12.12.2008

Lögregla veitir öryggi og traust.

Lögreglunemar brautskráðir, Bústaðakirkju, 12. desember, 2008.

„Með lögum skal land byggja“. Orð Njáls á Bergþórshvoli, einkunnarorð lögreglunnar, eiga brýnt erindi nú á tímum, þegar íslenska þjóðin og raunar heimsbyggðin öll stendur frammi fyrir erfiðum og að mörgu leyti óvæntum viðfangsefnum. Ykkur, ágætu lögreglunemar, bíða ábyrgðarmikil verkefni, ég veit, að þið eruð vel undir þau búin og óska ykkur innilega til hamingju með að hafa náð þessum áfanga.

Lögreglustarfið krefst mikils af þeim, sem til þess veljast. Það sannast enn og aftur nú, þegar reiði og óvissa grefur um sig í þjóðfélaginu og jafnvel er reynt að trufla störf alþingis, sem þegar á tíma Njáls á Bergþórshvoli, var friðheilagt í trausti þess, að þar kæmu menn saman til að leysa úr ágreiningi með rökum og í krafti laga en ekki með vopnum eða ofbeldi.

Eftir að lögregla var kölluð á vettvang til að tryggja starfsfrið alþingis á dögunum, báru fulltrúar þingsins lof á lögregluna: Í fyrsta lagi fyrir hve fljót hún var á staðinn og viðbragðið  gott. Í öðru lagi fyrir hve fljótt og vel tókst að greiða úr erfiðu ástandi sem þarna skapaðist og í þriðja lagi fyrir hve yfirvegaðir og rólegir lögreglumennirnir voru á vettvangi og sýndu mikla þolinmæði í samskiptum við þann hóp einstaklinga, sem vildi ryðjast inn í þinghúsið.

Ég tek undir þessi lofsyrði og geri þau að mínum.

Lýsingin á verklagi lögreglunnar í þinghúsinu kemur og vel heim og saman við niðurstöðu í gagnmerkri skýrslu, sem Arnar Guðmundsson skólastjóri og samstarfsmenn hans unnu á liðnu sumri að ósk minni samkvæmt kröfu frá alþingi um rannsókn á framgöngu lögreglu gagnvart mótmælendum gegn Kárahnjúkavirkjun og stóriðju.

Tilmælin um skýrsluna komu frá þeim hópi þingmanna, sem helst gagnrýnir lögreglu, en með því er ýtt undir tortryggni vegna aðgerða hennar og jafnvel dregið í efa, að þær standist stjórnarskrá landsins og lög.

Skýrslan til alþingis sýndi afdráttarlaust , að framganga lögreglunnar var á allt annan og betri veg en látið var í veðri vaka. Frá því að skýrslan var birt í september, hefur málið ekki verið til umræðu á opinberum vettvangi. Þetta vopn snerist einfaldlega í höndum þeirra, sem því ætluðu að beita.

Almennt traust er borið til lögreglunnar. Við, sem höfum fylgst náið með störfum lögreglu, þekkjum mikinn metnað hennar. Vil ég við þetta hátíðlega tækifæri þakka lögreglunni, hve vel og skynsamlega hún rækir starf sitt.

Góðir áheyrendur!

Það fer ekki fram hjá neinum, að um þessar mundir er eindregið hvatt til mikils aðhalds í opinberum rekstri og að öllum tiltækum ráðum skuli beitt til að draga úr útgjöldum ríkissjóðs. Undan þessum afleiðingum fjármálakreppunnar fær enginn vikist og þær bitna á okkur, sem störfum að réttarvörslunni eins og öðrum.

Á alþingi er einmitt í dag verið að undirbúa aðra umræðu fjárlagafrumvarps fyrir næsta ár, sem ætlunin er að lögfesta í næstu viku. Í gær lýsti forsætisráðherra yfir, að leitast yrði við að standa vörð um grunnþætti í rekstri ríkisins, það er heilbrigðisþjónustu, skólastarf og löggæslu.

Það verður sameiginlegt verkefni okkar allra, sem komum að því að halda uppi lögum og rétti, að tryggja sem best öfluga löggæslu við gjörbreyttar og erfiðar aðstæður í ríkisfjármálum. 

Til marks um góða samvinnu við úrlausn þessara mála nefni ég tillögur um rekstur Lögregluskóla ríkisins á næsta ári en þær voru mótaðar undir forystu skólans í samvinnu við lögreglustjóra, lögreglumenn og ráðuneyti. Þar lögðust allir á eitt með það að markmiði að gæta sem best að hagsmunum allra. Hver hin endanlega útfærsla verður, vitum við ekki, fyrr en fjárlög hafa verið samþykkt.

*

Að þessi óvissa ríki, góðir lögreglunemar, sýnir, að þið gangið til liðs við lögregluna á sannkölluðum breytingatímum þar sem miklar kröfur verða gerðar til ykkar. Það er ekki aðeins óvissa um afkomu þjóðarbúsins heldur kann þjóðfélagsgerðin sjálf að vera að taka á sig allt aðra mynd en vænst var við upphaf náms ykkar. Þá hefur einnig verið lagt á ráðin um enn frekari breytingar á innviðum lögreglunnar með fækkun og stækkun lögregluuumdæma undir forystu þeirra, sem sérhæfa sig í lögreglustjórn.

Á tímum breytinga felst styrkur í því að geta stuðst við þá, sem veita öryggi og traust. Lögreglan er ein þeirra stofnana þjóðfélagsins, sem gegnir því hlutverki með miklum sóma. Yfirveguð og fumlaus framganga lögreglu vekur  traust  hjá þjóðinni. Einmitt þess vegna er ég stoltur af því að hafa fengið tækifæri til að leggja mitt af mörkum til að efla og styrkja löggæslu og ganga fram fyrir skjöldu henni til varnar.

Breytingatími er tími nýrra tækifæra. Óttumst ekki breytingar heldur nýtum þær. Áraun og erfiði getur bæði styrkt og brotið. Ég hvet ykkur til að líta björtum augum til framtíðar og sækja styrk í grunngildi starfs lögreglumannsins: heiðarleika, einurð og ósérhlífni.

Innilega til hamingju með daginn!