Efnið og andinn - ávarp á kirkjuþingi.
Ávarp við upphaf kirkjuþings, Grensáskirkja, 25. október, 2008.
Kirkjuþing, orðið leiðir hugann aftur í aldir, þegar kristnir menn hittust til að ráða ráðum sínum og koma sér saman um, hvernig boða ætti trúna á Jesú Krist.
Ég hef átt þess kost að heimsækja marga helgistaði. Einna áhrifamest hefur mér þó þótt að koma á Aresarhæð við Akropolis í Aþenu, þar sem Páll postuli hélt sitt kirkjuþing og sagði:
„Aþeningar, þið komið mér svo fyrir sjónir að þið séuð í öllum greinum miklir trúmenn því að ég gekk hér um og hugði að helgidómum ykkar og fann þá meðal annars altari sem á er ritað: Ókunnum guði. Þetta sem þið nú dýrkið og þekkið ekki, það boða ég ykkur. Guð, sem skóp heiminn og allt sem í honum er, hann, sem er herra himins og jarðar, býr ekki í musterum sem með höndum eru gerð.“
Ræða postulans er ekki aðeins merk vegna þess boðskapar, sem hún hefur að geyma, heldur einnig vegna hugdirfsku ræðumannsins – að fara á slóðir Sókratesar til að snúa mönnum til nýrrar trúar og túlka kenningar úr heimi gyðinga á þann veg, að þær festi rótum í nýjum menningarheimi.
Dr. Sigurbjörn Einarsson, blessuð sé minning hans, ritaði greinaflokk í Morgunblaðið fyrir ári og velti fyrir sér vilja veraldarinnar. Þar minnti hann okkur á, að Sókrates og Kristur hefðu báðir verið dæmdir til dauða og stæðu þannig hlið við hlið og dr. Sigurbjörn sagði upprisu Jesú einstæða staðfestingu á einstæðri vissu og þar með þá endurskoðun á jarðneskri dómsniðurstöðu, sem ætti enga hliðstæðu. Kristin trú væri hlutdeild í þeirri vissu og byggðist á henni. Þannig hefði hún fæðst og lifði til þessa dags. Við tilkomu hennar hefðu orðið tímamót í andlegri sögu heimsins. Með útbreiðslu kristninnar hefðu hebresk hugsun og grísk mæst og runnið í einn farveg, tveir öflugir straumar úr ólíkindum lindum.
Við getum enn þann dag í dag gengið um staðinn, þar sem Páll postuli hvatti til samruna hinna öflugu, ólíku menningarstrauma undir merkjum kristninnar. Þar má standa og íhuga gífurleg áhrif þessarar umbreytingar á alla framvindu heimssögunnar.
Eins göngum við um Þingvelli og eignumst hlutdeild í sögunni og samþykkt alþingis um að kristni skyldi lögtekin á Íslandi. Til Þingvalla og Þorgeirs Ljósvetningagoða rekjum við upphaf þess samruna heiðni og kristni, sem hefur mótað sögu og menningu Íslendinga í meira en 1000 ár.
Í umræðum um frumvarp að nýjum grunnskólalögum á alþingi fyrir tæpu ári, vöknuðu spurningar um kristnifræðslu. Í þingsalnum var ég spurður um afstöðu mína og vísaði ég til eigin orða við útgáfu námskrár í minni tíð sem menntamálaráðherra, að við framkvæmd skólastefnunnar bæri að halda í heiðri gildi, sem hefðu reynst okkur Íslendingum best. Skólarnir hefðu vaxið úr jarðvegi kristninnar og þær rætur mætti aldrei slíta. Og ég leyfði mér að fullyrða, að alþingi hefði aldrei brugðist hinum kristna málstað. Það sannaðist enn við afgreiðslu grunnskólalaganna.
Það yrði íslensku þjóðinni til varanlegs tjóns, ef hætt yrði að leggja rækt við hinn kristna arf eða drægi úr virðingu fyrir kristni og kirkju. Hinn kristni grunnur er þjóðinni ekki minna virði en sagan og tungan.
Þegar minnst er 50 ára afmælis kirkjuþings, er verðugt að árétta hið sameiginlega verkefni kirkjuþings og alþingis að standa vörð um hin kristnu gildi. Alþingi stofnaði ekki til kirkjuþings til að hlaupast undan eigin ábyrgð á varðstöðu um kristni og kirkju.
Árið 1903, þegar heimastjórn var í augsýn, vaknaði áhugi innan kirkjunnar á sjálfstæði hennar gagnvart ríkisvaldinu. Þá var samþykkt á prestastefnu, að kirkjan fengi sjálfstæði í sínum eigin málum. Jafnframt var lagt á ráðin um kirkjuþing.
Rúm hálf öld leið, þar til alþingi samþykkti lög um kirkjuþing. Við þingmeðferðina snemma árs 1957 tóku ekki margir til máls. Helst var deilt um, hvort ríkið ætti að greiða kirkjuþingsmönnum dagpeninga og ferðakostnað. Var jafnvel talið, að það kallaði á sambærilegar greiðslur vegna læknaþings.
Á hitt var bent, að kirkjuþing væri ekki stéttarþing heldur samráðs- og samstarfsvettvangur lærðra og leikra. Sigurvin Einarsson, framsögumaður málsins í efri deild, sagði fyrsta skilyrðið til þess, að prestastéttin gæti orðið til góðs í þjóðfélaginu væri náið samstarf og samræmi milli safnaða og presta.
Þetta samstarf er síður en svo í andstöðu við sjálfstæði kirkjunnar í eigin málum. Á undanförnum árum hef ég við upphaf kirkjuþings fagnað nýjum áföngum á leið kirkjunnar til sjálfstæðis. Í fyrra sagði ég meðal annars:
„Tillaga liggur fyrir því kirkjuþingi, sem nú er að hefjast, um að skipuð verði nefnd til að endurskoða löggjöf um þjóðkirkjuna. Er talið mikilvægt að leggja mat á reynslu síðustu 10 ára og í ljósi þess að huga að nýjum lagaramma þjóðkirkjunnar. Ég fagna þessari tillögu og tel til dæmis eðlilegt að hugað verði að því að fella úr gildi lögin frá 1931 um að kirkjumálaráðherra skuli setja gjaldskrá til 10 ára í senn um aukaverk presta. Er eðlilegt, að kirkjan setji sjálf slíka gjaldskrá.“
Eins og við vitum hefur nefndin, sem þarna er boðuð, unnið starf sitt með ágætum og nú liggja fyrir drög að frumvarpi til nýrra þjóðkirkjulaga. Þar er meðal annars gert ráð fyrir, að lögin frá 1931 falli úr gildi og þar með síðustu afskipti kirkjumálaráðherrans af kjörum presta. Ég hvet kirkjuþing til að ræða og samþykkja þetta frumvarp, en ég mun síðan leitast við að vinna því fylgi í ríkisstjórn og á alþingi.
Góðir áheyrendur!
Íslenska þjóðin lifir nú örlagatíma. Eftir meiri sókn eftir efnislegum gæðum og meiri dýrkun á þeim en nokkru sinni fyrr, reynir þjóðin öll, hve fallvölt þessi gæði eru.
Í þrengingum erum við minnt á hina líknandi hönd kristinnar kirkju og þann boðskap, sem hún flytur. Hann skiptir meiru en öll hin veraldlegu gæði eins og segir í Davíðssálmi:
Sá sem óskar sér blessunar í landinu
óski sér blessunar í nafni hins trúfasta Guðs
og hver sem vinnur eið í landinu,
hann vinni eið í nafni hins trúfasta Guðs
þar sem fyrri þrengingar eru gleymdar
og huldar fyrir augum mínum.
Ég leyfi mér að ljúka orðum mínum með því að vitna enn í Pál postula, sem sagði:
„Þið þekkið náð Drottins vors Jesú Krists. Hann gerðist fátækur ykkar vegna, þótt ríkur væri, til þess að þið auðguðust af fátækt hans.“