4.2.2009

Á svig við þingræðisregluna.

Um leið og ég óska nýrri ríkisstjórn og einstökum ráðherrum hennar velfarnaðar í störfum, lýsi ég undrun á aðdraganda og aðferð við myndun hennar.

Hér á landi gildir þingræðisregla og hefur gert allt frá því, að íslenskur ráðherra kom til sögunnar í stjórnarráði Íslands fyrir 105 árum. Í reglunni felst, að við myndun ríkisstjórna skuli leita allra leiða til að í landinu sé meirihlutastjórn.

Framkvæmd reglunnar hefur til þessa byggst á því, að forseti Íslands veiti umboð til stjórnarmyndunar í samræmi við hana. Ekki sé veitt umboð til að mynda minnihlutastjórn, fyrr en kannað hafi verið til þrautar, að ekki sé unnt að stofna til stjórnar með meirihluta þingmanna á bakvið sig.

Þegar Geir H. Haarde baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt mánudaginn 26. janúar, lagði hann til við Ólaf Ragnar Grímsson, að mynduð yrði þjóðstjórn. Tillagan var að engu höfð og þess í stað tilkynnt á Bessastöðum daginn eftir, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fengi umboð til að mynda minnihlutastjórn í samvinnu við Steingrím J. Sigfússon, enda hefði Framsóknarflokkurinn lofað að verja slíka stjórn vantrausti og frjálslyndir gert sig líklega til einhvers konar stuðnings, þá skyldu tveir utanþingsmenn sitja í stjórninni.

Í forsetaboðskap var látið að því liggja, að gengi þetta eftir yrði hér til ígildi þjóðstjórnar, sem er fráleitt.

Við hlýðum nú í kvöld á skýrslu forsætisráðherra í minnihlutastjórn. Og þá skal þess minnst, að óvissa ríkir um stuðning meirihluta þingmanna við allt, sem boðað er í þessari skýrslu. Hún er því lítið annað en orð á blaði.

Góðir áheyrendur!

 

Þegar litið er á málefnalista nýrrar ríkisstjórnar, sést raunar, að þar er það eitt haldfast, sem ákveðið hafði verið í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar. Nú er gripið til þess ráðs að færa frumvörp í annan búning eins og til dæmis frumvarp um skuldaaðlögun einstaklinga og heimila, sem samið var í dómsmálaráðherratíð minni  og ég hef nú flutt hér á þingi ásamt öðrum sjálfstæðismönnum. Breytingar hinnar nýju stjórnar á því máli eru þess eðlis, að við venjulegar aðstæður hefðu þær komið fram við meðferð málsins í þingnefnd.

Hin rétta mynd af tilgangi stjórnarsamstarfs Samfylkingar og vinstri-grænna birtist hér í þingsalnum í dag, þegar andstæðingar Sjálfstæðisflokksins sameinuðust um að ýta Sturlu Böðvarssyni úr forsetastóli.

Þeir kepptust við að segja, að það væri ekki vegna starfa Sturlu heldur vegna þess að hann væri sjálfstæðismaður – og framsóknarmönnum þótti sér sæma að leggja þessum gjörningi lið.

Að minnihlutastjórn hefji störf með flokkspólitíska heift og hefnigirni að leiðarljósi, lofar ekki góðu.

Við þingmenn lútum atkvæðavaldi hér á hinu háa alþingi. Hinu ber að mótmæla, að beitt sé geðþóttavaldi gagnvart einstökum embættismönnum ríkisins. Á mörgu getur maður vissulega átt von á vettvangi stjórnmálanna, en að sjá formann BSRB, þótt í leyfi sé, sitja í ríkisstjórn, sem gerir aðför að rétti embættismanna til starfa, við því gat enginn skynsamur maður búist.

Eftir fyrsta fund nýrrar ríkisstjórnar grípur hæstvirtur forsætisráðherra til þess óvenjulega ráðs, að afhenda fjölmiðlum bréf til seðlabankastjóra, þar sem mælst er til þess að bankastjórar biðjist lausnar, annars eigi þeir ráðherrann á fæti og lagasetningarvald alþingis.

Slíkri ríkisstjórn þarf greinilega að setja siðareglur.

Spyrja má: Gat nýr forsætisráðherra ekki valið betri gjöf til stjórnarráðs Íslands á 105 ára afmæli þess en færa ákvarðanir, sem taka ber innan þess, út á götu?  Þetta er ekki vönduð stjórnsýsla. 

Rökin í bréfinu til bankastjóranna, að með því sé verið að „endurvekja traust á fjármálakerfinu“ eru með öllu marklaus.

 

Herra forseti!

Ég minnist þess ekki, að hæstvirtur forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir hafi gert athugasemdir við ákvarðanir Seðlabanka Íslands í peningamálum, á meðan ég sat með henni í ríkisstjórn.

 

Góðir áheyrendur!

Illa var staðið að myndun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Það ríkir óvissa um framgang allra mála, sem hún ætlar að leggja fyrir alþingi. Fyrstu verk ríkisstjórnarinnar eru geðþóttaákvarðanir um að bola embættismönnum úr störfum  sínum.  Séu þessi vinnubrögð til marks um nýja byrjun og nýtt gildismat lofa þau ekki góðu um framhaldið.

Ég efast um, að nokkur trúi því, að við núverandi aðstæður á Íslandi, sé það þjóðinni fyrir bestu að lúta slíkri stjórn. Fyrstu skref hennar staðfesta aðeins, að það er ekki nein tilviljun, að vinstri stjórn hefur ekki setið hér í 18 ár. Og þessi stjórn  komst ekki til valda nema með því að farið var á svig við þingræðisregluna.

Á stjórnmálavettvangi er það ljós í myrkri, að kosið verður til alþings 25. apríl.