20.9.1998

Sjálfstæðisbarátta Íslendinga - erindi í Færeyjum

Sjálfstæðisbarátta Íslendinga.
Erindi í Færeyjum
20. september 1998


Í upphafi máls míns vil ég þakka fyrir að fá tækifæri til að koma hingað og ræða um sjálfstæði Íslands og hvernig það hefur þróast.

Mér er sérstaklega kært að þakka hinum færeyska starfsbróður mínum Signar á Brúnni fyrir heimboðið. Þótt skömm sé frá að segja, er þetta í fyrsta sinn, sem ég kem til Færeyja, áður hef ég þó bæði séð hinar fögru eyjar úr lofti og af sjó, en aldrei áður stigið hingað fæti.

Það hefur síður en svo dregið úr væntingum mínum eftir að komast hingað, að Rut Ingólfsdóttir eiginkona mín hefur ferðast um eyjarnar og leikið á fiðlu sína í kirkjum, samkomuhúsum og hér í þessu húsi, sem í ár fagnar 15 ára afmæli sínu. Minningarnar, sem hún hefur fært með sér heim aftur eru hlýjar og góðar. Segja má, að þær endurspegli almennt hinn góða hug, sem Íslendingar bera til granna sinna og frænda í Færeyjum. Þegar mikið hefur legið við og ekki síst eftir slys og náttúruhamfarir hefur aldrei brugðist, að Færeyingar sýna okkur einnig vinarhug sinn í verki. Fyrir það verður aldrei fullþakkað.

Samskipti þjóða okkar hafa þróast og dafnað á gleðilegan hátt unfanfarna áratugi. Þau taka á sig ýmsar myndir og eru að sjálfsögðu ekki bundin við það, sem fer á milli stjórnmálamanna. Um miðjan ágúst síðastliðinn var til dæmis efnt til færeyskra daga í Snæfellsbæ við hinn mikla Snæfellsjökul, sem blasir tignarlega við í vestri frá Reykjavík. Þar var mikil og góð skemmtun með þátttöku frá Færeyjum og lék hljómsveitin Twilight til dæmis fyrir troðfullu húsi í Klifi í Ólafsvík. Framtakið vakti verðuga athygli og varð meðal annars tilefni til þess, að flokksbróðir minn Árni Johnsen alþingismaður, sem er óþreytandi í viðleitni sinni til að styrkja samband landanna, ritaði grein í Morgunblaðið, stærsta dagblað okkar, og hvatti til þess, að við Íslendingar ræktuðum og ykjum samstarfið við Færeyinga, sýndum þeim mesta virðingu og vináttu, því að við værum á sama báti og Færeyingar í menningarlegu tilliti og aðstæðum öllum, auðvelt væri fyrir Færeyinga og Íslendinga að vinna saman, því að hugsunin væri hin sama. Síðan kemst eldhuginn Árni þannig að orði: „Það er mikill fengur að því fyrir okkur skjóthuga Íslendinga að vinna með Færeyingum í þeirra stóísku en markvissu ró."

Nú lesum við og heyrum, að Færeyingar líti til reynslu okkar, þegar þeir íhuga að auka sjálfstæði sitt og breyta samskiptum sínum við Dani. Við Íslendingar erum að sjálfsögðu áhugasamir um þróun þessara mála og munum styðja allar ákvarðanir færeyskra stjórnvalda í þeim. Ekki er ætlan okkar að hlutast til um málið og allra síst viljum við blanda okkur í viðkvæmar stjórnmálaumræður um það meðal Færeyinga.

Í orðum mínum hér vil ég leitast við að skýra nokkra höfuðþætti, sem ástæða er til að hafa í huga, þegar litið er til sjálfstæðisbaráttu okkar Íslendinga. Ég hef ekki nokkrar forsendur til að bera þróunina á Íslandi saman við það, sem er eða hefur verið að gerast í Færeyjum. Hitt er ljóst, að hjá báðum þjóðunum gerðist það um miðbik síðustu aldar, að áhugi á tungu þeirra og þjóðerni jókst á sama tíma og frelsisvindar fóru um Evrópu, þegar einvaldskonungar afhentu kjörnum fulltrúum fólksins völd sín.

Itamar Even-Zohar er ísraelskur menningarfræðingur, sem hefur lagt sig fram um að skilgreina stöðu þjóða á jaðarsvæðum. Teljast Færeyingar og Íslendingar til slíkra þjóða. Menningarfræðingurinn hefur dvalist nokkuð á Íslandi og einnig hefur hann heimsótt annað eyland á Norður-Alantshafi, Nýfundnaland. Kenning hans er sú, að jaðarsvæðin hafi mikla þörf fyrir að brjóta sér leið inn á miðjuna. Telur hann sjálfstæðisbaráttu Íslendinga til marks um, að þetta hafi tekist. Hins vegar hafi þessi barátta mistekist hrapallega á Nýfundnalandi, þjóðin varð gjaldþrota og nú er Nýfundnaland hluti af Kanada. Í nýlegu samtali við Morgunblaðið komst Itamar þannig að orði:

„Þetta [reynslan frá Nýfundnalandi] er dæmi um jaðarsvæði sem ákvað að vera það áfram. Þegar keyrt er um nyrðri hluta vesturstrandar Nýfundnalands nú sést fátt annað en þorp í niðurníðslu. Þarna er mikil fátækt og hægt er að fá það á tilfinninguna að maður sé staddur í þriðjaheimsríki. Þarna bjó tiltölulega velmegandi þjóð. Við sjáum svona jaðarsvæði víðar, til dæmis í suðurhluta Frakklands, á Bretaníuskaga og jafnvel í Bandaríkjunum. Fólk á þessum svæðum hefur hvorki pólitíska né menningarlega getu eða orku til að skipuleggja sig og brjóta sér leið inn á miðjuna. Og meðan svæðinu er stjórnað af miðjunni, fólki sem er annars staðar, er engin von til þess að staða þeirra og ástand breytist. Erfitt er að segja til um hvers vegna Íslandi tókst þetta en Nýfundnalandi ekki. Svo virðist sem munurinn sé einfaldlega sá að Nýfundnaland skorti kraft, sjálfstraust og trú á að það gæti orðið að miðju. Á þetta skorti hins vegar ekkert hjá Íslendingum. Saga ykkar er raunar með ólíkindum. Hin viðtekna hugmynd um hlutverk Jóns Sigurðssonar er goðsögn, verk hans og sögu sjálfstæðisbaráttunnar yfirleitt þarf að rannsaka betur."

Hér ætla ég, að skjóta inn þeirri skýringu, að Jón Sigurðsson er sjálfstæðishetja okkar Íslendinga. Hann var kjörinn leiðtogi þjóðarinnar um miðja síðustu öld, fræðimaður í Kaupmannahöfn og alþingismaður, sem lagði hugsjónalegan grunn að sókn okkar til sjálfstæðis. Þjóðhátíðardagur okkar, 17. júní, er afmælisdagur hans. Þá gef ég Itamar frá Ísrael aftur orðið:

„Við getum til samanburðar ímyndað okkur Tasmaníubúa sem heldur yfir á meginland Ástralíu og fer að halda ræður um að Tasmanía hljóti sjálfstæði. Þessi maður yrði varla tekinn mjög alvarlega; honum yrði hugsanlega boðið í kaffi hjá einhverjum embættismanni en flestir myndu bara brosa út í annað. En hvers vegna hlaut Jón Sigurðsson áheyrn? Hvers vegna var hann tekinn alvarlega? Hann hafði ekkert bakland, samt gat hann skapað Íslendingum framtíð. Þetta hefur aldrei verið skýrt. Við vitum heldur ekki hvernig þessir menn sem voru að skrifa um efni sem komu þessari baráttu við tengdust. Þeir voru varla fleiri en 25 til 30. Við vitum ekki hvernig textar þeirra og gjörðir mótuðu hina íslensku þjóðarvitund, sjálfsmynd þjóðarinnar. Við vitum ekki hvernig þessir menn skipulögðu sig og síst af öllu vitum við hvernig þeir komust til valda. Það er hægt að skoða hvað þessir menn hugsuðu um en það er erfiðara að sjá hvernig þeim tókst að breyta því hvernig Íslendingar sáu sjálfa sig. Þetta er verðugt og hnýsilegt verkefni sem enn hefur lítið verið unnið í hér."

Margt er enn óskýrt, þegar leitast er við að brjóta til mergjar, hvers vegna Íslendingar völdu þá leið, sem þeir gerðu í þann mund, sem konungur þeirra tók að létta á þeim einveldistökin. Hin klassíska skýring er, að með íslenskri tungu hafi sérstakt þjóðerni, sérstakir siðir og sérstök menning varðveist. Með tungunni hafi meðvitundin um sérstöðu Íslendinga gagnvart norrænum frændþjóðum ávallt lifað með þjóðinni. Íslendingar hafi litið þannig á, að sérstök tunga og sérstök menning skapaði þeim sögulegan og eðlilegan rétt til fullkomins sjálfstæðis.

Þegar Danir lýstu sambandi Íslands og Danmerkur á 19. öld kölluðu þeir Ísland biland eða hjálendu. Sjálfir fóru Danir að mjakast í átt til lýðræðis eftir 1830 og þurftu þá að taka afstöðu til stöðu Íslands í hinu nýja stjórnkerfi. Íslendingar fengu óbeðið tvo fulltrúa á ráðgjafarþingi konungs fyrir dönsku eyjarnar. Þar með var land þeirra flokkað með eyjunum milli Jótlands og Svíþjóðar. Þetta varð til þess að íslenskir menntamenn og stúdentar í Kaupmannahöfn hófu baráttu fyrir því, að Íslendingar fengju eigið ráðgjafarþing í eigin landi, Alþingi yrði endurreist. Þetta náði fram að ganga og 1845 kom Alþingi saman í húsi Latínuskólans í Reykjavík, skipað bændum og embættismönnum.

Við fall danska einveldisins 1848 töldu Íslendingar undir forystu Jóns Sigurðssonar, að á sama hátt og danska þjóðin tók við valdi konungs í Danmörku, ætti íslenska þjóðin að taka við valdi hans á Íslandi. Fóru þeir þess á leit, að á Íslandi yrði kallaður saman þjóðfundur með sama valdi í málum Íslands og stjórnlagaþingið danska í málum Danmerkur. Þjóðfundurinn var haldinn 1851. Þar buðu Danir Íslendingum engin kostakjör, því að staða Íslands átti að verða svipuð héruðum í Danmörku og vald Alþingis hið sama og æðri sveitastjórna þar í landi. Mótmælti Jón Sigurðsson og meginþorri fundarmanna þessari tillögu og framgöngu Dana.

Engin niðurstaða fékkst á þessum fundi og dönsk stjórnvöld, ríkisdagur og stjórn, fóru með íslensk mál að eigin geðþótta og hið ráðgefandi Alþingi fékk sömu stöðu gagnvart þessum fulltrúum dönsku þjóðarinnar, sem það hafði áður haft gegn konungi. Aukið frelsi dönsku þjóðarinnar í hennar eigin landi varð til þess að fá henni yfirráð í íslenskum málum, sem hún hafði aldrei haft áður, heldur höfðu þau verið í hendi konungs. Markmið Íslendinga var að flytja valdið úr hendi konungs inn í eigið land og í hendur íslensku þjóðarinnar, en ekki í hendur danskra stjórnvalda.

Að lokum fór svo, að ríkisþingið danska og konungurinn settu, án samþykkis Alþingis og án þess að lögin hefðu verið borin undir það, árið 1871 lög um hina stjórnarlegu stöðu Íslands í ríkinu. Segir þar, að Ísland sé óaðskiljanlegur hluti Danaveldis með sérstökum landsréttindum og eru hin sérstaklegu málefni Íslands síðan talin. Þau voru lög og dómgæsla, þó ekki hæstiréttur, kirkja, skólar, heilbrigðismál, sveitarstjórn, samgöngur, atvinnuvegir, skattar, opinberar eignir og stofnanir. Þá var komið á fót embætti landshöfðingja til að fara með æðsta vald á Íslandi í stað stiftamtmanns. Stöðulögin voru ekki lögð fyrir Alþingi og mótmælti þingið þeim 1871 undir forystu Jóns Sigurðssonar og lýsti yfir, að þau gætu ekki verið bindandi fyrir Ísland.

Hvað sem því leið voru það stöðulögin, sem mörkuðu Íslandi sess í Danaveldi til ársins 1918, þegar sambandslögin leystu þau af hólmi. Hefur tökum Dana á Íslendingum í þessa tæpu hálfu öld frá 1871 verið lýst þannig, að yfirráð þeirra hafi hvílt á einberu valdi, einskæru ofbeldi þess, sem meiri háttar er. Börðust Íslendingar hart fyrir því að fá stöðu sinni innan ríkisheildarinnar breytt.

Með samþykki dönsku stjórnarinnar og að fyrirlagi hennar, árið 1874, setti konungur stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands. Setja ákvæði þessarar stjórnarskrár enn meginsvip á íslensku stjórnarskrána. Þrátt fyrir fullt sjálfstæði þjóðarinnar, hefur aldrei tekist pólitísk samstaða um endurskoðun hennar, samt hafa verið gerðar ítrekaðar tilraunir til heildarendurskoðunar og margar stjórnarskrárnefndir setið.

Ráðherrastarf fyrir Ísland var í lok síðustu aldar aukastarf eins ráðherranna í dönsku ríkisstjórninni. Ráðherrann bar ekki ábyrgð gagnvart Alþingi, og lögum, sem Alþingi samþykkti, var oft synjað af konungi. Landshöfðinginn laut vilja dönsku stjórnarherranna í öllu, sem verulega skipti máli. Magnús Stephensen, sem gegndi landshöfðingjaembættinu lengst, sagðist hafa verið eins og lús milli tveggja nagla, Alþingis og stjórnarinnar dönsku.

Það var ekki fyrr en eftir stjórnarskipti í Danmörku 1901, þegar þingræðisstjórn settist þar að völdum og í henni sátu menn, sem þekktu suma íslenska ráðamenn frá stúdentsárum þeirra í Kaupmannahöfn, að danska stjórnin heimilaði Alþingi að velja á milli þess, hvort það vildi heldur, að Íslandsráðherrann yrði búsettur á Íslandi eða í Kaupmannahöfn. Kaus Alþingi Reykjavík og varð Hannes Hafstein fyrsti ráðherra Íslands með búsetu þar snemma árs 1904, hvarf þá landshöfðingjaembættið úr sögunni.

Um aldamótin 1900 bjuggu tæplega 7.000 manns í Reykjavík en alls nærri 80.000 í landinu öllu. Í tæknilegum efnum voru Íslendingar meðal frumstæðustu þjóða Evrópu, 80% þjóðarinnar lifðu á kvikfjárrækt og fiskveiðum, 7% á iðnaði og 9% á verslun og þjónustu. Vegir voru varla nokkrir í landinu og raunar þekktu landsmenn tæplega hjólið. Þetta breyttist þó fljótt upp úr aldamótunum og vélvæðing fiskiskipastólsins hófst, keyptir voru togarar með gufuvélum, fram undir 1918 varð sú breyting, að næstum allur fiskiskipaflotinn varð knúinn vélum. Verslun fluttist einnig í vaxandi mæli á innlendar hendur á þessum árum. Fyrstu fræðslulögin tóku gildi 1908 og árið 1911 var Háskóli Íslands stofnaður.

Augljóst er, að mikilvæg þáttaskil urðu í þróun íslenska þjóðfélagsins, eftir að ráðherrann varð íslenskur og með búsetu í Reykjavík. Hið aukna stjórnarfarslega sjálfstæði varð til þess, að nýr kraftur færðist í andlegt og verklegt framtak þjóðarinnar.

Deilurnar um stöðuna innan Danaveldis héldu þó áfram. Nú snerust þær helst um það, að ráðherrann skyldi bera lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir upp fyrir konung í ríkisráði. Var þetta túlkað á þann veg, að viðurkennt væri, að Ísland væri hluti af dönsku ríkisheildinni, danskir ráðherrar gætu skipt sér af íslenskum málum. Danskur fáni blakti á Íslandi. Danir ákváðu myntina. Hæstiréttur Dana hafði æðsta dómsvald í íslenskum málum. Dönsk varðskip önnuðust landhelgisgæsluna, enda voru hervarnir í þeirra höndum. Danir höfðu utanríkismál Íslands að öllu leyti í sínum höndum. Íslenskur ríkisborgararéttur var ekki viðurkenndur, heldur einungis danskur, og Danir höfðu sama rétt á Íslandi og Íslendingar.

Hart var tekist á um það á Alþingi, hver skyldi verða staða Íslendinga í dönsku ríkisheildinni. Hannes Hafstein og stuðningsmenn hans sömdu um málið við dönsk stjórnvöld 1907. Þetta samkomulag varð að miklu pólitísku deilumáli meðal Íslendinga og var því hafnað með miklum meirihluta í alþingiskosningum 1908. Leiddu þessar kosningar til mikillar ringulreiðar í stjórnmálabaráttunni.

1913 heimilaði konungur Íslendingum að draga upp sérstakan fána sinn hvarvetna í landi sínu og innan landhelgi. Það var þó ekki fyrr en 1915, sem Íslendingar ákváðu þrílita gerð þjóðfána síns, fram til þess höfðu þeir notað bláhvítan fána sem þjóðtákn landsins.

Þótt ekki hafi það verið rakið sérstaklega hér er nauðsynlegt að hafa í huga, þegar afstaða Dana er metin, að þeir tóku gjarnan mið af hagsmunum sínum gagnvart Þjóðverjum á Suður-Jótlandi við ákvarðanir um Ísland. Í fyrri heimsstyrjöldinni, 1914 til 1918, höfðu Vesturveldin að markmiði að auka sjálfsákvörðunarrétt þjóða og ekki síst frjálsræði smáþjóða. Vildu Danir, að þessi réttur Suður-Jóta til að ákveða framtíð sína yrði viðurkenndur. Var erfitt fyrir þá, að halda þeim málstað fram en hafna jafnframt sjálfstæðiskröfum Íslendinga. Stuðlaði þetta mjög að því snemma árs 1918, að danska ríkisstjórnin varð þess hvetjandi að samið yrði við Íslendinga um sjálfstæðiskröfur þeirra.

Hvor aðili tilnefndi fjóra menn til viðræðna. Þeir nutu allir mikils trausts í löndum sínum. Samningar tókust um sumarið 1918 og samþykkti Alþingi sambandslögin um haustið með öllum atkvæðum gegn tveimur. Ég má til með að geta þess, að afi minn, Benedikt Sveinsson, var annar þeirra, en hann taldi ekki nógu langt gengið til móts við sjálfstæðiskröfur Íslendinga með lögunum. Því næst fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla og voru lögin samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta kjósenda. Í Danmörku voru þau einnig samþykkt á lögformlegan hátt með mótspyrnu íhaldsmanna einna þar í landi. Hlutu þau loks staðfestingu konungs og gengu í gildi 1. desember 1918.

Fyrir Ísland höfðu sambandslögin einkum það gildi, að þá viðurkenndu Danir, að Ísland væri frjálst og fullvalda ríki. Þeir féllu frá því viðhorfi, að Ísland væri óaðskiljanlegur hluti Danaveldis. Landið varð í framkvæmd laust úr ríkisheild Danmerkur. Íslendingar gengust undir samninga um sameiginlegan konung, skilorðsbundna meðferð Dana á utanríkismálum Íslands, jafnrétti þegnanna, dómsvald hins danska hæstaréttar í íslenskum málum og danska landhelgisgæslu við Ísland, en þeir gátu sagt þessari forsjá Dana upp, ýmist þegar í stað eða að 25 árum liðnum. Í lögunum var lýst yfir ævarandi hlutleysi Íslands og treyst á hervernd Dana til að framfylgja því.

Strax árið 1919 stofnuðu Íslendingar sinn eigin hæstarétt. Þeir tóku og fljótt landhelgisgæsluna í sínar hendur. Meðferð utanríkismála færðist meira og meira til íslenskra stjórnvalda, þrátt fyrir ákvæði sambandslaganna.

Hernám Danmerkur vorið 1940 leiddi til þess, að Alþingi varð að taka handhöfn konungsvalds, meðferð utanríkismála og landhelgisgæslu að öllu inn í landið. 1941 var gerður herverndarsamningur milli ríkisstjórnar Íslands, Bandaríkjanna og Bretlands, þegar bandarískur liðsafli tók að sér að verja Ísland í stað breska hersins, sem hafði hernumið landið eftir fall Danmerkur. Var sá samningur túlkaður sem viðurkenning Bandaríkjamanna og Breta á algeru frelsi og fullveldi Íslands.

Samkvæmt sambandslögunum gátu Íslendingar slitið öll tengsl við Dani árið 1943. Að ósk Bandaríkjamanna var því frestað fram til ársins 1944. Ný stjórnarskrá lýðveldisins Íslands var undirbúin og samdar tillögur um afnám sambandslaganna frá 1918. Fór síðan fram þjóðaratkvæðagreiðsla um sambandsslit og stofnun lýðveldis. Lýstu nær allir kjósendur sig fylgjandi slitunum og lýðveldinu, var það síðan stofnað á Þingvöllum á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar, hinn 17. júní 1944.

Ég veit ekki, hvað Færeyingar telja sig geta lært af þessari sögu. Hins vegar má draga hana saman með þessum hætti að lokum.

Í fyrsta lagi er ljóst, að sjálfstæðisbarátta verður ekki háð nema viljinn sé einbeittur til að láta hugsjónina rætast. Hvernig hún kviknar í brjósti heillar þjóðar kann öðrum að þykja leyndarmál, en fyrir þá, sem standa í baráttunni hlýtur markmiðið að vera einfalt og skýrt.

Í öðru lagi er leiðin að markmiðinu ekki alltaf augljós. Fyrir Íslendingum vakti að fá stöðu sína innan dönsku ríkisheildarinnar skilgreinda á eigin forsendum. Þeir vildu sjálfir taka við valdinu úr hendi konungs en ekki hafa danska ríkisstjórn sem millilið. Innan þessara marka rúmast ýmis álitamál, sem kunna að kalla á harðar deilur heima fyrir. Úrslitin í þingkosningunum 1908, þegar Hannes Hafstein, fyrsti ráðherrann, tapaði illilega, af því að mönnum fannst hann ganga of mikið til móts við Dani, minnir á, að enginn á öruggt sæti í stjórnmálum.

Í þriðja lagi þurfa menn að leggja sig fram um að skýra flókin mál með einföldum hætti fyrir umbjóðendum sínum, kjósendum, því að þeir hafa síðasta orðið. Breytingar varðandi stöðu ríkis í samfélagi þjóðanna verða ekki ákveðnar án þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í fjórða lagi þurfa allar ákvarðanir að vera í samræmi við alþjóðlega strauma og taka mið af hagsmunum tveggja eða fleiri ríkja, sem hlut eiga að máli.

Í fimmta lagi geta menn ekki séð fyrir, hver áhrif breytinga verða. Auðvelt er að draga upp þá mynd, að breytingum fylgi mikil hætta og þess vegna sé óráð að vinna að þeim. Þessa áhættu verða menn að vera tilbúnir að taka. Gera verður kröfu til, að sýnt sé fram á að ytra og innra öryggi ríkisins sé tryggt með skynsamlegum ráðstöfunum, en efnahagssveiflur verða hvorki útilokaðar né tímabundinn vandi.

Góðir áheyrendur!

Ég hef brugðið hér upp þeirri mynd, sem kemur í huga minn, þegar leitast er við að lýsa sjálfstæðisbaráttu Íslendinga í stuttu máli. Sagan sýnir, að við tókum réttar ákvarðanir. Við lok þessarar aldar er Ísland ekki í hópi frumstæðustu ríkja Evrópu heldur er þjóðin í fremstu röð, þegar notaðir eru alþjóðlegir mælikvarðar til að meta hagsæld þjóða, í fimmta sæti á mælistiku OECD um efnahagslega hagsæld og í sama sæti, þegar Sameinuðu þjóðirnar bera saman lífskjör í víðtækasta skilningi. Í menntun og tækni stöndum við framarlega og okkur hefur tekist að tryggja öryggi okkar og varnir með aðild að NATO og tvíhliða samningi við Bandaríkin.

Hvorki Jón Sigurðsson né aðra, sem leiddu sjálfstæðisbaráttuna, hefur líklega órað fyrir því, að við aldahvörf stæðu Íslendingar í þeim sporum, sem sagan sýnir. Í mínum huga er enginn vafi á því, að sjálfstæðið hefur ekki átt minni þátt í því en sjálfstraustið.

--------------------

Við gerð þessa erindis studdist ég við ritgerð eftir Bjarna Benediktsson: Sjálfstæðisbaráttan í 100 ár, sem birtist í Morgunblaínu 17. júní 1944 og var síðan endurbirt í ritsafninu Land og lýðveldi I. bindi bls. 75 til 92, útgefandi Almenna bókafélagið, Reykjavík, 1965.