21.1.2009

Samtal um mótmæli - morgunvaktin

Mótmælin hófust um miðjan dag (20. janúar) þó að það hafi staðið þarna fram á rauðanótt og Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttamaður hitti Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra að máli í þinghúsinu um sjöleytið í gær.



Björn Bjarnason: Nú ég skil nú vel að fólk vilji koma hér og það er algengt hér hjá okkur á Íslandi að fólk kemur hér á Austurvöll og mótmælir og lætur í ljós skoðun sína á einstökum málum eða hvort ríkisstjórn eigi að vera eða fara. Mér finnst nú þessi mótmæli hafa breyst þannig að það er ótrúlegt að fylgjast með því hvernig þetta hefur þróast og ég held að þeir sem hafa kallað þetta fólk til þess að koma hingað að þeir hljóti ekki síður heldur en stjórnvöld að líta í eigin barm og velta fyrir sér hvort þetta sé leiðin til þess að ná þeim árangri sem að er stefnt.



Heiðar Örn Sigurfinnsson: Eru það skipuleggjendur mótmælanna?



Björn Bjarnason: Ja, ég veit ekki hverjir skipuleggja þetta, það vill enginn kannast við það. Það voru menn sem kölluðu á þetta fólk að koma hingað á Austurvöll og vera með einhver tæki með sér til þess að skapa hávaða í því skyni að trufla störf Alþingis. Það tókst nú ekki vegna þess að lögreglan hún hélt mjög vel á málum og þurfti að grípa til ráða sem við viljum helst ekki að þurfi að grípa til hér á landi en eru nauðsynlegt ef að það á til dæmis að tryggja starfsfrið Alþingis eins og þetta var hér í dag. Ég hef fylgst með þessu alveg frá fyrstu stundu og núna hvað er klukkan 19 og ég er búinn að fylgjast með þessu í allan dag og ég tel að lögreglan hafi staðið sig með miklum ágætum í þessu og tekið á þessu máli í samræmi við það sem hún hefur gert á undanförnum vikum án þess að ögra neinum en heldur ekki láta menn komast upp með það sem er of langt gengið.



Heiðar Örn: Heldur þú í ljósi þess að þessi mótmæli hafa þróast svona og hugsanlega eiga mótmæli eftir að þróast ja og verða enn verri þegar lengra líður. Heldur þú að það þurfi að efla lögregluna til þess að takast á við þetta eða einhverja aðra?



Björn Bjarnason: Ja, ég tel nú að það þurfi að sjálfsögðu að huga að því ef mótmæli verða harðari og mótmælendur einbeittari núna í því að brjóta á bak aftur valdstjórnina þá þurfi að búa hana þannig að hún geti tekist á við þau viðfangsefni bæði með tækjum og mannafla. Þannig að það er alveg ljóst að svona hlutir verða náttúrulega til þess að menn skoða málin og meta stöðuna og fara yfir hana og velta fyrir sér hvað er nauðsynlegt að gera til þess að tryggja starfsfrið Alþingis eða annarra sem hér vilja fara að þeim leikreglum sem gilda um að menn leysi mál sín í samtölum og umræðum og fái frið til þess.



Heiðar Örn: Sýnist þér á þeim mótmælum sem hafa farið fram í dag að það þurfi að bregðast við með einhverjum slíkum hætti?



Björn Bjarnason: Ég hef nú ekki fengið þá yfirsýn, ég hitti hér lögreglumennina, það var hópur manna hér sem ég hitti í þinghúsinu og það er greinilegt að þetta hefur reynt á lögregluna eins og aðra og það verður lagt mat á það og lögregluyfirvöld munu fara yfir það. Það eru þau sem taka ákvarðanir um viðbúnaðinn og ef þau telja að það sé komin einhver sú staða að það þurfi að efla hann að þá hljóta þau að vekja máls á því við okkur sem berum hina pólitísku ábyrgð.



Heiðar Örn: En hvað með skilaboð mótmælendanna, þau eru að gagnrýna störf ja þín og ríkisstjórnarinnar sem að þú situr í. Hvað finnst þér um þau skilaboð sem þau, þetta fólk er að færa?



Björn Bjarnason: Eins og ég sagði í upphafi okkar samtals þá er ég alls ekki neitt viðkvæmur fyrir því að menn gagnrýni mín störf eða annarra og finni að því og bendi okkur á það sem betur má fara. En ég vil að það sé gert innan þeirra reglna sem gilda hér í landinu um það og eitt er það að sjálfsögðu að menn hafi rétt til að efna til mótmæla og það hefur verið megin stefna eins og Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu hefur sagt. Hann hefur sagt: Lögreglan er að gera fólki líka kleift að koma á friðsaman hátt saman til þess að láta í ljós sína skoðun. Og ég hef ekkert við það að athuga nema síður sé. En ég hef hins vegar rétt til þess að verja það sem ég hef verið að gera og ríkisstjórnin það sem hún hefur verið að gera og við þurfum að ja fá tækifæri þá til þess eins og með þessu samtali okkar eða á öðrum vettvangi þar sem menn koma saman og ræða málin án þess að vera með ögranir eða hótanir af einhverju tagi.