20.11.1999

Íslenska í skólum - málræktarþing

Málræktarþing
20. nóvember 1999.

Líklega hefur aldrei í sögu þjóðarinnar verið unnið jafnötullega að því að rækta íslensku tungu og nú á tímum. Staða tungunnar er mun sterkari um þessi aldamót en hin síðustu. Um það vitnar margþætt bóka-, tímarita- og blaðaútgáfa, málræktarstarf og kennsla í skólum, félagsstarf hvers konar, íðorðastarf og starfsemi orðanefnda og Íslenskrar málstöðvar. Erlendir sérfræðingar um stöðu tungumála telja íslensku standa vel að vígi í alþjóðlegum samanburði.

Áhugi á móðurmálinu er ekki einungis mikill meðal okkar, sem hér búum. Hans verður einnig vart meðal Íslendinga sem eru búsettir erlendis, einkum þar sem starfsemi Íslendingafélaga er í blóma, innan þeirra er víða boðin íslenskukennslu. Hin nýja upplýsingatækni ryður sér til rúms á þessu sviði og margir spreyta sig á því að búa til námsefni í íslensku. Íslendingar í útlöndum eru áhugasamir um að þeir og börn þeirra geti þjálfað sig með íslensku námsefni í tölvu- og fjarnámi. Íslenska er víða kennd við háskóla erlendis, þótt hún eigi sumstaðar undir högg að sækja vegna krafna um sparnað. Töluverður áhugi er á því hjá útlendingum að koma hingað og læra íslensku. Er ég viss um, að með meira framboði á kennslu megi kalla á enn fleiri nemendur. Íslensk tunga hefur ekki síður aðdráttarafl en íslensk náttúra, þótt tungan sé ekki sett á ferðamannamarkað með sama hætti og náttúran.

Á undanförnum árum hefur verið lögð á það aukin áhersla, að nemendur, búsettir hér á landi, með annað móðurmál en íslensku, eigi þess kost að fá kennslu í íslensku sem öðru tungumáli og einnig hefur í auknum mæli verið stutt við fullorðinsfræðslu nýbúa í íslensku, t.d. á vegum farskóla, námsflokka og á sumarnámskeiðum.

Nokkrar umræður hafa orðið um málfarslega stöðu nýbúa og kröfur til þeirra. Ég er ekki þeirrar skoðunar, að skylda eigi skóla til að kenna móðurmál nýbúa, enda er víða verið að hverfa frá þeirri stefnu erlendis. Hins vegar á að þróa námsefni og kennsluaðferðir til að auðvelda nýbúum að tileinka sér íslensku. Er vert að vekja athygli á því að nú hefur í fyrsta skipti verið gerð námskrá í íslenskukennslu fyrir nýbúa, þ.e. nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku og þá nemendur sem hafa íslensku að móðurmáli en hafa dvalist lengi erlendis, og auk þess er sérstök námskrá fyrir táknmáls- og íslenskukennslu heyrnarlausra nemenda.

Dagur íslenskrar tungu hefur náð að festast í sessi sem einn hátíðisdaga þjóðarinnar. Mörg skemmtileg verkefni tengjast nú deginum og þeim fjölgar ár frá ári. Sérstök ástæða er til að fagna upplestrarkeppni í grunnskólum. Hún hefur á skömmum tíma skilað mjög góðum árangri til að auka veg og virðingu framsagnar í skólakerfinu. Vil ég þakka þetta góða framtak. Undir merkjum þess hefur íslenskukennsla í skólum fengið nýja og vinsæla vídd.

Þá ber að nefna áherslu á að stýrikerfi tölva verði á íslensku. Í undirbúningi er skipulagt átak í tungutækni. Innlend kvikmyndagerð og leikhúslíf blómstra. Kröfur um sjónvarpsefni á íslensku eru miklar og vaxa í réttu hlutfalli við fjölgun sjónvarpsrása. Aukið framboð á margskonar afþreyingarefni hefur ekki dregið úr íslenskri bókaútgáfu, aldrei hafa komið út fleiri nýir titlar á einu ári en 1998. Útgáfa vandaðra fræðirita og handbóka fyrir almenning og þar á meðal börn hefur stóraukist. Með launasjóði fræðarithöfunda, sem tekur til starfa á næsta ári með átta milljón króna fjárveitingu úr ríkissjóði, ætti enn að verða ýtt undir gerð vandaðra fræðirita á íslensku.

Þótt margt sýni sterka stöðu íslenskrar tungu, er þó víða pottur brotinn. Skortur á hugmyndaflugi við að velja verslunum og veitingastöðum íslensk nöfn er sorglega mikill, svo að dæmi sé tekið. Leti við að íslenska heiti á kvikmyndum sýnist færast í vöxt. Agaleysi í notkun tungunnar er einnig áberandi og svo virðist sem orðaforði minnki og skilingur á inntaki orðtaka. Efla þarf virðingu margra fyrir móðurmálinu í daglegri notkun þess.

Mikilvægt er að lögð sé áhersla á íslensku í kennaranámi fyrir öll skólastig, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Þeir sem hyggjast gera kennslu hér á landi að ævistarfi þurfa að hafa góð tök á íslensku máli, bæði töluðu og rituðu og einnig verða þeir að geta nýtt sér hvers konar gögn til að bæta og auðga málfar og almenna málnotkun. Þess vegna þarf að leggja áherslu á meðferð íslensku í öllu kennaranámi og eðlilegt er að ákveðin grunnatriði séu tekin fyrir í öllum greinum.

Í nýjum aðalnámskrám grunn- og framhaldsskóla er lögð áhersla á að allir kennarar séu í raun íslenskukennarar, þeir þjálfi nemendur í íslensku og tjáningu hver á sínu sviði. Kennaranám þarf að búa væntanlega kennara undir slíkt. Þeir sem sérstaklega hyggjast leggja stund á íslenskukennslu í skólum þurfa staðgóða menntun á því sviði bæði í grunnmenntun og auk þess að eiga kost á endurmenntun samhliða starfi. Hér má einnig benda á að vaxandi þörf er á kennurum til að kenna íslensku sem annað tungumál vegna fjölgunar nýbúa í skólum, og við því þarf kennaramenntun að bregðast með beinum hætti

Snemma árs 1998 lagði menntamálaráðuneytið fram nýja skólastefnu undir kjörorðinu Enn betri skóli. Aldrei fyrr í sögu okkar hafa stjórnvöld mótað stefnu með þessum hætti og ekki hefur heldur fyrr tekist að ná svo víðtækri sátt um slíka stefnu. Markmið stefnunnar er að tryggja íslenskum nemendum nám sem er sambærilegt því sem best gerist annars staðar. Í heild hefur framtakið fallið í góðan jarðveg og nýjar aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla tóku gildi 1. júní síðastliðinn og koma til framkvæmda á næstu árum.

Grundvöllur þeirrar sáttar sem náðist um verkið er einmitt vilji fólks, kennara og annarra, til að hnika því áfram. Þegar um margbrotnar áherslur og ólíka hagsmuni er að tefla, þarf að slá af ítrustu kröfum til að komast á leiðarenda. Hér er þó vert að taka fram að útgáfa nýrra námskráa merkir ekki að endurskoðun þeirra sé lokið, á það vil ég leggja áherslu. Námskrár eiga að vera í stöðugri endurskoðun og aðlögun að kröfum kennara, nemenda og samfélagsins. Með nýjum námskrám höfum við náð vissu þrepi en ekki má hætta að klífa stigann. Taka þarf mið af reynslunni af námskránum, sníða af þeim agnúa eða breyta eftir því sem þörf krefur.

Ætlunin með nýjum aðalnámskrám er að styrkja og móta heilsteypt skólastarf, bæði innan hvers skóla fyrir sig og á landsvísu, herða námskröfur og gera þær skiljanlegar öllum sem að skólastarfi koma, nýta kennslutíma til hins ítrasta, auka sveigjanleika í námi og bæta árangur nemenda, bæði í einstökum greinum og í náminu í heild. Að mínu viti liggur gildi framtaksins einmitt í því, að með nýrri skólastefnu hefur loks tekist að móta inntak skólastarfs með markvissum og heilsteyptum hætti, þann þátt starfsins í skólum sem snýr að nemendum, kennurum og foreldrum en ekki einvörðungu að ytri skilyrðum skóla. Fyrstu fræðslulög á Íslandi voru sett árið 1908. Þó hefur aldrei fyrr verið unnið að því með jafn markvissum hætti að skapa eðlilegt samhengi milli leik-, grunn- og framhaldsskóla í því skyni að tryggja eðlilega stígandi í námi.

Óhætt er að segja að með nýrri skólastefnu og nýjum námskrám sé íslensku máli og íslenskukennslu skipað í öndvegi. Allt frá upphafi endurskoðunar aðalnámskráa var lögð sérstök áhersla á íslensku, sögu og þjóðmenningu. Þjóðlegir námsþættir eins og móðurmálið, þjóðmenning og saga lands og þjóðar skipa veglegan sess í nýjum námskrám. Forsenda þess að þjóðmenning nái að dafna í straumi sífellt sterkari erlendra áhrifa er lifandi samband þjóðar við tungu sína, menningu og sögu. Mörkuð hefur verið skýr stefna í kennslu á þessum sviðum bæði á grunn- og framhaldsskólastigi.

Með gildistöku nýrra námskráa er íslenskan fest í sessi sem kjarnagrein í grunnskóla ásamt stærðfræði. Íslenska verður viðamesta grein grunnskólans og mun samkvæmt nýrri viðmiðunarskrá fá um fimmtung alls bundins kennslutíma í grunnskóla. Lætur því nærri að á tíu ára námsferli fari að lágmarki tvö heil ár til íslenskukennslu og kemst tímamagn annarra greina ekki í hálfkvisti við það nema stærðfræði sem fær um 18 prósent bundins kennslutíma. Þó hafa heyrst raddir um að hér sé of skammt seilst.

Álitamál við gerð viðmiðunarstundarskrár og skipun greina í námskjarna eru mörg. Kennarar eru talsmenn sinna greina og vilja veg þeirra eðlilega sem mestan. Tími til ráðstöfunar í skólum er takmarkaður. Innan hans er stefnt að því annars vegar að veita nemendum sem besta alhliða grunnmenntun og hins vegar að gefa nemendum sem mest val, þegar líður á skólagöngu þeirra. Að lokum er það á ábyrgð menntamálaráðuneytisins að taka af skarið og leiða álitamál til lykta varðandi meginskipan kennslu í grunn- og framhaldsskólum. Hefði ráðuneytið ekki tekið þá skyldu alvarlega, heldur hrakist til og frá milli gagnstæðra sjónarmiða um sérhvert atriði, er víst að áform um endurskoðun aðalnámskráa og umbætur í menntamálum væru enn á teikniborðinu, fáum til gagns. Inntak náms í háskóla er ákveðið af skólunum sjálfum. Þar eru álitamálin ekki síður mörg, þegar takmörkuðum tíma er ráðstafað. Þegar þessar hliðar skólastarfs eru ræddar, verður að hafa í huga,að tímamagnið eitt tryggir ekki viðunandi árangur nemenda, heldur skiptir höfuðmáli hvernig sá tími er notaður, eins og dæmin sanna.

Góðir áheyrendur!

Öllum breytingum fylgir ákveðinn vandi en í þeim felast jafnframt tækifæri. Við eigum að nýta þessi tækifæri í þágu móðurmálsins. Tryggjum því öruggan sess í veröld upplýsingatækninnar. Fylgjum markvisst fram þeirri stefnu, að íslenskukennsla gegni þýðingarmiklu hlutverki í öllu skólastarfi.

Málræktarþing í tilefni af degi íslenskrar tungu árið 1999 á verða okkur öllum hvatning til að styrkja stöðu móðurmálsins í menntun og skólum. Lýk ég máli mínu með því að brýna móðurmálskennara, fræðimenn og alla unnendur íslenskrar tungu til þátttöku og samstarfs í þessu veigamikla og mikils metna verkefni.