13.1.2009

Evrópubók í Íslandi í bítið.

Bylgjan

Í bítið

Hvað er Íslandi fyrir bestu?

Heimir Karlsson: Út er komin bók eins og við segjum stundum.

Kolbrún Björnsdóttir: Já, já.

Heimir: Og þessi nýja sem við höfum hérna á milli handanna heitir Hvað er Íslandi fyrir bestu? Tengsl Íslands og Evrópusambandsins en hún er eftir Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, og hann spyr þar ýmissa spurninga. Hver er til dæmis staða Íslands í hnattvæðingunni? Hvað felst í þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu? Hvaða aðferðum ber að beita við töku ákvarðana um Evrópusamstarfið? Og fleiri og fleiri spurningar og Björn er kominn hérna til okkar. Komdu sæll og velkominn og til hamingju með bókina.

Björn Bjarnason: Komið þið sæl. Já, þakka þér kærlega fyrir, þakka fyrir.

Heimir: Þú ert að velta eins og ég segi upp spurningum hér, ýmsum, svararðu þeim tæpitungulaust eða hvað?

Björn Bjarnason: Ef það er verið að spyrja um afstöðu mína til aðildar Íslands að Evrópusambandinu þá svara ég því tæpitungulaust. Ég er andvígur því að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Ég hef kynnst Evrópusambandinu og er í sjálfu sér hlynntur Evrópusambandinu sem stofnun fyrir þau ríki sem eru þar aðilar. En mín kynni af Evrópusambandinu eru þess eðlis að ég tel að okkar hagsmunum sé mjög vel gætt á þann veg sem við höfum gert með samningnum um evrópska efnahagssvæðið og Schengen-samstarfið. Og ég sé fyrir mér að ef við förum lengra að þá muni þetta fara að hafa neikvæðari áhrif og erfiðari áhrif fyrir okkur heldur en við ætlum núna. Og þá er ég að fjalla um stjórnsýsluna, sjálfstæðið og fullveldið og þá þætti en auðvitað eru margir aðrir þættir sem koma til álita og ég er að fjalla um í þessari bók minni. En grundvallarsjónarmið mitt er það að við eigum ekki að fara inn í Evrópusambandið. Þannig að ég svara þeirri spurningu í bókinni og ég er að skrifa þarna um Ísland í hnattvæðingunni sem er ritgerð sem ég skrifaði fyrir nokkrum árum og finnst passa vel inn í þessar umræður núna. Einnig um Schengen-samstarfið, Schengen-samstarfið hefur nú ekki verið mikið skilgreint hér og fjallað um það opinberlega. Þetta er mjög háþróað tæknilegt og lögfræðilegt samstarf sem blasir við fólki við landamæri en er miklu meira heldur en spurningin um það hvort menn geta farið passalausir yfir landamæri. Og síðan eru þarna greinar um Evrópuumræðurnar eins og þær hafa verið að þróast á undanförnum misserum hér á landi.

Kolbrún: En þú minnist á stjórnsýsluna og margir óttast og tala um þetta sem bákn, Evrópusambandið, aðrir benda á það að báknið er ekki meira en svo að stjórnsýslan í Bretlandi sé jafnvel stærri heldur en stjórnsýsla Evrópusambandsins?

Björn Bjarnason: Jú, eitt er það hvað margir vinna við slík störf, annað er hvaða völd menn hafa og hvaða áhrif menn geta haft og hvernig ákvarðanir eru teknar og hvað er mikið af ákvörðunum sem við teljum kannski eðlilegt að taka hér heima hjá okkur færðar eitthvað annað. Til dæmis eins og ákvarðanir um það hvað hámarksafli eigi að vera mikill á Íslandsmiðum. Þær ákvarðanir eru færðar héðan yfir til Brüssel. Ég hef kynnst stjórnsýslum annarra landa og séð hvernig þær hafa þurft að laga sig að þessari aðild að Evrópusambandinu. Okkar stjórnkerfi mundi verða mjög undir miklum þrýstingi frá Brüssel valdinu þótt það séu kannski ekki fleiri starfsmenn þar heldur en í stjórnkerfum einstakra aðildarlanda þá eru þeir miklu fleiri heldur en hér á landi og krafan um það hvernig við eigum að sinna þessum verkefnum yrði mjög rík. Ég vek athygli á því, ég var formaður í Evrópunefnd forsætisráðherra eins og hún var kölluð og skilaði skýrslu í mars 2007 þar leggjum við til ýmis praktísk ráð um það hvernig Íslendingar eigi að gæta betur hagsmuna sinna í Evrópusamstarfinu án þess að fara inn í Evrópusambandið. Og ég verð að segja það að því miður hefur ekki verið framkvæmt mikið af því sem við lögðum þar til. Og það hefur ekki verið gengið til þess verks jafn skipulega og ég vænti eftir að við lögðum fram okkar skýrslu og hún var gerð að hluta af stjórnarsáttmála þeirrar stjórnar sem nú situr. Það hefur ekki verið framkvæmt nógu mikið af því til þess að tryggja okkar hagsmuni.

Heimir: Hver eru þau helstu ráð sem að ekki hafa?

Björn Bjarnason: Helstu ráð eru meðal annars þau að við gætum þess vel að eiga fulltrúa í sérfræðinganefndum sem eru að fjalla um alls konar reglur og fyrirmæli sem koma frá Brüssel því að ríkin koma þar inn á fyrsta stigi og Íslendingar sem aðilar að evrópska efnahagssvæðinu hafa fulla aðild að öllum þessum nefndum. Og ef að við erum með einhver sérsjónarmið þá getum við komið þeim inn á því stigi, þau sjónarmið myndu síðan fylgja þessum regluverkum upp eftir öllu stjórnkerfinu. Við höfum ekki notað öll þau tækifæri sem við höfum á þessum vettvangi og ef við notum þau ekki núna við þessar aðstæður og teljum að eða segjum svo að við höfum ekki þau áhrif sem við höfum. Þá erum við að tala um það sem íslensk þjóð og íslenskt ríki gagnvart Evrópusambandinu. Ef við færum inn í Evrópusambandið þá myndum við verða allt annars konar þátttakendur, pólitískt og annað og þá færu stjórnmálamenn að slá sér upp að þeir væru að bjarga heiminum með því að fara til Strassborgar og hættu að hugsa um íslenska hagsmuni með sama hætti og okkur ber skylda til núna.

Heimir: En þú ert nú samt svona í og með að segja þá að við höfum ekki gert það nógu vel?

Björn Bjarnason: Ég er að segja það, við höfum ekki notað þau tækifæri.

Heimir: Og hvers vegna ekki?

Björn Bjarnason: Ja, ég spyr sjálfan mig hvers vegna ekki. Við leggjum fram þarna ákveðnar tillögur og ég hef fylgst með því núna sem dómsmálaráðherra síðan 2003 varðandi Schengen og ég átta mig á því hvað það er gífurlegt álagt til dæmis á embættismönnum dómsmálaráðuneytisins sem eru gagnvart Evrópusambandinu í Schengen-samstarfinu og það er að fylgjast með hverjum einstaka þætti og ég hefði gjarnan viljað sjá þetta betur útfært og rætt opinberlega og fyrir opnum tjöldum eins og við leggjum til í Evrópunefndinni og skýrslu okkar um það hvernig þurfi að gæta okkar hagsmuna. Þingið hefur síðan tekið þetta upp, það hefur verið tekið upp á vegum utanríkismálanefndar þingsins og utanríkismálanefndin hefur mótað ákveðnar hugmyndir um það hvernig það sjái þingið og vonandi gerist það því að samstarfið þarna er að verða pólitískara líka. Við höfum mörg tækifæri við núverandi aðstæður til að gæta hagsmuna okkar og ég tel að ef að við færum inn í Evrópusambandið þá kynni þetta að snúast í andhverfu sína að þrýstingurinn frá Brüssel yrði svo mikill að við svona yrðum, ja við yrðum undir svo miklum þrýstingi að við gætum ekki gert þetta á sama hátt og við gerum núna ef við viljum. Og höfum gert vissulega í ýmsum málum, flugverndarmálum og ég get tíundað mál þar sem við höfum gætt okkar hagsmuna. En við höfum fleiri tækifæri til þess heldur en við höfum nýtt.

Kolbrún: En Evrópusambandið svo virðist sem það sé þegar byrjað að undirbúa aðildarumsókn frá okkur eða undirbúa sig og við móttöku umsóknar. Hefur þú einhverjar skýringar á þessum áhuga Evrópusambandsins á að fá Ísland inn?

Björn Bjarnason: Þið vitið það náttúrulega að Evrópusambandið verður til í Mið-Evrópu, til að tryggja frið í Mið-Evrópu og síðan hefur það stækkað og stækkað og löndunum hefur fjölgað og ef að menn væru svona að huga að sinni landafræði og yfirráðum í Evrópusambandinu hvers vegna ekki að ná líka ríki sem er úti í miðju Norður-Atlantshafi inn í þetta samfélag þjóðanna til þess svona að tryggja stöðu sína á þeim vettvangi, fá aðgang að þessari lögsögu okkar sem er 750 þúsund ferkílómetrar hér, hafsvæðið í kring og láta meira að sér kveða. Evrópusambandið hefur mótað stefnu sem miðar að því að það sé, svona frá mínum bæjardyrum séð. að reyna að troða sér inn í norðurheimskautsmálin. Það vill koma þar meira að. Það á enga beina aðild að norðurheimskautinu. Svíar og Finnar eru að vísu í heimskautaráðinu en þeir myndu fá meiri ítök á Norður-Atlantshafi, hafa annað pólitískt vægi. En þeir hafa aldrei haft nokkurn áhuga á Norður-Atlantshafinu. Evrópusambandið hefur aldrei mótað neina stefnu varðandi Norður-Atlantshafið. Það er núna að reyna að móta stefnu varðandi norðurheimskautið af því það sér að loftslagsbreytingarnar leiða til þess að menn geta nýtt það betur heldur en áður. En Evrópusambandið hefur aldrei haft neinn áhuga á Norður-Atlantshafinu. Það eru Bretar og Bandaríkjamenn sem hafa verið þau stórveldi sem hafa svona síðan í seinni heimsstyrjöldinni ráðið hér.

Heimir: Já, en ef við snúum okkur svona beint að hagsmunum almennings í tengslum við ja hugsanlega inngöngu í Evrópusambandið og þá þeir sem að vilja að við göngum inn, að minnsta kosti til viðræðna telja kannski helstu rökin vera þau að hér myndu vextir lækka klárlega og vöruverð jafnvel líka?

Björn Bjarnason: Í bókinni, ef að menn lesa þessa bók mína sem ég vona að sem flestir geri að þá kemur þar fram að ég, þegar við skiluðum okkar skýrslu 2007 svo ég staldri nú við það, þá er ég þeirrar skoðunar og kemur fram í skýrslunni að einhliða upptaka á evru sé óskynsamleg. Síðan, af því ég hef þá skoðun að við eigum ekki að fara inn í Evrópusambandið og síðan hafa þessar umræður um það að við þurfum að skipta um gjaldmiðil orðið ennþá háværari heldur en áður og það er augljóst að það er mjög mikill ótti hjá mörgum um stöðu krónunnar og þá hafa menn verið að velta því fyrir sér, hvort sé bráðnauðsynlegt að tengja saman aðild að Evrópusambandinu og nýjan gjaldmiðil. Og í bókinni má greina mína hugsun um það, þar sem ég hef þróað hana og skilgreint og komist að þeirri niðurstöðu að það er ekki endilega nauðsynlegt að ganga í Evrópusambandið til að skipta um gjaldmiðil. Og þetta sem þú ert að tala um og snertir almenning, vexti og annað það snertir þann gjaldmiðil sem við höfum að verulegu leyti. Og mín megin niðurstaða varðandi þennan þátt er sú að það er ekki nauðsynlegt, hvorki pólitískt né lögfræðilega að ganga í Evrópusambandið til þess að taka upp evru eða einhvern annan gjaldmiðil. Hins vegar eru hagfræðileg sjónarmið og önnur sjónarmið sem valda því að menn geta síðan deilt um hvort á að taka upp annan gjaldmiðil eða ekki og ég hef ekki blandað mér í það enda hef ég ekki þekkingu til þess. En ég hef komist að þeirri niðurstöðu og bókin er meðal annars að verulegu leyti um þá skoðun mína að það er hægt að taka upp nýjan gjaldmiðil hvort sem er evru eða hvaða annan gjaldmiðil án þess að við séum eitthvað sérstaklega að móðga Evrópusambandið, ég tel það alveg fráleitt. Ég tel hins vegar að þau viðbrögð sem sendiherra Evrópusambandsins í Noregi gagnvart Íslandi hefur sýnt varðandi þennan þátt þegar við höfum orðað þetta sýni það sem hér var spurt um, hvers vegna hefur Evrópusambandið þennan áhuga á Íslandi, hvers vegna er það að reyna að knýja á um það að við förum inn og nota það þegar við erum í gjaldeyrisvandræðum og segja, ef þið leyfið ykkur að taka upp evru þá eruð þið að móðga okkur og þið valdið hér stórvandræðum. Þetta er bara blekking, við munum ekki gera það. En af hverju talar sendiherrann svona, það eru einhver fyrirmæli sem hann hefur um að tala svona og eins og einhver sagði, þið eruð búin að spyrja Evrópusambandið þúsund sinnum um þetta og þið fáið alltaf sama svarið, af hverju eruð þið að spyrja þá í eitt þúsund og fyrsta skiptið. Ég meina við fáum alltaf svarið, þeir vilja ekki svara á annan veg og nota einhver rök sem þeirra rök eru, ég ætla ekki að endurtaka þau hér og segja, nei þið megið það ekki. Auðvitað megum við það. Okkur er það í sjálfsvald sett.

Kolbrún: Já, og þú minntist þarna á Noreg, hér á landi eru staddir fjórir, ég held það séu fjórir en það skiptir kannski ekki máli alveg fjöldinn, en hér eru stjórnmálamenn frá Noregi sem eru, ja hvað eru þeir að gera hérna? Eru þeir að kanna bara landið hér eða eru þeir að reyna að telja okkur trú um það að við eigum ekki að ganga í Evrópusambandið?

Björn Bjarnason: Nú hef ég ekki hitt þetta fólk og ég er viss um að það er hér til þess að kynna sér ástandið á Íslandi af eigin raun. Þið vitið að sú mynd sem hefur verið dregin upp af Íslandi og ég fjalla nú um það líka í bókinni, þessa mynd sem hefur verið dregin upp af Íslandi og hvernig það hittir okkur hér fyrir að vera útmáluð eins og gert hefur verið að hún er ekki góð og við eigum að fagna sem flestum sem hingað koma til þess að kynna sér ástandið af eigin raun og ég held að þessir þingmenn séu að gera það. Vegna þess að umræður hér hafa áhrif í Noregi og þeir eru þá betur í stakk búnir til þess að taka þátt í þeim umræðum eftir að þeir hafa verið hér. Þannig að þetta held ég að sé nú ástæðan fyrir því að þeir eru hér. Ég hef ekki hitt þá en þetta er fólk, ef ég veit rétt sem er á, andvígt aðild Noregs að Evrópusambandinu og hér var prófessor sem ég heyrði um og flutti erindi á sunnudaginn um reynslu Norðmanna í sjávarútvegsmálum af Evrópusambandinu og allt það sem hann sagði var á þann veg að það væri varasamt fyrir fiskveiðiþjóðir að treysta á það að Evrópusambandið hefði einhvern sérstakan skilning á þeirra málum.

Heimir: En Björn, þú ert sem sagt andvígur því að við göngum í Evrópusambandið en þú hlýtur að sjá samt einhverja kosti hugsanlega við það að ganga inn?

Björn Bjarnason: Á ég að segja þér það að ég sé gífurlega marga kosti á samskiptum okkar við Evrópusambandið. Ég var formaður utanríkismálanefndar þegar við gengum í evrópska efnahagssvæðið og var eindreginn málsvari þess og sá alla kosti þess og ég tel að það hafi sýnt sig að Ísland hefur breyst, hvað sem líður efnahagsmálunum þá hefur Ísland breyst til batnaðar eftir að við gerðumst aðilar að evrópska efnahagssvæðinu. Nú ég hef líka núna hvað í 5 ár eða hvað það er haft með höndum framkvæmd Schengen-samkomulagsins og ég hef ekkert sannfærst um það að það sé vont fyrir okkur að vera í Schengen. Þannig að ég sé alla þessa kosti en ég sé ókostinn við það að ganga lengra og ég leyfi mér að segja það með hliðsjón af þeirri reynslu sem ég hef og að hafa þessa skoðun.

Heimir: Er það fyrst og fremst afsal á fullveldinu?

Björn Bjarnason: Ja, það er afsal á, já það er svo, það er afsal á auðlindunum, afsal á fullveldinu.

Heimir: Þegar þú talar um auðlindir?

Björn Bjarnason: Já, ég er aðallega að tala um sjávarauðlindir. Ég tel líka að það sé auðlind fyrir okkur að eiga okkar eigin landbúnað. Ég tel að ef að við færum inn í Evrópusambandið þá jafngilti það ákvörðun um það að við værum tilbúin að leggja niður íslenskan landbúnað. Við værum tilbúin að fórna hér öllum tollum sem leiddu til þess að landbúnaðurinn yrði gjörsamlega ósamkeppnisfær og mundi leggjast niður í núverandi mynd, sláturhús og allar vinnslustöðvar og allt. Þannig að, við verðum að átta okkur á því að þegar við vorum að semja um aðildina að evrópska efnahagssvæðinu þá voru landbúnaðarmálin og sjávarútvegsmálin mjög viðkvæm og ég beitti mér fyrir því með ríkisstjórninni á þeim tíma að ná samkomulagi við til dæmis fulltrúa Bændasamtaka og bænda innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins sem tryggði framgang samningsins um evrópska efnahagssvæðið. Ef við hefðum verið að, viljað fara inn í Evrópusambandið á þeim tíma þá hefði það verið kolfellt á þingi. Það hefði aldrei náð fram og það sama á við núna. Ef við ætlum að fara inn í Evrópusambandið þá erum við að fara inn á svið sem snertir sjávarútveginn og landbúnaðinn og við erum að kippa löppunum undan landbúnaðinum og gjörbreyta allri okkar réttarstöðu í sjávarútvegsmálum og afsala okkur valdi þar.

Kolbrún: Sjálfstæðisflokkurinn hann talaði um það og þú hefur nú minnst á það að ef Sjálfstæðisflokkurinn kemst að þeirri niðurstöðu að kanna eigi aðild að Evrópusambandinu og jafnvel ganga inn í sambandið að þá sé ja hann að fara frá sinni, ég man ekki hvernig þú orðaðir það, en frá sinni hugsjón, svona kannski stærstu hugsjóninni, sjálfstæðinu sjálfu. Landsfundurinn framundan og það er kraumar innan flokksins, það eru margir sem vilja skoða aðild og jafnvel ganga alla leið og vilja hreinlega sækja um?

Björn Bjarnason: Jú, það er sérstök Evrópunefnd starfandi og miklar umræður. Mjög skemmtilegir fundir, fjölmennir fundir í flokknum og mikið rætt um þetta og við eigum eftir að sjá hver niðurstaðan verður. En það einkennilega í málinu er og ég fjalla líka um það í bókinni svo ég haldi nú áfram að auglýsa hana, það einkennilega er í þessu máli hvað hefur gerst á undanförnum mánuðum þegar þetta hefur breyst frá því að vera umræða um Evrópusambandið og aðild að því í umræðu um það, hvort Sjálfstæðisflokkurinn taki einhverja ákvörðun í Evrópumálum á landsfundinum sem muni spilla stjórnarsamstarfinu. Og Sjálfstæðisflokknum er stillt svolítið upp við vegg af samstarfsflokknum á þann veg: Ja ef þið breytið ekki um stefnu og lagið ykkur ekki að okkar stefnu í Evrópumálum  þá mun það hafa áhrif á ríkisstjórnina. Nú er það svo að ríkisstjórnir koma og fara og þingkosningar eru en Evrópusambandsmálið er svo sérstakt að það hefur ekki verið ákveðið hvernig og hvenær að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um það en mér finnst þessi þáttur í umræðunum að stilla Sjálfstæðisflokknum þannig upp við vegg, ef þið ekki breytið um einhverja stefnu sem er okkur þóknanleg í Samfylkingunni að þá mun það hafa áhrif á stjórnarsamstarfið. Þetta finnst mér alveg nýr flötur í Evrópumálunum og snýst ekkert um Evrópumálin í raun og veru. Og þetta er fólk sem hefur verið að kvarta undan því lengi að umræðan snúist ekki um Evrópu.

Kolbrún: Nei, en hvorar raddirnar eru háværari, hvað heyrir þú meira innan þíns flokks, þeir sem vilja ganga í Evrópusambandið eða þeir sem vilja halda óbreyttu ástandi?

Björn Bjarnason: Mér finnst nú meira áberandi á þessum fundum sem ég hef setið, þeir sem eru á móti. Ég er nú að fara austur á firði í kvöld og á fundi þar og það verður fróðlegt að heyra hvað menn segja þar. En ég held  almennt séð að þá sé það tilfinning okkar sem höfum setið þessa fundi að þeir séu fleiri sem eru á móti heldur en með.

Heimir: Já, en svona kannski aðeins svo við hnykkjum nú á bókinni nýju, Hvað er Íslandi fyrir bestu? hún er komin út væntanlega í bókabúðir. En svona áður en við kannski sleppum þér Björn, það er farið að síga á seinnihlutann hérna, ástandið sem við búum við nú og uppgjörið, skoðun á öllu saman, aðdragandi þess, hvernig er staðan hjá þér?

Björn Bjarnason: Staðan hjá mér er sú að ég lagði fram frumvarp sem varð að lögum um sérstakan saksóknara, ég auglýsti það síðan um miðjan desember og umsóknarfrestur rann út hvað 29. desember. Við fengum engar umsóknir, við framlengdum og auglýstum núna og fresturinn, umsóknarfresturinn rann út í gær, 12. janúar. Nú er 13. janúar við bíðum eftir póstinum í dag en ég tel að við munum ganga frá því í dag að skipa mann í þetta embætti.

Kolbrún: Þannig að það hefur einhver sótt um starfið?

Björn Bjarnason: Já, ég vona að það standi, ég vona að hann hverfi ekki frá því umsækjandinn, en við erum vongóðir um það að við höfum núna góðan mann til þess að taka þetta verkefni að sér. Þetta er viðamikið verkefni og takið eftir því líka að í lögunum er nýmæli í íslenskum lögum sem aldrei hefur verið sett áður um svokallaðan uppljóstrara. Þar sem er verið að segja sem svo að ef menn skýra frá einhverju sem þeir telja að sé saknæmt  þá geti ríkissaksóknari ákveðið að falla frá ákæru á hendur þeim sem skýrir frá því. Þetta er nýmæli og þið sjáið líka að rannsóknarnefndin sem starfar undir formennsku Páls Hreinssonar er að fara af stað og hvað hún hefur víðtækar heimildir til að afla upplýsinga. Þannig að ég tel nú að ríkisstjórnin og Alþingi og stjórnvöld almennt hafi lagt sitt af mörkum til þess að það sé hægt að upplýsa þetta sem best allt saman.

Heimir: Er ekki mikið atriði að unnið verði hratt og örugglega?

Björn Bjarnason: Aðalatriðið að það sé unnið örugglega og það sé vandað til verka. Við höfum dæmi úr okkar réttarsögu að menn hafa verið að flýta sér og tekið kannski of mikið upp í sig og síðan hafa umræðurnar eftir á snúist um það af hverju var farið svona langt, af hverju var æsingurinn svona mikill. Þannig að ég held að í þessu sé nú allur varinn góður. En auðvitað á að vinna þannig að það sé trúverðugt og það skili þeim árangri sem að er stefnt að upplýsa. Við vitum ekkert hvort að þessi sérstaki saksóknari mun hafa mikið eða lítið að gera. En við höfum alla vegana komið embættinu á laggirnar.

Kolbrún: Að lokum Björn, ertu að fara að hætta sem ráðherra?

Björn Bjarnason: Ja, það kemur að því, því að ég lýsti því yfir við upphaf þessa kjörtímabils að ég myndi ekki verða ráðherra út allt kjörtímabilið og nú fer að koma að því bráðum já að ég geri það. Fari að taka mér eitthvað annað fyrir hendur.

Kolbrún: Erum við að tala um daga, vikur eða mánuði?

Björn Bjarnason: Ja, nú veit ég ekki, það verður að koma í ljós. Það er nú ekki alveg í minni hendi tímasetningar svona. En ég held að það séu nú frekar vikur heldur en mánuðir.

Heimir: Áttu von á einhverjum tilfærslum í ríkisstjórninni?

Björn Bjarnason: Á ég að segja þér það að ég hef ekki hugmynd um það, það er ekki mín deild. Ég hef öðrum skyldum að gegna heldur en að skipa mönnum sæti í ríkisstjórninni.

Heimir: Hvað ætlarðu þá að taka þér fyrir hendur þegar þú hættir?

Björn Bjarnason: Ja, nú veit ég ekki, ég held áfram sem þingmaður og þið sjáið nú að ég er að gefa út bók um utanríkismál. Utanríkismál hafa alla tíð verið mitt mikla áhugamál. Ég hef tekið að mér hins vegar mjög skemmtileg og umfangsmikil embætti en utanríkismálin og staða Íslands í samfélagi þjóðanna hefur í áratugi verið mitt aðal hobbý má segja.

Heimir: Jæja. Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra takk kærlega fyrir komuna og til hamingju með bókina.

Björn Bjarnason: Takk.