14.11.1998

Ljósvakamiðlar og íslensk tunga - málræktarþing

Málræktarþing
14. nóvember 1998.

Ljósvakamiðlar og íslensk tunga

Málræktarþing er orðinn árviss atburður í tengslum við dag íslenskrar tungu. Þakka ég Íslenskri málnefnd fyrir þetta framtak, sem að þessu sinni er í samvinnu við Útvarpsréttarnefnd.

Á málræktarþingi gefst tækifæri til að ræða mikilvæg verkefni líðandi stundar og líta fram á veg. Á síðasta ári gat ég um nauðsyn þess að þýða hugbúnað fyrir tölvur á íslensku. Var athyglinni sérstaklega beint að hinu risavaxna Microsoft-fyrirtæki. Er ánægjulegt að geta skýrt frá því hér, að verulega hefur miðað í viðræðum menntamálaráðuneytis og Ríkiskaupa við fulltrúa Microsofts um að algengasti hugbúnaður fyrirtækisins verði til á íslensku.

Í dag er lögð fyrir okkur spurningin: Efla ljósvakamiðlar íslenska tungu?

Fyrir ljósvakamiðla í vaxandi samkeppni skiptir sköpum að huga að málfari sínu. Enginn hefur áhuga á að hlusta á þann, sem orðar hugsun sína svo illa og óskýrt, að hann verður óskiljanlegur. Þá sættir sig ekki heldur neinn við hirðuleysi í meðferð tungumálsins, sé mönnum á annað borð annt um tungu sína.

Góð framsögn, og virðing fyrir tungunni með lýtalausri notkun hennar er lykill að velgengni á öldum ljósvakans. Enginn yrði lengi áskrifandi að blaði, sem væri illa skrifað, birti ruglingslegar fréttir, prentvillur og augljósan málsóðaskap. Hvers vegna skyldu önnur lögmál gilda um ljósvakamiðla? Það er hins vegar erfiðara að henda reiður á öllu því, sem þar er sagt og gagnrýna með jafnmarkvissum hætti og ritað mál.

Ástæðan fyrir því, að útvarpsréttarnefnd á aðild að þessari ráðstefnu er meðal annars það ákvæði núgildandi útvarpslaga, að útvarpsstöðvar skuli stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu, þá er það einnig tekið fram í sömu lagagrein, að útvarpsstöðvar skuli kosta kapps um að meiri hluti útsendrar dagskrár sé íslenskt dagskrárefni og dagskrárefni frá Evrópu.

Útvarpslögin eru frá 1985 og hefur oft verið áformað að endurskoða þau. Ég hef nú fengið samþykki ríkisstjórnarinnar fyrir því að leggja frumvarp til nýrra útvarpslaga fyrir Alþingi og hefur það verið kynnt þingflokkum stjórnarflokkanna. Þetta er hinn almenni hluti þessarar löggjafar, sá þáttur hennar, sem fjallar um útvarpsstarfsemi almennt en ekki sérstaklega um Ríkisútvarpið.

Í kaflanum, sem heitir skyldur útvarpsstöðva, segir, að þær skuli stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu. Þó skuli heimilt, ef sérstaklega stendur á, að veita leyfi til útvarps á öðrum tungumálum en íslensku. Sjónvarpsstöðvar eiga að kosta kapps um, að meirihluta útsendingartíma sé varið fyrir íslenskt dagskrárefni og annað dagskrárefni frá Evrópu.

Það er nýmæli í þessu frumvarpi, að heimilt er að veita leyfi til útvarps á öðrum tungumálum en íslensku, ef sérstaklega stendur á. Er þetta ákvæði sett til þess að unnt sé að sinna þörfum útlendinga, sem hér kunna að dveljast um lengri eða skemmri tíma, og er þá hljóðvarp fyrst og fremst haft í huga. Þykir rétt vegna jafnréttis og tjáningarfrelsis að orða þessa heimild berum orðum í lögum, þó að ekki sé gert ráð fyrir ásókn í að reka hér á landi stöðvar til útvarps á öðrum tungumálum en íslensku. Í greinargerð með frumvarpinu segir síðan, að frá sjónarmiði málverndar sé auðvitað aðalatriðið, að starfsmenn þeirra útvarpsstöðva, sem útvarpa á íslensku, tali rétt og vandað mál.

Í umræðum um ljósvakamiðla og málrækt er mikilvægt, að gerður sé skýr greinarmunur á því, hvort um er að ræða útvarp á íslensku eða erlendum málum. Ég er þeirrar skoðunar, að vitlaus meðferð á íslensku og óvandað mál eigi ekkert skylt við það, að menn eigi auðvelt með að nálgast útvarps- eða sjónvarpssendingar á erlendum tungumálum. Góð þekking á erlendu tungumáli spillir ekki sjálfkrafa fyrir kunnáttu í eigin móðurmáli, þvert á móti er tungumálanám mikilvægt markmið í sjálfu sér og ekki á að útiloka neina samskiptatækni á þeim forsendum, að hún auðveldi mönnum að kynnast nýjum tungumálum. Verst er að kunna ekki neitt tungumál til hlítar.

Tungutækni er nýtt hugtak í umræðum um íslensku eins og önnur tungumál. Þessi tækni gerir tölvum kleift að lesa til dæmis íslenskan texta og þýða hann vélrænt á erlenda tungu, skilja mælt íslenskt mál og breyta því í texta eða tala íslensku. Þegar hefur verið þróaður hugbúnaður af þessu tagi fyrir enskt málsamfélag, en hann skilar ekki enn fullkomnum árangri. Sumir spá því, að kínverska málsamfélagið verði hið fyrsta til að tileinka sér þessa tækni til fullnustu, bæði vegna þess hve fjölmennt það er og einnig vegna hins, að hljóðtákn kínverskunnar falli einkar vel að þessari tækni.

Augljóst er, að við Íslendingar verðum að leggja í mikla vinnu og töluverðan kostnað til að tryggja að móðurmál okkar verði ekki sett til hliðar vegna þessarar þróunar í tölvutækni.

Í framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið segir meðal annars, að standa beri vörð um íslenska tungu enda verði henni beitt í grunnþáttum upplýsingatækni og tölvutæk gögn, hvers kyns fróðleikur og menningarefni verði á íslensku, svo sem kostur er.

Menntamálaráðuneytið hefur ráðið Rögnvald Ólafsson, dósent við Háskóla Íslands, til að stjórna rannsókn á stöðu og möguleikum tungutækni á Íslandi. Í rannsókninni á að svara spurningunni: Hvað er tungutækni? Þeir eru margir, sem gera sér ekki grein fyrir, hvað stendur á bakvið þetta nýyrði. Þá á í skýrslunni að lýsa stöðu mála hér á landi, fjalla um hið ritaða mál, tölvulestur, staðla og letur, þýðingar, leit í erlendum gagnabönkum, tölvutal og tölvuheyrn, texta í tal og tal í texta. Einnig á í skýrslunni að meta kostnað við að gera íslenskt mál meðfærilegt tölvum og þeirri tækni sem nú er fyrirsjáanleg á þessu sviði. Í niðurstöðunum á að felast ráðgjöf til menntamálaráðherra um nauðsynlegar aðgerðir stjórnvalda og hvernig best verði staðið að þeim. Taka skal mið af þörfum samfélagsins í heild. Er að því stefnt, að Rögnvaldur Ólafsson skili skýrslu sinni um þetta mál í upphafi næsta árs.

Í frumvarpi til nýrra útvarpslaga er menntamálaráðherra veitt heimild til að hefja undirbúning að stafrænu útvarpi. Í þessari heimild felst fyrirheit um að tekið verði að ræða þessar tæknibreytingar frá íslenskum sjónarhóli og hvernig unnt sé að staðfæra þær hér. Stafrænt útvarp, sjónvarp og hljóðvarp, er nú hafið í nágrannalöndunum eða er um það bil að hefjast, að minnsta kosti á tilraunastigi.

Hin stafræna tækni gefur mikla möguleika til að nýta tíðnisviðið betur en nú er gert, og er þessi tækni þannig meðal annars meginforsenda þess, að fleiri aðilar geti hafið raunverulega samkeppni, sérstaklega í sjónvarpi, auk víðtækari nota á tíðnisviðinu.

Öll nýting VHF-tíðnisviðsins er nú í raun og veru aðeins í höndum tveggja aðila, Ríkisútvarpsins og Íslenska útvarpsfélagsins hf.. Auk betri nýtingar á tíðnisviðinu mun sá kostur fylgja stafrænu útvarpi, að gæði útsendinga aukast til mikilla muna auk fjölmargra annarra kosta, svo sem að skapa möguleika á þáttasölusjónvarpi, pay per-view, og kvikmyndapöntun, video on demand. Hin stafræna tækni er forsenda hins svokallaða samruna, convergence, sjónvarps, fjarskipta og tölvutækni í eitt svið með óljósum landamærum eða án landamæra. Gera verður ráð fyrir, að innleiðing stafrænu tækninnar taki allmörg ár og hafi í för með sér verulegan kostnað.

Góðir áheyrendur!

Íslensk málnefnd og Útvarpsréttarnefnd spyrja: Efla ljósvakamiðlar íslenska tungu? Í spurningunni felst vafi eða óvissa.

Ég er ekki í neinum vafa um, að íslensk tunga væri verr á vegi stödd, ef við hefðum ekki íslenska ljósvakamiðla. Þeir eru bráðnauðsynlegir fyrir tungu okkar og menningu. Miðlarnir verða hins vegar að starfa með málfarslegan metnað að leiðarljósi.

Dagleg varðstaða ljósvakamiðla um íslenska tungu skiptir sköpum. Þegar litið er fram á veg og á tæknilega þróun sýnast þrír þættir ráða mestu um, að ljósvakamiðlar efli íslenska tungu.

Í fyrsta lagi, að starfsmenn þeirra kunni íslensku og sýni henni virðingu, verði öllum hlustendum góð fyrirmynd, þó ekki síst ungu fólki.

Í öðru lagi, að við nýtum tungutækni í þágu íslenskunnar og styrkjum tunguna þannig stafrænt í sessi. Tæknin má ekki ýta íslensku til hliðar.

Í þriðja lagi verði tölvutæk íslenska fléttuð inn í alla stafræna þróun útvarpsreksturs á Íslandi.

Okkur ber að nýta tæknina til hins ýtrasta í þágu íslenskrar tungu. Ljósvakamiðlar eru ómetanlegir til þess, ef rétt er á málum haldið.

Ég ítreka þakkir mínar til þeirra, sem standa að málræktarþinginu. Hvet ég alla, sem hér eru til að minnast fæðingardags Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember, með því að auka veg íslenskrar tungu.