4.11.2008

Rannsókn, fjölmiðlaeign og Obama

Reykjavík síðdegis, Bylgjan, þriðjudag 4. nóvember.

 

Kristófer Helgason, einn umsjónarmanna Reykjavíkur síðdegis ræddi við mig í síma þriðjudag 4. nóvember, 2008, og birti ég samtal okkar hér. Ég hef snurfusað textann til að hann sé læsilegri, tekið til dæmis úr orðið „náttúrulega“ á nokkrum stöðum, en mér hættir til að nota það um of í spjalli af þessu tagi.

Kristófer Helgason:

Það er heilmikið um að vera, ekki bara í Bandaríkjunum þar sem að Bandaríkjamenn kjósa sér nýjan forseta í dag, ganga inn í kjörklefana heldur er heilmikið um að vera hér á Íslandi í efnahagsmálum og það hefur ekki farið framhjá nokkrum manni og ýmislegt fréttnæmt sem að kemur upp á hverjum einasta degi. Það er erfitt að halda utan um þetta orðið í dag. En heilmiklar upplýsingar að melta og eitt af því sem að rætt er um í þessu öllu saman það er að fá sannleikann upp á borðið, hvað gerðist og hver var aðdragandi þessa hruns. Og sá sem að er yfir því að komast að hinu sanna í þessu máli og skipa réttu mennina til þess að stýra þeirri rannsókn er Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra.

Kristófer Helgason: Komdu sæll Björn.

Björn Bjarnason: Já, blessaður. Ég held að það sé nú of mikið sagt hjá þér að ég sé yfir því. Ég er með einn þáttinn þar sem kemur að lögreglan og ríkissaksóknari og þeir sem rannsaka málin ef það er grunur um að afbrot hafi verið framin.  Fjármálaeftirlitið hefur þegar hafið rannsókn sem byggist á lögum þess og þeirra eftirlitsheimildum. Síðan hefur verið talað um það og var talað um það í þinginu í dag og forsætisráðherra tók alveg af skarið um það, að Alþingi myndi koma að því að móta reglur um það hvernig menn ætluðu að skrifa svonefnda hvítbók sem myndi þá væntanlega snúast um stjórnsýsluna, stjórnmálin, bankastarfsmenn almennt og heildarmyndina. Þannig að þetta verða menn að hafa í huga.

Kristófer: Er ekki mikilvægt að þetta starf byrji sem fyrst?

Björn Bjarnason: Jú, þetta þarf að byrja sem fyrst. Ég held að við getum nú tekið til dæmis mið af því varðandi gerð hvítbókarinnar hvernig var staðið að því að rannsaka, þú manst eftir deilunum um hleranir, þið hafið nú talað um það í þessum þætti ykkar.

Kristófer: Já, kalda stríðs.

Björn Bjarnason: Og þá fór þingið þá leið að samþykkja fyrst þingsályktun og síðan var skipuð nefnd og síðan fór nefndin yfir málið og áttaði sig á því hvað til hennar friðar heyrði og síðan kom hún til þingsins og sagði að nú þyrfti að fá lagaheimildir til þess að hún gæti unnið sitt starf með viðunandi hætti. Um þetta allt var mjög góð sátt á þinginu og síðan kom út skýrsla og mér finnst nú eins og málið hafi alveg tekið nýja stefnu með þeirri skýrslu og ekkert meira um það að ræða í sjálfu sér. Það er einhver svona ferill sem menn þurfa að fara í gegnum. Að taka umræður á pólitískum vettvangi og síðan að ákveða í hvaða farveg þeir vilja setja málið.

Kristófer: Já, líka hver á að, er það ekki að rannsaka. Það hefur nú verið talað um að fá utanaðkomandi aðila til þess?

Björn Bjarnason: Vafalaust þarf að fá erlenda menn til þess eða erlend fyrirtæki til þess. Umræðurnar núna í gær og eitthvað í dag hafa verið um ríkissaksóknara sem kom með þá hugmynd að hann hæfist þegar handa við að kortleggja stöðu málsins frá sínum bæjardyrum séð og hans forveri Bogi Nilsson tók að sér að leggja þar hönd á plóginn og síðan hafa menn talið að þeir væru vanhæfir af því að þeir væru að rannsaka mál sona sinna. En mér finnst að það sé ekki sanngjarnt að halda því fram. Ef þessir menn telja sig vanhæfa þá lýsa þeir sig vanhæfa en starfið sem þeir eru að vinna núna er frekar kortlagningarstarf og að átta sig á því hvað þetta er yfirgripsmikið og hvernig við þurfum að standa að því þegar ég kem með frumvarp síðan um skipan sérstaks saksóknara í málið. Því að það er alveg ljóst að það þarf að skipa sérstakan saksóknara og ég tel að það eigi að ákveða starfsramma hans með lögum þannig að Alþingi ræði málið og við ræðum það líka fyrir opnum tjöldum. Þannig að ég hef lagt mig fram um það og tel að það sé mjög mikilvægt að allt gerist fyrir opnum tjöldum, öllum steinum sé velt og það sé komið til móts við réttláta reiði fólks í þessu máli þannig að það haldi ekki að yfirvöldin séu að fela eitthvað. Síst af öllu vakir það fyrir mér og síst af öllu fyrir okkur í ríkisstjórninni. Því að okkur er kappsmál að sjálfsögðu að þetta mál liggi skýrt og klárt fyrir. Það er algjörlega bráðnauðsynlegt.

Kristófer: Já, en fólk talar um í dag að það vanti upplýsingar í dag, að stjórnvöld mættu segja fólki meira af því sem er að gerast?

Björn Bjarnason: Já, rannsóknir eru farnar af stað á vegum Fjármálaeftirlitsins og Fjármálaeftirlitið starfar á grundvelli sinna laga og hvaða upplýsingaskyldu það hefur geta menn vafalaust kynnt sér í þeim lögum. Ég tel að það eigi að upplýsa meira en minna í þessu. Ég tel að það sé mjög æskilegt og hef verið málsvari þess í ræðum á undanförnum árum að Fjármálaeftirlitið og skattrannsóknarstjóri birtu meira opinberlega af sínum niðurstöðum og sínum skýrslum en þessar stofnanir hafa gert. Og ég tel í þessu ástandi sé það enn brýnna heldur en áður að spilin séu lögð á borðið og menn viti hverjir eru að rannsaka á vegum þessara stofnana og síðan líka hvað kemur út úr því. Nú síðan sjáum við,  að það er líka verið að spyrja stjórnendur nýrra banka að því hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar varðandi einstaka starfsmenn gömlu bankanna og þetta þarf allt að leggja á borðið. Það er ógjörningur að menn geti teygt bankaleyndina svo langt að það sé ekki hægt að upplýsa þætti sem menn telja að þurfi að upplýsa. Því það er ekki heldur gott að þegja um eitthvað sem er betur sagt frá til þess að draga þá úr tortryggni og efla traust. Því að það að skjóta sér alltaf á bak við þagnarskyldu og leyndarhyggju er ekki gott í þessu ástandi.

Kristófer: Nei, en það er ýmislegt sem að breytist í svona áferði. Það var nú sagt frá því í fréttum um helgina að eignarhald á fjölmiðlum það virðist vera að færast á fáar hendur og Landsbankinn spilar þar inn í með láni á einum og hálfum milljarði?

Björn Bjarnason: Já, þetta kom mér mjög á óvart og satt að segja er það nú ekki ánægjulegt fyrir okkur sem stóðum í fjölmiðlalagadeilunni árið 2004 að fara inn í það andrúmsloft allt aftur en það er bráðnauðsynlegt að fara að ræða þau mál aftur með hliðsjón af því sem þarna er að gerast. Og það er líka undarlegt í augum allra að fyrirtæki sem skuldar kannski mörg hundruð milljarða skuli hér nú vera að tala um það að einhver banki ætli að útvega því sérstaklega einn og hálfan milljarð til þess að það geti eignast alla fjölmiðla landsins fyrir utan Viðskiptablaðið og Ríkisútvarpið. Og ég tek undir með Guðna Ágústssyni og þótti hann komast vel að orði í dag þegar hann fór að tala um rosabaug í þessu sambandi. Það  er náttúrulega alveg rosalegt í raun og veru að þetta skuli vera að gerast hér núna og menn telji það bara eins og það séu eðlileg viðskipti og svo eru menn að tala um það að það þurfi að upplýsa eitthvað úr fortíðinni og spyrja um það hvaða reglur giltu um hitt eða þetta og síðan í samtímanum að þá eru menn eins og alveg varnarlausir gegn þessu. Ég undra mig mjög á þessu öllu saman.

Kristófer: Sérðu ástæðu til þess að fara að dusta rykið af fjölmiðlalögunum gömlu?

Björn Bjarnason: Ég held að það blasi við. Það blasir við að okkur var sagt á sínum tíma að það væru þegar í gildi svo öflug samkeppnislög og samkeppnisreglur um fjölmiðla að það væri óþarfi að gera nokkuð sérstakt í því. En ég held að engan hafi þá órað fyrir því að þetta gæti gerst. Nú, Samkeppniseftirlitið á eftir að segja álit sitt á þessum síðustu vendingum. En að það geti gerst að þetta færsti svona á eina hendi og í ljósi þess sem menn fullyrtu á þeim tíma að þetta væri nú allt í lagi af því að það væru hér svo skýrar reglur um það hvernig ætti að standa að málum, samkeppnismálum í fjölmiðlum. Þetta er algjörlega óviðunandi.

Kristófer: Aðeins að öðru máli Björn, þeim fjölgar sjálfstæðismönnum sem að vilja víkja bankastjórn Seðlabankans frá völdum. Ragnheiður Ríkharðsdóttir bættist í hópinn núna í dag?

Björn Bjarnason: Jú, þetta endurspeglar reiði margra og það eru líka margir sem eru að senda mér tölvupóst um það, að ég eigi að hætta og margir vilja að ríkisstjórnin fari frá og margir vilja að Sjálfstæðisflokkurinn greinilega fari frá miðað við niðurstöður skoðanakannana. Þetta er eðlilegt að þessi sjónarmið komi upp í þessu fárviðri öllu saman og fleiri eigi að fjúka heldur en færri og menn vilji ræða það á þeim grunni. En ég held að það leysi nú ekki vandann og breyti ekki þessu. Við sem erum að gegna þessum störfum núna erum að gegna þeim með því umboði sem við höfum og forsætisráðherra hefur marglýst því yfir að hann ætli ekki að breyta umboði þeirra sem hann skipar í stjórn Seðlabankans. En hún[Ragnheiður] segir líka að hún telji að Fjármálaeftirlitið eigi allt að víkja eða yfirstjórn þess og vill ganga lengra heldur en menn almennt í þessu hafa gert og þetta er ekkert óeðilegt að það sé farið í gegnum þetta og menn velti þessu öllu fyrir sér. En ég segi nú hvers eru menn bættari annað heldur en þá að fá útrás fyrir reiði sem þeir telja réttmæta. Ég held að það eigi að skoða þetta allt af yfirvegun eins og annað og menn eigi að hlusta á rök með og á móti og þarna er þingmaður og þingsystir mín sem hefur þessa skoðun og við verðum að ræða þetta að sjálfsögðu á okkar vettvangi eins og annars staðar í þjóðfélaginu. Það er ekkert óeðlilegt við það.

Kristófer: Nei, örlítið í lokin Björn, ég get ekki sleppt þér án þess að minnast á bandarísku forsetakosningarnar.

Björn Bjarnason: Já.

Kristófer: Bandaríkjamenn kjósa sér nýjan forseta í dag, hvaða tilfinningu hefur þú fyrir?

Björn Bjarnason: Ég hef nú þá tilfinningu að Obama muni sigra þetta og ég verð að segja að þegar maður lítur yfir hans kosningabaráttu og þær hindranir sem hann hefur farið yfir, hvað honum hefur gengið vel að safna fjárstuðningi, hann hefur sigrað kosningavél Clinton fjölskyldunnar innan eigin flokks og hann virðist vera að sigra hina öflugu kosningavél repúblikana, sem hefur þótt ákaflega vel smurð og skipulögð,  þá er ekki annað unnt heldur en að hafa aðdáun á því hvernig manninum hefur tekist þetta. Og fyrir utan að yfirvinna ýmsa fordóma vegna síns litarháttar að þá er það með ólíkindum að þetta skuli vera að gerast í okkar samtíma og líklega höfum við aldrei vænst þess að þetta myndi gerast í Bandaríkjunum sem erum að minnsta kosti komin á sama aldri og ég. En að þessu leyti finnst mér þetta mjög merkilegt og ég tel að ...

Kristófer: Heldurðu að það sé farsælla fyrir Bandaríkin?

Björn Bjarnason: Ha?

Kristófer: Heldurðu að það sé farsælla fyrir Bandaríkin að Obama vinni?

Björn Bjarnason: Ja, mér finnst nú og ég hef nú haft þá skoðun að Bush stjórnin hafi málað sig út í horn og málað Bandaríkin út í horn og ég vona að Bandaríkin verði opnari til dæmis í samskiptum við okkur heldur en þau hafa verið á undanförnum árum undir forystu Bush stjórnarinnar. Ég tel að framganga þeirra til dæmis í varnarmálunum gagnvart okkur sé að mörgu leyti óskiljanleg og ég er líka þeirrar skoðunar, að það hafi ekki núna í þessum fjárhagsvanda, sem við erum að ganga í gegnum, komið sá stuðningur frá Bandaríkjunum sem maður hefði getað vænst. Þannig að ég held að það geti nú varla versnað fyrir okkur.

Kristófer: Já, Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra kærar þakkir fyrir þetta.

Björn Bjarnason: Þakka þér kærlega, blessaður.

Kristófer: Bless.