15.10.2008

Staða bankakerfisins

Umræður á alþingi 15. október 2008

15.10.2008

Eins og fram hefur komið hér í umræðunum, hafa ýmsir ræðumenn vakið máls á nauðsyn þess, að rannsakað verði, hvort refisvert athæfi af einhverju tagi tengist fjármálakreppunni og falli þriggja stærstu banka landsins.

Um þennan þátt málsins fer að sjálfsögðu að lögum og í því tilliti ber meðal annars að líta til hlutverks ríkissaksóknara. Við áttum fund í gær og í framhaldi af honum ritaði ég ríkissaksóknara svofellt bréf, sem ég les í heild með leyfi forseta:

„Vísað er til viðræðna okkar, herra ríkissaksóknari, fyrr í dag, þar sem þér tjáðuð mér, að þér munduð hafa forystu um gerð skýrslu um stöðu og starfsemi íslenskra peninga- og fjármálastofnana á þessum tímamótum í rekstri þeirra og eignarhaldi auk aðdraganda hinna miklu umskipta, sem orðið hafa í rekstri þeirra.

Til að draga upp heildarmynd af stöðunni, eftir því sem unnt er við núverandi aðstæður, er ég sammála því, að þér fáið til liðs við yður fulltrúa frá embætti skattrannsóknarstjóra, fjármálaeftirliti og ríkisendurskoðun.

Með gerð skýrslunnar yrði aflað staðreynda um starfsemi bankanna Glitnis hf., Landsbanka Íslands hf. og Kaupþings hf., útibúa þeirra, og fyrirtækja í þeirra eigu, tilfærslu eigna, einkum á síðustu mánuðum starfseminnar. Markmiðið yrði að kanna, hvort sú háttsemi hefði átt sér stað, sem gæfi tilefni til lögreglurannsóknar á grundvelli laga um meðferð opinberra mála.

Þess er vænst, að gerð skýrslunnar verði hraðað og að því stefnt, að hún liggi fyrir eigi síðar en í árslok 2008.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið vinnur að löggjöf um stofnun sérstaks embættis, sem ætlað er að sjá um rannsóknir og eftir atvikum saksókn vegna þeirra réttarbrota, sem kunna að koma í ljós í tengslum við þá atburði, sem orðið hafa í starfsemi fjármálastofnana að undanförnu.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið mun óska eftir fjárveitingu til embættis yðar, að höfðu nánara samráði við yður, til að standa undir kostnaði sem leiðir af ofangreindum störfum s.s. við að ráða tímabundið faglega menntaða starfsmenn, útvegun starfsstöðvar og annað sem af þessu leiðir.“

Í þessu bréfi felst í fyrsta lagi, að ég styð þá ákvörðun ríkissaksóknara að leita liðsinnis frá embætti skattrannsóknarstjóra, fjármálaeftirliti og ríkisendurskoðun og hef ég samhliða þessu bréfi óskað eftir því við þessar stofnanir, að þær tilnefni án tafar fulltrúa sína til þessa samstarfs.

Í öðru lagi, segir í bréfinu, að ég muni beita mér fyrir því, að tryggðar séu fjárveitingar til að vinna skýrslu af þessu tagi en til þess þarf að ráða sérstaka starfsmenn. Heiti ég á stuðning alþingis í því efni.

Engum ætti að vera ljósara en okkur, sem hér sitjum, hve miklu skiptir fyrir allt jafnvægi og jafnræði í þjóðfélaginu, að leitast sé við að gæta laga og réttar með hverjum þeim úrræðum, sem nauðsynleg eru hverju sinni.

Í þriðja lagi boða ég í bréfinu til ríkissaksóknara, að á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins sé verið að semja frumvarp að sérstakri löggjöf um að stofnað verði tímabundið rannsóknarembætti, sem taki við rannsókn á kærum um meinta refsiverða verknaði, sem sprottnir eru af eða tengjast falli bankanna.

Ráðinn verði sérstakur forstöðumaður þessa embættis, sem starfi í nánu samstarfi við hverja þá opinbera stofnun, innan lands og utan, sem getur lagt liðsinni við að upplýsa mál og greiða fyrir rannsókn þeirra. Embættið starfaði undir forræði ríkissaksóknara, sem gæti ásamt forstöðumanni, ákvarðað, hvaða rannsóknarefni féllu til þess.

Það mun að sjálfsögðu verða undir alþingi komið, hvernig lög um þetta efni verða í endanlegri mynd, en hitt er ljóst af minni hálfu, að réttarvörslukerfið getur ekki brugðist við auknu álagi vegna þessara atburða, án þess að gripið sé til sértækra aðgerða.

Við setningu laga um þetta efni er eðlilegt að því sé velt fyrir sér, hvort samhliða því, sem þessi nýskipan er lögfest verði einnig ákveðið, að koma á laggirnar samráðs- og eftirlitsnefnd með fulltrúum allra þingflokka, sem hitti forstöðumann hins nýja embættis reglulega og geti í þeim trúnaði, sem ber að virða, fylgst með framvindu mála.

Herra forseti!

Við núverandi aðstæður er nauðsynlegt að gera allt, sem skynsamlegt er, til að efla traust á þeim innviðum, sem eru meginstoðir réttarríkisins. Þá er afar mikilvægt að ekki sé hrapað að neinu eða gefa sér í anda nornaveiða, að lög hafi verið brotin.

Ég heiti á samstöðu þingmanna um úrlausn hinna brýnu verkefna, sem við íslensku þjóðinni blasa á þessari örlagastundu.