15.1.2009

Löggæsla - utanríkismál, Reykjavík síðdegis

Þorgeir Ástvaldsson: Í gær þá var hlustandi sem spurðist fyrir um það sem að við höfum nú rætt fyrr í þessum þætti og það eru samningar landa í milli, það er að segja Íslands og annarra landa um fangaskipti.

Kristófer Helgason: Já og þessi maður okkur um að spyrja Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra um það hvernig þessu liði. Það eru nú samningar á milli Íslands og Litháen en spurning hvernig samningum við önnur lönd miðar, sérstaklega þar sem að það er plássleysi í íslenskum fangelsum.

Þorgeir: Heill og sæll Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra.

Björn Bjarnason: Já, komið þið blessaðir. Í sjálfu sér er nú ekki mikið um þetta að segja. Það hafa ekki verið gerðir aðrir samningar en hins vegar hafa þessi mál verið tekin nýjum tökum af hálfu lögreglu og Útlendingastofnuna og ég held að fleiri mönnum hafi verið vísað úr landi og ég held nú að þetta sé þannig núna að menn þurfi ekki að hafa kannski miklar áhyggjur. En auðvitað er það svo að það er sjálfsagt að hafa auga á þessu og taka á þessum málum en við erum ekki með fleiri samninga heldur en við Litháa núna.

Þorgeir: Nei, en eru ekki fangelsin yfirfull?

Björn Bjarnason: Jú, þau eru yfirfull og vafalaust mætti senda fleiri úr landi án þess að menn hafi kannski samninga um það en ég kem nú ekki að því að ákveða slíkt. Það eru fangelsismálayfirvöld sem ákveða það og taka á þeim málum. Og fangelsin eru nú full meðal annars vegna þess að lögreglan hér á landi og sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu er mun skilvirkari en áður ef að þannig má að orði komast og menn hafa orðið að bregðast við á ýmsan hátt en ég held nú að fangelsisyfirvöld haldi þannig á málum að viðunandi sé.

Þorgeir: Já, um löggæsluna innanlands það er reyndar svona nýlunda í okkar samfélagi Björn að sjá að, að ráðamönnum þjóðarinnar er fylgt í nær hvert fótmál þegar að ja hvort sem að menn eru að fara á ríkisstjórnarfund eða erinda eitthvað annað í þágu stjórnar Íslands.  Erum við og lifum við hættutíma eða það er að segja, eru ráðamenn þjóðarinnar í hættu að þínu mati?

Björn Bjarnason: Ja, það hefur breyst ástandið og það hefur greinilega vakið mikla athygli margra að sjá þessar myndir sem teknar voru við Alþingishúsið þegar ráðherrar voru að koma á ráðherrafund á þriðjudaginn og margir hafa vaknað og spurt sig, er nóg að gert við gæslu öryggis okkar forystumanna. Fyrir áramótin  þá var hins vegar umræðan þannig: Af hverju eru menn að huga að þessari gæslu? Nú spyrja menn: Er nægileg gæsla? Þannig eru þessar umræður og menn sáu það þarna við þinghúsið að það getur að sjálfsögðu alltaf allt gerst og maður verður var við það sjálfur á ferð hér um götur borgarinnar að það er greinilegt að það er full ástæða fyrir okkur svona að sýna meiri aðgæslu heldur en áður og það er eins og það hafi hlaupið aukin harka í viðmót fólks oft á tíðum. Hvort það brýst síðan fram sem beint ofbeldi eða hvort það sé áreiti af öðrum toga það er eitthvað sem menn verða að meta.

Kristófer: En í þessu myndbandi sem að þú ert að tala um sem að sýnt var inn á Vísir.is að þar sást hvar forsætisráðherra og menntamálaráðherra voru ansi berskjölduð þegar að einn mótmælandinn veitist að þeim?

Björn Bjarnason: Jú, jú þetta er staðreynd sem ekki verður undan vikist og við sjáum þetta líka ekki bara hér heldur víða annars staðar að menn geta komist nálægt fólki. Spurningin er sú hvort tilgangurinn með því sé að ögra einhverjum og beita valdi. Við stjórnmálamenn hér á landi höfum nú verið að ganga mjög nærri fólki, ef að ég má orða það svo, þegar við erum yfirleitt á ferðinni. Við bíðum í biðröðum eins og aðrir og við förum ferða okkar alveg eins og hver annar borgari og ef það er talið að við séum í hættu sem slíkir að þá er það gjörbreyting á okkar þjóðfélagi og breyting til hins verra. Þessi harka setur finnst mér mjög dapurlegan svip á okkar samfélag hérna.

Kristófer: Björn, það styttist í landsfund. Þú ert nýbúinn að gefa út bók sem fjallar um tengsl Íslands við Evrópusambandið. Hvaða viðbrögð hefurðu fengið við þessari bók?

Björn Bjarnason: Nú ég hef nú almennt fengið góð viðbrögð og ég held að menn kunni að meta það að ég kynni skoðanir mínar á þennan hátt á einum stað. Ég er eindreginn í andstöðu minni við það að við förum inn í Evrópusambandið. Ég tel að við höfum fengið alla kosti Evrópusamstarfsins með aðildinni að evrópska efnahagssvæðinu og Schengen-samstarfinu og ég sé enga ástæðu til þess að mæla sérstaklega með því að við förum að kalla yfir okkur ókostina sem felast í því að það yrði vegið að undirstöðum landbúnaðar og sjávarútvegs í landinu.

Þorgeir: Og þú ert, ja þú hefur svona sagt okkur það að þú ætlir að yfirgefa ja þína pólitísku stöðu sem þú ert nú í en hyggurðu á önnur störf?

Björn Bjarnason: Nei, ég held áfram sem þingmaður og það veit nú enginn hvað þetta kjörtímabil verður langt. En ég mun alltaf hafa nóg fyrir stafni. Það þarf ekki að óttast það að ég verði eitthvað atvinnulítill. En ég hef ekki neitt sérstakt í huga. Ég veit heldur ekki tímasetningar varðandi þetta. Ég er bara samkvæmur sjálfum mér þegar ég segi að ég lýsti því yfir við upphaf þessa kjörtímabils að ég ætlaði að líta á það sem mitt síðasta nema  einhver gjörbreyting yrði á málum, þótt mikið hafi breyst þá hefur þessi ákvörðun mín ekki breyst.

Þorgeir: Nei, en áhugasvið þitt hefur nú löngum verið utanríkismálin?

Björn Bjarnason: Já, ég held að það þurfi mjög að huga að íslenskum utanríkismálum og stöðu Íslands í utanríkis- og öryggismálum og það þurfi sérstaklega að huga að stöðu okkar með hliðsjón af þeim breytingum sem eru hér á norðurslóðum, á þeim viðhorfum sem eru að koma fram á Norðurlöndunum öllum um aukið samstarf Norðurlandanna og þar á meðal okkar og Norðurlandanna um öryggismál. Og ég hef mikinn hug á því að halda áfram að fjalla um þau mál. Ég hef flutt fyrirlestra um þau mál víða og hef mikinn hug á því að láta að mér kveða í umræðum um þau eins og önnur utanríkismál.

Þorgeir: Er samstaða og krafan um meiri samstöðu innan Norðurlandanna er hún skot í austurátt, það er að segja Rússar eru að ybba gogg?

Björn Bjarnason: Ja, hún er viðbragð við breyttri stöðu og Norðurlöndin eru næstu nágrannar Rússlands á norðurslóðum og þar sem við erum að sjá Rússa auka sinn mátt og auka sína viðveru hljóta Norðurlöndin að velta fyrir sér eigin stöðu. Þetta hefur náttúrulega gerst á undanförnum árum, 1998 stóð Rússland ákaflega illa fjárhagslega, síðan fór olían að hækka og þeir urðu ríkari Rússar en núna hefur aftur snúist á verri veg fyrir þá. Það verður spurning hvernig þróunin verður en ég held hins vegar, að sú staða sem er á norðurslóðum með breytingu á loftslaginu og aukinni umferð skipa og aukinni auðlindanýtingu hljóti að hafa áhrif á Norðurlöndunum og ekki síður hér á Íslandi vegna okkar sérstöðu. Þannig að þetta er mjög spennandi viðfangsefni að velta þessu fyrir sér.

Þorgeir: Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, takk fyrir þetta.

Björn Bjarnason: Þakka ykkur kærlega fyrir, blessaðir.