16.11.1999

Menningararfurinn og ný tækni

Menningararfurinn,
varðveisla og aðgengi í ljósi nýrrar tækni,
dagur íslenskrar tungu, 16. nóvember 1999.

Ef til vill var það í tilefni af þessu ágæta málþingi að í Lesbók Morgunblaðsins birtist síðastliðinn laugardag hið kunna ljóð Steins Steinars, Samræmt göngulag fornt, en þar er þessi gullvæga áminning: Sá menningararfur, sem oss var til varðveizlu sendur,/er ekki hvað sízt hið þjóðlega göngulag vort. Þótt nýja tæknin sé góð getum við líklega ekki falið henni að geyma þennan hluta menningararfs okkar og verðum hvert og eitt að stuðla að því að hann glatist ekki.

Raunar má segja hið sama um flest annað úr þjóðararfleifðinni, sem við viljum geyma. Tæknin ákveður ekki hvað varðveitist heldur þeir, sem henni stjórna. Fagna ég því, að stofnað sé til málþings um menningararfinn, varðveislu hans og aðgengi í ljósi nýrrar tækni á degi íslenskrar tungu. Vænti ég þess, að á þinginu sé dregin upp mynd af því, hvar við stöndum í þessu efni og hver séu æskileg næstu skref.

Í hraða samtímans og hinna öru breytinga gleymum við því gjarnan, hve skammt er síðan, hin nýja upplýsingatækni knúði okkur til að líta á flesta hluti í breyttu ljósi.

Um þessar mundir eru rétt 8 ár liðin frá því, að veraldarvefurinn var kynntur af starfsmönnum CERN-vísindastofnunarinnar í Genf. Með honum var unnt að nýta kosti netsins á þann veg, að menn gátu tengt saman ritað mál með svonefndum stiklutexta, skapað sér nýtt vinnuumhverfi. Raunar eru ekki liðin 20 ár frá því að einkatölvan tók að ryðja sér rúms og enn skemmri tími er liðinn frá því að GSM-síminn kom til sögunnar, en þó er sagt að hann sé nú í vasa hvers einasta 16 ára unglings á Íslandi.

Enn sjáum við ekki fyrir enda á þessari þróun og eigum sumir fullt í fangi með að fylgjast með henni. Talsmaður Landssímans boðar okkur, að innan eins til tveggja ára gefist Íslendingum kostur á sítengingu við netið innan GSM-kerfisins, hraði tengingarinnar verði sambærilegur við það, sem nú þekkist með ISDN-tengingu. Við erum því að fjalla um varðveislu menningararfsins í sítengdu samfélagi, þar sem hver maður verður með netið í vasanum. Víst er, að enginn fær stöðvað þessa þróun heldur verða allir að bregðast við henni, hver með sínum hætti. Breytingar eigum við ekki að óttast heldur nýta tækifærin, sem þær veita.

Tæknin gerir fjarlægðir að engu og hnattvæðing kallar á nýja samkeppni. Sterkir menningarstraumar geta hæglega rutt veikum til hliðar, en smáþjóðir hafa einnig fengið áður óþekkt tækifæri til að láta til sín heyra. Þar gildir hið sama og á málafundi eða þingi, hlustað er á þann, sem hefur eitthvað fram að færa. Að finna jafnvægi á milli alþjóðlegra áhrifa og verndunar á menningarlegri sérstöðu er spennandi verkefni, sérstaklega fyrir okkur Íslendinga. Við getum skilgreint menningarf okkar með skýrari hætti en margar aðrar þjóðir. Hið sama gildir um hann og litningana í mannfólkinu eða dýrunum, að hann hefur sitt sérstaka eðli og þar með sérstakt gildi, sem auðveldar að skrá hann. Við náum utan um menningararfinn og því ætti að vera unnt að fella inntak hans inn í þann ramma, sem hin nýja tækni skapar, og gera hann aðgengilegri með notkun hennar.

Í hinum nýtæknivædda heimi samtímans, hefur kjörorðið lítið er fallegt, fengið nýtt gildi, því að finna má lausnir á mörgum viðfangsefnum í litlum einingum, sem síðan er auðvelt að beita við sambærilgar aðstæður í miklu fjölmennari samfélögum. Við Íslendingar eigum að nýta okkur öll tækifæri, sem í þessu felast.

Snemma árs 1996 kynnti ég stefnu menntamálaráðuneytisins um upplýsingatækni í ritinu Í krafti upplýsinga. Var ráðuneytið í fararbroddi við mótun stefnu á þessu sviði. Sama haust var stefna ríkisstjórnarinnar: Framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið birt.

Forsætisráðuneyti gegnir forystuhlutverki við framkvæmd þessarar stefnu og hefur ráðið sérfróða starfsmenn til verksins. Verkefnisstjórn skipuð fulltrúum einstakra ráðuneyta er ráðgefandi fyrir forsætisráðuneytið á þessu sívaxandi sviði. Á vettvangi menntamálaráðuneytis valdi ég þá leið, að fela einum starfsmanni að hafa yfirumsjón í sérstöku umboði mínu með öllum upplýsingatæknimálum, hvort sem er á sviði menningarmála eða menntamála, er það nú Arnór Guðmundsson deildarstjóri, situr hann jafnframt í verkefnisstjórn ríkisstjórnarinnar. Æ fleiri verkefni hlaðast á þennan embættismann.

Í stefnuræðu sinni nú í haust komst Davíð Oddsson forsætisráðherra þannig að orði:

"Í stjórnarsáttmála er gert ráð fyrir að hluti ávinnings af eignasölu verði notaður til að styrkja og bæta upplýsingatæknina. Þar er um vaxandi verkefni að ræða sem við verðum að taka föstum tökum ætlum við áfram að vera í fremstu röð. Krafan um íslenska tungu í tölvuheiminum er skýr og ótvíræð. Samningur við Microsoft, sem gerður var á síðastliðnum vetri, felur í sér viðurkenningu á þeirri kröfu. Næsta stórverkefni verður að beita hinni nýju tungutækni í þágu íslenskunnar til að tryggja stöðu hennar á sviði tölvu- og upplýsingatækni."

Forsætisráðherra leggur þarna sérstaka áherslu á stöðu íslenskunnar í upplýsingasamfélaginu en fyrr á þessu ári birti menntamálaráðuneytið skýrslu sérfræðinga um þennan þátt, og hefur hún þegar verið kynnt hér á málþinginu. Gerð skýrslunnar og umræður um hana voru að mínu mati nauðsynlegur aðdragandi markvissra aðgerða .

Hefur menntamálaráðuneytið unnið að framgangi málsins í samráði við verkefnisstjórn um upplýsingasamfélagið og forsætisráðuneytið. Er gert ráð fyrir, að tungutækniverkefnið verði á forræði menntamálaráðuneytisins. Er ætlunin að ráða verkefnisstjóra til að vinna að framgangi þess undir sérstakri verkefnisstjórn. Eru bundnar vonir við að fjármagn fáist af sölu ríkisfyrirtækja til að stórefla starf á þessu sviði strax á næsta ári.

Skýrslan um tungutækni hefur unnið verkefninu stuðning í hvert sinn, sem hún er kynnt og rædd. Kynningin hefur ekki aðeins verið innan lands heldur einnig utan og hvarvetna hafa efnistökin í skýrslunni vakið athygli. Ef rétt er að málum staðið felast mörg tækifæri í alþjóðlegri samvinnu um tungutækni. Evrópusambandið styrkir nú þegar mörg rannsóknarverkefni á þessu sviði og hefur fulltrúi framkvæmdastjórnar þess lýst áhuga á að Íslendingar tengist þessum verkefnum og taki þar jafnvel nokkra forystu. Hér gæti reynsla Íslands sem lítils málsamfélags nýst vel í samvinnu við önnur slík samfélög á sviði tungutækni.

Umræður um tungtutækni eru til marks um að við verðum að vera vakandi á öllum sviðum, þegar rætt er um varðveislu menningararfsins. Í ritinu Í krafti upplýsinga eru meðal annars sett fram eftirfarandi markmið

- Stuðla ber að því að upplýsingatækni nýtist til fræðslu og kynningar á íslenskri menningu, starfi listamanna og verkum þeirra.

- Almenningsbókasöfn tryggi almenningi aðgang að tölvubúnaði og upplýsingum á tölvutæku formi.

- Tryggja þarf góðan aðgang fatlaðra að upplýsingaveitum bókasafna.

- Markvisst verði unnið að því að varðveita og skrá menningarverðmæti á skipulegan hátt á tölvutæku formi.

- Forgangsverkefni er að skrá fágæt og illa farin íslensk verk á tölvutækt form.

- Lögð verði rík áhersla á menningu og listir við uppeldi og kennslu.

- Menntastofnanir fái góðar upplýsingar um starfsemi menningarstofnana og fræðslu um hvernig best megi nýta upplýsingatækni til að efla kynningu á menningarefni. Þannig mun nemendum gefast kostur á fjölbreyttari leiðum til náms.

Þessi stefnumið eru enn í fullu gildi. Nýrri skólastefnu hefur verið hrundið í framkvæmd með nýjum námskrám, þar sem upplýsingatækni er samnefnari fyrir góðan árangur á öllum sviðum. Endurmenntun kennara í upplýsingatækni hefur verið efld, sömu sögu er að segja um gerð kennsluhugbúnaðar. Við varðveislu menningararfsins með nýrri tækni og kynningu safna á netinu er nauðsynlegt að hafa í huga, að notendur netsins eru ekki síst ungt fólk í skólum. Vilji menn miðla upplýsingum og fróðleik til unga fólksins verða þeir, að hanna aðgang að þessum fróðleik með þetta fólk í huga, jafnvel börn.

Unnið er að því að velja nýtt bókasafnskerfi, sem hentar öllum bókasöfnum í landinu, og opna leiðir til að tryggja aðgang bókasafna, stofnana og einstaklinga að innlendum og erlendum gagnasöfnum .

Við framkvæmd upplýsingatæknistefnu sinnar hefur menntamálaráðuneytið sótt um og notið fjárframlaga, sem ríkisstjórn og alþingi veita til upplýsingatækniverkefna. Er þessum fjármunum ráðstafað samkvæmt tillögum verkefnisstjórnar ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið.

Í verkefnisstjórninni er lagt mat á tillögur ráðuneyta og ræður þetta mat miklu um það , hvort fé fæst til verkefna á fjárlögum. Í þessari samkeppni milli ráðuneyta er mikilvægt að lögð séu fram vel skilgreind verkefni sem tengjast helstu stefnumiðum ríkisstjórnarinnar. Þar hefur menntamálaráðuneytið náð góðum árangri að því er skólamálin varðar. Á þessu ári er alls 135 milljónum króna varið til verkefna sem skilgreind höfðu verið í stefnu ráðuneytisins.

Hér á þessum vettvangi er því ekki að leyna, að innan verkefnisstjórnarinnar hafa tillögur á sviði menningarmála átt nokkuð undir högg að sækja og ekki náðst sami árangur í fjármögnun menningarverkefna og í menntamálum. Sést þetta á fjárveitingum í ár og fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár er sama marki brennt. Skora ég eindregið á áhugamenn um menningu og upplýsingatækni, að þeir hiki ekki við að kynna góð og metnaðarfull verkefni. Ráðuneytið mun áfram vinna að því að afla þeim stuðnings, þar sem keppt er um fjármagn.

Fulltrúar einstakra stofnana og Rannsóknarráðs Íslands skýra á þessu málþingi frá þeim verkefnum, sem þeir eru að sinna, hver á sínu sviði. Héðan munu allir fara fullvissir um, að viðfangsefni skorti ekki. Raunar mun einnig koma í ljós, að fjárþörfin er meiri en unnt er að sinna á skömmum tíma. Innan einstakra stofnana er nauðsynlegt að forgangsraða. Við gerðum það meðal annars með markáætlun fyrir Rannís, þar sem upplýsingatækni og umhverfismál voru sett í fyrirrúm. Þá þarf að forgangsraða milli stofnana, þegar litið er til tillagna þeirra. Loks er svo keppni milli ráðuneyta í verkefnisstjórn.

Nýja upplýsingatæknin hefur þannig kallað á ný vinnubrög við ráðstöfun fjár með fjárlögum. Hvarvetna eru menn að bregðast við nýjum viðhorfum vegna upplýsingatækninnar.

Í lok október tók ég þátt í fjölmennri ráðstefnu Evrópuráðsins og borgaryfirvalda í Rómaborg um menningu og upplýsingatækni. Markmið ráðstefnunnar var tvíþætt. Í fyrsta lagi að ræða drög að sameiginlegri yfirlýsingu Evrópuráðsins um menningu og upplýsingatækni eða Cultural Work within the Information Society. Hefur hún verið í undirbúningi um allnokkurt skeið á vegum menningarsviðs ráðsins. Í annan stað var tilgangur ráðstefnunnar að skapa vettvang fyrir umræður um áhrif upplýsingatækni á menningarstarfsemi. Rætt var um samruna tækni og menningarmiðla. Nýjar kröfur til menningarstofnana og starfsmanna þeirra. Nýskipan útgáfumála og söfn á netinu. Hnattvæðingu og menningararfinn.

Markmið yfirlýsingar Evrópuráðsins er einkum að ýta undir þróun allra þátta menningarstarfs við breyttar aðstæður, skilgreina starfssvið á nýjum forsendum, hlutverk og kröfur til starfsmanna með hliðsjón af hinni nýju tækni. Í umræðum heyrðust ný og forvitnileg starfsheiti og orð, til dæmis: upplýsingatæknir (Information professional), þekkingarstarfsmaður (Knowledge worker), menningariðnaður (Cultural industries) og menntunarviðskipti (Education business). Þessi orð eða hugtök endurspegla vissu manna um grundvallarbreytingar í starfsemi menningarstofnana.

Á ráðstefnunni tókust á tvö ólík sjónarmið. Annars vegar þeirra, sem telja, að stýra þurfi upplýsingatæknivæðingunni með reglugerðum og nánast handafli stjórnvalda til að koma í veg fyrir að hún fari úr böndunum. Í þessum hópi var einkanlega að finna embættismenn Evrópuráðsins, talsmenn verkalýðsfélaga og fulltrúa annarra opinberra aðila. Á hinn bóginn kom einnig fram sú skoðun að það stæði þróuninni beinlínis fyrir þrifum, ef stjórnvöld gengju of langt með reglugerðum og höftum. Þau myndu fyrr en síðar drepa umbætur og hugmyndaauðgi samfélagsins í dróma.

Eftir að hafa fylgst með þessum umræðum er ég enn sannfærðari en áður um mikilvægi þess að menningin og öll svið samfélagsins hafi svigrúm til að tileinka sér hina nýju tækni hindrunarlaust, endurskilgreina sig og taka upp ný vinnubrögð. Tortryggni og þvergirðingsháttur má ekki spilla þeim ábata, sem hin nýja tækni og alþjóðlegt menningarstarf getur skilað. Skyldur opinberra aðila í tengslum við upplýsingatæknivæðingu menningarstarfs lúta fyrst og fremst að því að skapa menningarstofnunum forsendur til að taka upplýsingatæknina í þjónustu sína, ryðja úr vegi hindrunum, virkja frumkvæði og hugvit einstaklinga og stofnana. Með þeim hætti getum við fullnýtt okkur þau tækifæri sem nú eru að skapast, bæði til þátttöku í alþjóðlegu menningarsamstarfi og til að hlú að og vernda íslenskan menningararf.

Góðir áheyrendur.

Menning hvort sem hún er tæknivædd eða ekki leiðir því aðeins til hagsældar og verður kjölfesta í umróti nýrra tíma, að staðinn sé vörður um menningararfinn og hann jafnframt notaður sem viðspyrna til nýrra verka. Hugkvæmni, sköpun og ímyndunarafl eru náttúruauðlindir framtíðarinnar.

Ég er sannfærður um, að Íslendingar hafa ríkan skilning á nauðsyn þess að nýta hina nýju tækni í þágu menningararfsins. Hvort sem við höfum varðveitt samræmt göngulag fornt eða ekki höfum verið fljót að komast inn á veraldarvefinn og nýta okkur kosti hans. Þar erum við í fremstu röð á heimsmælikvarða. Meira en 80% Íslendinga hafa aðgang að netinu heima hjá sér, í vinnu eða skóla. Helmingur íslenskra heimila er nettengdur. Hvort tveggja er heimsmet.

Þetta gefur okkur einstakt tækifæri til að nýta hina nýju tækni og ná með því forskoti meðal þjóða heims á mörgum sviðum. Hér í dag fjöllum við um eitt hið mikilvægasta, varðveislu menningararfsins.