16.11.1999

Dagur íslenskrar tungu 1999

Dagur íslenskrar tungu
16. nóvember 1999

Við komum nú saman í fjórða sinn með formlegum hætti og fögnum degi íslenskrar tungu á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar. Er sérstakt gleðiefni að vera hér í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi af þessu tilefni og færi ég skólameistara, kennurum og nemendum þakkir fyrir hlýjar móttökur og jafnframt bæjarstjóra og bæjarbúum öllum.


Inntak dags íslenskrar tungu í ár er skólinn og tungan. Áhersla hefur verið lögð á tengingu við upplestrarkeppni grunnskólanema sem hleypt er af stokkunum í tilefni dagsins og þátttöku skólabarna í degi íslenskrar tungu. Framkvæmdastjórn dagsins hvetur til umræðu um skólann og tunguna. Í samræmi við þá áherslu gengst Íslensk málnefnd fyrir sérstöku málræktarþingi í hátíðarsal Háskóla Íslands næsta laugardag undir heitinu Íslenskt mál og menntun. Viðfangsefni þingsins er meðal annars íslenskukennsla á öllum skólastigum.

Við mótun nýrrar skólastefnu, sem hrundið er í framkvæmd með nýjum námskrám, var áréttað, að í öllum námsgreinum ættu menn að leggja mikla rækt við íslenska tungu. Hvarvetna eru þeir, sem nota tunguna, fyrirmynd hinna yngri.

Eggert Ólafsson var hin mikla fyrirmynd Jónasar Hallgrímssonar. Að fordæmi Eggerts lagði Jónas sig fram um að kynna sér Ísland, náttúrufræði, þjóðlíf, staðhætti og atvinnulíf til lands og sjávar. Það hefði verið höfundi Gunnarshólma gleðiefni að fara um blómlegar byggðir Suðurlands nú á tímum og sjá hvernig mannlíf hefur þróast, þar sem íslenskur landbúnaður stendur traustum fótum og mikil og aukin rækt er lögð við menningu og hinn sögulega arf.

Í bók sinni um Jónas Hallgrímsson kemst Matthías Johannessen, ritstjóri og skáld, þannig að orði: 6Segja mætti með nokkrum sanni að Jónas hafi haft Ísland fyrir stafni. Landið sótti á hugsun hans. Það er í skrifum hans og skáldskap. Hann hafði það takmark að skrifa 6Íslands lýsingu &. Hann orti Ísland inní skáldskap sinn sýknt og heilagt. Hann breytti jafnvel Schiller og Heine í íslenzk ljóðskáld. &

Afmælisdagur Jónasar Hallgrímssonar er einstakt tilefni til að halda merki íslenskrar tungu hátt á loft. Við áréttum einnig gildi þess, að til er íslensk þjóð í eigin landi, sem sækir menningar- og menntunarlegan styrk sinn í bókmenntir og hefur tileinkað sér heimsmenninguna á eigin forsendum.

Í dag er meðal annars efnt til málþings um menningararfinn, varðveislu hans og aðgengi í ljósi nýrrar tækni. Þessi tækni gerir fjarlægðir að engu og hnattvæðing kallar á nýja samkeppni. Sterkir menningarstraumar geta hæglega rutt veikum til hliðar, en smáþjóðir hafa einnig fengið áður óþekkt tækifæri til að láta til sín heyra. Þar gildir hið sama og á málafundi eða þingi, hlustað er á þann, sem hefur eitthvað fram að færa.

Við minnumst skáldsins Jónasar Hallgrímssonar, af því að rödd hans og boðskapur höfðar til okkar enn í dag. Hann er raunar eina íslenska skáldið með alþjóðlega vefsíðu, sem er vistuð við erlendan háskóla, það er í Madison í Wisconsin-ríki í Bandaríkjunum. Var síðan opnuð með hátíðlegum hætti á þessum degi fyrir tveimur árum. Nýja tæknin gerir fleirum en Íslendingum kleift að kynnast Jónasi Hallgrímssyni. Ljóð Jónasar, skýringar á þeim og æviágrip skáldsins eru tiltæk þeim rúmlega 200 milljón íbúum jarðarinnar, sem hafa aðgang að netinu og nýta sér það.

Að finna jafnvægi á milli alþjóðlegra áhrifa og verndunar á menningarlegri sérstöðu er spennandi verkefni, sérstaklega fyrir okkur Íslendinga. Við getum skilgreint menningararf okkar með skýrari hætti en margar aðrar þjóðir. Hið sama gildir um hann og litninga í mannfólki eða dýrum, að hann hefur sitt sérstaka eðli og þar með sérstakt gildi, sem auðveldar að skrá hann. Við náum utan um menningararfinn og því ætti að vera unnt að fella inntak hans inn í þann ramma, sem hin nýja tækni skapar, og gera hann aðgengilegri með notkun hennar.

Jónas Hallgrímsson sá Ísland eigin augum en lýsingar hans snerta enn strengi í brjósti allra, sem þeim kynnast. Sérhver kynslóð Íslendinga svarar spurningum um tunguna, söguna og landið á eigin forsendum. Kynslóðirnar eiga sér hins vegar samnefnara í verkum skáldanna. Styrkur íslenskrar tungu og vitundin um að bókmenntirnar hafa mótað íslenskt þjóðlíf frá örófi, veitir okkur skapandi styrk á tímum, sem kenndir eru við upplýsingu og þekkingu. Ekki er síður mikilvægt að virkja hugarorku mannsandans en kraft vatnsfalla og afl úr iðrum jarðar.

Menntun, menning, rannsóknir og vísindi eru allt þættir, sem nauðsynlegt er að efla, viljum við ná háleitum markmiðum Jónasar Hallgrímssonar nú á tímum. Ákall því til stuðnings yrði Búnaðarbálkur samtímans vildu nútímaskáld feta í fótspor Eggerts Ólafssonar.

Íslensk tunga er öllum almenningi nálægari sem vinnutæki nú á tímum en á fyrri öldum, þegar skriffæri, skinn eða pappír voru munaður. Sívaxandi tölvunotkun krefst þess, að við getum lesið og skrifað. Við getum tileinkað okkur ómælanlegt magn af upplýsingum og komið viðhorfum okkar á framfæri með auðveldari hætti en nokkru sinni fyrr.

Við megum ekki hvika frá þeim ásetningi, að tryggja stöðu íslenskunnar í nýjum heimi tækninnar. Nokkrir sérfræðingar unnu á síðasta vetri skýrslu fyrir menntamálaráðuneytið um stöðu íslenskunnar í tölvu- og upplýsingatækniheimi. Hefur hún verið kennd við tungutækni. Skýrslan vakti verðskuldaða athygli innan lands og utan. Standa vonir til þess, að fyrstu fjárveitingar til að vinna að úrlausn verkefna á grundvelli hennar séu á næsta leiti. Verður stofnað til samstarfs einkaaðila og opinberra um verkefnið en einnig leitað alþjóðlegs samstarfs.

Á síðustu öld var mótuð skynsamleg og sigursæl stefna í sjálfstæðismálum þjóðarinnar. Endurreisn íslenskrar tungu og rómantísk viðhorf til landsins og sögunnar voru óaðskiljanlegir þættir í þessari stefnu. Þegar við höfðum öðlast sjálfstæði bárum við gæfu til að móta stefnu í utanríkismálum, sem hefur skilað glæsilegum árangri, þegar litið er til öryggis þjóðarinnar og yfirráða hennar yfir auðæfum sjávar. Á öld upplýsinga og þekkingar eigum við að fylgja fram stefnu, sem tryggir menningarlegt sjálfstæði þjóðarinnar í alþjóðlegu samstarfi og trausta stöðu íslenskrar tungu í heimi upplýsingatækninnar.

Skynsamleg leið að þessu marki er öflugt skólastarf. Veitum ungu fólki góða fyrirmynd. Sköpum hjá því virðingu fyrir ljóðum, sögu og tungu. Hvetjum þannig til skapandi framtaks á öllum sviðum.