24.3.2009

Evrópusamband í uppnámi

Ræða á kynningarfundi í Háskólanum í Reykjavík, viðskiptadeild, 24. mars, 2009.

Ég er ekki þeirrar skoðunar, að Íslendingar þurfi að stofna til aðildarviðræðna til að átta sig á því, hvað felst í aðild að Evrópusambandinu. Unnt er að komast að því með könnunarviðræðum, sem færu fram, ef ákvörðun yrði tekin um, að hefja umsóknarferli hér innan lands. Til þess, að það gerist, þarf að myndast meirihluti á alþingi um, að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu. Þessi meirihluti er ekki og hefur ekki verið fyrir hendi.

Hver er ástæðan fyrir því, að þessi meirihluti hefur ekki myndast? Svarið við spurningunni er einfalt: Stofnsáttmáli Evrópusambandsins sýnir ótvírætt, að Evrópusambandið hefur ekki svigrúm til að koma til móts við þær kröfur, sem eru forsenda þess, að víðtæk samstaða myndist hér á landi um aðild að sambandinu. Norðmenn hafa tvisvar knúið dyra hjá Evrópusambandinu og í bæði skiptin ákvað þjóðin að hverfa frá, þegar hún sá, hvað var í boði.

Umræður um aðild Íslands eða ekki aðild að Evrópusambandinu hafa verið of innhverfar, þær hafa snúist of mikið um, að stjórnmálamenn hafa reynt að slá keilur á heimavelli í stað þess að ræða um þróun mála í Evrópu og kynna fyrir þjóðinni mat sitt á henni.

Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun, að ég tel Íslandi best borgið í samstarfi við Evrópusambandið og aðildarríki þess, sem byggist á samningunum um evrópska efnahagssvæðið og um Schengen-samstarfið. Þá hef ég fært fyrir því rök, að semja megi við Evrópusambandið um þriðju stoð þessa samstarfs, það er um myntsamstarf.

Örlög myntsamstarfsins, það er framtíð evrunnar, er þungamiðja umræðna innan Evrópusambandsins um þessar mundir.  Hinn 16. mars birti nýbakaður Nóbelsverðlaunahagfræðingur, Paul Krugman, grein í The New York Times undir fyrirsögninni: Heimsálfa á reki.

Krugman var staddur í Madrid, þegar hann skrifaði varnaðarorð sín til Evrópumanna, en þau hófust á þessum orðum:

„Ég hef áhyggjur af Evrópu. Raunar hef ég áhyggjur af heiminum öllum – það er hvergi neitt skjól að finna fyrir hinum hnattræna, efnahagslega stormi. En ástandið í Evrópu veldur mér jafnvel meiri áhyggjum en ástandið í Ameríku.“

Hann segir, að hætta steðji að Evrópu vegna þess, að þar sé ekki brugðist rétt við fjármálakrísunni. Það eigi bæði við um viðbrögð á sviði fjármálastjórnar og peningastjórnar. Hafi Obama gert of lítið í krafti fjárlagavalds séu aðgerðir hans í raun risavaxnar í samanburði við aðgerðaleysið í Evrópu. Hið sama eigi við um viðbrögð seðlabanka Evrópu, hann hafi verið mun svifaseinni en bandaríski seðlabankinn.

Krugman spyr, hvers vegna mál hafi þróast svo illa í Evrópu.  Eitt séu lélegir leiðtogar í stjórnmálum og peningamálum. Annað og alvarlegri sé sú staðreynd, að stjórnmálavaldið hafi ekki haldið í við efnahagslegan og peningalegan samruna Evrópu. Í Evrópu séu engar stofnanir, sem geti tekist á við vanda innan evrusvæðisins á sama hátt og bandarískar alríkisstofnanir hafi heimildir til að takast á við alríkisvanda í Bandaríkjunum.

Í Evrópu geti engin ein ríkisstjórn tekið fjárlagaákvarðanir, sem ná til Evrópu allrar. Þvert á móti séu þar ríkisstjórnir margra landa, sem séu tregar til að safna miklum skuldum í því skyni að ýta undir hvata í efnahagslífinu, sem gagnist best kjósendum í öðrum löndum.

Seðlabanki Evrópu hafi ekki neina ríkisstjórn á bakvið sig eins og hinn bandaríski heldur verði að standa 16 ríkisstjórnum reikningsskil og þær séu ekki alltaf á einu máli.

Evrópa reynist með öðrum orðum standa skipulagslega á brauðfótum, þegar glímt sé við fjármálakrísuna.

Stærsta spurningin snúist um það, hvað verði um efnahag þeirra ríkja, sem blómstraði, þegar lánsfé var ódýrt og auðfengið, og þá sérstaklega um Spán.  Á fyrri tíð hefðu Spánverjar leitast við að styrkja samkeppnisstöðu sína með gengisfellingu. Nú geti þeir það ekki, því að þeir noti evru og þá sé eina leiðin að reyna að lækka laun. Þetta verði mjög erfitt.

Lokaorð greinar Krugmans eru þessi:

„Þýðir þetta allt, að svona mikill samruni hafi verið röng leið fyrir Evrópu? Ber að skilja þetta á þann veg, að það hafi ekki síst verið rangt að taka upp evru? Kannski.

En Evrópa getur enn sannað, að efasemdarmennirnir hafa rangt fyrir sér, ef stjórnmálamenn hennar taka til við að sýna, hvað í þeim býr. Gera þeir það?“

Ég kýs að vitna svo ítarlega í grein Krugmans, af því að hann verður ekki sakaður um að hafa einhverra hagsmuna að gæta, sem Evrópumaður. Hann er glöggur erlendur greinandi. Hann efast mjög um, að forystumenn innan Evrópusambandsins ráði við þann vanda, sem við er að glíma.

Krugman er ekki einn um það.  Innan Evrópusambandsins hafa línur skerpst á milli þeirra, sem telja meiri samruna leiðina úr vandanum, og hinna, sem vilja skerpa ábyrgð hvers ríkis á stjórn eigin mála.

Talsmenn frekari samruna segja, að ekki eigi að eltast frekar við Íra, hafni þeir Lissabon-sáttmálanum að nýju, þeir verði að sigla sinn sjó. Þeir telja, að skortur á samhæfðum reglum og lélegar eigin reglur hafi leitt til bankahrunsins á Íslandi og Írlandi.

Þetta er í besta falli mikil einföldun vegna þekkingarleysis, ef ekki vísvitandi blekking. Bankakerfið á Íslandi starfaði samkvæmt reglum Evrópusambandsins á grundvelli EES-samningsins. Icesave-málið sýnir í hnotskurn, hve illa hið evrópska kerfi er úr garði gert. Harka Evrópusambandsins og ríkja þess gagnvart okkur Íslendingum  vegna Icesave byggist að verulegu leyti á vilja til að breiða yfir brotalöm í kerfinu og skella skuldinni í orðsins fyllstu merkingu á okkur Íslendinga.

Framganga lögfræðinga Brusselvaldsins gagnvart Íslendingum vegna Icesave er dæmigerð fyrir það, hvernig smáríkjum er stillt upp við vegg og þau notuð sem blóraböggull, ef eitthvað fer úrskeiðis innan hins evrópska regluverks.

Viðmótið gagnvart stórveldunum er annað eins og sýnir sig við refsiaðgerðir vegna brota á Maastricht-skilyrðunum, sem eiga að stuðla að því, að fjármálastjórn einstakra evrulanda sé í samræmi við ákvarðanir evrópska seðlabankans.

Ég rek þetta ekki hér vegna andstöðu við Evrópusambandið, ég tel sambandið eiga fullt og mikið erindi, þótt ég sé andvígur aðild Íslands að því. Með þessari upprifjun vil ég aðeins minna á, að ástæðulaust er að draga upp þá mynd , að innan ESB sé grasið sífellt grænna en annars staðar. Svo er einfaldlega ekki. Evrópusambandsríkin glíma um þessar mundir við gífurlegan vanda og enginn veit, hvort þau geta leyst hann sameiginlega.

Að láta eins og ESB-ríkin séu við þessar aðstæður helst að huga að því, hvernig best sé að fjölga í hópnum er dæmalaus óskhyggja.

Króatía er næst umsóknarríkja til að komast inn, en nágrannar landsins í Slóveníu spyrna við fótum vegna óleystrar landamæradeilu milli landanna.

Viðræður við Tyrki eru í hægagangi og umsóknarerindi frá Makedóníu hefur ekki verið svarað í þrjú ár vegna andstöðu Grikkja.

Svartfjallaland sendi ráðherraráði ESB inn umsókn í desember 2008, en ráðið hefur dregið að framsenda hana til umsagnar hjá framkvæmdastjórn sambandsins. Ólíklegt er, að umsögn verði gefin fyrr en á árinu 2010.

Talið er líklegt, að Serbía og Albanía sendi inn umsóknir einhvern tíma á næstu mánuðum, en deilur innan Bosníu-Herzegóvínu hafa tafið fyrir því, að umsókn berist þaðan.

Evrópusambandsríkin eru ekki á einu máli um, hvernig brugðist skuli við umsóknum við núverandi aðstæður. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði nýlega í ræðu, að Evrópusambandið yrði að ná áttum á grundvelli Lissabonsáttmálans, áður en það stækkaði meira.  Frakkar eru á svipaðri skoðun og Merkel en Bretar vilja ótrauðir halda áfram að stækka Evrópusambandið.

David Miliband, utanríkisráðherra Breta, flutti ræðu í London School of Economics hinn 9. mars sl., þar sem hann hvatti til stækkunar Evrópusambandsins og sagði, að sambandinu bæri að haga málum sínum þannig, að það yrði  opið fyrir aðild Úkraínu og Íslands, þótt ríkin hefðu ekki tekið formlega ákvörðun um aðild. Þá þyrfti sambandið einnig að stuðla að nánu samstarfi við ríki, sem ekki gætu sótt um eða hefðu ekki áhuga á því.

Athygli Íslendinga hefur verið vakin á, að Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB, sé að hverfa aftur til Finnlands frá Brussel á næstunni. Með honum hverfi Íslandsvinur úr framkvæmdastjórninni. Þá hefur einnig verið bent á, að Svíar verði í forsæti Evrópusambandsins síðari hluta þessa árs og þeir taki umsókn frá Íslandi áreiðanlega vel.

Erfitt er að átta sig á því, hvaðan hugmyndir um slíka hraðferð Íslands við að senda inn aðildarumsókn eru komnar. Mér finnst þó líklegt, að þar eigi Percy Westerlund, sendiherra Evrópusambandsins gagnvart Íslandi með búsetu í Ósló, einhvern hlut að máli. Hann hélt því fram í fyrirlestri eftir bankahrunið sl. haust, að Íslendingar myndu líklega sækja um aðild að ESB fyrir síðustu áramót og yrðu orðnir aðilar árið 2010.

Góðir áheyrendur!

Það er furðuleg staðreynd, að í um það bil 20 ár hafa verið hér ríkisstjórnir, sem ekki hafa haft aðild að Evrópusambandinu á dagskrá sinni, en samt hafa setið íslenskir utanríkisráðherrar, sem hafa tæplega getað sinnt nauðsynlegri hagsmunagæslu fyrir land og þjóð, af því að þeir hafa ekki viljað styggja Evrópusambandið vegna eigin drauma um aðild Íslands að því. Það er tímabært að binda enda á þetta ástand og stilla kompásinn við mótun og framkvæmd utanríkisstefnunnar rétt hjá þeim, sem bera mesta ábyrgð á að framfylgja henni.