6.1.2010

Neitun Ólafs Ragnars gefur tækifæri á alþjóða­vettvangi.

Um margra mánaða skeið eða allt síðan hinir dæmalausu Icesave-samningar voru kynntir opinberlega hinn 5. júní 2009 hefur verið hvatt til þess, að forystumenn ríkisstjórnarinnar gengju fram fyrir skjöldu á þann veg á alþjóðavettvangi, að rækileg athygli yrði vakin á því, hve fráleitt væri að leggja þær byrðar á Íslendinga, sem í samningunum felast. Ráðherrar hafa ekki gert þetta og voru alls óviðbúnir, þegar Ólafur Ragnar Grímsson neitaði að skrifa undir seinni Icesave-lögin þeirra.

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar eru ótrúleg, þegar til þess er litið, að hún sýnir enga viðleitni til að vekja máls á því og mótmæla, hve illa er gengið fram gegn okkur Íslendingum. Hún lagði niður skottið í Icesave-málinu nokkrum dögum, eftir að hún var mynduð og hefur síðan látið valta yfir sig og heldur því áfram.

Málsvarar ríkisstjórnarinnar láta eins og ekkert þýði að halda málstað Íslands fram. Staðan sé allt önnur en í kalda stríðinu. Þá hafi verið hlustað á íslenska stjórnmálamenn, nú sé það ekki gert lengur. Að sjálfsögðu hlustar enginn á þann, sem lætur ekkert í sér heyra. Kveður sér ekki hljóðs og flytur mál sitt með þeim rökum, sem hann hefur. Þau eru sterk í Icesave-málinu sé rétt á þeim haldið. Á hinn bóginn verður að segja þá sögu eins og er, að rökin stangast að verulegu leyti á við höfuðstefnumál ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum, að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Þess vegna hafa forsætisráðherrann og utanríkisráðherrann farið með löndum og það var ekki fyrr en fyrir fáeinum dögum, að fjármálaráðherra sagði, að aðild að ESB ætti ekki að ráða utanríkisstefnunni.

Sátt næst ekki um nýja stefnu í Icesave-málinu nema ríkisstjórnin láti af undirgefninni, sem einkennir samningana frá 5. júní 2009. Staðreynd er, að ákvörðun Ólafs Ragnars dregur athygli að stöðu Íslands í Icesave-málinu á dramatískari hátt á alþjóðavettvangi en áður hefur gerst. Í sjálfu sér er brýnna að nota þetta tækifæri til að fylgja þeirri athygli eftir með markvissum aðgerðum af hálfu stjórnvalda til að ná betri samningum en hefja hér baráttu innan lands í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er alls ekki rétt, sem látið er í veðri vaka, að einungis sé dregin sú svarta mynd af stöðu og málstað Íslands, sem ríkisstjórninni virðist kærust. Hér skulu nefnd tvö dæmi um hið gagnstæða. Í báðum kemur fram, að ekki hvílir á Íslendingum nein lagaleg skylda til að borga Icesave-reikningana.

Tveir áhrifamiklir breskir álitsgjafar ræða um stöðu Íslands eftir að Ólafur Ragnar beitti synjunarvaldi sínu í blöðum sínum í dag. Annars vegar Iain Martin, aðstoðarritstjóri Evrópuútgáfu The Wall Street Journal og hins vegar Ambrose Evans-Pritchard í The Daily Telegraph.

Iain Martin hafði ritað um skuldamálin vegna Icesave á vefsíðu The Wall Street Journal 5. janúar og sagt:

„Leiðtogar sem horfast í augu við fallandi gengi í skoðanakönnunum og standa frammi fyrir kosningum geta stundum hagnast á krísum í alþjóðasamkiptum – en aðeins ef þeir koma frá þeim sem sigurvegarar.

Gordon Brown vonast til þess, að hin stórundarlega þræta við Íslendinga endi með sigri sínum, en hvað getur hann gert til að tryggja það? Kann hann að hefja innrás? Eða senda herskip á vettvang eins og Bretar gerðu í síðasta bardaga sínum við Íslendinga í þorskastríðunum á áttunda áratugnum? Þá snerist „stríðið“ um fisk – nú snýst það um peninga.

Forseti Íslands hefur ákveðið að skrifa ekki undir lög um að bæta breskum og hollenskum innistæðueigendum 5,5 milljarða dollara tap vegna hruns Icesave, hins vinsæla netbanka, sem fór á hliðina í fjármálakrísunni. Eftir mikinn þrýsting frá almenningi verður efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem lögin verða örugglega felld.

Þessi stórundarlega framvinda spillir tilraunum hinna slegnu Íslendinga til að ganga í ESB, sem krefst þess að Bretum og Hollendingu sé greitt það, sem þeim ber. Nú grunar mann, að Íslendingar komist að raun um, hvernig ESB starfar. Dirfist þeir að segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslu, er alltaf unnt að láta þá kjósa að nýju, síðan aftur og aftur. Þar til rétta svarið fæst.“

Grein Iains Martins 6. janúar er lengri útgáfa af þessum upphaflegu hugleiðingum hans. Hún hefst á frásögn blaðamanns, sem hafði verið á Íslandsmiðum í síðasta þorskastríðinu 1975. Nú séu að nýju hafin átök milli Breta og Íslendinga að þessu sinni með þátttöku Hollendinga. Þau snúist ekki um fisk heldur peninga og tóma bankareikninga, sem kallast Icesave frá Landsbanka Íslands. „ It is a story of colossal folly,“ segir Martin, það er saga um hrikalega heimsku.

Hann segir aðild Íslands að Evrópusambandinu í húfi og þá 5,7 milljarði dollara, sem ríkisstjórnir Bretlands og Hollands segist eiga inni hjá Íslendingum. Hinn hugumstóri forseti Íslands hafi risið til einstakra andmæla og neitað að skrifa undir lög, sem heimiluðu ríkisstjórninni að ganga frá skuldinni.

Martin lýsir uppgangi íslenska fjármálakerfisins á undanförnum árum og hvernig sparifjáreigendur erlendis hafi verið lokkaðir til viðskipta með háum vöxtum með hinu einkennilega orði Icesave, en við nánari umhugsun hefði mátt ímynda sér, að það gæfi til kynna, að auðvelt yrði að frysta innistæðurnar, ef svo vildi. Þetta hefði höfðað til Hollendinga og Breta, en kjörin hefðu verið of góð til að reynast sönn. Icesave hafi hrunið í október 2008 og ríkið tekið Landsbankann til sín. Í júní 2009 hafi ný ríkisstjórn á Íslandi samþykkt að greiða Bretum og Hollendingum 5,7 milljarða dollara, sem ríkisstjórnir landanna höfðu varið til að greiða reikningseigendum . Sé engin furða, að síðan hafi reiði almennings á Íslandi vaxið jafnt og þétt vegna málsins.

Síðan segir Iain Martin:

„Sjáum hvað gerðist. Á Bretlandi tók ríkisstjórnin Icesave-viðskiptunum vel, þegar allt lék í lyndi og eftirlitsaðilar komu ekki auga á, að þau voru hörmulega illa fjármögnuð. Við hrunið ákváðu ríkisstjórnir Bretlands og Hollands að greiða reikningseigendum hjá Icesave innistæður sínar. Þær þurftu ekki að gera það; þeir, sem höfðu lagt fé inn í fjármálastofnanir með rætur erlendis voru allir fullvaxta og hefðu átt að vita um áhættuna, sem þeir tóku. Ríkisstjórnirnar ákváðu að greiða reikningana af þeirri einföldu ástæðu, að þær voru viðkvæmar fyrir þeirri gagnrýni, að eftirlitskerfi þeirra hefði brugðist. Þær hófust síðan handa við að endurheimta féð frá Íslandi með hótunum. Þessi aðferð dugði þeim þangað til í gær.

Hvaða lærdóm munu sparifjáreigendur í stórum löndum draga af þessu næst þegar uppsveifla verður? Að þeir þurfi ekki að spyrja margs um, hvort þeir fái fé sitt auðveldlega til baka, því að fari eitthvað úrskeiðis muni ríkisstjórn þeirra, eða skattborgarnir við hlið þeirra, borga brúsann. Síðan megi senda reikninginn til annars lands og beita bolabrögðum til að láta erlenda skattgreiðendur borga hann. Þannig fái þeir röng skilaboð og gleymi reglunni caveat emptor, eða að kaupandi gæti sín.

Þetta er einnig prófraun fyrir Evrópusambandið. Tvö forysturíki þess – með mikla þörf fyrir lausafé – hella sér yfir ríki, sem hefur lýst áhuga á að ganga í ESB. Aðildarviðræður verða stöðvaðar, nema Bretar og Hollendingar fái peningana sína. ESB hefur mótað sér aðferð, þegar það leggur smáríki í einelti. Líklegt er, að sambandið muni krefjast þess, að Íslendingar haldi áfram að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um synjun forsetans, þar til rétta svarið fæst og Íslendingar senda tékkann.

Þetta er einsök hörmungasaga. Íslendingar frömdu hroðaleg pólitísk mistök, sem mun kosta þjóðina stórfé. Á tímum hnattvæðingar, sem hagnast hinum stóru, er meira en freistandi að dást að hugrekki andsæpnis sameinaðri alþjóðlegri árás. Lítil þjóð stendur frammi fyrir viðvarandi efnahagsstríði frá stærri þjóðum og undir þunga frá þrýstingi almennings heima fyrir dregur forsetinn strik í ísinn.

Mun það skila árangri? Það er mjög ólíklegt. Síðast þegar Íslendingar reyndu eitthvað svipað, í síðasta þorskastríðinu, var heimurinn öðru vísi. Nú hafa alþjóðastofnanir – ESB og AGS – miklu meiri áhrif. Báðar geta þær í raun sett land í raunverulega einangrun, ef þær kjósa. Þessi staðreynd og síðan vald markaðarins leiða til þess að andspyrna kann að virðast næsta vonlaus.

Í næstu áratugi munu Íslendingar sjá eftir því að hafa haldið í víking inn í alþjóðlega fjármálakerfið. Þegar óvinir þeirra hafa náð sér niður á þeim, munu þeir óska þess að hafa haldið sér við fiskinn.“

Abrose Evans-Pritchard á The Daily Telegraph hefur skrifað nokkrar greinar um Ísland frá bankahruninu, sagt styrk Íslands felast í krónunni og varað við aðild að Evrópusambandinu. Í grein sinni 6. janúar segir hann, að reiðir Íslendingar hafi ákveðið að rísa upp gegn heiminum. Forseti Íslands hafi stöðvað lögin um að greiða Bretum og Hollendingum vegna Icesave-reikningseigendanna og þar með viðurkennt, að ekki sé unnt að ganga lengra í málinu, án þess að bera það undir þjóðina í atkvæðagreiðslu. Hann segir, að verði lögunum hafnað hafi verið kippt öllum trúverðugleika undan samningunum við Breta og Hollendinga.

Evans-Pritchard segir, að undir niðri séu Íslendingar ævareiðir yfir því, að Bretar skyldu beita þá hryðjuverkjalögum. Að seðlabankinn hafi verið settur við hliðina á al-Qaida sem hryðjuverkastofnun – slíkt hafi aldrei verið gert við bandamann innan NATO. Hollendingar hefðu gætt sín á því að ganga ekki svo langt. Hann vitnar í Einar Má Guðmundsson, rithöfund, sem segir:

„Okkur var sagt, að ef við höfnuðum skilamálunum [Icesave-samninganna], yrðum við Kúba norðursins. Ef við samþykkjum þá, verðum við hins vegar Haiti norðursins.“

Íslendingar hafi samþykkt „pólitíska ábyrgð“ á kröfum Breta og Hollendinga í staðinn fyrir að fá viðunandi lánskjör, sem ekki hafi fengist, en þeir hafi aldrei samþykkt lagalega ábyrgð. Vinstri stjórn á Íslandi styðji samningana, þar sem þeir séu eina leiðin til að endurreisa Íslands. Andstæðingar hafi hins vegar hafnað Versala-skilmálunum í samningunum, 5,5% vöxtum á láni, sem verði greitt á 15 árum.

Í skýrslu sænska seðlabankans komi fram, að Bretar og Evrópusambandið beri sinn hluta ábyrgðar á þessum ósköpunum. Þar komi fram, að „absurd“ – fáránlegar ESB-reglur – sem gildi óbeint á Íslandi, hafi sagt ríkjum að koma á fót „ábyrgðarkerfi“ fyrir banka, en þar sé hvergi sagt, að skattgreiðendur beri ábyrgð á tjónum. Í skýrslunni segi einnig, að bresk stjórnvöld hafi „varla haft fyrir því“ að tilkynna sparifjáreigendum, að ábyrgðarkerfið væri illa fjármagnað. Í skýrslunni segi:

„Niðurstaðan er skýr: ESB-gistilöndin (Bretland og Holland) bera einnig sína ábyrgð á hörmungum Íslands. Það væri sanngjarnt, að þau öxluðu einhvern hluta byrðanna. Það þarf tvo til að dansa tango.“

Grein sinni lýkur Evans-Pritchard á þennan hátt:

„Breska Fjármálaeftirlitið sagðist ekki hafa getað bannað íslensku bönkunum að halda úti innlánsreikningum í Bretland samkvæmt ESB “passa„ kerfinu, jafnvel eftir að þeir hófu að mjólka breska viðskiptavini sína til að fjármagna tap sitt á heimavelli.

Hvort sem þetta er rétt eða rangt, hafði Ísland þá orðið fyrir fjármálalegu tsunami [ofurflóði]. Ákvörðun breskra stjórnvalda um að beita hryðjuverkalögum við þær aðstæður mun ekki hljóta neinn heiðursess í sögu diplómatískra samskipta.“

Hér skal tilvitunum í þessa tvo áhrifamiklu álitsgjafa lokið. Enn skal ítrekað, að hið einkennilega er, að málflutningur af sama toga, hefur verið eins og eitur í beinum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Er ekki tími til kominn, að snúa dæminu við og taka upp annan málflutning af hálfu íslenskra stjórnvalda?