1.4.1999

Viðtal í Tölvuvísi

Viðtal í Tölvuvísi - apríl 1999

Algjör umskipti

- segir Björn Bjarnason um upplýsingatæknina.

Óhætt er að fullyrða að enginn stjórnmálamaður hér á landi hafi sýnt upplýsingatækni meiri áhuga en Björn Bjarnason menntamálaráðherra. Til marks um það er m.a. umfangsmikil og vel uppfærð vefsíða hans þar sem honum hefur tekist að nálgast kjósendur sína á nýstárlegan og árangursríkan hátt. Þá var hann í fararbroddi í þeirri vinnu að semja við Microsoft um þýðingu á Windows stýrikerfinu yfir á íslensku, gegn því að uppræta ólöglegan hugbúnað hjá hinu opinbera. Nú nálgast kosningar og TölvuVísir greip tækifærið og lagði nokkrar spurningar fyrir Björn. Fyrst var hann spurður hvernig áhugi hans á upplýsingatækninni væri til kominn.

„Hann vaknaði þegar ég var í blaðamennsku á Morgunblaðinu og kynntist því, hve mikið þessi tækni hafði að bjóða. Sérstaklega þótti mér merkilegt undir lok 9. áratugarins, þegar ég kom á sambandi við Daily Telegraph í London um tölvur, þannig að ég gat lesið fréttir þar og notað daginn áður en þær birtust í blaðinu, þá sá ég enn betur hvað þarna var í húfi. Þá átti ég vin í Noregi, sem kynnti mér heimatölvuver sitt og aðgang að netinu, áður en það varð almenningseign. Hann sannfærði mig um að þarna gæti verið um góðan einkafjölmiðil að ræða. Síðan voru það Arnþór Jónsson og félagar hans í Miðheimum sem tengdu mig af heimili mínu inn á netið haustið 1994, en þá hafði ég verið rúm þrjú ár á þingi. Heimasíðuna settu þeir síðan upp fyrir mig í febrúar 1995 og síðan hef ég leitast við að skrifa á hana vikulega. Hún hefur opnað mér nýja samskiptaleið sem stjórmálamanni og netið nýst mér óhemjumikið í ráðherrastörfunum.\"

Ertu ánægður með þann árangur sem fráfarandi ríkisstjórn hefur náð í upplýsingatæknimálum? Hvað stendur upp úr?

„Ríkisstjórnin mótaði stefnu um Ísland í upplýsingsamfélaginu og setti á laggirnar verkefnisstjórn til að framfylgja henni. Áður hafði menntamálaráðuneytið undir forystu minni og nefndar, sem Ásdís Halla Bragadóttir, þáverandi aðstoðarmaður minn, stýrði mótað stefnu um notkun upplýsingatækninnar í þágu mennta og menningar og gefið hana út undir heitinu Í krafti upplýsinga. Frá mínum bæjardyrum séð er ánægjulegast, hve mikið af þessari stefnu hefur komist til framkvæmda. Ég fullyrði, að það hafa orðið algjör umskipti til hins betra á þessu kjörtímabili. Væri fróðlegt, ef einhver hlutlaus aðili legði mat á þessa þróun og mældi árangurinn.\"

Fáirðu áfram til þess umboð eftir kosningar, hver verða þá brýnustu verkefnin á næstu árum á þessu sviði?

„Við höfum sett nýjar námskrár fyrir þrjú fyrstu skólastigin. Við viljum að allir komi úr grunnskóla og þekki lyklaborðið og geti nýtt sér tölvurnar í námi og leik. Við viljum einnig að upplýsingatæknin verði nýtt með markvissum hætti við alla kennslu og nám. Þessu þarf að hrinda í framkvæmd með nýjum aðferðum og búnaði. Þá þarf að tryggja stöðu íslenskunnar betur með því að beita tungutækni í hennar þágu. Samningurinn við Microsoft um þýðingar vísar veginn, en það þarf að gera enn betur. Rannsóknir og þróun þarf að efla. Þannig gæti ég lengi haldið áfram sem menntamálaráðherra. Sem notandi tel ég, að við þurfum að nýta okkur nýja fjarskiptatækni sem best. Ég hef mikla trú á því, að gervihnattatengsl við tölvur eigi eftir að aukast og þar með flutningsgetan á upplýsingahraðbrautinni. Takist okkur að sameina góða þekkingu og tækni tryggjum við örugga stöðu Íslendinga í fremstu röð á þessu sviði.\"

Íslendingar eru sagðir standa framarlega í tölvumálum en hverja telur þú bestu möguleikana fyrir íslensk hugbúnaðarfyrirtæki?

„Ég tel, að það skref sem við erum að stíga til að útrýma ólögmætri notkun á hugbúnaði skipti heimamarkað okkar miklu og þar með hugbúnaðarfyrirtækin. Þau hafa einnig mikil tækifæri á litlum en háþróuðum markaði til að leysa ýmis verkefni, sem eru erfiðari úrlausnar í stærri samfélögum, en lausnirnar eru á hinn bóginn algildar fyrir stóra og smáa. Þessi tækifæri eiga þau að nýta. Mestu skiptir, að vel menntað, áhugasamt starfsfólk sé í þessum fyrirtækjum og innan skólakerfisins eigum við að ýta undir áhuga á störfum á þessu sviði. Í því skyni vil ég til dæmis, að ný bóknámsbraut komi til sögunnar í framhaldsskólum, upplýsinga- og tæknibraut. Starfsnám þarf einnig að þróa með þessi markmið og hagsmuni fyrirtækjanna í huga.\"

___________________________________

Björn Jóhann Björnsson, blaðamaður