3.2.2009

Fingurbrjótur Jóhönnu.

Jóhanna Sigurðardóttir kaus að ráðast á mig á blaðamannafundi, sem hún hélt á hótel Borg síðdegis sunnudaginn 1. febrúar, þegar hún kynnti væntanlega ríkisstjórn sína. Þar hélt hún því fram, að ég hefði verið of svifaseinn fyrir hennar smekk við að leggja fram frumvarp um greiðsluaðlögun eða skuldaaðlögun. Mátti jafnvel skilja hana á þann veg, að þarna væri komin enn ný ástæða fyrir því, að Samfylkingin taldi sig ekki geta átt frekara samstarf við Sjálfstæðisflokkinn.

Mér varð nóg um, þegar ég heyrði þessi ummæli, þar sem ég hafði lagt frumvarp um þetta efni fram í ríkisstjórn í janúar og áður kynnt meginefni þess í ríkisstjórn fyrir jól. Var málið afgreitt úr ríkisstjórn til þingflokka hennar og hafði Sjálfstæðisflokkurinn samþykkt frumvarp mitt fyrir sitt leyti við slit stjórnarsamstarfsins, en það lá óafgreitt í þingflokki Samfylkingarinnar.

Ég hef nú ákveðið að leggja frumvarpið fram óbreytt eins og það var afgreitt úr ríkisstjórn og stendur þingflokkur sjálfstæðismanna að því með mér. Markmið frumvarpsins er að greiða fyrir því, að raunhæft úrræði standi til boða fyrir einstaklinga, sem ekki hafa stundað atvinnurekstur undanfarin þrjú ár, enda sé ljóst, að þeir muni ekki til framtíðar geta staðið í skilum með skuldbindingar sínar.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir, að þá sé unnt að sérstökum skilyrðum uppfylltum að leita nauðasamninga til skuldaaðlögunar. Undirbúningur að nauðasamningi er einfaldaður, þarf ekki ekki að leggja fram skriflegar yfirlýsingar um meðmæli lánardrottna við nauðasamning. Ekki er gert ráð fyrir að kröfuhafar greiði atkvæði um það hvort nauðasamningur komist á heldur lagt til að umsjónarmaður taki rökstudda afstöðu til þess, hvort hann mæli með að skuldaaðlögun komist á fyrir skuldara. Meðmæli hans jafngilda því, að frumvarp að nauðasamningi hafi verið samþykkt. Loks er gert ráð fyrir, að kostnaður vegna þessa greiðist úr ríkissjóði, það er þóknun til umsjónarmanns og endurgjaldslaus ráðgjöf.

Með þessari yfirlýsingu umsjónarmanns, sem skipaður er af dómara, er tekið af skarið um það, hvernig staðið skuli að uppgjöri skulda þess, sem leitar sér skjóls samkvæmt þessum nýju lagareglum. Skuldamáli hans lýkur endanlega með þessum hætti og ekki er gert ráð fyrir, að unnt sé að endurvekja það innan einhvers ákveðins fyrningarfrests.

Að dóms- og kirkjumálaráðherra ætti að flytja frumvarp af þessu tagi var fyrst afráðið síðsumars 2008, fram til þess tíma var málið í höndum viðskiptaráðherra en Jón Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra, skipaði nefnd til að vinna drög að frumvarpi um greiðsluaðlögun í mars 2007 og skilaði hún áliti í ársbyrjun 2008, þegar Björgvin G. Sigurðsson var orðinn viðskiptaráðherra. Í fjölmiðlum og annars staðar má finna glaðbeittar yfirlýsingar Björgvins G. um, að hann hafi ætlað að láta hendur standa fram úr ermum vegna þessa máls sem ráðherra.

Álit nefndar viðskiptaráðherra var sent til umsagnar innan stjórnarráðsins og einnig til réttarfarsnefndar.

Hér birti ég tímasetningar um það, hvernig haldið var á málum af hálfu dóms- og kirkjumálaráðuneytis, eftir að frumvarp viðskiptaráðherra um greiðsluaðlögun hafði verið kynnt:

4. júní 2008 dóms- og kirkjumálaráðuneytið sendir réttarfarsnefnd til umsagnar drög að frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun, sem unnið hafði verið að í viðskiptaráðuneytinu.

18. ágúst 2008 réttarfarsnefnd sendir dóms- og kirkjumálaráðuneytinu umsögn sína um frumvarp um greiðsluaðlögun.

25. ágúst 2008 er viðskiptaráðuneytinu send umsögn réttarfarsnefndar um frumvarp viðskiptaráðherra um greiðsluaðlögun.

16. september 2008 kemur fram hjá viðskiptaráðuneytinu, að ekki sé rétt að ganga gegn umsögn réttarfarsnefndar, um að gera beri breytingar á gjaldþrotaskiptalögum, sem falla undir dóms- og kirkjumálaráðuneyti, og setja þar inn ákvæði um greiðsluaðlögun. Þar með fluttist forræði málsins úr höndum viðskiptaráðuneytis til dóms- og kirkjumálaráðuneytis.

17. september 2008 sendi dóms- og kirkjumálaráðuneytið réttarfarsnefnd umsagnir um frumvarp viðskiptaráðherra með ósk um tillögu um hvernig best væri að vinna að málinu.

9. október 2008 var fundur í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu með réttarfarsnefnd um breytingar á gjaldþrotaskiptalögunum og þess óskað, að nefndin semdi tillögur að breytingum á gjaldþrotaskiptalögum og var óskað eftir þeim fyrir jól.

28. október 2008 fundur með réttarfarsnefnd í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu um nánari útfærslu á lagabreytingum.

29. október 2008 fundur dóms- og kirkjumálaráðuneytis með fulltrúum viðskiptaráðuneytis félagsmálaráðuneytis og Íbúðalánasjóðs, þar sem kynntar voru hugmyndir réttarfarsnefndar á útfærslu málsins.

24. nóvember 2008 fær dóms- og kirkjumálaráðuneytið drög að frumvarpi frá réttarfarsnefnd

27. nóvember 2008 fundur fulltrúa viðskiptaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og dóms- og kirkjumálaráðuneytis með réttarfarsnefnd, þar sem rædd voru drög að frumvarpi til breytinga á gjaldþrotaskiptalögum, skuldaaðlögun og þess óskað í framhaldinu að viðskiptaráðuneyti og félagsmálaráðuneyti sendu dóms- og kirkjumálaráðuneytinu athugasemdir við frumvarpsdrögin.

1. desember 2008 bárust dóms- og kirkjumálaráðuneytinu athugasemdir frá viðskiptaráðuneytinu.

8. desember 2008 barst dóms- og kirkjumálaráðuneytinu tilkynning frá félagsmálaráðuneyti um að viðskiptaráðherra og félags- og tryggingamálaráðherra væru sammála um að viðskiptaráðuneytið sendi inn athugasemdir í málinu.

16. desember 2008 bárust dóms- og kirkjumálaráðuneyti athugasemdir fjármálaráðuneytis (tollstjóra) við frumvarpsdrögin

17. desember 2008 fundur dóms- og kirkjumálaráðuneytis með Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna um að ráðgjafarstofan tæki að sér að aðstoð við skuldara við gerð beiðna og fylgigagna um skuldaaðlögun.

17. desember 2008 óskar réttarfarsnefnd eftir fresti til mánaðarmóta des./ jan. til að ljúka gerð frumvarpsins. Nefndin segist ekki haft tækifæri til að fara yfir athugasemdir fjármálaráðuneytis, auk þess telji hún aðkallandi að athugasemdir við einsök ákvæði frumvarpsins verði „nokkuð ítarlegar til þess að fyrir liggi hvernig ætlast sé til að verkum yrði hagað við beitingu þessa nýja úrræðis ef frumvarpið verður að lögum. Af þessum ástæðum og vegna hátíðisdaga fram undan er ekki fyrirsjáanlegt að nefndin geti lokið þessu verki fyrr en um komandi mánaðamót, en reynt verður að flýta því eins og frekast er kostur.“

2. janúar 2009 frumvarpi skilað.

20. janúar 2009 mál afgreitt úr ríkisstjórn til þingflokka.

Að Jóhanna Sigurðardóttir telji tilefni til að veitast að mér eða þeim embættismönnum, sem hafa komið að því síðan 17. september 2008 að vinna að breytingum á gjaldþrotaskiptalögum í þágu skuldaaðlögunar, ber vott um algjört skilningsleysi á því mikla og vandaða verki, sem unnið hefur verið af réttarfarsnefnd í því skyni að fella nýjar réttarreglur inn í gjaldþrotaskiptalögin til hagsbóta fyrir skuldara.

Í þessu ferli hefur aldrei komið fram, að Jóhanna Sigurðardóttir sætti sig ekki við þá meginreglu, sem býr að baki hinum nýju réttarreglum. Ég lét ríkisstjórn fylgjast með málinu stig af stigi og lagði meðal annars fyrir hana meginlínur um efni frumvarpsins, áður en réttarfarsnefnd lagði lokahönd á verk sitt, þar sem ég vildi hafa á hreinu, að um málið væri örugglega pólitísk samstaða í ríkisstjórn.

Eftir að Jóhanna Sigurðardóttir er orðin forsætisráðherra telur hún sig vera í aðstöðu til að láta eins og hún hafi ekki verið sammála því, sem um þetta var samþykkt í síðustu ríkisstjórn. Framkoma af þessu tagi sæmir engum ráðherra og allra síst forsætisráðherra. Hefði Jóhanna viljað gera efnislegar athugasemdir við tillögur réttarfarsnefndar, sem kynntar voru í mínu umboði, átti hún fjölmörg tækifæri til þess. Hitt eykur síðan ekki sóma Jóhönnu, að gagnrýna vinnubrögðin og saka mig eða aðra um „slugs“ í þessu máli eða öðrum. Ég vísa slíku tali til föðurhúsanna, um leið og ég lýsi undrun minni yfir þeirri áráttu Jóhönnu að telja sig vinnusamari en alla samstarfsmenn sína. Einhverjum hefði dottið í hug orðið karlagrobb í þessu sambandi.