4.6.2009

Steingrímur J. leggur ICESAVE-skuldaklafann á þjóðina.

 

 

„Taki Tryggingarsjóðurinn hins vegar við [ICESAVE]skuldunum er ljóst að þá verður ekki aftur snúið: Þá hefur þjóðin endanlega verið skuldsett á grundvelli pólitískra þvingunarskilmála sem ríkisstjórnin hafði ekki dug í sér til að standa gegn. Stjórnarseta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er því að reynast þjóðinni dýrkeypt, í þessu sem öðru. En þessari vöru fæst ekki skilað, eins og sagt er, heldur virðist ríkisstjórnin ætla að sitja áfram, án þess að boða til kosninga, þar til það er orðið endanlegt og óafturkræft að skuldir vegna þessarar fjárglæfrastarfsemi lendi á þjóðinni og komandi kynslóðum.“

Þannig skrifaði stjórnmálamaður í Morgunblaðið laugardaginn 24. janúar 2009. Fáir hafa líklega staldrað sérstaklega við þessi ströngu viðvörunarorð han í blaðinu þann dag,  því að þá beindist öll stjórnmálaathygli að því, að daginn áður, föstudaginn 23. janúar lýsti Geir H. Haarde, forsætisráðherra, yfir því, að hann myndi hætta sem formaður Sjálfstæðisflokksins vegna veikinda auk þess sem hann teldi, að efna ætti til kosninga laugardaginn 9. maí. Sama dag og Geir sagði frá þessu, sneri Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra, heim frá Stokkhólmi, þar sem hún hafði leitað lækninga vegna heilaæxlis.

Sunnudaginn 25. janúar er einnig ólíklegt, að margir hafi verið með hugann við þessa grein hins ábyrga stjórnmálamanns, sem taldi unnt að bjarga þjóðinni frá því að sitja uppi með ICSAVE-skuldirnar með því að rjúfa þing, efna til kosninga og fá nýja ríkisstjórn. Þennan sunnudag sat Ingibjörg Sólrún nefnilega heima hjá Geir H. Haarde og sagðist vilja losna við hann sem forsætisráðherra. Það gerðist svo mánudaginn 26. janúar, þegar ríkisstjórnin sprakk.

Ný ríkisstjórn var síðan mynduð til bráðabirgða 1. febrúar, gengið var til kosninga 25. apríl og meirihlutastjórn mynduð 10 maí.  Aðeins leið rúm vika, frá því að höfundur greinarinnar í Morgunblaðinu hafði skipt um stól, hann hættur sem stjórnarandstæðingur og orðinn fjármálaráðherra,   því að það var enginn annar en sjálfur Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri-grænna, sem taldi mestu skipta að ný ríkisstjórn yrði til í landinu til að koma í veg fyrir, að það yrði „endanlegt og óafturkræft að skuldir vegna þessarar fjárglæfrastarfsemi [ICESAVE-reikninganna] lendi á þjóðinni og komandi kynslóðum.“

Ábyrgð á frágangi og samningum vegna ICESAVE lenti á herðum Steingríms J. Sigfússonar, eftir að hann varð fjármálaráðherra. Hann skipaði Svavar Gestsson, sendiherra, formann samninganefndar um ICESAVE. Skömmu síðar sagðist Steingrímur J. vænta „glæsilegrar niðurstöðu“ í ICESAVE-málinu, þegar hann spurður nánar út í það, hvað í þessum orðum fælist, dró Steingrímur J. í land og sagðist hafa lýst of mikilli bjartsýnni.

Þegar Steingrímur J. hefur farið með ICESAVE-málið í rúma fjóra mánuði í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, eða föstudaginn 5. júní, kynnir hann niðurstöðu í málinu. Hún er nákvæmlega sú, sem hann taldi fráleita og alls ekki koma til álita í greininni í Morgunblaðinu 24. janúar 2009. Þá sagði Steingrímur J. fullur hneykslunar um stefnu þáverandi ríkisstjórnar:

„[V]ar í reynd fallist á að Ísland væri ábyrgt fyrir allt að 700 milljarða króna reikningi. Á þessari stundu er með öllu óvíst hvaða eignir koma á móti þessari skuld og hvenær salan á þeim eignum gæti átt sér stað. Vaxtakostnaðurinn einn og sér af 700 milljarða króna skuld næmi líklega á bilinu 35-50 milljörðum króna á ári (miðað við 5-7% vextir). Það er svipuð upphæð og kostar að reka Landspítalann allan eða þrefaldan Háskóla Íslands. Almennt er nú talið að það sé fyrst raunhæft að hefja sölu á einhverjum eignum, þeim sem þá verða eftir, að 3-5 árum liðnum. Á meðan yrði þessi óheyrilega skuldasúpa vaxtaberandi og svo stæði út af endanlegur reikningur (skuldir umfram eignir) sem bjartsýnar spár telja að gæti orðið 150 milljarðar. “

Nú er sagt frá því, að ríkisstjórnin hafi veitt Steingrími J. „fullt umboð“  til að halda viðræðum áfram um lausn Icesave deilunnar á svipuðum nótum og hann taldi forkastanlegar 24. janúar 2009.  Lánsfjárhæðin er 640 milljarðar króna til  15 ára en afborgunarlaust í 7 ár, vextir eru 5,5%.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir að þau drög að samkomulagi, sem hafa verið kynnt séu mun hagstæðari hvað varðar lánstíma og vaxtakjör en áður hafi verið í boði.  Tryggingasjóður innlána gengur frá málinu með ríkisábyrgð, en vegna ábyrgðanna þurfi málið að fara fyrir þingið.

Orð Jóhönnu Sigurðardóttur um „mun hagstæðara“ lán eru ósönn, þegar litið er til þess, sem Steingrímur J. lýsir í grein sinni. Samningaviðræðurnar undir forystu Svavars Gestssonar hafa vissulega skilað niðurstöðu en hún er ekki þess eðlis, að nokkur ástæða sé til að fagna henni.

Raunar má velta fyrir sér, hvað knúði á um að ganga frá þessu máli einmitt á þessari stundu, þegar ríkissjórn Gordons Browns, forsætisráðherra Breta, stendur á brauðfótum og krafa um kosningar í Bretlandi verður sífellt háværari.  Fram hefur komið, að þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi utanríkisráðherra, og Össur Skarphéðinsson, núverandi utanríkisráðherra, hafa bæði rætt málið við David Miliband, utanríkisráðherra Breta, og jafnframt látið þess getið, að þau hafi að nokkru leyti gert það á flokkslegum grunni jafnaðarmanna.

Með samkomulaginu fellur ríkisstjórnin frá öllum lagalegum fyrirvörum vegna ICESAVE en færð hafa verið fyrir því rök, að með vísan til lagareglna evrópska efnhagssvæðisins sé unnt fyrir íslensk stjórnvöld að verjast hörðum kröfum Breta og Hollendinga um, að Íslendingar standi undir útborgun á innlánsreikningum í Bretlandi og Hollandi. Í fyrrverandi ríkisstjórn lagði utanríkisráðherra Samfylkingarinnar höfuðáherslu á, að ICESAVE-málið yrði rekið sem pólitískt ágreiningsefni en ekki lögfræðilegt og beygði sig þar með undir kröfu Breta og Evrópusambandsins. Ég hvatti til þess, að ekki yrði fallið frá lagalegum fyrirvörum, en ríkisstjórninn var ráðlagt annað af lögfræðingum og stjórnarerindrekum fyrir utan, að utanríkisráðherra lagði áherslu á póltíska lausn.

Hin pólitíska niðurstaða liggur nú fyrir og það kemur í hlut Steingríms J. Sigfússonar að ganga frá henni ásamt Svavari Gestssyni, sendiherra, með blessun Jóhönnu Sigurðardóttur.  Niðurstaðan er hvorki „glæsileg“ né „mun hagstæðari“ en nokkur gat vænst. Hún er einfaldlega sú, sem Bretar og Evrópusambandið vildu.

Steingrímur J. Sigfússon sneri við blaðinu gagnvart Evrópusambandinu með því að setjast í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur nú hefur hann étið ofan í sig öll stóru orðin um ICESAVE og tekur  sjálfur að sér að leggja skuldaklafann á þjóðina.