16.11.1998

Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu

16. nóvember 1998.

Við komum nú saman í þriðja sinn og höldum dag íslenskrar tungu hátíðlegan á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar.Guðmundur Björnsson landlæknir sagði um Jónas, þegar hann flutti stúdentum hugvekju um móðurmálið, sem kviknaði á aldarafmæli skáldsins árið 1907:„Við unnum Jónasi mest, af því að hann hefir manna best leitt í ljós, að nútíðarmálið, eins og það lifði og lifir enn á vörum alþýðunnar, er svo fjölskrúðugt, lipurt og hljómfagurt, ef rykið er hrist af, að því má með réttu skipa við hlið forntungunnar og í flokk merkustu tungumála heims.Jónas Hallgrímsson var upprisa og líf íslenskrar tungu.”Hvatti Guðmundur til þess, að þessum mesta ritsnillingi þjóðarinnar yrði reistur lifandi minnisvarði, vakin yrði ný, sílifandi, máttug viðleitni í þá átt, að vernda móðurmálið og auka fegurð þess og orðgnótt í ræðu og riti.Með degi íslenskrar tungu höfum við reist Jónasi Hallgrímssyni lifandi minnisvarða. Dagurinn er nú í fyrsta sinn haldinn á skóladegi. Ber að fagna því sérstaklega hve margir kennarar og nemendur, einkum í leikskólum og grunnskólum, hafa tekið vel þeirri hvatningu, sem felst í deginum.Móðurmálinu verður aldrei gert nægilega hátt undir höfði í skólum, að minnsta kosti ekki að mati þeirra, sem hafa mestan metnað fyrir þess hönd. Í nútímasamfélagi nýtur einstaklingurinn sín ekki sem skyldi nema hann geti staðið upp og tjáð sig frjálslega og með góðu valdi á tungu sinni. Öll viljum við geta lýst viðhorfi okkar til almennra mála og eigin skoðunum í ræðu og riti á þann veg, að aðrir taki tillit til sjónarmiða okkar.Skólar hafa ýmsar leiðir til að þroska þessa hæfileika nemendanna. Við gerð nýrra námskráa er lögð rík áhersla á, að góð kunnátta í móðurmálinu er lykill að velgengni í öllum námsgreinum.Veturinn 1996 til 1997 var í fyrsta sinn efnt til upplestrarkeppni barna í sjöunda bekk í grunnskólum Hafnarfjarðar auk Álftanesskóla. Tókst keppnin svo vel, að forgöngumenn hennar að frumkvæði Baldurs Sigurðssonar, lektors í Kennaraháskóla Íslands, ákváðu að stofnað skyldi til landskeppni og var efnt til hennar í fyrsta sinn á síðasta skólaári.Í ár hefst upplestrarkeppnin hér á þessari samkomu í Hafnarborg á degi íslenskrar tungu. Markmið hennar er að vekja athygli og áhuga í öllum grunnskólum á vönduðum upplestri og framburði. Keppnin gefur kennurum einnig tækifæri til að leggja markvissa rækt við þennan mikilvæga þátt móðurmálsins.Hafnfirðingar láta ekki staðar numið við þetta brautryðjendastarf í þágu móðurmálsins innan grunnskólans. Menningarmálanefnd Hafnarfjarðar, skólanefnd og skólaskrifstofa auk Samtaka móðurmálskennara hafa nú tekið höndum saman um smásagnasamkeppni meðal nemenda í níunda bekk grunnskólans. Er þeirri keppni hleypt af stokkunum í dag. Í þessari keppni reynir á ritleikni þátttakenda og ýtt er undir áhuga þeirra á bókmenntum.Allt fellur þetta einstaklega vel að hugmyndinni um dag íslenskrar tungu.

Minningin um Jónas Hallgrímsson og þessi dagur varð hinum frábæra íslenskumanni Helga Hálfdanarsyni hvatning til að rita grein í Morgunblaðið snemma árs 1997 og varpa fram þeirri hugmynd til íhugunar og væntanlegra viðbragða, að þjóðtungunni yrði helgaður einn dagur á alþjóðavettvangi.Helgi hvatti til þess, að Íslendingar beittu sér fyrir alþjóðlegum degi þjóðtungunnar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Benti hann á, að sú staðreynd væri uggvænleg, að tungumálum heimsins færi hraðfækkandi, svo að óðfluga stefndi í þá átt, að örfá mál, jafnvel eitt, yrði alls ráðandi.Ætla mætti, að hvatning Helga Hálfdanarsonar hefði borist til Federicos Mayors, forstjóra Menningar- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO í París, því að á dögunum tilnefndi hann frú Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, sérlegan sendiherra tungumála á vegum UNESCO.Í þessari tilnefningu felst ekki aðeins mikil viðurkenning fyrir frú Vigdísi heldur einnig fyrir okkur Íslendinga og alla, sem vilja á alþjóðavettvangi standa vörð um þjóðtunguna. Hinn nýi sendiherra UNESCO gegnir mikilvægu alþjóðlegu hlutverki í því skyni að varðveita tungumál í heiminum og auka veg þeirra.Tölur eru nokkuð á reiki, þegar rætt er um fjölda tungumála í veröldinni. Í þeim umræðum nefna sumir 3000 tungumál en aðrir 6000. Hvað sem því líður eru fimm tungur móðurmál 45 af hundraði íbúa heims; mandarín, enska, hindí, spænska og rússneska. 95 af hundraði allra jarðarbúa mæla á hundrað algengustu tungumálin. Þau fimm af hundraði sem eftir eru skiptast á fimm til sex þúsund tungumál.Ég hef oftar en einu sinni átt þess kost að ræða við starfsbróður minn frá Papúa á Nýju-Gíneu um örlög tungumála. Í landi hans eru talaðar um 800 ólíkar tungur, ekki mállýskur, heldur þjóðtungur. Eru 700 þeirra taldar í hættu en ráðherrann hefur snúið vörn í sókn og ætlar nú í krafti nýju upplýsingatækninnar að standa vörð um öll þessi tungumál.Nefni ég þetta dæmi til marks um, að vissulega er það víðar en hér á landi, sem menn stíga á stokk og strengja þess heit að varðveita móðurmálið sitt góða. Verkefni okkar er tiltölulega einfalt miðað við baráttu margra annarra. Í sumum löndum er yfirvöldum beinlínis í nöp við, að menn noti móðurmál sitt. Þar er það talið til marks um viðleitni til að rjúfa samheldni ríkisins.Gamlir menningarkraftar eru að leysast úr læðingi. Þjóðtungur hefjast til vegs og virðingar á ný. Þegar völd Sovétríkjanna voru mest var rússneska ekki aðeins samskiptamál frá Prag til Hanoi, þjóðum var innrætt, að hún væri rétthærri en móðurmál þeirra.Án þjóðtungu getur engin fullveðja þjóðleg menning blómgast og hver menning, sem líður undir lok er ekki aðeins tjón fyrir viðkomandi þjóð heldur mannkyn allt. Víða um Evrópu má sjá þess merki, að þjóðleg menning er að eflast á nýjan leik. Á þetta ekki aðeins við um mið- og austurhluta álfunnar heldur einnig löndin í vestri.Nýlega heimsótti ég Bretagne-skaga í Frakklandi. Um miðja þessa öld var talið að um ein milljón manns hefði mælt á bretónska tungu. Frönskum stjórnvöldum hefur til skamms tíma verið í nöp við þennan þjóðernisminnihluta eins og aðra. Fræg voru veggspjöld veitingahúsa í Rennes með textanum: „Bannað að hrækja á gólfið og tala bretónsku.”Eftir þessa stuttu heimsókn til Bretagne er ég þeirrar skoðunar að vegur bretónsku sé að vaxa á ný. Íbúar á skaganum leggja aukna rækt við keltneskan uppruna sinn og í sumar buðu þeir meðal annars Tjarnarkvartettinum héðan frá Íslandi til þátttöku í hátíðarhöldum í því skyni að efla hinn keltneska menningararf. Íslensk skáld og rithöfundar hafa einnig tekið þátt í skáldaþingum Bretóna.Góðir áheyrendur!Menningarleg fjölbreytni þrífst ekki án virðingar fyrir þjóðtungunni. Í samtímanum á öld upplýsinga og þekkingar skiptir miklu, að stjórnmálalegum eða tæknilegum aðferðum sé ekki beitt til að hindra þjóðir við að rækta tungu sína og menningu. Á okkur hvílir einnig sú skylda að gera hverjum einstaklingi kleift að njóta sín sem best í krafti móðurmálsins, að hver og einn geti tjáð tilfinningar sínar og skoðanir með skiljanlegum hætti.Dagur íslenskrar tungu er ekki aðeins til marks um sílifandi, máttuga viðleitni í þá átt, að vernda móðurmálið og auka fegurð þess og orðgnótt í ræðu og riti. Dagurinn er okkur einnig áminning um að þjóðtungan er forsenda þjóðlegrar menningar.Föðurlandsást Jónasar Hallgrímssonar er einlæg og án stóryrða. Hann gleðst af öryggi yfir því, hve landið er gott, tignarlegt og fagurt. Jónas efast ekki um, að á Íslandi muni búa „frjálsir menn, þegar aldir renna.” Og hann kvað um fjallið Skjaldbreiður:Hver vann hér svo að með orku?

Aldrei neinn svo vígi hlóð!

Búinn er úr bálastorku

bergkastali frjálsri þjóð.

Drottins hönd þeim vörnum veldur;

vittu, barn! sú hönd er sterk;

gat ei nema guð og eldur

gjört svo dýrðlegt furðuverk.Til hamingju með dag íslenskrar tungu !