10.1.1998

Sýning myndskreyta

Fyrirmyndarfólk - sýning, í Ásmundarsal.
10. janúar 1998

Við komum hér saman í dag í tilefni af fyrstu sýningu Fyrirmyndar, samtaka myndskreyta innan Félags íslenskra teiknara.

Þegar haft er í huga, hve víða má sjá verk þeirra, sem að sýningunni standa, er undrunarefni, að fyrst í dag skuli myndskreytar taka höndum saman um að kynna myndir sínar með þessum hætti. Félagsmenn í Fyrirmynd hafa undanfarið gert átak átak til að skilgreina hlutverk sitt og stöðu meðal listamanna. Er þessi sýning liður í því átaki.

Myndskreytar er næsta óvenjulegt orð á íslensku. Sé ég í Lesbók Morgunblaðsins í morgun, að blaðamaðurinn veigrar sér við að nota orðið myndskreytingar, þar sem það gefi ranglega til kynna að teikningar séu einungis til skrauts, og skraut sé út af fyrir sig eitthvað ónauðsynlegt. Vill hann í stað þess nota orðið myndlýsing. Varla getum við þó talað um myndlýsa, enda er ég viss um, að unnt verður að vinna orðinu myndskreytir sess í móðurmálinu. Við þurfum tíma til að venjast því eins og til dæmis orðinu hönnun, þegar það var að ryðja sér rúms..

Á sínum tíma töldu menn hönnuði ónauðsynlega en nú er öllum ljóst, að hlutir, mannvirki og öll önnur mannana verk öðlast almennt aukið gildi, þegar alúð er lögð við útlit og alla gerð þeirra. Hið sama á við um þátt myndskreyta. Þeir skapa ekki aðeins eitthvað nýtt heldur draga athygli okkar að kjarnanum í verkum annarra. Á það við hvort sem texti er myndskreyttur eða minnt er á vöru eða viðburð með veggspjaldi eða annarri auglýsingu.

Nútímamenn þekkja verk myndskreyta frá blautu barnsbeini. Þeir eru oft leiðsögumenn ungra lesenda inn í heim bókmennta og kenna þeim að bera virðingu fyrir bókum.

Þróunin er á þann veg, að myndmálið verður sífellt mikilvægara. Myndskreytar láta ekki aðeins að sér kveða á blöðum og bókum heldur í kvikmyndum og sjónvarpi, á myndböndum, tölvum og netinu. Ný tækni hefur alls ekki útrýmt teikningunni.

Hvarvetna blasir handbragð myndskreyta við augum okkar. Er að sjálfsögðu mjög mikils virði, að kynna fyrir sem flestum og strax á ungum aldri hugmyndir, tækni og vinnu á bak við myndverkin. Þess vegna er gleðilegt, að til þeirrar sýningar, sem hér er opnuð, skuli ekki síst stofnað í þeim tilgangi að kynna verk myndskreyta fyrir kennurum og nemendum.

Fyrirmynd hefur kynnt sýninguna sérstaklega í grunn- og framhaldsskólum og sent þeim veggspjald í því skyni. Vona ég, að framtakið veki áhuga innan skólanna.

Er ekki síður mikilvægt fyrir nemendur að læra að skilja myndir en bókstafi og tölustafi. Einnig hefur verið bent á þá staðreynd, að myndmálið sé sá hluti umhverfis okkar, sem hafi mest áhrif á skynjun okkar og sýn á veröldina og því eigi uppfræðsla um eðli þess og túlkun að vera jafn sjálfsögð og annað málanám.

Þessu til áréttingar veitti menntamálaráðuneytið Fyrirmynd styrk til að kynna sýninguna sérstaklega fyrir skólafólki. Leiðin til að skilja mikilvægi myndmálsins liggur oft um hendur myndskreyta.

Sýningin hefur einnig þann tilgang að minna okkur á hlut og rétt myndskreyta sem höfunda. Eftir því sem miðlunum fjölgar verður flóknara fyrir höfunda að gæta réttar síns. Lög, reglur og alþjóðasamningar til að vernda höfundarréttinn taka sífellt á sig nýjar myndir.

Nú um áramótin tóku ný lög um Bókasafnssjóð höfunda gildi. Hafa slík lög ekki áður verið sett hér á landi. Er tilgangur þeirra að viðurkenna rétt höfunda, sem eiga verk í bókum á prenti, í hljóðriti og í stafrænu formi í bókasöfnum landsins. Mæla lögin fyrir um, að í fjárlögum ár hvert skuli veita framlag í Bókasafnssjóð höfunda og úr honum skuli síðan úthlutað til rithöfunda, þýðenda og myndhöfunda og annarra rétthafa, enda séu bækur þeirra notaðar í bókasöfnum, sem falla undir lögin.

Ég sé sérstaka ástæðu til að geta hinna nýju laga hér, vegna þess að með þeim er í fyrsta sinn viðurkennt, að myndhöfundar eða myndskreytar eigi rétt á greiðslum úr sjóði af þessu tagi. Hingað til hafa aðeins rithöfundar notið þessa réttar.

Í fjárlögum ársins 1998 er mælt fyrir um, að 17 milljónir króna renni í Bókasafnssjóð höfunda. Kemur það í hlut stjórnar sjóðsins að úthluta þessum fjármunum á grundvelli nýju laganna og reglugerðar, sem sett verður í samræmi við þau. Er stjórnin að hefja störf um þessar mundir og hef ég skipað Birgi Ísleif Gunnarsson seðlabankastjóra og fyrrverandi menntamálaráðherra formann hennar.

Góðir áheyrendur!

Hinna ungu samtaka myndskreyta, Fyrirmyndar, bíða mörg verkefni. Þau munu eins og önnur samtök einyrkja við listsköpun vinna að hagsmunamálum félagsmanna sinna. Við hin fáum að njóta afraksturs hins skapandi starfs. Ég óska Fyrirmynd og myndskreytum til hamingju með þessa fyrstu sýningu undir merkjum samtakanna og lýsi hana opna.