24.8.2000

Tungumálið - mótun sjálfsvitundar - Kaupmannahöfn

Þáttur tungumálsins í mótun sjálfsvitundar
(Framsöguerindi á ráðstefnu um gildismat í norrænni menningarsamvinnu 24. ágúst 2000 í Kaupmannahöfn)


Umræða um sjálfsvitund eða sjálfsmynd er áberandi nú á dögum en ekki ævinlega að sama skapi ljóst hvað við er átt, enda hugtakið margrætt. Vonandi þó ekki svo póstmódernískt að geta merkt nokkurn veginn hvað sem er. Eitt af því sem gerir þetta hugtak varhugavert eða a.m.k. vandmeðfarið er að það skiptir að nokkru um inntak eftir því að hverju því er beint. Sjálfsvitund einstaklingsins er lýtur ekki síst að því sem greinir hann frá öðrum, gerir hann sérstakan. Sjáfsvitund hóps er aftur mörkuð af því sem einstaklingunum í hópnum er sameiginlegt, enda þótt það kunni jafnframt að greina hann frá öðrum hópum. Þegar við erum að reyna að gera okkur grein fyrir sjálfsvitund þjóðar og þjóðahópa koma væntanlega bæði þessi viðhorf við sögu, það sem aðgreinir út á við og það sem sameinar inn á við. Þá er eftir að finna þá þætti sem gegna þessum hlutverkum og það reynist ekki alltaf auðvelt þegar til á að taka. Loks kemur svo að spurningunni um að hvaða marki það sé æskilegt að vangaveltur um sjálfsvitund þjóða og þjóðahópa hafi áhrif á fjölþjóðlegt samstarf og samskipti. Að því er menningarsviðið varðar verður að ætla það ríkjandi viðhorf um þessar mundir, að leitast beri við að varðveita sem mest af menningarlegum sérkennum í heimi þar sem jafnframt bjóðast sífellt fleiri tækifæri til að kynnast menningu annarra og starfa að sameiginlegum verkefnum. Hnattvæðingin steypir ekki alla í sama mót, hún felst einnig í því, að æ fleiri geta látið að sér kveða á heimsvísu. Íslenska söngkonan Björk er oft tekin sem dæmi um, að listamaður frá fámennri þjóð með eigið tungumál getur orðið kunnur um heim allan. Tungumálið og þýðing þess fyrir sjálfsvitundina Hlutverk tungumálsins í lífi okkar er spunnið úr mörgum þáttum. Hér skal ekki freistað fræðilegrar greiningar á þeim þáttum en drepið á nokkra sem miklu skipta í ljósi viðfangsefna þessarar ráðstefnu. Almennast og nærtækast er að orða hlutverk málsins svo, að því sé ætlað að vera tæki til samskipta milli manna. Sumir virðast raunar telja, að boðskipti í þröngum skilningi séu hið eina marktæka hlutverk málsins, þ.e. að miðla boðum frá þeim sem talar eða skrifar til þess sem hlustar eða les, þannig að tilætluð merking komist til skila. Frá því sjónarmiði hefur málbúningurinn ekki meginþýðingu og þar með ekki hvaða tugumál er notað, aðalatriðið er að boðin skiljist. Ef þannig er litið á er rökrétt að telja það óþarft og óhentugt að viðhalda þeim sæg ólíkra tungumála sem enn er notast við í heiminum, nær væri að leggja kapp á að gera alla jarðarbúa vel færa í einni allsherjartungu.

Gegn þessum þrönga skilningi á hlutverki málsins sem samskiptatækis benda aðrir á hæfni þess til að miðla menningarverðmætum sem ekki eru einskorðuð við merkingu orða í tali eða texta. Þennan eiginleika tungumálsins er auðvelt að sannreyna með því að leggja stund á þýðingar og kynnast þar með því hve örðugt getur verið að varðveita áhrif frumtextans í þýðingunni þótt eintök orð og orðasambönd eigi sér merkingarlega samsvörun. Þetta stafar auðvitað m.a. af því að tungumálin hafa mótast og þróast í ólíku umhverfi og draga dám af mismunandi aðstæðum í náttúrufari og mannlífi. Einfalt dæmi um sérkenni af þessum toga eru ýmis máltæki sem eiga rætur í tilteknum aðstæðum eða atburðum, sögulegum eða þjóðsögukenndum, og skiljast tæplega nema í samhengi við þann uppruna. M.a. af þessum ástæðum er tungumálið sjálft hluti af menningararfinum um leið og það er lykill að þeim mikilvæga þætti hinnar menningarlegu arfleifðar sem varðveittur er í formi ritaðs eða talaðs máls. Jafnframt heldur hvert tungumál auðvitað áfram að vera tæki til að skapa ný menningarverðmæti sem fá sérstakt gildi vegna þess að þau verða ekki sköpuð nákvæmlega eins á öðrum tungum.

Af sjónarhóli Íslendinga liggur þýðing tungumálsins fyrir menningarlega sjálfsvitund okkar enn meira í augum uppi en ella mundi fyrir þá sök hve hin sýnilega arfleifð okkar er að miklu leyti fólgin í bókmenntum og ýmiss konar rituðum fróðleik. Og við teljum það mikils virði að geta notið þessa efnis á því máli sem það hefur geymst á. Færi svo, að þau tengsl sem íslensk tunga varðveitir við fyrri kynslóðir í landinu yrðu úr sögunni mundi sjálfvitund þjóðarinnar augljóslega breytast, Íslendingar hefðu þá öðlast nýja sjálfsvitund. Íslensk málstefna Fyrir fámenna þjóð kynni það í fljótu bragði að virðast nokkur freisting að ganga inn í öflugra tungumálasamfélag, komast á 6stærra málsvæði &. Ekki síst þjóð sem er í Norður-Atlantshafinu miðju á milli Bretlands og Bandaríkjanna, höfuðþjóða enskumælandi manna. Í þeirri stöðu eru þrjár norrænar þjóðir: Færeyingar, Íslendingar og Grænlendingar. Sé litið framhjá tímabundnum kostnaði við að koma málskiptunum í kring ) og kannski þyrfti breytingin ekki að taka mjög langan tíma ef allir legðust á eitt ) mundi sú tilhögun augljóslega leiða til greiðari samskipta á ýmsum sviðum og vafalaust spara margs konar útgjöld og fyrirhöfn.

Víða í heiminum hefur þessi leið verið valin eða þessi þróun orðið. Þeir sem telja hana ekki fýsilega hafa trú á því að hagræðið yrði keypt of dýru verði. Þá hafa menn í huga einmitt þá eiginleika tungumálsins sem miklu skipta fyrir sjálfsvitund notenda þess: menningarleg sérkenni og tengslin við menningararfinn. Þetta lýtur að sjálfsögðu ekki að neins konar mati á verðleikum eins tungumáls í samanburði við annað, heldur byggist þvert á móti á því viðhorfi að öll tungumál hafi sína sérstöku verðleika sem hafi gildi fyrir notendur þess og menningu heimsins.

Sú málstefna sem hefur verið ríkjandi á Íslandi um langa hríð á rætur í þessum hugmyndum. Við höfum lagt kapp á að varðveita íslensku sem lifandi tugumál. Ekki kannski fyrst og fremst af umhyggju fyrir heimsmenningunni, heldur vegna þess að með því höfum við talið okkur sjálfum best borgið í menningarlegum efnum, varðveisla og efling tungunnar hefur verið grundvallarþáttur í íslenskri menningastefnu.

Nauðsynlegt er að vekja athygli á því að viðleitnin beinist að hvoru tveggja, varðveislu og eflingu, málvernd og málrækt, og þessir tveir þættir eru samofnir. Tungumálið verður að geta endurspeglað þann síbreytilega veruleika sem notendur þess búa við og hlýtur sjálft að taka breytingum í því skyni, m.a. undir áhrifum frá öðrum tungum. En það er okkur kappsmál að breytingarnar gerist á forsendum íslenskunnar án þess að formgerð hennar raskist til muna, að þær verði til að auðga málið og styrkja það sem tjáningartæki en ekki sníða því nýjan og kannski fátæklegri stakk. Að þessu miðar m.a. sífelld smíði nýyrða úr efniviði íslenskrar tungu, jafnframt því að ýmis ný orð utan frá síast inn í málið ef þau geta aðlagast málfræðilegum lögmálum þess og hljóðkerfi. Það er að vísu vandi íslenskunnar eða vörn, eftir því hvernig menn kjósa að orða það, að slík aðlögun reynist í mörgum tilvikum býsna erfið.

Á síðustu áratugum hefur nýyrðasmíðin ekki síst beinst að tölvusviðinu. Það mun skipta miklu um framtíð móðurmálsins hvort tekst að tryggja notkun þess við beitingu hinnar nýju upplýsingatækni sem snertir æ fleiri svið daglegs lífs. Af þeim sökum hafði menntamálaráðuneytið forgöngu um að komist var að samkomulagi við Microsoft )fyrirtækið um íslenskun Windows )tölvuumhverfisins, þótt slík þýðing þætti í upphafi engan veginn sjálfgefin þegar svo lítill markaður átti í hlut. Er ljóst, að það kostar mikla árvekni og fjármuni að tryggja stöðu tungumála í heimi upplýsingatækninnar. Er meðal annars nauðsynlegt að huga að skipan tungumálanáms í því skyni.

Fámennt samfélag, eins og hið íslenska, sem lítur á eigið tungumál sem mikilvægan þátt í sjálfsvitund sinni, verður eðlilega að vera meira á varðbergi um varðveislu tungunnar en samfélag þar sem málnotendurnir eru margir. En jafnframt hlýtur lítil þjóð að verja miklum kröftum til menntunar í erlendum tungumálum og á Íslandi teljum við raunar að sú stefna fari ágætlega saman við áhersluna á rækt móðurmálsins. Við gerum okkur vel ljóst, að íslenskan dugir okkur skammt til þátttöku í alþjóðlegum samskiptum á nútímavísu en erum jafnframt sannfærð um, að heimurinn væri engu bættari þótt við týndum niður tungu okkar og hyrfum inn í eitthvert stærra málsamfélag.

Málið í norrænum samskiptum og þýðing þess fyrir norræna samkennd Þegar rætt er um norræna sjálfsvitund og reynt að greina hvað í því hugtaki felist er tungumálaþátturinn oftast nefndur sem eitt af grundvallaratriðunum. Talað er um norrænt &málsamfélag 8 ( &sprogfællesskab 8). Það er þó ekki einfalt mál, frekar en annað sem varðar sjálfsvitund. Við hvað er átt? Þótt litið sé framhjá móðurmálum nýbúa eru a.m.k. átta tungumál töluð á því svæði sem er vettvangur norræns samstarfs. Fimm af þessum tungum eru málsögulega náskyldar og í þeim hópi eru skandinavísku tungumálin þrjú nægilega lík til þess að þeir sem eiga þau að móðurmáli eiga að geta skilið hver annan án sérstakrar kennslu. Svipað gildir að nokkru leyti um Íslendinga og Færeyinga sín á milli. Þróunin hefur hins vegar orðið sú, að þótt mál þessara tveggja þjóða standi næst þeim rótum sem &norræn mál 8 í málsögulegum skilningi en runnin frá eru þau ekki hluti af því málsamfélagi í þrengra skilningi sem skandinavísku þjóðirnar njóta. Það á enn frekar við um finnsku, grænlensku og samísku.

Er þá einhver merking í því fólgin, þegar talað er um &norrænt málsamfélag 8 ( &nordisk sprogfællesskab 8) og þátt tungumálsins í að skapa norræna samkennd? Tæplega er unnt að láta sér nægja það svar, að málsamfélagið taki til ríflegs meirihluta íbúa á Norðurlöndum. Það dugar a.m.k. ekki okkur hinum sem erum þó upp undir fjórðungur af Norðurlandabúum. En þá koma önnur rök til álita. Af ýmsum sögulegum ástæðum hefur á undanförnum öldum samskiptamál norrænna þjóða innbyrðis oftast verið eitthvert skandinavísku málanna. Til þess að gera það kleift hefur verið haldið uppi umfangsmikilli kennslu í þeim löndum þar sem þjóðtungan er ekki skandinavísk. Þannig hefur myndast sterk hefð fyrir því að norræn samskipti og samvinna tengist notkun norræns tungumáls, að því ógleymdu að skandinavísku málin eru okkur öllum Norðurlandabúum lykill að menningarverðmætum sem við teljum okkur nákomin. Með þessum hætti á tungumálið þátt í því að skapa norræna samkennd. Hér má geta þess, að í samskiptum vestnorrænu þjóðanna, Færeyinga, Íslendinga og Grænlendinga, sem hver stendur vörð um eigin tungu, er danska sameiginlegt samskiptamál og kennd í grunnskólum landanna.

Aðstaða þeirra sem geta notað sitt eigið móðurmál í norrænum samskiptum er auðvitað ólík hinna sem verða að styðjast við misjafnlega trausta kunnáttu í öðru tungumáli, jafnvel þótt norrænt sé. Þennan vanda telja ýmsir eðlilegt að leysa með því að nota ensku sem samskiptamál og trúlega fer það í vöxt að sú leið sé farin. Yrði sú stefna almennt tekin upp væri ekki lengur grundvöllur fyrir því að ræða um þátt tungumálsins í norrænni samkennd með sama hætti og nú.

Ef við viljum tryggja þennan sameiningarþátt er nauðsynlegt að beita til þess markvissum aðgerðum, ekki síst í skólakerfinu. Áður var vikið að mikilvægi tölvusviðsins fyrir málþróunina og hættunni á að þjóðtungan færi þar halloka ef ekki yrði að gert. En einmitt í tölvutækninni felast jafnframt margvíslegir og stórfelldir möguleikar til að efla fræðslu um tungumálin og þjálfun í notkun þeirra, m.a. með fjarnámi af ýmsu tæi. Þá möguleika þarf að nýta í norrænu samstarfi til að styrkja stöðu norrænna mála og þar með tungumálaþáttinn í norrænni samkennd.

Virðulegu áheyrendur!

Ég vil ljúka máli mínu með því að þakka fyrir að þessi ráðstefna skuli haldin. Það er full ástæða fyrir okkur að ræða grundvallar þætti í menningu okkar á þessum tímum mikilla breytinga, þar sem fjarlægðir eru að verða að engu í orðsins fyllstu merkingu. Við höfum meiri og fleiri tækifæri til að kynnast öðrum þjóðum og menningarheimum en nokkru sinni fyrr og með fingurgómana á tölvunni eða stjórntæki sjónvarpsrásanna getum við farið hvert sem við kjósum á örskotsstundu. Um leið og öll þessi tækifæri eru nýtt kemur jafnframt í ljós, að áhuginn á því sem stendur hverjum og einum næst, menningarlega eða félagslega, minnkar ekki heldur frekar vex. Við þurfum öll að hafa eigin fótfestu og rætur til að nýta fjölbreytileikann af öryggi. Móðurmálið er ein mikilvægasta rótin. Við megum ekki slíta hana heldur leggja við hana rækt, því að þar með styrkjum við sjálfsmynd okkar.