6.2.2009

Skuldaaðlögun - þingumræður.

Yfirlit

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir ítreka óskir mínar til hæstv. dómsmálaráðherra og bjóða hana velkomna hingað í ræðustól og í þingsalinn. Ég veit að hún þekkir það mál sem hér er fjallað um mjög vel og ég dreg ekki í efa að vel hafi verið staðið að þeim litlu breytingum sem gerðar hafa verið á frumvarpi því sem hæstv. ráðherra flytur og frumvarpi því sem ég flyt.

Þannig er málum háttað að þetta viðfangsefni, greiðsluaðlögun, sem er kallað skuldaaðlögun í því frumvarpi sem ég flyt, hefur verið til meðferðar í stjórnkerfinu lengi. Það var þáverandi viðskiptaráðherra, Jón Sigurðsson, sem setti á laggirnar nefnd til þess að semja frumvarp um þetta og síðan tók arftaki hans í viðskiptaráðuneytinu, Björgvin G. Sigurðsson, við málinu og nefndin skilaði áliti sem lá fyrir í ársbyrjun 2008, ef ég veit rétt. Málið var þá á vettvangi viðskiptaráðuneytisins og fjallað um það á þeim grundvelli.

Hins vegar kom það upp að það þurfti að leita álits eftir að frumvarpið hafði verið samið og fara með það fyrir fleiri en bara þá sem í nefndinni sátu eða störfuðu innan viðskiptaráðuneytisins og m.a. var leitað álits dóms- og kirkjumálaráðuneytisins sem beindi líka erindi til réttarfarsnefndar sem fór yfir málið. Það er skemmst frá því að segja að hinn 18. ágúst 2008 barst greinargerð frá réttarfarsnefnd um þetta mál og þar var því alfarið hafnað og talið algjörlega fráleitt í raun og veru að halda málinu eins og gert hafði verið undir forustu viðskiptaráðuneytisins. Það kemur fram í álitsgerð sem réttarfarsnefnd sendi dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 18. ágúst, þar sem réttarfarsnefnd fer yfir þau drög að frumvarpi sem þá lágu fyrir og höfðu borist frá viðskiptaráðuneytinu og rekur lið fyrir lið hvaða vankantar eru á frumvarpinu. Ég er með þessa greinargerð réttarfarsnefndar og sjálfsagt verður hún lögð fram í þingnefnd sem um þetta mál fjallar ef menn hafa áhuga á því.

Ég leyfi mér að lesa hér, með leyfi forseta, úr þessu bréfi:

„Réttarfarsnefnd telur sig verða að vara við þeirri leið sem frumvarpsdrögin miða að. Ef kveða ætti á um úrræði sem þetta í lögum mælir nefndin eindregið með því að tillögur um það fælu í sér að málsmeðferð yrði að þessu leyti eftir föngum hliðstæð þeirri sem gildir um nauðasamningaumleitanir án undangenginna gjaldþrotaskipta samkvæmt lögum nr. 21/1991, þar á meðal að dómstólar kvæðu á um upphaf og lok aðgerða og tryggður yrði aðgangur að þeim til að fá leyst úr ágreiningsefnum.“

Þarna tekur því nefndin algjörlega skýra afstöðu í þessu máli og í raun og veru má segja að hún afgreiði þá fyrir sitt leyti það frumvarp sem hér er flutt af framsóknarmönnum og var til umræðu í andsvörum áðan.

Nefndin leggur síðan til og veltir því upp að eðlilegt sé að þetta mál verði ekki í höndum viðskiptaráðherra þar sem gjaldþrotaskiptalögin falli ekki undir hann samkvæmt reglugerð um Stjórnarráðið og það varð niðurstaðan eftir að umrætt bréf barst dóms- og kirkjumálaráðuneytinu þann 18. ágúst. Það var sent til viðskiptaráðherra 25. ágúst sl. og 16. september 2008 kemur fram hjá viðskiptaráðuneytinu að ekki sé rétt að ganga gegn umsögn réttarfarsnefndar um að gera breytingar á gjaldþrotaskiptalögum sem falli undir dóms- og kirkjumálaráðuneytið og setja inn í gjaldþrotaskiptalögin ákvæði um greiðsluaðlögun. Þar með fluttist málið úr höndum viðskiptaráðuneytis til dóms- og kirkjumálaráðuneytis. Þetta gerðist 16. september á síðasta ári.

Þann 17. september sendi ráðuneytið réttarfarsnefnd umsagnir um frumvarp viðskiptaráðherra með ósk um tillögu um hvernig best væri að vinna að málinu. Þann 9. október 2008 var fundur í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu með réttarfarsnefnd um breytingar á gjaldþrotaskiptalögum. Var þess óskað að nefndin semdi tillögur að breytingum á gjaldþrotaskiptalögum og var óskað eftir þeim tillögum fyrir jól. Þann 28. október var fundur með réttarfarsnefnd um nánari útfærslu á lagabreytingum og síðan fundaði dómsmálaráðuneytið daginn eftir með fulltrúum viðskiptaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og Íbúðalánasjóðs þar sem kynntar voru hugmyndir réttarfarsnefndar og útfærsla málsins.

Þann 24. nóvember fékk dóms- og kirkjumálaráðuneytið drög að frumvarpi frá réttarfarsnefnd og 27. nóvember var fundur fulltrúa viðskiptaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og dóms- og kirkjumálaráðuneytis með réttarfarsnefnd þar sem rædd voru drög að frumvarpi til breytinga á gjaldþrotaskiptalögum, skuldaaðlögun og þess óskað í framhaldinu að viðskiptaráðuneyti og félagsmálaráðuneyti sendu dóms- og kirkjumálaráðuneytinu athugasemdir við frumvarpsdrögin.

Þann 1. desember 2008 bárust dóms- og kirkjumálaráðuneyti athugasemdir frá viðskiptaráðuneytinu og 8. desember 2008 barst tilkynning frá félagsmálaráðuneyti um að viðskiptaráðherra og félags- og tryggingamálaráðherra væru sammála um að viðskiptaráðuneytið sendi inn athugasemdir fyrir þeirra hönd í málinu. Þann 16. desember 2008 bárust dóms- og kirkjumálaráðuneyti athugasemdir fjármálaráðuneytis, þ.e. tollstjóra, við frumvarpsdrögin og hinn 17. desember 2008 efndu fulltrúar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til fundar með Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og rætt var um að ráðgjafarstofan tæki að sér aðstoð við skuldara og gerð beiðna og fylgigagna um skuldaaðlögun.

Réttarfarsnefnd óskaði eftir því hinn 17. desember að hún fengi frest til mánaðamóta desember/janúar til að ljúka gerð frumvarpsins. Nefndin segist ekki hafa haft tækifæri til að fara yfir athugasemdir fjármálaráðuneytisins sem bárust daginn áður. Hún taldi auk þess aðkallandi að athugasemdir við einstök ákvæði frumvarpsins yrðu nokkuð ítarlegar til þess að fyrir lægi hvernig ætlast yrði til að verkum skyldi hagað við beitingu þessa nýja úrræðis í frumvarpinu yrði það að lögum. Vegna jólahátíðar og annarra frídaga á þessum tíma fram að áramótum óskaði nefndin eftir því að hún þyrfti ekki að skila þessu fyrr en um áramótin. Þann 2. janúar 2009 var frumvarpinu skilað. Það var afgreitt úr ríkisstjórn 20. janúar og daginn eftir úr þingflokki sjálfstæðismanna en þingflokkur Samfylkingarinnar treysti sér ekki til að afgreiða það.

Síðan er mynduð ný ríkisstjórn, eins og vitað er, og þá var sagt að ég hefði verið svifaseinn við afgreiðslu málsins. Ég hef mótmælt því og tel engin rök fyrir því. Eins og ég hef rakið hefur verið unnið skipulega að því að koma þessu máli í þann búning sem hér liggur fyrir. Á málefnalegan hátt og með vönduðum vinnubrögðum hefur þetta ítarlega frumvarp verið samið, sem segja má að liggi fyrir í tveimur útgáfum. Eins og ég sagði hér í gærkvöldi tel ég að breytingarnar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu — og það er flutt af hæstv. dómsmálaráðherra — séu breytingar sem eðlilegt hefði verið að koma fram með í nefnd. Engar efnisbreytingar eru á milli þessara frumvarpa sem eru þess eðlis að ekki hefði verið eðlilegt að víkja að þeim í nefndarstarfinu.

Bráðabirgðaákvæðið sem sett er inn í frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra var vissulega rætt. Menn veltu fyrir sér hvort ástæða væri til að hafa í frumvarpi af þessu tagi slíkt ákvæði. Niðurstaðan varð einfaldlega sú að ekki væri þörf á því af því að þarna væri verið að fjalla um skilmála sem væru í raun og veru í höndum ríkisvaldsins því að verið er að fjalla um skilmála sem settir eru af Íbúðalánasjóði eða fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði. Án þess að þetta bráðabirgðaákvæði sé sett í lög hefur ríkisvaldið það í hendi sér að haga lánaskilmálum með þeim hætti hjá þeim fyrirtækjum sem eru starfandi — hvort sem það er Íbúðalánasjóður eða fjármálafyrirtæki á vegum ríkisins getur ríkið beitt sér fyrir því án þess að þetta sé sett fram með þessum hætti. Þannig að ég tel að þetta ákvæði sé í raun og veru hluti af því leikriti sem sett var á svið til þess að flytja hér fram fyrir þingheim eitthvert nýtt frumvarp sem efnislega er engin breyting frá því frumvarpi sem ég flyt og við þingmenn sjálfstæðismanna.

Ég vek athygli á því sem segir í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins í hinu nýja frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra. Á bls. 27 segir, með leyfi forseta:

„Ekki liggur fyrir hvaða áhrif frumvarp þetta, verði það að lögum, hefur á Íbúðalánasjóð eða fjármálastofnanir í eigu ríkisins umfram þær afskriftir lána sem eru fyrirsjáanlegar eftir að þrengdi að í efnahagskerfinu. Verið er að skoða hvaða áhrif skuldbreytingar og frystingar lána hafa haft á sjóðstreymi Íbúðalánasjóðs en niðurstöður liggja ekki fyrir. Hvort þetta frumvarp íþyngi sjóðnum verulega er óvíst, en þó er það talið ólíklegt þar sem hámark er á lánum og hefur það hámark miðast við heildarveðsetningu lána.“

Í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins er því ekki gert ráð fyrir að þessi breyting hafi nokkur áhrif og þegar litið er á þau mál sem talið er að kunni að koma upp vegna þessa frumvarps, og kostnað sem Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna og aðrir þurfa að bera vegna samþykktar þess, kemur í ljós að engin breyting er á milli frumvarpa. Það undirstrikar að þetta ákvæði til bráðabirgða sé frekar liður í pólitísku leikriti en raunveruleg breyting sem skipti einhverju máli.

Hitt atriðið sem hæstv. dómsmálaráðherra vék að varðar breytingu á 1. gr. frumvarpsins þar sem bætt er við skilgreininguna á því hverjir eigi rétt samkvæmt frumvarpinu. Þar segir, með leyfi forseta:

„ ? nema því aðeins að atvinnurekstri hafi verið hætt og þær skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum séu tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum hans.“ — Þetta er skilgreiningin sem þarna er bætt við til þess að stækka þann hóp manna sem hugsanlega getur fallið undir lögin.

Í greinargerð segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Gert er annars vegar ráð fyrir að úrræðið um greiðsluaðlögun geti bæði átt við um einstaklinga sem ekki hafa stundað atvinnurekstur, svo og einstaklinga sem stundað hafa atvinnustarfsemi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Hins vegar verði gert ráð fyrir að greiðsluaðlögun geti í afmörkuðum tilvikum náð til veðskulda.“ — Það eru íbúðarlánaskuldirnar. Hitt eru þessir menn sem hafa stundað einhvern atvinnurekstur og það er nánar skýrt á bls. 11 í frumvarpinu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Því er það skilyrði sett að skuldari hafi ekki undangengin þrjú ár borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem hann hefur lagt stund á hana einn síns liðs eða í félagi við aðra, nema atvinnurekstri hafi verið hætt og þær skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum séu tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum hans. Er hér fyrst og fremst litið til t.d. iðnaðarmanna og sölumanna sem einir eða í félagi við aðra taka að sér verk, annaðhvort samhliða fastri atvinnu eða tímabundið. Jafnframt falli hér undir aðrir einstaklingar sem um lengri eða skemmri tíma vinna sem verktakar án þess um eiginlegan eða viðamikinn rekstur hafi verið að ræða.“

Ég tel að þessi skilgreining sé harla óljós og þarna sé verið að búa til grátt svæði sem geti verið mjög erfitt í framkvæmd að líta til og taka á — og úr greinargerð frumvarpsins, frá því að ég stóð að samningu þess og eins og við leggjum það fram hér sjálfstæðismenn, hefur verið felld klausa sem ég vil lesa. Þar er fjallað um hvernig draga eigi skilin á milli þeirra sem falla undir frumvarpið og þeirra sem eru utan þess. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hér er litið til þeirrar ríku lagaábyrgðar sem hvílir á þeim sem stunda atvinnurekstur, meðal annars varðandi skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda af launum starfsmanna, en ekki þykir koma til álita að draga úr henni með reglum um skuldaaðlögun, þar sem lánardrottnum er ekki ætlað að eiga atkvæði um hvort veitt verði eftirgjöf skulda. Auk þessara þriggja meginskilyrða fyrir heimild til að leita skuldaaðlögunar er að finna frekari skilyrði fyrir henni í 1. mgr. 63. gr. d, sem fjallað er nánar um í athugasemdum við d-lið 1. gr. frumvarpsins.“

Hæstv. dómsmálaráðherra þarf að skýra það út fyrir okkur hvort, með því að fella þetta úr greinargerð með frumvarpinu, sé verið að gera því skóna að menn geti komist undan að standa skil á virðisauka og staðgreiðslu opinberra gjalda. Hvort það sé sú breyting sem menn eru að leita eftir með því að breyta orðalaginu á þennan hátt í frumvarpinu, þ.e. að létta mönnum að komast undan því að greiða virðisaukaskatt eða staðgreiða opinber gjöld. Því þegar frumvörpin eru borin saman, og menn fara yfir þetta, og líta á þetta sem breytingu, ef það er þá lagt fram hér sem einhver meiri háttar breyting — við lögskýringu geta menn notað þessi skjöl og velt því fyrir sér hvað löggjafinn sé að fara og hvað framkvæmdarvaldið sé að boða með því að fella þessa klausu úr greinargerðinni. Þetta undirstrikar það sem ég segi, að með því að víkka þetta svona út — enda kemur fram í frumvarpinu, að það er ekki gert að tillögu réttarfarsnefndar — er verið að búa til grátt svæði sem ég tel að sé óskynsamlegt í málum af þessu tagi.

Þetta þarf að skýra og liggja þarf ljóst fyrir hvað í þessari breytingu felst og orðalagið eins og ég sagði um sölumenn og iðnaðarmenn, hvernig sem það er nú orðað, er mjög óljóst. Það getur ekki verið til hagsbóta fyrir neinn að skapa þarna grátt svæði og að síðan sé þráttað um það sérstaklega hvort menn falla undir ákvæðið eða ekki. Ég tel skynsamlegra að hafa lagaákvæði um þetta skýrt og ótvírætt en ekki að teygja það eins og gert hefur verið.

Það er líka sérstakt athugunarefni hvers vegna allt í einu er tekin sú afstaða að breyta orðinu skuldaaðlögun í greiðsluaðlögun. Réttarfarsnefnd færir skýr rök fyrir því í frumvarpinu sem við sjálfstæðismenn flytjum hvers vegna hún velur orðið skuldaaðlögun frekar en greiðsluaðlögun. Ég sé ekki betur en að þær skýringar hafi verið felldar brott úr greinargerðinni eins og eðlilegt er. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Með því heiti er vísað til þess að skuldir eru lagaðar með ákveðnu móti að greiðslugetu viðkomandi manns. Á þetta sér hliðstæðu í löggjöf allra norrænu ríkjanna þar sem heiti á úrræðinu vísar til skulda.“

Mér finnst þessi breyting á orðinu ekki styðjast við málefnaleg rök þegar tekið er mið af þeim sjónarmiðum sem lágu til grundvallar hjá höfundum frumvarpsins. Hún er líka liður í því leikriti sem sett er á svið til að reyna að láta líta út eins og hér sé í grundvallaratriðum um einhver ólík sjónarmið að ræða en svo er ekki.

Þetta minnir mig helst á skáldsöguna 1984 þegar nýir stjórnarherrar tóku við völdum. Til þess að árétta að þeir væru öðruvísi en þeir sem áður voru fóru þeir að búa til nýtt tungumál, fóru að færa hugmyndir sínar í nýjan búning með því að búa til ný orð um hluti sem allir skynsamir menn höfðu áður komið sér saman um að lýsa á ákveðinn hátt. Þessi leikaraskapur skiptir auðvitað engu máli en sýnir hugarfar ríkisstjórnarinnar þegar hún reynir að skreyta sig með fjöðrum annarra eins og hér var orðað.

Frumvarpið sem hæstv. dómsmálaráðherra flytur er góðra gjalda vert eins og ég hef farið hér orðum um. Það er algerlega samhljóða frumvarpinu sem við sjálfstæðismenn flytjum en bætt er við þessu gráa svæði sem veldur því að menn velta fyrir sér hvort verið sé að gera því skóna að menn geti komist undan því að greiða skatta. Síðan er bætt við þessu ákvæði um Íbúðalánasjóð og fjármálafyrirtækin, sem er í höndum ríkisins að ákveða þó að umrætt bráðabirgðaákvæði yrði aldrei sett í lög — enda er gert ráð fyrir að það gildi um takmarkaðan tíma eins og allar ákvarðanir sem Íbúðalánasjóður eða fjármálafyrirtæki kynnu að taka um þá þætti sem hér er um að ræða.

Efnislega er ég sammála frumvarpinu sem hæstv. dómsmálaráðherra flytur með þeim athugasemdum sem ég hef gert. En ég legg til að þingheimur samþykki frumvarp okkar sjálfstæðismanna því að það er miklu skýrara, miklu skarpara og miklu betur unnið en frumvarpið sem hefur verið þynnt út með þessum hugmyndum ríkisstjórnarinnar.

Ég tel að ég þurfi ekki að eyða mörgum orðum í frumvarp framsóknarmanna. Ég sá það um leið og réttarfarsnefnd hafði skilað greinargerð sinni,18. ágúst, sem ég rakti hér áðan, að því máli er ýtt til hliðar og viðskiptaráðuneytið féllst á þá skoðun — af því ég tel að þetta sé líklega frumvarp sem hafi verið afrakstur þeirrar nefndar, sem viðskiptaráðherra skipaði. Ég setti mig aldrei inn í það hvernig menn hugsuðu það enda sá ég að ekki þyrfti að gera mikið með það eftir að réttarfarsnefnd dæmdi það í raun og veru úr leik. Ég hvet þingmenn til þess að dæma það líka úr leik þannig að málið standi og menn velti fyrir sér þeim orðalagsbreytingum og orðalagsmun sem er á frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra og því frumvarpi sem við sjálfstæðismenn flytjum. Ég legg til að frumvarp okkar fari til 2. umr. og hv. allsherjarnefndar.

Andsvör.

Herra forseti. Nei, ég á engan höfundarrétt á frumvarpinu. Réttarfarsnefnd hefur alfarið samið frumvarpið en það hefði aldrei verið gert nema vegna þess að ég samþykkti það. Sú leið sem ég lýsti hefði aldrei verið farin nema af því að ég samþykkti það sem dóms- og kirkjumálaráðherra. Ef ég hefði lagst gegn því hefði málið ekki farið í þann farveg sem ég lýsti.

.......

Herra forseti. Engin mannfyrirlitning felst í því að hafa skoðun á því hvernig standa beri að réttarfari í landinu og engin mannfyrirlitning birtist í afstöðu réttarfarsnefndar þegar hún telur að nauðsynlegt sé að hafa þessi ákvæði skýr og ótvíræð og varar við því að búin séu til einhver grá svæði. Að kalla það mannfyrirlitningu sýnir hvað þingmaðurinn er langt leiddur í tali sínu á stjórnmálavettvangi og ruglar saman öllum hugtökum sem nota ber þegar talað er um mál af þessu tagi. Hér er um úrlausnarefni að ræða sem blasir við löggjafanum. Þingnefndir eiga eftir að fara yfir þetta og kalla fyrir sig sérfræðinga og fá þá rök fyrir því hvort skynsamlegt sé að fara þá leið sem hæstv. dómsmálaráðherra leggur til í frumvarpi sínu eða jafnvel einhverja enn aðra, þegar menn fara að skoða málið.

........

Virðulegi forseti. Þetta mál kom ekki inn á borð til mín fyrr en í sumar þannig að ég lagðist ekki gegn neinu máli. Alltaf var litið svo á að þetta væri málefni annarra ráðherra en dómsmálaráðherra. Allir töldu það og viðskiptaráðherra setti þetta af stað. Síðan þegar farið var að skoða málið og kanna það efnislega kom í ljós að Jóhanna Sigurðardóttir, eða hver annar sem hv. þingmaður nefndi, var bara á villigötum í þessu og það var ekki fyrr en málið kom í hendur okkar í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu sem það var tekið þeim tökum að hægt var að búa það í þann búning að leggja það fyrir þingið.

.............

Herra forseti. Það verður fróðlegt að hlusta á þann sögulestur og þær söguskýringar. Málið er það að í lok ráðherraferils síns ákvað Jón Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra, að setja þetta í nefnd sem síðan skilaði áliti og kom til umsagnar og þá kom í ljós að nefndarálitið var haldið þeim ágöllum að ekki var hægt að framkvæma það. Það var ekki fyrr en dóms- og kirkjumálaráðuneytið tók málið í sínar hendur að ábendingu réttarfarsnefndar að málið fékk þann framgang sem við sjáum nú. Að ásaka mig fyrir eitthvað í þessu efni er algerlega fráleitt hvað sem öllum söguskýringum hv. þingmanns líður.

..........

Herra forseti. Þarna talaði hv. þingmaður sem kom í veg fyrir að þetta mál kæmist út úr þingflokki Samfylkingarinnar og honum ferst ekki að tala um að menn standi ekki að afgreiðslu mála og fari yfir þau. Varðandi þann fjölda manna sem getur komið að málinu þá bendi ég hv. þingmanni á að lesa umsögn fjármálaráðuneytisins sem kemur að þessu máli sem umsagnaraðili um þann kostnað sem kann að hljótast af frumvarpinu. Þar kemur fram að fjármálaráðuneytið telur ekki að þeim fjölgi sem fara í þetta úrræði þrátt fyrir ákvæðin sem hv. þingmaður nefndi og telur að hafi skipt sköpum við stuðning sinn við frumvarpið.

...........

Herra forseti. Ég hef lesið þetta bæði fyrir og eftir þessa umsögn fjármálaráðuneytisins. Varðandi fjöldann breytast þær tölur ekkert í umsögninni við frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra þannig að allt tal um að við séum á móti því að einhverjir falli undir þetta er úr lausu lofti gripið. (Gripið fram í.) Ákvæðin sem koma til álita þarna eru svo óljós (Gripið fram í.) að þau munu bara skapa vandræði. Það verður ekki til að auðvelda neinum að vinna samkvæmt þessum lögum, verði frumvarpið að lögum, að hafa ákvæðin svona óljós. (Gripið fram í.) Það mun kalla á vandkvæði við framkvæmdina sem getur jafnvel dregið úr því að menn fái að nota þetta úrræði. (Gripið fram í.) Af hverju fæ ég ekki að ljúka máli mínu, hv. þingmaður? Það er ekkert sem kemur fram í þessu frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra sem segir okkur að fleiri falli undir það en áður. (LB: Það kom fram í máli dómsmálaráðherra.)

............

Herra forseti. Ég held að hv. þingmönnum Framsóknarflokksins farist ekki að tala um þetta mál. Þeir leggja fram frumvarp sem er gersamlega ónýtt í raun og veru og er blekkingarleikur frá upphafi til enda og hefur af færustu sérfræðingum verið dæmt úr leik. Svo telur hv. þingmaður sig vera í stöðu til að ráðast á okkur þingmenn Sjálfstæðisflokksins fyrir að flytja frumvarp sem stenst þó gagnrýni.

............

Virðulegi forseti. Ég vil bregðast við því sem spurt var, hvort ég væri á móti því að þetta mál næði fram að ganga í einhverri breyttri mynd. Ég sagði hér í morgun að það væri alveg ljóst að það frumvarp sem við sjálfstæðismenn flytjum er grunnskjalið í þessu máli. Ég hefði talið eðlilegt að þær umræður sem hér fara fram færu fram í þingnefnd því að nú þegar hefur komið í ljós í umræðunni að þingmenn eru með yfirboð varðandi það hvernig þeir sjá að þetta eigi að vera í endanlegri mynd. Ég tel að menn eigi að líta til þess sem réttarfarsnefnd segir í gögnum sínum sem þingmenn geta fengið aðgang að. Engar rannsóknir hafa farið fram hér á þessum málum þannig að menn geti fullyrt nákvæmlega hvað skiptir máli við lagabreytingar til að ná fram þeim tilgangi sem ætlað er. Það er mjög varasamt og ég vara við því að menn teygi sig of langt inn á eitthvert grátt svæði og hefji svo yfirboð um það hvort þessi hópurinn eða hinn eigi að falla undir þessi lagaákvæði. Hér er verið að fjalla um grunnþátt í okkar viðskiptakerfi sem snertir ákveðið öryggi í viðskiptum. Og það að menn standi hér og segi að þessi hópur eigi að koma og þessi eða að það eigi að gera þetta eða hitt gefur bara ranga mynd nema menn hafi einhverjar rannsóknir og einhverjar athuganir á bak við sig. Það er það sem réttarfarsnefnd gengur út á þegar hún sendir okkur þetta álit, að slíkar rannsóknir hafi ekki farið fram. Það liggur ekki fyrir hér nákvæmlega hvernig menn geta tekið á þessu til að bregðast sem best við fyrir einstaka hópa. Því er mjög varasamt fyrir þingmenn að standa hér og vera með yfirboð af þessu tagi og gagnrýna okkur fyrir að við viljum ekki opna eitthvað sem enginn veit í raun og veru hvað þýðir þegar upp er staðið að lokum.

..........

Virðulegi forseti. Hér áðan var beint fyrirspurnum til hv. þingmanns og þá sagði hv. þingmaður að hann ætlaði ekki að fara út í almennar stjórnmálaumræður. Svo kem ég upp og ræði um þrönga þætti í þessu frumvarpi og bendi á að réttarfarsnefnd sé með ábendingar varðandi breytingar á ákvæðum gjaldþrotaskiptalaganna um að ekki hefði verið rannsakað nægilega vel við gerð þessara frumvarpa til þessa hvaða áhrif breytingarnar hefðu og þá fer hv. þingmaður að tala um einhverjar rannsóknarnefndir eða sérstakan saksóknara. Ég bara spyr: Hver er hér að drepa málum á dreif með einhverju tali sem skiptir engu máli í þessu sambandi?

Það sem við erum að ræða hér og hv. þingmaður spurði mig um var hvar ég teldi mörkin eiga að vera varðandi gildissvið frumvarpsins. Ég varaði við því að menn væru að fara inn á grátt svæði og væru síðan með yfirboð hvað þá heldur almennar órökstuddar yfirlýsingar og algerlega út í bláinn eins og hv. þingmaður flutti hér. Sem er náttúrlega til marks um þá vanstillingu sem einkennir þetta stjórnarsamstarf, að ekki sé hægt að ræða frumvörp eins og þessi og tæknileg atriði og bregðast við yfirlýsingum þingmanna án þess að þeir fari út um víðan völl eins og hv. þingmaður gerði og tapi sér alveg hreint og gleymi því um hvað málið snýst. Málið snýst um að hafa öryggi í viðskiptum og að ekki sé, með því að fara inn í gjaldþrotaskiptalögin, verið að raska nauðsynlegum grunni sem þarf að vera fyrir öllum viðskiptum hvað sem líður stundarvanda sem auðvitað kann að leysast fyrr með þessu frumvarpi en ella væri en standa til frambúðar þær breytingar sem við erum að gera hér?

.......

Virðulegi forseti. Ég vil mótmæla þessum málflutningi, hann er algjörlega rakalaus. Það er alveg fráleitt að leggja mál þannig upp að ef þingmenn stjórnarandstöðunnar flytja frumvörp sem ekki ná fram að ganga í þinginu sé það á ábyrgð ráðherra í ríkisstjórn að sjá til þess að þau frumvörp nái fram að ganga — það sýnir í hvaða þröng þingmenn eru komnir þegar þeir standa frammi fyrir því að við sjálfstæðismenn tókum frumkvæðið í málinu.

Það vorum við sem komum þessu máli í þann búning að það er þinghæft. Þáverandi hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, nú hæstv. forsætisráðherra, hafði enga burði til að flytja frumvarpið þannig að það væri tækt hér í þinginu. Það komst aldrei í gegn af því að þingmenn sáu strax að frumvarpið var þannig úr garði gert að ef það yrði að lögum yrðu stórvandræði. Þá snúa menn sér til viðskiptaráðherra og hann beðinn um að flytja frumvarpið og fyrir misskilning tekur hann það að sér og ræður ekki heldur við það. Það er ekki fyrr en það er sent til okkar og við leitum til réttarfarsnefndar að málið kemst loksins í þær hendur að hægt er að taka á því.

Að kenna mér um þetta er alveg út í hött og sýnir þau rökþrot sem blasa við þegar menn standa hér og ræða þetta mál. Menn komast ekki undan því að það erum við sjálfstæðismenn sem flytjum þetta mál hér inni í þingið í þeim búningi að hægt sé að afgreiða það. Það hefur enginn haft getu til þess til þessa. (Gripið fram í.)

Við kunnum að setja það í þann farveg að efnisleg niðurstaða fékkst sem allir eru sáttir við. En þá eru settar á langar ræður um það að þetta sé allt mér að kenna af því að þetta hafi ekki orðið til miklu fyrr. (Gripið fram í.) Þetta er ótrúlegt. Ræða eftir ræðu — og svo segja þeir að málið verði að afgreiða strax. Svo standa þeir hér, stjórnarsinnar sjálfir, og flytja ræðu eftir ræðu til að tefja fyrir framgangi málsins.


..........

Virðulegi forseti. Ég er ekki að eigna Sjálfstæðisflokknum réttarfarsnefnd. Ég er hins vegar að eigna mér sem sjálfstæðismanni það að ég tók þær ákvarðanir sem dómsmálaráðherra til þess að þetta mál kæmist í þann búning sem það er núna. Án minna afskipta hefði það ekki orðið, það er ekkert flóknara en það. Hvort ég geri það árinu fyrr eða síðar er ekki aðalatriðið heldur að málið sé komið í þennan búning og að búið sé að koma því hingað inn í þingið og að almenn samstaða virðist vera um það. Þá má ég standa hér upp hvað eftir annað til að verja mig fyrir gagnrýni út af því að þetta mál sé komið í þennan farveg. Ég er mjög stoltur af því að mér tókst að koma því úr því rugli öllu sem það var í þegar það kom í mínar hendur og ég er stoltur af því að mér tókst að koma í veg fyrir að frumvarpið sem viðskiptaráðuneytið var með í höndunum yrði lagt hér fram á þingi. Ég er stoltur af því að hafa fengið réttarfarsnefnd til að koma með athugasemdir sínar og segja að það frumvarp væri algjörlega óboðlegt og ætti ekkert erindi inn í þingið. Þetta eru mín verk í þessu, að beina þessu í þennan farveg og sjá til þess að það kæmist í þann búning að hægt sé að taka það hér fyrir.