12.3.1997

Tölvumálrækt

Ávarp á þingi um tölvumálrækt
miðvikudaginn 12. mars kl. 13.00 að Hótel Loftleiðum

Ágætu þinggestir!

Fyrir um það bil einni öld höfðu forfeður okkar margir helst áhyggjur af því, þegar þeir litu til móðurmálsins, að danskan mundi víkja því til hliðar. Nú er nauðsynlegt að gera sérstakt átak til að fá ungt fólk til að læra dönsku. Um miðja þessa öld hóf óttinn við enskuna innreið. Síðan hefur tæknin gert fjarlægðir að engu og nú komum við saman til að ræða nýtt hugtak, tölvumálrækt.

Áreitið á tunguna er meira en nokkru sinni fyrr. Við þær aðstæður er nauðsynlegt að minna á þá staðreynd, að tungumálið er tækið, sem við nýtum til að miðla þekkingu og afla hennar. Íslenskan mótar handbragð okkar Íslendinga í þekkingarsamfélaginu og hún gefur framlagi okkar til þess sérstakt gildi. Með því að leggja rækt við sérkenni tungunnar styrkjum við hlut okkar í hinu alþjóðlega samfélagi.

Á sama tíma og samstarf þjóða eykst og auðveldara verður að koma skoðunum sínum hindrunarlaust á framfæri við heiminn allan, leggja einstaklingar og þjóðir meiri rækt en áður við uppruna sinn og sögu. Ætti það ekki að koma okkur Íslendingum á óvart, því að við lítum þannig á, að sagan, landið og tungan skapi okkur helst sérstöðu í samfélagi þjóðanna. Töpum við þessum sérkennum, mun ekki líða á löngu, þar til við glötum viljanum til þeirrar baráttu, sem hefur á ótrúlega skömmum tíma breytt íslenska þjóðfélaginu úr bændasamfélagi í háþróað og auðugt þekkingar-, þjónustu- og iðnaðarsamfélag án þess að menningararfleifð okkar hafi lotið í lægra haldi fyrir erlendum menningarstraumum.

Við þurfum hvert og eitt að skilgreina stöðu okkar í hinu nýja umhverfi upplýsingasamfélagsins. Menntamálaráðuneytið hefur gert það í mennta- og menningarmálum í ritinu ,,Í krafti upplýsinga" sem kom út fyrir einu ári.

Þar segir meðal annars að við þessar nýju aðstæður verði að leggja aukna áherslu á að vernda sérkenni íslenskrar tungu og menningar. Hvetja þurfi þá sem nú þegar vinna að málrækt og málvernd til að huga sérstaklega að verndun íslenskrar tungu í upplýsingasamfélaginu.

Einnig er lögð áhersla á að tryggt sé að nota megi íslenskt mál hnökralaust í þeim tölvubúnaði sem notaðaður er á Íslandi. Þetta verði meðal annars gert með því að styrkja rannsóknir sem snerta íslenska hugbúnaðargerð.

Í stefnunni kemur jafnframt fram að auka skuli útgáfu á frumsömdum íslenskum kennsluhugbúnaði og fræðsluefni á geisladiskum auk þess sem notendaskil Windows verði á íslensku.

Frá því að þessi stefna menntamálaráðuneytisins leit dagsins hefur því miður ekki verið unnt að verja miklu opinberu fjármagni til að framleiða íslenskt námsefni eða annað íslenskt efni í margmiðlunarformi. Úr þessu er nauðsynlegt að bæta, enda væri það í góðu samræmi við þá stefnu sem ríkisstjórnin hefur mótað.

Staða íslenskunnar í upplýsingasamfélaginu er víða til umræðu og hefur hún hvatt menn til dáða. Fyrir skömmu var til dæmis kynnt fyrsta PC tölvan með íslensku notendaumhverfi. Hugmyndin að því verkefni vaknaði á degi íslenskrar tungu sem menntamálaráðuneytið boðaði til í fyrsta sinn 16. nóvember á síðastliðnu ári.

Séu gerðar kröfur um að tölvufyrirtæki bjóði gott íslenskt efni, verða þau að mæta þeim kröfum ef þau ætla að standa sig í samkeppninni. Íslenski markaðurinn þarf að vera kröfuharður að þessu leyti.

Evrópusambandið hefur lagt aukna áherslu á að viðurkenna sérstöðu minni málsvæða og að þau fái sérstakan stuðning í viðleitni sinni við varðveislu tungumálanna. Íslendingar hafa sérstaklega áréttað það við Evrópusambandið að þeir ætli að gæta hagsmuna íslenskunnar í upplýsingasamfélaginu. Hef ég til dæmis sent bréf til Edith Cresson sem fer með yfirstjórn rannsókna og vísindamála í framkvæmdastjórn sambandsins um þessi efni.

Áhugasamir Íslendingar hafa unnið ötullega að tungumálaverkfræði meðal annars á vettvangi Evrópusambandsins til að tryggja framgang íslenskunnar í tölvutækninni. Þetta framtak er mjög lofsvert . Er nauðsynlegt að fylgja því eftir með markvissum hætti og ættu þeir, sem styrkja rannsóknir að huga sérstaklega að því, hvernig unnt er að veita verkefnum á þessu sviði brautargengi.

Fjölmargir aðilar hafa unnið að framgangi íslenskunnar í tölvutækninni á undanförnum áratugum. Það er þeim að þakka að við höfum nú íslenska stafi á lyklaborðunum en þurfum ekki að rita d í stað ð o.s.frv.

Á menningarmálaráðstefnu Norðurlandaráðs í Osló í síðustu viku lagði ég áherslu á að Norðurlandaþjóðirnar ættu að láta að sér kveða í þessu sambandi með innbyrðis samvinnu. Skilyrðin til slíks samstarfs eru hagstæð, m.a. hátt tæknistig á sviði upplýsingatækni, sameiginlegur menningararfur og tengsl tungumálanna. Við þurfum að nýta hið norræna og evrópska samstarfskerfi okkar til að ýta úr vör stórhuga rannsóknarverkefnum á þessu sviði. Íslendingar eiga óhikað að taka frumkvæði á norrænum og alþjóðlegum vettvangi og vera í forystu í verkefnum er lúta að málrækt og upplýsingatækni, til þess höfum við allar forsendur.

Góðir áheyrendur!

Ég vil að lokum þakka þeim sem að þessu tölvumálræktarþingi standa. Frumkvæði áhugasamra einstaklinga, stofnana og fyrirtækja skiptir mestu til að ná raunverulegum árangri. Alúð við tunguna er rækt við þann menningararf, sem hefur eflt þjóðinni kjark um aldir og er forsenda þess, að tilefni þykir til að hér búi sjálfstæð þjóð.