3.4.2009

Stjórnarskrárbreyting 2. umræða II. ræða

Virðulegi forseti. Ég skil vel að virðulegi forseti líti þannig á að huldufólk standi að þessu máli hér í þingsalnum og tali þess vegna eins og hér sé fullt af fólki inni sem við sjáum ekki. Það er náttúrlega mjög sannfærandi að það séu huldumenn sem vilji standa að þessu frumvarpi og það sé þannig að enginn vilji kannast við það að vera hér. (Forseti hringir.) Mér finnst mjög óþægilegt ef herra forseti sér eitthvert fólk hér inni sem ég sé ekki.

(Forseti (KHG): Forseti hefur gert ráðstafanir til að biðja formann og varaformann sérnefndar að koma inn í salinn.)

Ég þakka fyrir. Ég tel það mjög ámælisvert að flutningsmenn þessa frumvarps kjósi frekar að láta sminka sig fyrir sjónvarpsþátt en að sitja hér og hlusta á umræðurnar. Ég tel það lið í þeirri niðurlægingu sem Alþingi er sýnt með því að flytja þetta frumvarp, að flutningsmennirnir hagi málflutningi eða skyldi okkur til að haga málflutningi þannig að þeir séu ekki viðstaddir. Við sjálfstæðismenn höfum hvað eftir annað lagt til, virðulegi forseti, að umræðum á þinginu yrði hagað á annan veg, að ekki yrði staðið þannig að málum að stjórnarskrármálið væri hér á dagskrá heldur yrðu tekin á dagskrá önnur mál sem við teljum brýnni. En hver hefur staðið gegn því? Það er hæstv. forsætisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra, flutningsmenn þessa frumvarps sem hafa staðið gegn því að farið yrði að óskum okkar um það hvernig dagskránni yrði hagað. Síðan þegar umræðurnar fara fram og þau eru búin að taka dagskrána, þessir virðulegu hæstv. ráðherrar, og Alþingi í raun og veru í gíslingu með þessum aðferðum sínum er kosið að vera frekar hjá sminkdömum í sjónvarpsforsal en að sitja hér í þingsalnum.

Þetta er alveg dæmalaus framkoma og ég er undrandi á því að hæstv. forseti skuli láta þetta ganga yfir okkur í þingsalnum, að hann skuli ekki verða við þeirri sanngjörnu ósk að gera hlé á fundinum meðan svo stendur á að það er augljóst að flutningsmennirnir sem hafa gefið fyrirmæli um að dagskránni yrði hagað á þennan veg, sjá ekki sóma sinn í því að vera hér viðstaddir.

Ég ítreka þær spurningar sem hér hafa komið fram til hæstv. forseta, hvort virkilega sé ekki unnt að verða við þeirri ósk okkar að meðan flutningsmennirnir eru greinilega þannig bundnir við störf að þeir geti ekki verið hér þurfum við að vera hér og tala og flytja þetta mál. Ég skora á hæstv. forseta að gera hlé eða slíta fundinum og boða til nýs fundar þegar ljóst verður hvort flutningsmenn málsins geta verið hér.

Ég óska eftir að vita það áður en ég hef að flytja mál mitt hvernig forseti ætlar að bregðast við þeim tilmælum sem hér hafa komið fram.

(Forseti (KHG): Forseti ítrekar það sem hann hefur áður sagt, hann hyggst freista þess að halda umræðunni áfram og meta málið að nýju að lokinni þeirri ræðu sem nú stendur yfir.)

Þetta er mjög ósanngjarn úrskurður virðulegs forseta og gengur þvert á það sem eðlilegt er þegar mál af þessu tagi eru til umræðu. En úrskurðurinn er að sjálfsögðu í samræmi við annað sem hefur verið tíðkað hér við meðferð þessa máls. Það er ekki farið að neinum ábendingum okkar sjálfstæðismanna og það er verið að bola þessu máli hér í gegn án þess að virtar séu nokkrar óskir eða tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem þarf að hafa uppi þegar verið er að ræða stjórnarskrá. Þess vegna kýs ég, virðulegi forseti, að hefja ræðu mína á því að lesa upp varnaðarorð frá starfandi umboðsmanni Alþingis, Róberti R. Spanó, sem birtist í Tímariti lögfræðinga sem var að koma út. Starfandi umboðsmaður Alþingis er ritstjóri þess tímarits og hann skrifar ritstjórnargrein sem heitir „Réttarríki á umrótatímum.“ Í ritstjórnargreininni segir, með leyfi forseta:

„Á Íslandi eru nú uppi erfiðar aðstæður sem kalla á skjót viðbrögð stjórnmálamanna og krefjast ákvarðana um mikilvæga hagsmuni almennings í landinu. Við þessar aðstæður finnst kannski einhverjum, gjarnan stjórnmálamönnum, að lögfræðingar ættu að hafa sig hæga og leyfa valdhöfum í landinu að vinna starf sitt án sífelldra áréttinga um fyrirmæli laga og mikilvægi þess að stjórnvöld fylgi þeim í hvívetna. Við þessar sérstöku aðstæður finnst þeim ef til vill freistandi að láta lönd og leið þær lagareglur sem kunna að tefja fyrir eða jafnvel reisa skorður við þeim lausnum sem hentugastar þykja hverju sinni.

En réttarríkið er aldrei mikilvægara en við aðstæður eins og þær sem við búum við hér á landi nú um stundir. Þeir sem telja að réttlætanlegt sé eins og sakir standa að virða að vettugi grundvallarreglur réttarríkisins vanmeta siðferðilegt mikilvægi þess sem grundvöll að stjórnskipulaginu.

Hér skiptir öllu að gera sér grein fyrir því að sú ákvörðun valdhafa að láta sér í léttu rúmi liggja fyrirmæli laga í ákveðnu tilfelli grefur ekki aðeins undan því einstaka lagaákvæði sem um ræðir hverju sinni heldur stefnir í hættu þeim veigamiklu hagsmunum sem réttarríkinu er ætlað að tryggja. Slík háttsemi gefur þannig til kynna að stjórnvöld telji sig, öfugt við hinn almenna þjóðfélagsþegn, hafa vald til þess að meta hverju sinni hvort tilefni sé til að fara að lögum eða ekki. Þannig svipta stjórnvöld borgarana þeirri vissu að lögin verði haldin og geri þeim um leið ókleift að sjá fyrir ákvarðanir stjórnvalda með því að kynna sér gildandi rétt í landinu. Þessu eðli réttarríkisins er nánar lýst með eftirfarandi hætti í athyglisverðri grein Hafsteins Þórs Haukssonar: Beitti hnífurinn — Um réttarríkishugmynd Josephs Razs, sem birtist á síðum þessa heftis tímaritsins:

„Fylgispekt við réttarríkið er nauðsynleg forsenda þess að stjórnvöld komi fram við borgarana sem sjálfstæða og sjálfráða einstaklinga. Kröfur réttarríkisins eru reistar á þeirri forsendu að einstaklingarnir séu færir um að skilja reglur og skipuleggja líf sitt út frá þeim. Brot gegn meginreglum réttarríkisins leiða til óvissu borgaranna um réttarstöðu sína og gera þeim ókleift að skipuleggja athafnir sínar. Og það sem verra er, slík brot geta einnig leitt til þess að lögmætar fólks til laga og réttar bresta. Með öðrum orðum; fótunum er kippt undan fólki þegar afleiðingar gerða þess eru ekki þær sem vænta mátti af gildandi lögum og rétti.“

Það er því ekki í samræmi við grundvallarreglur réttarríkisins að sífellt sé leitað sérlausna fyrir núverandi aðstæður með breytingum á lögum sem víkja frá þeim almennu reglum sem gilt hafa hér á landi; reglum sem giltu á þeim tíma þegar atvik gerðust.

Í kjölfar hruns íslensks fjármálakerfis glímir almenningur á Íslandi því miður nú við ótta og óvissu um framtíðina. Slíkt samfélag þarf síst á því að halda að grafið sé undan þeim verðmætum sem réttarríkið stendur vörð um. Réttarríkið er mikilvægt á tímum góðæris og hagsældar. En það skal áréttað að það er enn mikilvægara fyrir velferð íslensku þjóðarinnar til lengri tíma að grundvallarreglur þess séu virtar á umrótatímum.“

Undir þetta skrifar Róbert R. Spanó, starfandi umboðsmaður Alþingis. Það er einmitt þetta sem kjarni málsins snýst um og við ræðum hér og ætlum að ræða eins lengi og ekki verður orðið við þeim óskum okkar að virða grunnreglur réttarríkisins. Og að það verði orðið við þeim óskum okkar að standa ekki þannig að breytingu stjórnarskrárinnar — hér fjallar starfandi umboðsmaður Alþingis um almennar lagareglur, ef hann hefði vitað þegar hann skrifaði þessa forustugrein sína í Tímarit lögfræðinga að staðið yrði að breytingum á stjórnarskránni með þeim hætti sem við erum að fjalla hér um veit ég ekki hvaða orð hann hefði notað eða í hvaða menn hann hefði vitnað til að árétta nauðsyn þess að ekki sé vegið að rótum réttaröryggis og réttarríkisins og notaðar, eins og hann segir, að það sé ekki í samræmi við grundvallarreglur réttarríkisins að sífellt sé leitað sérlausna fyrir núverandi aðstæður. Það sem yfir okkur er predikað hér lon og don af talsmönnum þessa máls er að nú þurfi að leita sérlausna, ekki við lagasetningu heldur við gerð stjórnarskrárinnar. Það er vegið að grundvellinum og réttarörygginu að því er sjálfa stjórnarskrána varðar og nú er sagt að sérlausnir þurfi til þess, þvert á það sem hér segir í þessari ritgerð og þessum leiðara eftir starfandi umboðsmann Alþingis.

Alþingi á eftir að ræða skýrslu umboðsmanns Alþingis og Alþingi hefur jafnan litið þannig á að því beri að standa sérstakan vörð um sjónarmið sem koma fram í skýrslu umboðsmanns Alþingis. Við sem höfum starfað sem ráðherrar höfum tekið þátt í umræðum um þetta mál, við getum haft okkar skoðanir varðandi einstök úrlausnarefni sem koma á borð umboðsmanns Alþingis en allir vita að álit hans vegur þungt þegar fjallað er um framkvæmd innan stjórnsýslunnar.

Þegar starfandi umboðsmaður Alþingis skrifar þar að auki sem ritstjóri Tímarits lögfræðinga á þennan veg og beinir þeim tilmælum til stjórnmálamanna að vera ekki að, ég segi misnota það ástand sem nú er í þjóðfélaginu til að koma með einhverjar sérlausnir sem standast kannski ekki tímans tönn, eru sérlausnir og illa unnar og hroðvirknislega unnar oft og tíðum, þá eru það varnaðarorð sem ber að hafa í huga. Eitt er að grípa til lagasetningarvaldsins vegna almennra laga með slíkt í huga, það er þó hægt að draga það til baka með annarri lagasetningu en að breyta stjórnarskránni í nafni sérlausna og búa til einhverjar forsendur sem standast alls ekki þegar nánar er að gáð er forkastanlegt. Og að haga síðan meðferð málsins þannig á þingi, virðulegi forseti, eins og virðulegur forseti hefur úrskurðað hér, að okkur sé skylt að ræða málið þótt flutningsmennirnir sjálfir séu bundnir við að láta snyrta sig áður en þeir fara í sjónvarpsþátt. Við eigum að sæta því með úrskurði forseta að það sé viðunandi. Ef ég hefði dagskrárvald yfir hæstv. forsætisráðherra hefði ég viljað að hún væri núna í Strassborg á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins að gæta hagsmuna íslenska ríkisins og íslensku þjóðarinnar, að hún nýtti þann vettvang til að halda fram málstað okkar gegn ofríki Breta. Ef ég ætti að forgangsraða á dagskrá forsætisráðherra mundi ég hvorki vera að búa mig undir sjónvarpsþátt né — ég hefði skilið og fagnað því ef hún væri ekki hér ef hún væri í Strassborg að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar. En svo er ekki, hún er að búa sig undir sjónvarpsþátt þegar við ræðum hér þetta mál og gefur sér ekki tíma til að vera hér. Hún stjórnar þinginu á þann veg að okkur er skylt að ræða þetta mál hér þegar hún veit að hún þarf að vera að búa sig undir sjónvarpsþátt, hæstv. forsætisráðherra.

Hvaða vinnubrögð eru þetta? Síðan þeir menn sem hafa hér drottnunarvald yfir hæstv. forseta Alþingis — eins og komið hefur fram hefur hann hvað eftir annað sagt úr sínu forsetasæti að hann ráði þessu máli ekki, það séu einhverjir aðrir sem ráða þessu. Þeir sem ráða því hvernig dagskránni er háttað kjósa síðan að vera — okkur er sagt að þeir hafi verið á borgarafundum á Akureyri eða þeir hafi verið hér og þar þegar verið er að ræða um stjórnarskrána. Nú eru þeir að bíða eftir að koma snyrtilegir fram í sjónvarpsþætti. Og við eigum að standa hér og ræða stjórnarskrá. (VS: Gæti verið …) Hvaða (Gripið fram í: Veitir nú ekki af.) mál er það eiginlega sem við eigum að sætta okkur við og hvað er það sem við eigum að sætta okkur við? Ef formaður sérnefndarinnar veit betur en að þeir séu að búa sig undir að fara í sjónvarpsþáttinn og láta snyrta sitt nef er hægt að koma því á framfæri hér í andsvari. Ég gef mér það, miðað við orð hæstv. forseta, að svo sé og eins og ég segi hefði ég kosið að forsætisráðherra væri ekki hér á landinu, væri frekar að gæta hagsmuna þjóðarinnar á leiðtogafundi NATO til að halda fram málstað okkar með þeim hætti. Það hefði ég skilið en ég skil ekki að ekki sé þá hægt að sitja hér í þingsalnum og hlusta á þessar umræður og taka þátt í þeim og hlusta m.a. á þessi varnaðarorð frá starfandi umboðsmanni Alþingis. Ég veit ekki til þess að hæstv. forsætisráðherra eða aðrir flutningsmenn þessara mála leggi sig almennt eitthvað eftir því að lesa það sem lögfræðingar benda á, sem eru þó sérfróðir á þessu sviði. Þess vegna verður að nota tækifærið, þegar menn flytja hér ræður, til að benda þessum ágætu flutningsmönnum á það sem fræðimenn á þessu sviði segja og þær ábendingar sem fram koma. Það er það sem við sjálfstæðismenn höfum verið að gera og veitir ekki af og er engin vanþörf á.

Ég ætla líka að lesa hér annan leiðara, eftir mann sem hefur átt sæti í stjórnarskrárnefndum og hefur komið að því að fjalla um stjórnarskrána í mörg ár. Hann er nú ritstjóri Fréttablaðsins, sérstakur áhugamaður um m.a. aðild Íslands að Evrópusambandinu eins og hv. formaður sérnefndar um stjórnarskrármál og fleiri sem standa að þessu frumvarpi um breytingar á stjórnarskránni. Eins og allir þingmenn eru sammála um þarf að breyta stjórnarskránni til að Ísland komist inn í Evrópusambandið. Hins vegar eru færð rök fyrir því, í grein sem Helgi Áss Grétarsson, sérfræðingur í auðlindamálum, hefur skrifað í Fréttablaðið hinn 13. mars, að þetta auðlindaákvæði í frumvarpi fjórmenninganna geri Íslendingum erfiðara fyrir að gerast aðili að Evrópusambandinu. Ég leyfi mér að lesa úr greininni, með leyfi hæstv. forseta:

„Að áliti margra lögspekinga þarf að breyta stjórnarskránni svo að Ísland geti gengið í Evrópusambandið . Þetta byggir fyrst og fremst á því að við inngöngu í ESB yrði óhjákvæmilega umfangsmikið framsal ríkisvalds sem mundi brjóta í bága við 2. gr. stjórnarskrárinnar um þrískiptingu ríkisvalds. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um breytingar á stjórnarskránni en engar tillögur eru lagðar fram í frumvarpinu sem veita heimildir til framsals ríkisvalds eða önnur frávik frá 2. gr. stjórnarskrárinnar.

Fyrsta málsgrein 1. gr. téðs frumvarps“ — sem stendur enn þótt 1. gr. hafi verið breytt af meiri hlutanum — „til breytinga á stjórnarskrá er svohljóðandi: „Náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru þjóðareign. Ríkið fer með forsjá þeirra, vörslu og ráðstöfunarrétt og hefur eftirlit með nýtingu þeirra í umboði þjóðarinnar eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.“ Sé litið til ummæla í greinargerð með frumvarpi til stjórnarskipunarlaga þá má ætla að fyrri málsliðurinn kveði m.a. á um að ríkinu sé fenginn eignarréttur á þeim náttúruauðlindum sem enginn annar lögaðili eða einstaklingur hefur sannað eignarrétt sinn á. Um síðari málsliðinn er í greinargerð m.a. fullyrt að hann feli í sér sambærilegar heimildir ríkisvalds og almennt leiði af fullveldisrétti ríkja.“

Síðan er getið um, og það er núna komið inn í þessa 1. mgr., að „náttúruauðlindir í þjóðareign megi ekki selja eða láta varanlega af hendi“. Síðan segir lögfræðingurinn og sérfræðingurinn í auðlindarétti, með leyfi forseta:

„Frumvarpstillagan um auðlindaákvæði í stjórnarskrá hlýtur að vera bundin þeim forsendum að allar náttúruauðlindir séu eignarhæfar í sjálfu sér og að fiskveiðiréttindi í íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu séu ekki háð einkaeignarrétti. Séu þessar forsendur réttar, sem hér er engin afstaða tekin til, þá hljóta orðin „ríkið fer með forsjá þeirra, vörslu og ráðstöfunarrétt“ í 1. gr. auðlindaákvæðisins að hafa þýðingu í skilningi eignarréttar, þ.e. ríkið öðlast þær heimildir sem felast í þjóðareignarhugtakinu. Framanrakin ummæli í greinargerð, sem gefa til kynna að eingöngu sé um fullveldisrétt ríkisins að ræða, víkja vart texta ákvæðisins til hliðar.

Geri Ísland aðildarsamning við ESB eru verulegar líkur á að engar varanlegar undanþágur fáist frá hinni sameiginlegu fiskveiðistefnu sambandsins. Standist forsendur þær sem liggja til grundvallar auðlindaákvæðinu hefði innganga Íslands í ESB væntanlega í för með sér að íslenska ríkið hefði ekki „forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt“ fiskveiðiauðlindarinnar á Íslandsmiðum. Verði auðlindaákvæðið að lögum mun innganga Íslands í ESB vera brot á ákvæðinu.

Sú framtíðarsýn er málefnaleg að Ísland eigi að ganga í ESB. Í stað þess að breyta stjórnarskránni í þá veru að engar lagalegar tálmanir séu því í vegi er nú lagt til að bætt verði ákvæði í stjórnarskrá sem geri slíka inngöngu að öllum líkindum torsóttari. Þetta eru merkileg tíðindi, ekki síst ef miðað er við þjóðfélagsumræðuna síðustu missiri um aðild Íslands að ESB.“

Þetta er mat Helga Áss Grétarssonar, sérfræðings í auðlindarétti. Hann telur sem sagt að með því að samþykkja það frumvarp sem hér liggur fyrir, og er lagt fram af fólki sem í hinu orðinu segist ætla að ganga í Evrópusambandið og stuðla að því, sé verið að búa til nýja þröskulda, gera þetta erfiðara (Gripið fram í.) en ella hefði orðið. Og hvað segir svo ritstjórinn Þorsteinn Pálsson? Ég ætla að lesa það sem hann segir í leiðara Fréttablaðsins í dag, með leyfi forseta:

„Talsmenn ríkisstjórnarinnar segja að stjórnarskrárbreytingar þær sem nú er verið að gera séu svar við ákalli fólksins, fyrir fólkið og fólksins vegna. Að því leyti hafa þeir rétt fyrir sér að skoðanakannanir gefa til kynna að meiri hluti kjósenda sé þeim fylgjandi.

Á hinn bóginn liggur fyrir að meiri hluti allra þeirra sérfræðinga sem stjórnarskrárnefnd þingsins hefur kallað til varar við því flaustri sem ríkisstjórnin hefur á breytingunum. Sumir vilja ekki segja álit sitt vegna óvandaðra vinnubragða. Aðrir benda á hættuna sem fylgir óskýrum stjórnarskrárákvæðum. Loks eru þeir sem leggja áherslu á að reyna eigi til þrautar að ná víðtækri samstöðu þegar sjálf stjórnarskráin á í hlut.

Umræðan á Alþingi snýst ekki um málefnaleg rök og gagnrök af því tagi sem lesa má í umsögnum um stjórnarskrárfrumvarpið. Hún fer alfarið eftir forskriftarbók lýðskrumsins: Við erum með fólkinu. Þeir sem ekki eru sammála okkur eru á móti fólkinu. Röksemdafærslur lýðskrumsins hafa orðið ofan á. Stjórnarandstaðan hefur orðið undir í þeirri orðræðu.“

Það er rétt, virðulegi forseti, af því að við erum ekki með þessa lýðskrumsumræðu um þetta mál eins og hér hefur verið höfð í frammi. Síðan heldur ritstjórinn áfram, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin hefur ákveðið að fresta kosningu til stjórnlagaþings um eitt ár. Ljóst er að kjósa þarf til Alþingis um leið og ný stjórnarskrá hefur verið samþykkt. Með þessari frestun á stjórnlagaþinginu hefur ríkisstjórnin tryggt að hún getur setið einu ári lengur en áformað var. Á síðustu stundu er þannig verið að fresta því um að minnsta kosti eitt ár að fólkið fái stjórnarbót og rétt til að kjósa eftir nýjum stjórnarskipunarreglum. (Gripið fram í.)

Sá háttur að umsagnir séu veittar um lagafrumvörp er í þágu fólksins. Hann er málefnaleg vörn þess gegn ofríki framkvæmdarvaldsins. Hefði ríkisstjórnin hlustað á þær athugasemdir sem Alþingi hafa borist er eins víst að ná hefði mátt sátt um bæði vandaðri og skjótvirkari framgang stjórnarskrárbreytinga en raun verður á.

Málamiðlun hefði falist í því að ákveða nú að stjórnarskrárbreytingar tækju gildi með samþykki þjóðarinnar í allsherjaratkvæðagreiðslu. Alþingi fengi þá allan næsta vetur til að ljúka vandaðri endurskoðun sem síðan yrði borin undir þjóðaratkvæði samhliða sveitarstjórnarkosningum strax næsta vor.

Í beinu framhaldi af því fengi þjóðin að kjósa fulltrúa á löggjafarsamkomuna á grundvelli nýrra stjórnarskrárákvæða og eftir atvikum að kjósa framkvæmdarvaldið beint í sérstökum kosningum. Vönduð vinnubrögð hefðu tryggt fólkinu þegar á næsta ári nýja stjórnarskrá og valdhafa með umboð á nýjum grundvelli. Málefnaleg sjónarmið hafa nú vikið fyrir textabók lýðskrumsins í þessu mikilvæga máli.

Mesta athygli vekur þó“ — og þarna kemur, hæstv. forseti, punkturinn sem snertir Evrópusambandið og það mikla stefnumál formanns sérnefndarinnar og annarra að ganga í Evrópusambandið. Og þá segir þessi málsvari aðildar Íslands að Evrópusambandinu, sem Þorsteinn Pálsson er — „ríkisstjórnin og stjórnarandstaðan hafa með öllu útilokað að setja ákvæði í stjórnarskrána sem heimilar aðild að Evrópusambandinu. Þvert á móti hefur verið bent á að auðlindaákvæðið geti verið Þrándur í Götu aðildar.

Allra alvarlegast er að með frestun á kosningu stjórnlagaþings er um leið verið að fresta að heimildarákvæði um aðild komist í stjórnarskrá. Augljóst er að umboð Alþingis til stjórnarskrárbreytinga fellur niður þar til bráðabirgðaákvæðið um stjórnlagaþing verður óvirkt með starfslokum þess.

Alvöruleysi stjórnmálaumræðunnar lýsir sér best í því að þingmenn Samfylkingarinnar telja nú brýnast að ljúka störfum Alþingis með stjórnarskrárleikfléttum sem viðhalda aðildarbanni næsta kjörtímabil. Er þetta í þágu fólksins?“

Þarna kemur annar ritstjóri, maður sem hefur setið lengi í stjórnarskrárnefndum, og tekið þátt í að endurskoða stjórnarskrána, er yfirlýstur stuðningsmaður þess að Ísland gangi í Evrópusambandið. Hann gagnrýnir vinnubrögðin, jafnvel með fastari hætti en starfandi umboðsmaður Alþingis í leiðaranum í Tímariti lögfræðinga. Hann segir um leið að það fólk sem er að tala um það hér lon og don að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið reisi nýjar girðingar og gera það torveldara og breyta stjórnarskránni þannig að það verði erfiðara eftir en áður.

Þetta eru vinnubrögðin. Það er full ástæða til að benda á það sem hér segir í leiðaranum, að þetta er fyrst og fremst lýðskrum. Það er ekkert annað en lýðskrum þegar talað er um að sumir séu betri vinir fólksins en aðrir, þegar um stjórnarskrána er að ræða er það helbert lýðskrum. Svo er málið vaxið og eins og ég flutti hér ræðu um í gær tel ég að þetta lýðskrum birtist m.a. í niðurlægingu Alþingis, það á að ýta Alþingi til hliðar, Alþingi á að stíga til hliðar svo einhverjir aðrir geti tekið við af því og ráðskast með það vald sem nú er í höndum Alþingis.

Virðulegi forseti. Einn af frambjóðendum Framsóknarflokksins er nýr maður sem ekki situr á Alþingi og er, ef ég veit rétt, efsti maður á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi. Hann skrifar á vefsíðu sína pistil undir heitinu: Þolinmæði framsóknarmanna. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þolinmæði okkar framsóknarmanna virðast engin takmörk sett. Við lofuðum að verja ríkisstjórn falli gegn því að gripið yrði til ráðstafana til bjargar heimilum og fyrirtækjum. Á því hefur staðið en við verjum enn ríkisstjórnina.

Þessi ákvörðun Framsóknarflokksins varð til þess að boðað var til kosninga eins og krafist hafði verið. Því má segja að kosningarnar séu í boði Framsóknarflokksins.

Það veit hins vegar ekki á gott fyrir mögulegt samstarf að stjórnarflokkarnir skuli líta svo á að þeim hafi verið færðir stjórnartaumarnir til að reka kosningabaráttu á kostnað almennings í stað þess að grípa til aðgerða.

Óvinsælar aðgerðir eru slegnar af og látið að því liggja að verið sé að leita annarra lausna en meðan ríkir óvissa. Fremstur í flokki hefur farið núverandi heilbrigðisráðherra. Hvar eru tillögurnar? Hvar eru lausnirnar fyrir heimili og fyrirtæki? Hvar er skjaldborgin um heimilin?

Þolinmæði getur þrotið,“ segir þessi frambjóðandi Framsóknarflokksins. Svo sitjum við hér og stöndum og það er Framsóknarflokkurinn sem krefst þess, líklega af hæstv. forsætisráðherra, að málum sé hagað með þeim hætti að þessi mál komast ekki hér á dagskrá. Við fáum ekki tækifæri til að ræða þessi mál af því að formaður sérnefndar um stjórnarskrármál, framsóknarleiðtogi hér í þinginu, krefst þess að þau séu rædd hér frekar en hin brýnu hagsmunamál sem standa fólkinu og fyrirtækjunum næst.

Svo lesum við það að þolinmæði framsóknarmanna sé á þrotum. Ég hélt að Framsóknarflokkurinn gæti ekki klofnað, ég hélt að hann væri orðinn svo lítill að hann gæti ekki klofnað, (Gripið fram í.) ekki væri hægt að hafa ólíkar skoðanir, þær rúmuðust ekki lengur innan flokksins, eftir að Bjarni Harðarson hvarf úr honum. En svo virðist vera. Framsóknarflokkurinn er í þeirri stöðu núna að frambjóðendahópurinn er a.m.k. klofinn. Við vitum ekki hversu margir komast hér inn á þingið eftir kosningarnar en í hópi frambjóðenda eru greinilega uppi ólík sjónarmið. Ég skora á þá hv. tvo framsóknarmenn sem hér eru enn í þinginu að þeir beiti sér fyrir því að þessi mál sem hv. frambjóðandi, væntanlegur þingmaður, vonandi fyrir þeirra hönd, er að segja — að þeir komi til móts við það fólk í Framsóknarflokknum sem segir að þolinmæðin sé á þrotum, að nóg sé komið af því að vera hér að stilla dagskrá þingsins þannig upp að það sé nauðsynlegt að ræða stjórnarskrána af því að það sé sérstök ósk Framsóknarflokksins og það sé ekki hægt að gera neitt annað, það megi ekki huga að hag fjölskyldna og fyrirtækja vegna þess að Framsóknarflokkurinn, og sérstaklega formaður sérnefndar um stjórnarskrármál, krefjist þess að þessi mál séu rædd. Okkur er gert skylt að gera það, úrskurðað af virðulegum forseta að okkur sé skylt að gera það, þótt vitað sé að flutningsmenn málsins geta ekki verið hér vegna þess að þeir eru að láta snyrta sig fyrir sjónvarpsþátt.

Þetta eru alveg dæmalaus vinnubrögð, að við séum sett í þessa stöðu. Þolinmæði fleiri en framsóknarmanna er á þrotum. Þótt þeir séu fáir eru þeir að þessu leyti dæmigerðir fyrir miklu stærri hóp fólks. Þolinmæði fólks er á þrotum yfir þessum vinnubrögðum og yfir því aðgerðaleysi sem hér er fylgt af hálfu ríkisstjórnarinnar þegar um það er að ræða að huga að og bjarga heimilum og fyrirtækjum eins og þessi frambjóðandi Framsóknarflokksins segir.

Virðulegi forseti. Ég hef farið að óskum virðulegs forseta um það að flytja ræðu mína hér við þessar sérkennilegu aðstæður. Ég vil ljúka ræðu minni með því að skora á hæstv. forseta að gera nú hlé á þessum fundi, slíta fundinum, og gefa mönnum færi á því að ræða þetta mál þegar flutningsmenn þess eru viðstaddir. Ég tel að ég hafi komið til móts við óskir forseta með því að ganga ekki héðan úr ræðustól þegar hann úrskurðaði á þann veg að ég þyrfti að flytja þessa ræðu við þessar sérkennilegu aðstæður. Ég mælist til þess að virðulegur forseti komi til móts við sjónarmið mín og slíti þessum fundi núna fyrst flutningsmenn málsins geta ekki verið hér á þessum stað