30.11.1999

Grunnvísindi á Íslandi

Grunnvísindi á Íslandi.
Ráðstefna Rannsóknarráðs Íslands.
30. nóvember 1999.

Ég vil í upphafi máls míns óska þeim Ingu Dóru Sigfúsdóttur og Þórólfi Þórlindssyni til hamingju með skýrslu þeirra um stöðu grunnvísinda á Íslandi. Einnig vil ég óska vísindasamfélaginu á Íslandi til hamingju með það, sem í skýrslunni stendur.

Þegar ég upphaflega ákvað að stuðla að því að þetta verk yrði unnið, vöknuðu strax spurningar um, hver hefði forsendur til að ryðja þá braut, sem skýrslan mótar. Varð það að samkomulagi okkar Þorsteins I. Sigfússonar, formanns Rannsóknarráðs Íslands, snemma árs 1998 að fá Ingu Dóru til verksins. Ég tel, að þar hafi verið vel ráðið. Mun menntamálaráðuneytið gefa skýrsluna út á sínum vegum og tryggja, að hún verði höfð til hliðsjónar við endurskoðun og mótun nýrrar stefnu varðandi grunnrannsóknir á Íslandi.

Rannsóknarráð hefur valið þessari ráðstefnu um grunnvísindi heitið: Vísindi í leit að pólitík. Fyrir stjórnmálamann er ekki auðvelt að skilja, hvað í þessu heiti felst, því að almennt er því haldið að okkur, að skilningur okkar á vísindum sé takmarkaður og við eigum ekki að hafa önnur afskipti af vísindum og rannsóknum en að tryggja þeim nægan skerf af skattfé almennings. Sé það gert, geti vísindamennirnir séð um hitt og raunar sé það frekar til óþurftar að verið sé að taka pólitískar ákvarðanir um stefnu eða pólitík í vísindum. Sé ekki útvegað það fjármagn, sem vísindamenn kjósa, er oft stutt í ásakanir um viljaleysi og jafnvel óvild í garð vísinda. Losaraleg ummæli af því tagi stuðla síst af öllu að skynsamlegri niðurstöðu. Um áherslur í opinberum stuðningi við rannsóknir og vísindi ber að ræða á efnislegum forsendum. Í því skyni hef ég beitt mér fyrir að þessi skýrsla um stöðu grunnrannsókna á Íslandi sé samin og kynnt.

Hvarvetna í heiminum er þróunin á þann veg, að stjórnmálamenn skipta sér meira en áður af menntun og vísindum. Á alþjóðavettvangi verða til áætlanir um stuðning við rannsóknir og þróun, eins og innan vébanda Evrópusambandsins og á vettvangi evrópska efnahagssvæðisins. Þar forgangsraða stjórnmálamenn verkefnum og skilgreina styrkhæf svið. Sömu sögu er að segja um vísindastarf, sem nýtur stuðnings frá Norrænu ráðherranefndinni, þar eru gerðar áætlanir um forgangsröðun vísindaverkefna. Raunar höfum við einnig farið inn á þessar brautir hér með markáætluninni um styrkveitingar til verkefna á sviði umhverfismála og upplýsingatækni.

Samkvæmt lögum um Rannsóknarráð Íslands ber að endurskoða þau á þessu ári, meta reynsluna af lögunum og þeirri nýskipan, sem kom til sögunnar með þeim. Hef ég ritað öllum, sem koma að tilnefningu manna til setu í ráðinu, bréf og óskað eftir áliti þeirra á lögunum og tillögum til úrbóta, ef þeirra er talin þörf. Einnig mælist ég til þess við ráðið sjálft, að það fari yfir lögin og gefi til kynna, ef nauðsynlegt er að breyta einhverju.

Frá mínum bæjardyrum séð er skýrslan um stöðu grunnvísinda, sem hér er kynnt í dag, liður í mati og endurmati, sem ávallt verður að setja svip sinn á umræður um vísindastarfsemi. Þar mega menn ekki festast í einhverju fari og telja sig hafa fundið hina endanlegu lausn, síst á þetta við á tímum stöðugra breytinga, eins og við lifum.

Bilið á milli vísindalegrar þekkingar og hagnýtra uppfinninga er stöðugt að styttast. Hagnýting nýrrar þekkingar ræðst alfarið af hugverkavernd - því fyrr sem menn átta sig á gildi nýrra uppgötvana, því víðtækari og sterkari einkaleyfi fást. Þar með tryggja þeir betri forsendur til tekjuöflunar. Fyrirtæki leitast við að koma ár sinni fyrir borð í grunnrannsóknum, annað hvort með því eigin rannsóknarstofnunum eða með samningum við vísindamenn. Hefur þegar verið vakin rækilega athygli á því, að of lítið er um að Íslendingar tryggi stöðu sína með einkaleyfum og raunar hefur auknu opinberu fé verið ráðstafað til að ýta undir að það verði gert.

Að mínu mati sýnir skýrslan ótrúlega gott gengi íslenskra vísindamanna í alþjóðlegum samanburði. Innan allra sviða er að finna vísindamenn, sem eru að ná afbragðsárangri. Þá eru nokkur sérstaklega sterk, ég nefni sem dæmi jarðvísindi og læknis- og lífvísindi. Verði ákveðið að koma á fót svonefndum öndvegissetrum í vísindastarfi hér á landi, virðist einsýnt að móta þá stefnu, að þessi svið verði fyrst fyrir valinu.

Innan háskóla er nauðsynlegt að efla rannsóknatengt framhaldsnám á meistara- og doktorsstigi og styrkja þannig stöðu ungra vísindamanna. Viðræður um rannsóknastarf innan Háskóla Íslands og fjármögnun þess eru að fara af stað eftir að samið hefur verið um greiðslu kennslukostnaðar við skólann. Tel ég eðlilegt að meðal annars verið litið til þessara þátta í þeim viðræðum.

Þegar skýrslan er lesin, kemur í ljós, að það er ekki endilega á stjórnmálavettvangi, þar sem afdrifaríkustu ákvarðanir um framtíð og ásýnd vísindaiðkana á Íslandi eru teknar. Ef launakjör prófessora við háskóla ráðast meira af því, að þeir riti greinar í erlend vísindatímarit, en bækur fyrir Íslendinga, beina menn kröftunum að slíkum greinaskrifum. Ákvarðanir um þetta eru nú teknar af kjaranefnd eftir samráð við fulltrúa prófessora. Er ég eindregið þeirrar skoðunar, að sú stefna skuli ráða, sem stuðlar að vexti og viðgangi vísindastarfs í eins nánum tengslum við íslenskt samfélag og unnt er.

Í skýrslunni er bent á, að meginmarkmið íslenskrar vísindastefnu séu almenn, þau beinist í fyrsta lagi að stöðu Íslands í alþjóðlegu vísindasamfélagi og í öðru lagi að sérstöðu innlendrar þekkingar. Falli þessi almennu markmið í góðan jarðveg meðal íslenskra fræðimanna og þeir séu flestir sáttir við þessar áherslur. Fram kemur, að sú skylda að birta á íslensku virðist hvíla mun þyngra á vísindamönnum innan hug- og félagsvísinda en innan raunvísinda og heilbrigðisvísinda. Að mínu mati skiptir þetta ekki síður miklu fyrir framvindu íslenskrar menntastefnu en hitt, hvort einstök námskeið við íslenska háskóla eru kennd á erlendum tungumálum.

Oftar en einu sinni hef ég hvatt til þess, að hugað sé að leiðum til að tryggja, að opinberir fjármunir til vísindastarfs nýtist til rannsókna en renni sem minnst til skriffinnsku og umsýslustarfa af margvíslegu tagi. Á skýrslunni sést, að íslenskum vísindamönnum þykir nóg um skrifræðið, sem sé í senn þungt í vöfum og dýrt. Sé regluveldi annars vegar og frjálsræði hins vegar borið saman, blasir hvarvetna við sú staðreynd, að frelsið leiðir til meiri og skjótari árangurs.

Skýrsluhöfundar benda á, að hægt væri að leggja megináherslu á árangur í starfi með því að nota tiltölulega einfalda, skýra mælikvarða til að meta hann.

Síðast en ekki síst telja höfundar skýrslunnar nauðsynlegt að verja meira fé til grunnrannsókna en nú er gert. Við eigum mun fleiri hæfa vísindamenn en áður, alþjóðleg samkeppni krefst hærri styrkja, skilgreina verði hlut ríkisvaldsins með nýjum hætti. Skýrsluhöfundar setja fram þá tillögu, að fjármögnun rannsókna verði sett undir einn hatt. Rökin eru þau, að opna eigi kerfið öllum sem vilja keppa á jafnréttisgrundvelli - opinberum rannsóknastofnunum, atvinnulífi, háskólum og vísindamönnum. Talið er til bóta ef fjármagni yrði úthlutað eftir árangri í stað þess að dreifa því jafnt á alla. Undir þetta vil ég taka því að nauðsynlegt er að tryggja sem mestan slagkraft þeirra fjármuna sem við höfum yfir að ráða.

Breyttar aðstæður, aukin samkeppni og ytri skilyrði gera kröfu til þess að fjármunir, sem varið er til rannsókna og vísinda séu nýttir með markvissum hætti og dugi til að ryðja nýrri þekkingu braut. Ég tel að með sameiningu rannsóknastofnana, markvissri stefnumörkun, endurskoðuðum rekstri og skýrri verkaskiptingu sé unnt að nýta opinbert fjármagn betur í þágu nýsköpunar og þekkingar. Lækka ber kostnað við yfirstjórn rannsóknastofnana og úthlutun úr sjóðum svo hærra hlutfall fjárveitinga renni beint til rannsókna og þróunar. Mikilvægt er að leita allra leiða til að nýta styrkleika einkaframtaksins í þágu vísinda.

Góðir ráðstefnugestir!

Hin ágæta skýrsla um grunnrannsóknir á Íslandi gefur tilefni til að líta á marga þætti í íslensku vísindasamfélagi. Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að of mikil skammsýni sé að hafa aðeins uppi kröfur um stærri skerf af skattfé almennings. Við þurfum að líta til fleiri þátta og hiklaust taka ákvarðanir um róttækar breytingar, séu þær taldar nauðsynlegar og til bóta.

Við núverandi aðstæður má spyrja, hvort skynsamlegt sé að skilgreina hlutverk ríkisins gagnvart rannsóknastarfsemi á þann veg, að það leggi höfuðáherslu á að styrkja grunnrannsóknir og búa ungum vísindamönnum hagkvæmar aðstæður á vettvangi háskóla. Yrði þetta sett sem meginmarkmið opinbers stuðnings við rannsóknir, er nauðsynlegt að vísindasamfélagið lagaði sig að þeim undir forystu háskóla og Rannsóknarráðs Íslands. Í öllu vísindastarfi verður jafnframt að hafa árangur að leiðarljósi og tryggja sem best stöðu þeirra, sem eru að ná árangri.

Ég óska ykkur góðs árangurs á þessari ráðstefnu og vænti þess, að hún verði markvert framlag til nýrrar stefnumótunar í þágu grunnrannsókna á Íslandi.

Ég segi ráðstefnuna setta.