halda nafni hans á loft en hin opinberu störf.

Tel ég, að við mat á hinum opinberu störfum beri ekki síst að minnast þess, að dr. Gylfi er ekki heimóttarlegur einangrunarsinni heldur telur hann Íslendinga standa menningarlega jafnfætis fjölmennari þjóðum og þurfi þess vegna ekki að óttast náin samskipti við þær. Hann áttaði sig snemma á þessari staðreynd og hélt því hiklaust fram, að aukið alþjóðasamstarf hvetji til þess, að þjóðir, sem eiga traustar menningarlegar rætur, hlú frekar að þeim en rífa þær upp, þegar þær starfa náið með öðrum. Var hann þá og er raunar enn óþreytandi við að kynna íslenska menningu á erlendum vettvangi og rækta fjölbreytt tengsl við aðrar þjóðir.

Minnumst þess, að hann var einnig viðskiptaráðherra nær allan þennan langa ráðherratíma og vann á þeim vettvangi markvisst að því, að íslenskt hagkerfi þróaðist til þátttöku í alþjóðlegu fríverslunarsamstarfi, hvort heldur á vettvangi GATT eða EFTA. Var á þann hátt lagður grunnur að þeirri efnalegu hagsæld, sem frjáls heimsviðskipti hafa skapað okkur Íslendingum eins og öðrum þjóðum.

Góðir áheyrendur!

Leyfið mér einnig að staldra við það, að öll mótunarárin í framhaldsskóla og háskóla ólst ég í foreldrahúsum upp við náið pólitískt samstarf föður míns og dr. Gylfa. Voru þau til dæmis ófá símtölin, sem þeir áttu, utan hins hefðbundna vinnutíma.

Hefur Gylfi gefið þá réttu meginskýringu á langlífi viðreisnarstjórnarinnar, hve gott persónulegt samstarf tókst með ráðherrum hennar. Eða eins og hann orðar það, að “þá beri samstarf flokka og manna beztan árangur, ef það mótast af heiðarleika og gagnkvæmum trúnaði. Vinni einn stjórnmálamaður með öðrum, verður að ríkja traust milli þeirra. Þá mega engin brögð vera í tafli."

Minning mín um þetta farsæla, langvinna samstarf ólíkra manna úr ólíkum flokkum er á þennan veg. Fjölskyldur okkar tengdust einnig öðrum böndum og vil ég fá að nota þetta tækifæri til að þakka Gylfa og Guðrúnu Vilmundardóttur, eiginkonu hans og stoð hans og styttu, þá samfylgd alla, sem á stundum hefur snortið okkur mjög djúpt.

Við komum hér saman í dag til að þakka og hylla stjórnmálamann og sannan menningar- og menntamann, sem hefur með ævistarfi sínu skilað íslensku þjóðinni fram á veg. Um langan aldur munum við enn njóta ávaxta starfa hans. Undir leiðsögn dr. Gylfa hefur íslenska þjóðin stigið mörg gæfuspor. Megi hann lengi enn halda heilsu og kröftum til góðra verka.