14.12.2008

Minnisvarði um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds.

Akureyri, 14. desember, 2008.

  

Á þessum tíma fyrir 20 árum, var alþingi að fjalla um frumvarp til laga um aðskilnað umboðsvalds og dómsvalds  í héraði, og átti það rætur í dómum um umferðarlagabrot á Akureyri. Undir árslok 1989 var svo hugur fæstra bundinn við lögfræði eða dómsmál, jafnvel þótt Ísland og mannréttindadnefndin í Strassborg ættu hlut að máli vegna þessara sömu dóma. Athygli heimsins beindist þá að heimssögulegum atburðum í Austur-Þýskalandi, Sovétríkjunum og Austur-Evrópu allri. Atburðum, sem breyttu framvindu sögunnar á svipaðan hátt og árásin á New York og Washington 11. september árið 2001 eða fjármálakreppan, sem gengur yfir veröldina á líðandi stundu.

Fyrir tveimur áratugum vissi enginn frekar en nú, hvað framtíðin bæri í skauti sér eða hvers mönnum þætti sérstök ástæða til að minnast, þegar fram liðu stundir. Hefði einhver spáð, að líklega kæmu menn saman 14. desember 2008 á horni Þingvallastrætis og Byggðavegar á Akureyri við minnisvarða um þrískiptingu ríkisvaldsins vegna fyrrnefndra dóma um umferðarlagabrot og síðan á málþingi í lagadeild Háskólans á Akureyri til að ræða afleiðingar málsins, hefði sá hinn sami líklega verið talinn eitthvað skrýtinn.  

Hvað sem því líður erum við hér í dag til að rifja upp einstakan atburð í íslenskri réttarsögu. Vegna þessa atburðar samþykkti alþingi vorið 1989 lög um aðskilnað umboðsvalds og dómsvalds í héraði og náði með því markmiði, sem fyrst var sett á þingi árið 1914.

Í greinargerð með frumvarpinu frá árinu 1989 var rifjað upp, að Íslendingar væru aðilar að Evrópuráðinu og hefðu skuldbundið sig til að fylgja sáttmála þess um verndun mannréttinda og mannfrelsis, en þar segði m.a. að léki vafi á um réttindi þegns og skyldur eða hann væri borinn sökum um refsivert athæfi, skyldi mál hans útkljáð af óháðum dómstóli. Síðan sagði orðrétt í greinargerðinni:

„Í október 1987 var tekið fyrir hjá mannréttindanefnd Evrópuráðsins mál manns sem búsettur er á Akureyri. Hafði hann verið dæmdur í undirrétti og í Hæstarétti fyrir brot á umferðarlögum. Í samræmi við gildandi lög var mál hans tekið fyrir og dæmt af fulltrúa bæjarfógetans á Akureyri, en hann starfar á ábyrgð og undir stjórn bæjarfógeta sem jafnframt er yfirmaður lögreglunnar. Málið var kært til mannréttindanefndarinnar á þeirri forsendu að mál sakbornings hefði ekki hlotið meðferð í undirrétti fyrir óháðum dómara.

Mannréttindanefndin komst að þeirri niðurstöðu að málið væri tækt til efnismeðferðar, en það þýðir að nefndin telur líkur á að brotið hafi verið gegn mannréttindasáttmálanum. Má segja að með því sé réttarfar Íslendinga í opinberum málum komið undir smásjá samstarfsþjóða okkar í Evrópuráðinu og hlýtur það að leiða til aukins þrýstings um umbætur á dómstólakerfi og réttarfari hérlendis.“

Í þessum orðum er því næsta mildilega lýst, hvað knúði á um setningu laganna um aðskilnaðinn. Í því fólst alvarleg viðvörun, að mannréttindanefndin ákvað að leggja þetta mál fyrir mannréttindadómstól Evrópu sem mál gegn íslenska ríkinu.

Dómstóllinn tók málið ekki til meðferðar heldur varð í mars 1990 við ósk ríkisins um að fella það niður, eftir að ríkið hafði gert sátt við kærandann, Jón Kristinsson [lögmaður hans var Eiríkur Tómasson hrl. síðar prófessor]. Þá taldi dómstóllinn, að bætt hefði verið úr því atriði í íslenskri löggjöf, sem gaf tilefni til kærunnar, með setningu fyrrnefndra laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989, og þeirri stefnu um skýringu á íslenskum reglum um vanhæfi dómara, sem var mörkuð með dómi hæstaréttar frá 1990. [Sigurður Jónsson, sem dæmdi í málinu á Akureyri var árið 1990 aðstoðarmaður Óla Þ. Guðbjartssonar, dóms- og kirkjumálaráðherra og kom sem slíkur að sáttargjörðinni í Strassborg.]

Í upphafi tíunda áratugarins tapaði íslenska ríkið máli fyrir mannréttindadómstólnum í Strassborg, sem Þorgeir Þorgeirson, rithöfundur, höfðaði. Við svo búið var ákveðið að festa mannréttindasáttmála Evrópu í lög á Íslandi og gerðist það árið 1994.

Árið 1995 var stjórnarskrá okkar breytt og við hana bætt grein, 70. grein, sem tók mið af niðurstöðunni frá Strassborg 1990. Í skýringu á greininni segir meðal annars, að þar sé mælt fyrir um, að dómstólar skuli vera óháðir og óhlutdrægir. Þetta sé undirstaða þess, að maður geti talist njóta réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómstólunum. Með því að segja dómstóla óháða sé einkanlega skírskotað til þess að dómstólar eigi að vera sjálfstæðir og ekki háðir öðrum þáttum ríkisvaldsins.

Þarna er með öðrum orðum verið að árétta þrískiptingu ríkisvaldsins.

Góðir áheyrendur!

Það fer því ekki á milli mála, að við komum hér saman af verðugu tilefni og vil ég þakka þeim, sem höfðu frumkvæði að þessari athöfn, og sérstaklega er ánægjulegt, að upphafsmaðurinn sjálfur, Jón Kristinsson, skuli vera hér meðal okkar.

Þótt aðskilnaðarlögin frá 1989 hafi dugað til að koma íslenska ríkinu undan því að hljóta dóm í Strassborg fyrir brot á mannréttindasáttmálanum, voru þau síður en svo eina löggjöfin, sem rekja má til hins réttarsögulega atburðar.

Fjölmargar lagabreytingar voru gerðar í tilefni aðskilnaðarins. Það voru til dæmis settir nýir lagabálkar bæði á sviði opinbers réttarfars og einkamálaréttarfars , sbr. ný lög um meðferð opinberra mála, lög um meðferð einkamála, lög um aðför, lög um kyrrsetningu, lögbann o.fl., lög um gjaldþrotaskipti o.fl., og lög um nauðungarsölu og aðrar lagabreytingar sem of langt mál er að telja upp hér. Þessi lög eru enn í fullu gildi, en lög um meðferð sakamála munu leysa lög um meðferð opinberra mála af hólmi nú um áramótin.

Um tveir tugir stjórnvaldsfyrirmæla voru gefnir út vegna þessara umfangsmiklu breytinga. Settir voru á fót 8 héraðsdómstólar,  og urðu talsverðar breytingar á verkefnum sýslumanna, en verkefni sem töldust til dómsmála fluttust samkvæmt nýrri skilgreiningu til héraðsdómstólanna. Jafnframt fengu embættin ný verkefni m.a. á sviði sifjaréttar og skv. lögræðislögum. Þá fengu sýslumenn ákæruvald í minni háttar málum, einkum á sviði sérrefsilaga.

Starfsmenn dómsmálaráðuneytisins héldu námskeið fyrir sýslumenn og fulltrúa þeirra til að kynna þeim hin nýju verkefni. Önnur námskeið voru og haldin í tengslum við aðskilnaðinn og handbækur voru gefnar út.

Ráðist var í framkvæmdir til að tryggja sýnilegt sjálfstæði dómstóla með því að greina aðsetur þeirra frá skrifstofum sýslumanna.

Þegar litið er til baka, eru allir sammála um, að rétt og löngu tímabært skref hafi verið stigið með þessari uppstokkun á dómskerfi okkar. Enginn dregur í efa sjálfstæði dómstólanna, þótt menn geti deilt um niðurstöðu dómara og þótt hin síðari ár hafi málum, sem dæmd hafa verið í hæstarétti oftar verið skotið til Strassborgar en áður var.

Góðir áheyrendur!

Ég ætla ekki að spá neinu um framtíðina á þeim miklu breytingatímum, sem við nú lifum.  Alþingi hefur á síðustu dögum samþykkt lög, sem snerta mannréttindi og marka tímamót í réttarsögunni ekki síður en aðskilnaðarlögin 1989.

Þar vísa ég í fyrsta lagi til laga um sérstakan saksóknara vegna bankahrunsins. Þau geyma meðal annars ákvæði um réttarstöðu uppljóstrara, en það er nýmæli í sakamálalöggjöf á Norðurlöndum.

Í öðru lagi nefni ég lögin um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna og tengdra atburða. Samkvæmt þeim verður sérfræðinefndum falið að rannsaka aðdraganda þess, að fjármálakerfi þjóðarinnar hrundi.

Atvik, stór og smá, leiða þannig oft til þáttaskila á sviði lögfræði og stjórnsýslu.

Enginn veit, hvað lagasetning vegna bankahrunsins ber í skauti sér, hitt er ég viss um, að í samtíðinni eru að gerast atvik, sem verða talin marka mikilvæg þáttaskil, þegar fram líða stundir, án þess að við áttum okkur nú á raunverulegum áhrifum þeirra.

Verði einhvers, sem nú gerist, minnst á sama hátíðlega hátt og gert er hér í dag, getum við verið stolt af framlagi okkar.

Það er svo sannarlega ekki á hverjum degi, að atvika í réttarsögunni er minnst með minnisvarða og málþingi.

Ég ítreka þakkir mínar til þeirra, sem hér hafa átt hlut að máli.