24.1.2009

Verðum að líta í eigin barm

Viðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur í Morgunblaðinu laugardaginn 24. janúar, 2009.

Við sem sátum þennan fund miðstjórnar og þingflokks vorum sem þrumu lostin við þessa tilkynningu Geirs, formanns okkar og forsætisráðherra. Okkur þótti mikið til þess koma af hvílíkri stillingu Geir sagði okkur tíðindin og síðan blaðamönnum,« segir Björn Bjarnason dómsmálaráðherra um ávarp Geirs Haarde í Valhöll í gær en þar tilkynnti Geir um veikindi sín og sagðist ekki ætla að sækjast eftir endurkjöri sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Landsfundi flokksins hefur verið frestað til marsloka.

»Geir og fjölskyldu hans fylgja góðar óskir. Við höfum verið samherjar og átt samstarf til margra ára og aldrei hefur borið skugga á persónuleg samskipti okkar. Ég met störf hans, ósérhlífni og dugnað mikils,« segir Björn. »Í huga sjálfstæðismanna hafði skapast mikill áhugi á að komast á landsfund, en ég held, að allir átti sig á því að fundinum ber að fresta við núverandi aðstæður og rétt sé að koma saman þegar nær dregur kosningum. Það verður nóg að gera fyrir flokksmenn. Nú þarf að ákveða framboðslista og huga að nýjum formanni samhliða markvissri stefnumótun. Ég tel að á næstunni verði öflugt starf innan Sjálfstæðisflokksins í anda samheldni og ábyrgðar. Sundrungin í samstarfsflokki okkar í ríkisstjórn ætti að verða okkur víti til varnaðar.«

Enginn betri kostur

Áttu von á að ríkisstjórnarsamstarfið haldi fram að kosningum?

»Þátttaka í ríkisstjórn tveggja flokka byggist á vilja beggja til samstarfs. Ýmsum í Samfylkingunni finnst greinilega nokkur áþján að bera ábyrgð á stjórn landsins við þær erfiðu aðstæður sem nú ríkja. Ég vona að þetta fólk geri upp við sig hvort það vill vera í stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn fram til kosninga 9. maí eða ekki, öll óvissa um þetta skaðar landstjórnina. Ég verð ekki var við annað en ráðherrar Samfylkingar vilji sitja fram að kosningum.«

Heldurðu að dagar þessarar ríkisstjórnar séu samt ekki í raun taldir?

»Með ákvörðun um þingrof og kosningar breytist staða ríkisstjórnarinnar á þann veg, að nú fara flokkarnir að huga hvor að sínum málum, þótt ráðherrar beri áfram ábyrgð á ráðuneytum sínum og ákvörðunum um öll stjórnarmálefni, stór og smá. Ég sé heldur ekki neinn annan betri kost fyrir þjóðina eins og málum er komið.

Þegar að því kemur að takast á við úrlausnarefni hrökkva vinstri-grænir strax til baka, eins og þegar Geir spurði Steingrím J. í sjónvarpinu, hvað hann vildi gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þá þótti mér framganga Álfheiðar Ingadóttur í þinghúsinu, þegar það var umsetið og varið af lögreglu, ekki traustvekjandi. Að leiða þetta fólk til valda núna án kosninga er óskynsamlegt, svo ekki sé meira sagt.«

Var látið undan kröfu almennings með því að boða til kosninga? Eða er ákvörðunin tekin vegna klofnings innan stjórnarsamstarfsins?

»Það á ekki að vera vandamál fyrir stjórnmálamenn að efna til kosninga. Stjórnmálamenn bjóða sig meðal annars fram til að bera skoðanir sínar undir dóm kjósenda. Þeir eiga ekki að óttast kosningar. Ákvörðun um kosningar nú byggist á því tvennu sem þú nefnir í spurningunni. Ég hallast að því að samstöðuleysi innan Samfylkingarinnar valdi því að ákveðið er að kjósa í vor frekar en næsta haust.«

Dáist að lögreglunni

Mikil mótmæli hafa verið síðustu daga og lögreglan hefur þurft að hafa sig alla við. Hvernig finnst þér þessi mótmæli hafa þróast?

»Það er sorgleg þróun að mál skuli komin í þann farveg að lögregla þurfi að tryggja Alþingi starfsfrið. Allir hafa rétt á því að mótmæla. Sjálfur hef ég barist fyrir skoðunum sem ekki hafa náð fram að ganga án þess að ég hafi barið hús, eyðilagt eigur eða komið í veg fyrir að menn gætu unnið störf sín. Ég dáist að því hvernig lögreglan hefur staðið að málum og ég mun leggja mig fram um að styrkja hana og efla til að hún geti haldið uppi þeirri reglu sem þarf að vera í landinu. Ég er fullviss um, að til þess nýt ég stuðnings alls þorra þjóðarinnar.

Ég vil fá að nota þetta tækifæri til að færa lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra þakkir og lýsa megnri vanþóknun á tilburðum til að leggja þá í einelti af litlum en öfgafullum minnihluta meðal mótmælenda. Ef einhvern tíma er réttmætt að nota orðið skrílslæti um framferði samborgara sinna á það við um aðförina að lögreglu og stjórnarbyggingum aðfaranótt fimmtudags.«

Landsfundi Sjálfstæðisflokksins hefur verið frestað og þar verður kosinn nýr formaður. Hverju breytir þetta?

»Þegar landsfundurinn í lok janúar var boðaður í nóvember var honum einkum ætlað að snúast um Evrópumál. Ef flokkurinn hefði komið saman í næstu viku til að ræða Evrópumálin í heilan dag hefði það verið talin tímaskekkja. Þetta sýnir, hve skjótt skipast veður í lofti í stjórnmálunum og breytingarnar eiga bæði við um menn og málefni.

Yfirlýsing Geirs H. Haarde um að hann gefi ekki kost á sér til formennsku kallar á kjör á nýjum formanni. Þessi yfirlýsing er gefin eftir að allir landsfundarfulltrúar hafa verið valdir þannig að hún gefur ekki tilefni til flokkadrátta við það val. Í aðdraganda landsfunda hefur oft skapast togstreita innan flokksins við val á landsfundarfulltrúum vænti menn kosninga í forystusæti þar.

Líklegt er að fljótlega berist fréttir um frambjóðanda eða frambjóðendur til formanns og varaformanns og menn fari að mynda sér skoðanir um kosti þeirra og galla. Á landsfundi geta allir boðið sig fram án framboðsfrests á fundinum sjálfum, þannig að kjörið er í senn opið og lýðræðislegt. Ég efa ekki, að mannval verði gott og erfitt að gera upp á milli frambjóðenda. Ég bíð eins og aðrir eftir að heyra, hverjir hafa hug á að sækjast eftir þessu vandasama starfi á þessum örlagatímum.«

Krossapróf hjá ESB

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi haft forystu í utanríkismálum og studdi dyggilega aðildina að NATO. Nú þegar kemur að spurningunni um Evrópusambandið og hugsanlega inngöngu Íslands er ákveðinn armur innan flokksins sem þú tilheyrir sem berst gegn því. Er þetta ekki bara einkennileg einangrunarstefna?

»Það tel ég ekki vera. Ég vil hafa mikil og góð samskipti við Evrópusambandið. Ég hef sagt og rökstutt mína afstöðu þannig að með EES-samningnum og Schengen-samstarfinu hefðum við Íslendingar fengið alla kosti þess að vera í samstarfi við Evrópusambandið. Landbúnaðar- og sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins er þess eðlis að með inngöngu værum við að kalla yfir okkur ókostina. Ertu að segja að það sé til marks um einangrunarstefnu í utanríkismálum að vilja ekki ókostina? Menn geta verið sannfærðir um að nauðsynlegt sé að Ísland fari inn í Evrópusambandið en þá ráða önnur sjónarmið en þau sem snerta beint þjóðarhag. Ég lít ekki á það sem einangrunarstefnu að hafa þjóðarhag að leiðarljósi í samskiptum við aðra.«

Af hverju viltu ekki að þjóðin fari í aðildarviðræður og reynt verði á það hvað kemur út úr þeim?

»Ég held að aðildarviðræður séu falshugtak. Þegar ríki sendir inn umsókn í Evrópusambandið verður það að gera sér grein fyrir því að Evrópusambandið er með lagabálka sem ekki verður hnikað. Síðan eru sérstök ákvæði sem ríkið vill reyna að hafa sem sérákvæði sér til hagsbóta og tilkynnir Evrópusambandinu að það hafi áhuga á því. Ráðherraráðið felur framkvæmdastjórninni að skoða málið og framkvæmdastjórnin kemur til ríkisins og segir að það fái tvö til þrjú ár til að laga sig að kröfum sambandsins í þessum efnum. Kallar þú þetta viðræður? Þessu má frekar líkja við að fara í krossapróf og fá frest til að svara nokkrum spurningum.

Með Evrópusambandsaðild munum við Íslendingar ekki geta tryggt alla hagsmuni sem við viljum tryggja. Samþykkt Framsóknarflokksins um aðildarviðræður gleður marga. Framsóknarflokkurinn setur síðan skilyrði fyrir aðild. Í Staksteinum Morgunblaðsins var vel að orði komist þegar sagt var að skilyrðin væru þannig að yrði þeim fullnægt þá yrðum við líklega að segja okkur frá EES-samningnum. Gleymum því ekki, að Framsóknarflokkurinn var á móti því á sínum tíma að við færum í EES. Framsóknarmenn hafa alltaf samþykkt já, já - nei, nei-stefnu í utanríkismálum. Þeir gera það enn með miklum meirihluta - og eru sjálfum sér samkvæmir. Við sjálfstæðismenn höfum hins vegar tekið málefnalega og efnislega afstöðu til utanríkismála.«

Ef landsfundur samþykkir ályktun varðandi Evrópusambandið sem gengi algjörlega á skjön við þína sannfæringu, myndirðu þá lúta því?

»Ég hef oft verið með skoðanir sem hafa ekki fengið hljómgrunn en samt held ég þeim fram og reyni að sannfæra aðra. Nú tók ég til dæmis saman greinar mínar um Evrópumál í bók Hvað er Íslandi fyrir bestu? til að enginn þyrfti að efast um sjónarmið mín. Ég myndi auðvitað lúta niðurstöðu landsfundar en halda áfram baráttu fyrir mínum málstað. Að lokum verður þetta mál lagt í dóm þjóðarinnar.

Raunar held ég að Evrópumál verði ekkert höfuðefni á dagskrá næsta landsfundar - hann ætti að snúast um 18 mánaða áætlun til að endurreisa Ísland inn á við og út á við.

Í utanríkismálum eru einnig miklu skemmtilegri viðfangsefni nærtækari en að líta til baka til Evrópusambandsins, þegar hugað er að hagsmunum Íslands. Mér finnst í raun sorglegt hve utanríkisráðherrar síðustu 20 ára, fyrir utan tvo sjálfstæðismenn í stuttan tíma, hafa verið uppteknir af því að koma Íslandi inn í Evrópusambandið, þrátt fyrir að það hafi ekki verið á dagskrá neinna ríkisstjórna á þessum tíma. Ég var hlynntur því að Ísland sækti um aðild að öryggisráðinu en sú tilraun mistókst. Ég tel tímabært að grandskoða utanríkisstefnuna almennt, setja okkur ný og skýr markmið, að einblína á Evrópusambandið sem upphaf og endi alls er einfaldlega of þröngt sjónarhorn.«

En hvað á þá að gera varðandi krónuna, er hún ekki ónýtur gjaldmiðill?

»Krónan er sérstakt vandamál. Pólitískt og lögfræðilega er ekkert því til fyrirstöðu að Íslendingar ákveði að taka upp annan gjaldmiðil. Þeir þurfa ekki að fara inn í Evrópusambandið til þess. Það er engin mótsögn í því að vera andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu og telja að Ísland geti tekið upp annan gjaldmiðil.«

Hvaða gjaldmiðil?

»Við getum tekið upp evru eða dollar. Það er vont að þetta mál hafi ekki verið leitt til lykta eða sett í farveg þannig að almenningur geti treyst því að verið sé að koma með tillögur og ná víðtækri sátt um það hvað skynsamlegast sé að gera. Þetta er miklu brýnna mál og miklu meira áhugamál almennings en aðild að Evrópusambandinu.«

18 mánaða áætlun

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í stjórn í 17 ár. Það er mikil óánægja í þjóðfélaginu, hræðsla og kvíði. Óttastu ekki að fylgi flokksins muni hrynja í næstu kosningum og flokkurinn ekki rísa upp næstu árin?

»Nei, ég er ekki hræddur en ég hvet til þess að menn láti hendur standa fram úr ermum. Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að standa aðgerðalaus heldur leggja fram skýr sjónarmið - 18 mánaða áætlun um endurreisn þjóðarinnar, heimila og fyrirtækja. Fjármálakrísan eða bankahrunið hefur ekki drepið sjálfstæðisstefnuna, það er mikill misskilningur. Hún stendur dýpri rótum en svo að þetta fjármálaofviðri eyðileggi hana. Sjálfstæðismenn verða hins vegar að líta í eigin barm og hika ekki við að gera það gagnrýnum augum. «

Fólk kvartar undan upplýsingaskorti og finnst ríkistjórnin ekki vera að gera mjög mikið.

»Það er nokkuð til í þessu, þó liggur fyrir skýrsla um 100 aðgerðir ríkisstjórnar sem tengjast bankahruninu. Spyrja má: Er ríkisstjórnin stjórnandi eða leiðtogi? Hún hefur meira yfirbragð stjórnanda, sem tekst á við viðfangsefni frá degi til dags, en leiðtoga, sem blæs mönnum kappi í kinn. Sýn leiðtogans dregur úr ótta fólks á örlagatímum. Skorti hana ýtir það undir hættu á upplausn og óróa. Fyrir nokkrum árum hefði einhver spurt: Hvaða tal er þetta um sterkan stjórnmálaleiðtoga? Við þurfum ekki á honum að halda - látum viðskiptajöfrana leiða okkur til hæstu hæða. Líklega telja fleiri en ég að við höfum hlustað of mikið á þessar raddir. «

Stundum er sagt að 30-40 menn hafi sett landið á hausinn. Almenningur óttast mjög að fjárglæframenn muni ekki verða látnir sæta ábyrgð.

»Eitt er að ákæruvald, saksóknari og lögregla telji sig hafa eitthvað í höndunum til að ákæra fyrir, annað að fá dómstóla til að fallast á að ákærurnar séu réttmætar. Ég hef ekki farið varhluta af gagnrýni fyrir að stuðla að málarekstri gagnvart Baugi og hið sama er að segja um þá sem stóðu í eldlínunni fyrir ákæruvald og lögreglu. Öllu afli áróðurs og lögfræði var beitt til að hafa áhrif á almenning og síðan dómara, langt út fyrir veggi dómsalanna. Stundum er ástæða til að spyrja hvort lögmenn taki að sér að vera blaðafulltrúar fyrir skjólstæðinga sína - og undarlegt er hve fjölmiðlar geta verið ginnkeyptir fyrir því að málflutningur þeirra á þeim vettvangi sé óhlutdrægur.

Menn segja að samkeppniseftirlit og fjármálaeftirlit hafi ekki verið nægilega öflugt. Það á ekki bara við hér á landi. Í öllum löndum eru dæmi um hve slyngir menn voru að fara í kringum lögin en fengu loks á sig ákærur. Það getur gerst hér. Margar lýsingar á viðskiptaháttum sem hafa verið að birtast í Morgunblaðinu eru til dæmis þannig að venjulegir menn eiga erfitt með að skilja þær. Á að telja okkur trú um að þetta séu venjulegir alþjóðlegir viðskiptahættir? Situr heimurinn þess vegna allur í súpunni? Menn hafi beitt viðskiptabrellum til að skapa loftkastala í peningaheiminum. Við sjáum þá nú hrynja hvern á fætur öðrum. Hvort þetta allt sé refsivert eða ekki mun koma í ljós. En óskemmtilegt er að lesa um þetta.«

Almenningur kvartar líka undan því að það verði engar breytingar, það taki enginn ábyrgð og enginn segi af sér. Áttu von á því að það komi að slíku uppgjöri og fulltrúar Fjármálaeftirlits og seðlabankastjórar víki?

»Með ákvörðun um að boða til kosninga hefur verið stofnað til uppgjörs á hinum pólitíska vettvangi. Nú eiga kjósendur síðasta orðið innan tíðar en ekki stjórnmálamenn, sem verða í senn að verjast og kynna leið eða leiðir úr vandanum. Við höfum með kosningum núna valið aðra leið en nágrannaþjóðir og farið gegn ráði Görans Perssons, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, sem taldi kosningar og stjórnarskipti ekki skynsamlegt úrræði við þessar aðstæður.

Þú spyrð um Seðlabanka og Fjármálaeftirlit. Embættismenn þar njóta sama réttar og annars staðar en í hinu pólitíska uppgjöri á næstunni verða menn krafðir um afstöðu til stofnana og embættismanna og hvernig þeir sjá framtíð þeirra. Í svörunum felst mikilvæg viðleitni til að skapa traust miðað við umræður og aðstæður í þjóðlífinu. Mér finnst það helst mæla á móti kosningum í maí að þá liggi ekki fyrir niðurstaða af hálfu rannsóknarnefndar á bankahruninu. Embættismenn njóta réttar sem ber að virða. Þeir eiga oft erfitt með að verjast opinberlega og geta því legið vel við höggi. Ég endurtek það sem ég sagði á Alþingi við upphaf þessa alls í haust: Forðumst nornaveiðar - en hikum ekki við að taka fast á málum, þegar lög heimila slíka framgöngu.«

Hættur að undrast

Hvenær lætur þú af störfum sem ráðherra?

»Ég veit það ekki. Mál hafa einfaldlega þróast með allt öðrum hætti en ég vænti. Forsætisráðherra ræður hve ég sit lengi í ríkisstjórninni.«

Muntu segja af þér þingmennsku þegar þú hættir sem ráðherra?

»Það fer eftir því, hvenær ég hætti. Kannski verður núna farið að spyrja mig hvort ég vilji gefa kost á mér aftur til þingsetu. Hugur minn hefur ekki staðið til þess án þess að ég hafi í raun útilokað neitt í því efni, enda væri það í ósamræmi við þá lífsskoðun mína, að framtíðin sé svo óráðin að ekki eigi að velta henni mikið fyrir sér heldur búa sig sem best undir hana með því að leggja rækt við það sem maður er að gera í núinu.

Ég hef reynt svo margt síðustu tvö ár, persónulega þegar ég gekk undir mikinn en vel heppnaðan lungnaskurð, og nú að heyra Geir skýra frá veikindum sínum og síðan tíðindin á vettvangi stjórnmálanna, að ég er í raun hættur að undrast yfir því sem á dagana drífur. Ég tek endanlega ákvörðun um pólitíska framtíð mína, þegar ég þarf þess.«