31.3.1999

Saga NATO - Morgunblaðsgrein

Saga NATO einstaklega farsæl - en enginn lifir á sögunni

Í fundarsal Atlantshafsráðsins í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Brussel er letrað á vegg: Animus in consulendo liber. Orðin má íslenska á þennan hátt: Til samráðs af frjálsum huga. Þau eru dæmigerð um samstarf aðildarþjóðanna. Þær hafa af frjálsum huga tekið ákvörðun um að tryggja sameiginlegt öryggi sitt með aðild að bandalaginu. Stefna og störf bandalagsins ráðast af því, hver er niðurstaða samráðs fulltrúa bandalagsríkjanna. Þar eru ekki teknar ákvarðanir af meirihluta ríkja í andstöðu við minnihluta. Hvert einstakt ríki hefur neitunarvald, enda er um lífshagsmuni hvers og eins að ræða. NATO er samnefnari þess, sem aðildarríkin telja nauðsynlegt til að tryggja öryggi sitt.

Við fundarborð Atlantshafsráðsins hefur fulltrúi Íslands sömu stöðu og fulltrúi Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands eða Þýskalands. Þegar menn ráða ráðum sínum á þessum stað, geta góðar röksemdir af Íslands hálfu mótað niðurstöðuna ekki síður en annarra. Að þessu leyti er Atlantshafsbandalagið einstakur alþjóðlegur vettvangur. Engin alþjóðasamtök eru mikilvægari fyrir okkur Íslendinga.


Vald og viðræður
Saga NATO í fimmtíu ár endurspeglar hina sameiginlegu viðleitni aðildarríkjanna til að stuðla að friði og varðveita öryggi sitt með tvíþættum aðgerðum. Annars vegar hefur verið byggt upp sameiginlegt varnarkerfi með sameinuðum herstjórnum. Hins vegar hefur verið þróað pólitísk samráðskerfi til að móta hina sameiginlegu varnarstefnu og gefa herstjórnunum fyrirmæli. Bandalagið sækir styrk sinn til valds og viðræðna.
Á sjötta áratugnum voru herstjórnir NATO settar á fót. Dwight D.Eisenhower, yfirhershöfðingi í sigursælu liði bandamanna í síðari heimsstyrjöldinni og síðan forseti Bandaríkjanna, varð fyrsti yfirmaður Evrópuherstjórnar bandalagsins. Íslendingar gerðu tvíhliða varnarsamning sinn við Bandaríkin árið 1951 að ósk NATO. Var samningurinn í senn gerður til þess að tryggja öryggi Íslands og til að treysta tengslin yfir Norður-Atlantshaf, þungamiðjuna í varnarkerfi bandalagsins. Hann hefur einnig verið helsta framlag Íslendinga til hinna sameiginlegu varna.

Um miðjan sjötta áratuginn var lagður grunnur að pólitíska samráðsferlinu innan bandalagsins. Þar var ekki síst tekið mið af óskum smærri ríkja, sem vildu eiga örugga aðild að öllum sameiginlegum ákvörðunum.

Tvíþættar ákvarðanir
Á sjöunda áratugnum var tillögum í Harmel-skýrslunni svonefndu hrundið í framkvæmd, þar sem skilgreind var sú meginstefna, að í því fælist ekki þverstæða að fylgja slökunarstefnu gagnvart Sovétríkjunum og fylgiríkjum þeirra annars vegar og efla sameiginlegar varnir NATO hins vegar. Öflugar varnir væru forsenda samninga við kommúnistaríkin.
Um miðjan áttunda áratugin voru markmið slökunarstefnunnar skilgreind með Helsinki-sáttmálanum svonefnda. Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu varð til í kringum þann sáttmála. Hún er forveri Öryggissamvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), sem enn starfar.

Í skjóli slökunartímans unnu Sovétmenn að því að setja upp meðaldrægar kjarnorkueldflaugar, sem ógnuðu Vestur-Evrópu. Hætta var á því, að í krafti þessara vopna tækist að skapa Evrópuríkjunum óviðunandi kosti. Til að svara þessari nýju ógn mótaði NATO árið 1979 hina tvíþættu stefnu sína, sem miðaði að því að bandarískar stýriflaugar og meðaldrægar eldflaugar með kjarnaoddum yrðu í Evrópu en samhliða skyldu Sovétmenn knúnir til viðræðna um upprætingu þessara nýju vopna. Hatrammt áróðursstríð hófst og friðarhreyfingar létu mikið að sér kveða í evrópskum lýðræðisríkjum. Leiðtogar NATO-ríkjanna sýndu engan bilbug á sér í þessum átökum. Sovétmenn töpuðu áróðursstríðinu og síðan fjaraði smátt og smátt undan valdi þeirra.


Berlínarmúrinn hverfur
Undir lok níunda áratugarins voru Sovétmenn komnir svo að fótum fram, að þeir treystu sér ekki til að verja hið kommúníska stjórnkerfi í evrópskum leppríkjum sínum með valdi. Hinn 9. nóvember 1989 gerðist sá heimsögulegi atburður, að Berlínarmúrinn, sem hafði verið reistur sumarið 1961 og var tákn um skiptingu Þýskalands og álfunnar milli frjálsra þjóða og ófrjálsra, var brotinn niður af íbúum Austur-Berlínar. Síðan hrundi allt sovéska heimsveldið og Varsjárbandalagið, höfuðandstæðingur NATO, hvarf úr sögunni.
Á lokaáratug aldarinnar hefur NATO mótað nýja varnarstefnu. Hættur, sem steðja að aðildarríkjunum, hafa verið skilgreindar á nýjum forsendum. Varnarstefna bandalagsins verður enn endurmótuð á afmælisfundi leiðtoga NATO-ríkjanna í Washington undir lok apríl. Í fyrsta sinn taka varnir bandalagsins mið af aðild þriggja fyrrverandi Varsjárbandalagsríkja, Póllands, Tékklands og Ungverjalands.


Skýr markmið
Saga NATO er einstaklega farsæl. Enginn lifir þó á sögunni, síst af öllu samtök þjóða, sem sífellt þurfa að laga sig að breyttum aðstæðum. Þess vegna er ekki síður mikilvægt nú en áður, að bandalagsþjóðirnar setji NATO skýr markmið. Þeim takist að móta skynsamlega stefnu, sem byggist á sömu meginforsendum og áður, valdi til að bregðast við hættum, og vilja til að ræða málin innbyrðis og við andstæðinga.
Af mörgum mikilvægum verkefnum, sem blasa við NATO, nefni ég þrjú. Innan bandalagsins verður að skapast sátt um, hvernig á þessum málum skuli tekið. Bandalagsþjóðirnar þurfa staðfasta, víðsýna og framsýna stjórnmálaleiðtoga til að móta stefnu í þessum efnum og hrinda henni í framkvæmd.


Evran og öryggishagsmunir
Bandaríkin bera höfuð og herðar yfir öll önnur ríki. Án tengsla Evrópu við Bandaríkin yfir Atlantshaf er NATO einskis virði. Innan bandalagsins hefur hins vegar verið unnið að því að skilgreina sérstaka evrópska öryggis- og varnarhagsmuni. Jafnframt hefur verið lagt á ráðin um það, hvernig Evrópuríkin geti innan ramma NATO og Vestur-Evrópusambandsins (VES) gætt þessara öryggishagsmuna.
Þegar sérfræðingar líta fram á veg og meta samband Evrópu og Bandaríkjanna, vilja sumir tengja ákvarðanir um evruna og gæslu sérgreindra evrópskra öryggishagsmuna. Óhjákvæmilegt sé, að markmið Evrópusambandsins (ESB) um að skáka dollarnum með evrunni, setji svip sinn á öll samskipti Evrópuríkja og Bandaríkjanna.

Er full ástæða til að hafa auga á slíkum straumum. Við Íslendingar ættum ekki síst að fylgjast með öllum hræringum af þessum toga. Fáar þjóðir eiga jafnmikið undir því og við, að Atlantshafstengslin rofni ekki. Höfum við skipað okkur í hóp þeirra þjóða innan NATO, sem leggja höfuðáherslu á þessi tengsl. Í öðrum hópi eru þjóðir, sem hampa hinum sérgreindu evrópsku öryggishagsmunum og gæslu þeirra.


Samskiptin við Rússland
Stærsta viðfangsefni NATO í Evrópu verður að fást við Rússland. Eftir brotthvarf Varsjárbandalagsins var að því stefnt að stofna til eðlilegs samstarfs við Rússland. Margir lögðu sig fram um að tryggja Rússum stöðu meðal evrópskra lýðræðisþjóða, til dæmis með aðild að Evrópuráðinu, þótt færð væru sterk rök fyrir því, að gæsla mannréttinda í Rússlandi stæðist ekki kröfur ráðsins.
Rússneskir stjórnmálamenn hafa horn í síðu NATO. Þeir líta enn á bandalagið svipuðum augum og sovésku kommúnistarnir gerðu. Rússar hafa látið í ljós andstöðu við stækkun NATO. Loftárásir í nafni bandalagsins á herbækistöðvar Serba í fyrrverandi Júgóslavíu urðu til þess, að Rússar slitu öll formleg tengsl við NATO og hættu þátttöku í Félagsskap í þágu friðar, sem NATO stofnaði til að þróa samstarf sitt við ríkin í Austur-Evrópu á sviði hermála og almannavarna.

Jevgeni Primakov, forsætisráðherra Rússlands, setti fram þá kenningu fyrir hrun Sovétríkjanna, að sögulegt hlutverk þeirra væri að verja löndin í austri fyrir heimsvaldastefnu Vesturlanda. Primakov er nú talinn fylgja evró-asískri stefnu, sem byggist á þessu sama viðhorfi. Hann aðhyllist úrelta vinstristefnu við stjórn efnahagsmála, tekur málstað Arabaríkja og er hliðhollur Serbum.

Hin evró-asíska stefna á vaxandi hljómgrunn í rússneskum stjórnmálum. Í henni felst óbifandi trú á rússneskum sérkennum og samkvæmt henni þurfa Rússar ekki að tileinka sér vestræna stjórnarhætti til að ná árangri á nútímalegum forsendum. Hin hliðin á þessari stefnu er, að litið er á hið risastóra Rússland sem hjarta Evrópu og Asíu og þaðan eigi að beina spjótunum gegn vestrænum áhrifum í þeim lokatilgangi að má öll Atlantshafsáhrif (bandarísk áhrif) af Evró-Asíu.


Valdbeiting og varnarsvæði
Þriðja stóra álitamálið innan NATO á 50 ára afmæli þess er hve langt bandalagið á að ganga í valdbeitingu og hvar á að beita hervaldi. Aldrei var gripið til vopna í nafni bandalagsins í öllu kalda stríðinu.
Þegar NATO sendi herafla á vettvang í Bosníu og Herzegóvínu, var það í fyrsta lagi til að framkvæma Dayton-friðarsamkomulagið (IFOR-sveitirnar) og síðan til að viðhalda stöðugleika í samræmi við samkomulagið (SFOR-sveitirnar).

Aðstæður eru aðrar, þegar NATO beitir valdi sínu til verndar íbúum af albönskum ættum í Kosovo. Bandalagsríkin hafa ekki umboð öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna til þessara aðgerða. Þau eru að taka upp hanskann fyrir minnihlutahóp gegn ofríki meirihlutans innan sjálfstæðs ríkis.

Innan bandalagsins verður spurt, hvar setja eigi mörkin við valdbeitingu í nafni þess. Hvað á að fara langt út fyrir hið umsamda varnarsvæði? Hvernig valdi á að beita? Fyrir hverja?

Fulltrúarnir í Atlantshafsráðinu starfa allir í umboði lýðræðislegra ríkisstjórna. Þær þurfa umboð þjóða sinna og þjóðþinga vegna allra mikilvægra ákvarðana í ráðinu. Loftárásir eru ekki gerðar á Serba nema samþykki 19 ríkisstjórna liggi fyrir um árásirnar.


Ómetanlegt fyrir Ísland
Fram undir miðjan níunda áratuginn lögðu Íslendingar megináherslu á stjórnmálaþátttöku í NATO. Þeir nálguðust öryggis- og varnarþáttinn í gegnum Bandaríkjamenn á grundvelli varnarsamnings þjóðanna. Það var ekki fyrr en Geir Hallgrímsson úr Sjálfstæðisflokknum varð utanríkisráðherra árið 1983, að með skipulegum hætti var hugað að þátttöku í hermálasamstarfi innan NATO. Þá hafði sjálfstæðismaður ekki farið með stjórn utanríkismála í 30 ár.
Minnist ég samtala frá fyrri tíð við fastafulltrúa Íslands í höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel, sem töldu af og frá vegna pólitískra aðstæðna heima fyrir, að taka þátt í hernaðarsamstarfi innan NATO. Nú er ekki hreyft neinum athugasemdum við setu íslensks fulltrúa í hermálanefnd NATO. Sagnfræðingar furða sig frekar á því, að hún hafi ekki komið fyrr til sögunnar.

Á sínum tíma, og ekki fyrir mjög löngu, þótti einnig pólitískt fráleitt, að efnt væri til heræfinga hér á landi undir merkjum NATO eða einungis með þátttöku Bandaríkjahers. Ekki eru lengur gerðar athugasemdir af því tagi.

Íslendingar hafa tekið þátt í hernaðarlegum friðarstörfum undir merkjum NATO í fyrrverandi Júgóslavíu. Er það framlag okkar mikils metið. Þess sjást einnig víðar merki en áður í opinberum umræðum, að fleiri átta sig á nauðsyn þess að skilgreina öryggis- og varnarhagsmuni okkar með það í huga, hvaða þáttum þeirra við getum, viljum eða verðum að sinna sjálfir.

Ábendingar um athugasemdir af hálfu eftirlitsstofnunar á evrópska efnahagssvæðinu vegna áforma um smíði varðskips hér á landi án útboðs á svæðinu urðu til þess, að skilgreiningu á hlutverki og búnaði skipsins var breytt. Gengið hefur verið til viðræðna við fulltrúa Bandaríkjahers um það, hvernig skipið verði best úr garði gert, svo að það geti nýst við varnir landsins eða hafsvæða umhverfis það.

Varnarsamningurinn við Bandaríkin er afsprengi aðildar okkar að NATO. Gildi samningsins er og hefur verið mikið og víðtækt. Rök má færa fyrir því, að á þessum breytingatímum innan NATO veiti samningurinn Íslendingum auk varnanna mikilvægari stjórnmálalega tryggingu en nokkru sinni.


Mikilvæg varðstaða
Varðstaða um varnarsamninginn og aðildina að Atlantshafsbandalaginu er jafnmikilvæg nú og áður. Rök andstæðinga hinnar farsælu stefnu okkar í utanríkis- og varnarmálum eru nú sem fyrr reist á ákaflega veikum grunni. Engar hrakspár þeirra hafa ræst, hvorki vegna NATO-aðildarinnar né varnarsamningsins. Sérkennilegast er, hve andstæðingunum líðst lengi að ræða ekki, hvað eigi að koma í stað þeirrar góðu öryggistryggingar, sem við höfum. Fyrr á tímum var ástæðan fyrir þögninni sú, að þeir vildu ekki viðurkenna samstöðu sína með Sovétvaldinu.
Gengið var til aðildar Íslands að NATO eftir markvissa tilraun kommúnista til að hnekkja með valdi lögmætum ákvörðunum alþingis. Árásin á alþingishúsið 30. mars 1949 er sem betur fer einsdæmi í Íslandssögunni. Á meðan sú saga er skráð verður árásin jafnan til marks um rökþrot kommúnista í umræðum utanríkis- og varnarmál.

Á fimmtíu ára afmæli aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu er sú ósk efst í huga mínum, að næstu fimmtíu ár verði Íslendingum jafnfarsæl, þegar litið er til gæslu lífshagsmuna þjóðarinnar á alþjóðavettvangi.

Höfundur er menntamálaráðherra.