Qi gong, forvarnir og SÁÁ.
Málþing á vegum SÁÁ um félagslegar forvarnir, Von, Efstaleiti, 2. október, 2008.
Ég fagna því að SÁÁ skuli efna til málþings hér í dag um félagslegar forvarnir. Ég tel bæði tímabært og brýnt að beina athygli að þessum þætti í samfélagi okkar. Alltof oft er athygli aðeins beint að afleiðingunum en ekki hugað nægilega að þeirri fyrirhyggju, sem felst í forvörnum.
Mér er sérstaklega ljúft að ávarpa ykkur hér í þessum sal. Hingað kemur hópur manna snemma morguns þrisvar í viku til að stunda qi gong – kínverskar líforkuæfingar – en við Gunnar Eyjólfsson leikari hrundum skipulegum qi gong æfingahópum af stað hér á landi fyrir meira en einum áratug. Jafnt og þétt hefur fjölgað í hópunum, enda finna þeir, sem kynnast æfingunum, fljótt, að þær gera þeim gott – bæði andlega og líkamlega.
Nýlega las ég grein í dönsku blaði undir fyrirsögninni: Ljón, mjúkt eins og smjör. Hún snýst um Torben nokkurn Bremann en sagt er, að hann sé sá maður í Danmörku, sem hafi mesta getu til að standa kyrr. Hann geti staðið í eina klukkustund og haldið höndum eins og hann faðmi tré. Hann er spennulaus í öxlum og verkjalaus í handleggjum. Hann stendur aðeins kyrr og lætur orku streyma um líkama sinn frá toppi til táar. Í frosti stendur hann utan dyra, án þess að verða kalt á höndunum. Ekkert virðist vera að gerast, en í líkama hans er allt á fleygi ferð, segir hann, og segist einmitt hafa leitað að þessari tilfinningu síðan hann var ungur drengur. Og hann hefur svo sannarlega leitað heimshorna á milli.
Líkamsræktarsögu Bremanns er lýst í löngu máli. Hann hreifst af líkamsburðum Arnolds Schwarzeneggers og fetaði í fótspor hans og fór meðal annars til æfinga í Santa Monica í Kaliforníu. Hann kunni sér ekki hóf við æfingar og gekk of nærri sér á líkama og sál. Að lokum gat hann ekki lagt hnakkann aftur við lyftingar, án þess fá svima, sem síðan varð stöðugur. Læknar töldu hann hafa fengið heilablóðfall eða snert af MS-sjúkdómi.
Þetta varð Bremann þung andleg raun og hann leitaði sér víða árangurslaust lækninga bæði hefðbundinna og óhefðbundinna. Loks hitti hann Ingrid Prahm, fyrrverandi ballerínu, sem lagði áherslu á slökunaræfingar. Hún tók hann að sér, þótt hún væri vanari að hjálpa fíngerðum frúm en vöðvafjalli.
Þáttaskil urðu í lífi Bremanns, þegar hann kynntist taiji, sem er afsprengi qi gong. Þegar hann sá kunningja sinn í fyrsta sinn gera hægar, mjúkar taiji-æfingar, fannst honum vinurinn eitthvað bilaður. Bremann lét það þó ekki aftra sér frá að prófa sjálfur, hann svimaði mikið í upphafi en síðan hvarf sviminn alveg og hann uppgötvaði ný tengsl líkama og sálar. Vöðvabrynjan tók að minnka og líkaminn varð mjúkur. Eftir markvissar æfingar tókst honum að sameina qi gong og gömlu líkamsræktaræfingarnar sínar fyrir utan að finna sjálfan sig að nýju.
Í lok greinarinnar segir, að Bremann lifi nú tvöföldu lífi, annars vegar sem nálastungulæknir, sérfræðingur í kínverskum jurtalækningum og kennari í miðstöð sinni fyrir taiji og qi gong, hins vegar sem einkaþjálfari í líkamsræktarstöð.
Nú er meginboðskapur Bremanns til þeirra, sem hann þjálfar, hvort heldur í qi gong eða líkamsrækt, að menn geti breytt sér – sé viljinn fyrir hendi, geti allir tekið sig á og orðið betri menn.
Ég spyr: Er þetta ekki einmitt kjarni félagslegra forvarna? Að kveikja áhuga sem flestra á bestu leiðinni fyrir hvern og einn til að njóta sín í lífi og starfi. Að finna sína eigin leið, lifa í sátt við sjálfan sig og stuðla þannig að jafnvægi og friði í samfélaginu.
Með þá skoðun að leiðarljósi vil ég enn á ný nota þetta tækifæri til að þakka forráðamönnum SÁÁ fyrir hönd okkar, sem stundum qi gong hér í þessum sal.
Við ljúkum æfingum okkar með því að minnast þess, að við breytum hvorki fortíðinni né ráðum framtíðinni – hið besta sé að njóta hverrar stundar með skýrri vitund og vera þannig búinn undir það, sem verða vill.
Í byrjun vikunnar birtist í Morgunblaðinu samtal við Ásdísi Haraldsdóttur svæðislögreglumann í Laugardal og Háaleiti hér í Reykjavík og Eið H. Eiðsson, lögreglufulltrúa svæðisstöðvar 1 og forvarna.
Þau vinna að málefnum barna og ungmenna og meðal verkefna þeirra er að framfylgja útivistarreglum. Ávinninginn af forvarnarstarfi sínu segja þau ótvíræðan og margvíslegan. Einna mikilvægast sé að börn læri að forðast hættur. Að hafa þá einföldu reglu í heiðri að hlíta reglum um útivistartíma dragi úr afbrotum og auki öryggi þeirra, sem eru á ferli.
Síðustu tvö ár hefur forvarnardeild lögreglunnar sent út kynningarbréf um útivistarreglur til foreldra grunnskólabarna og hafa þessi áminningarbréf mælst vel fyrir. „Ég hef fengið þakkarbréf frá foreldrum,“ er haft eftir Eiði, sem segir þetta forvarnarstarf hið þakklátasta af þeim verkefnum, sem hann hefur sinnt innan lögreglunnar.
Í Morgunblaðinu kemur fram, að árangurinn af starfi deildarinnar sé gríðarlegur. Mikil breyting hafi orðið á undanförnum árum. Áður hafi foreldrar gjarnan gortað af því, að hvorki þeir né börn þeirra færu að útivistarreglum en nú sé litið á það sem sjálfsagðan hlut að virða reglurnar. Á árum áður hafi lögregla þurft að hafa afskipti af fjölda barna, sem virtu ekki reglurnar, en nú séu þetta kannski fjögur börn á kvöldi í meira en 20 þúsund manna hverfi.
Ásdís segir foreldra almennt ánægða með afskipti lögreglu, forvarnarstarfið skili þó ekki árangri nema foreldrar taki höndum saman og allir virði settar reglur, því að forvarnir hefjist ávallt innan veggja heimilisins.
Þessi lýsing gefur að mínu mati raunsannari mynd af því góða starfi, sem lögregla vinnur í hverfum og byggðum landsins en upphrópanir um, að allt sé á hverfanda hveli innan lögreglunnar og þar séu menn með hugann við allt annað en íbúana í umdæmum sínum, nærlöggæslu eða hvaða nöfn menn velja hinu mikilvæga hlutverki lögreglu, sem felst í forvörnum.
Ég sakna þess oft í umræðum um þessi mál, að sveitarfélög eða félagsþjónustur þeirra gangi fram á opinberum vettvangi og lýsi skýrt og skorinort yfir vilja til samstarfs við lögreglu og hvernig slíku samstarfi sé best háttað.
Að mínu mati eru sveitarstjórnir og yfirvöld barnaverndarmála oft of fljót að setja sig í varnarstellingar, þegar umræður eru um borgar- eða bæjarbrag. Ég er ekki með þessu að gera lítið úr skyldum lögreglu og nauðsyn þess, að hún sé öflug. Ég tel hins vegar, að það hljóti að vera metnaðarmál sérhverrar sveitarstjórnar, að nota þau tæki, sem hún hefur til að móta eigin brag á sínu sveitarfélagi.
Það er til dæmis ekkert náttúrulögmál, sem ræður yfirbragði miðborgar Reykjavíkur. Miðborgin ber svip ákvarðana um atvinnustarfsemi og leyfi til hennar, ákvarðana, þar sem borgarstjórn á síðasta orð.
Ég tel til dæmis alfarið á valdi borgarstjórnar Reykjavíkur að ákveða, hvort og hvar svonefndir nektardansstaðir eru innan borgarmarkanna. – Þótt starfsemi þessara skemmtistaða sé leyfð samkvæmt lögum, jafngilda lagaákvæðin ekki því, að sveitarstjórnir geti ekki ákveðið heimilisfesti staðanna.
Við eigum vissulega mörg og skýr dæmi um góðan árangur af farsælu samstarfi lögreglu og félagsmálayfirvalda sveitarfélaga og nægir þar að nefna verkefnið Hringinn í Grafarvogi hér í Reykjavík. Hringurinn var kveikjan að því að við tókum upp svonefnda sáttamiðlun, sem nú er fastur liður í störfum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Sáttamiðlun er einkum æskilegt úrræði vegna smávægilegra afbrota, þar sem í hlut eiga gerendur frá 15 ára aldri til tvítugs.
Sáttamiðlun er í eðli sínu félagslegt úrræði gegn afbroti – í stað þess að láta menn sæta ákæru og refsingu er málið leyst með sátt. Að baki býr sú skoðun, að hver og einn sé best fær um að leysa úr ágreiningi sínum við aðra. Leitast er við að ljúka hverju máli á einfaldan og skjótan hátt, þannig að sýnileg tengsl séu á milli hins refsiverða verknaðar og málalykta. Gildi þessa úrræðis fyrir ósakhæf ungmenni er mikið í ljósi forvarna. Með því að viðurkenna eigið afbrot margfaldast líkur á, að það verði ekki endurtekið
Af 82 málum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem sáttamiðlun hefur verið beitt – hefur náðst raunveruleg sátt í þeim öllum nema einu. Er mér sagt, að mikil og vaxandi ánægja ríki með þessa leið til að draga úr óknyttum og afbrotum.
Á síðasta ári var ritað undir þríhliða samkomulag SÁÁ, höfuðborgarlögreglunnar og dómsmálaráðuneytisins um vilja SÁÁ til að taka við einstaklingum til meðferðar og um samvinnu SÁÁ við lögreglu að forvarnarmálum. Hefur þetta samstarf skipt miklu fyrir marga auk þess að auðvelda lögreglu störf hennar og fyrir það vil ég þakka.
Þeir, sem hafa helgað starfi SÁÁ krafta sína, vita manna best, að engin einföld leið er fær að hinu háleita marki, að gera hverjum einstaklingi kleift að sigra í glímunni við sjálfan sig.
Um leið og þetta er sagt, skal hitt fullyrt, að því öflugra sem öryggisnetið er, þeim mun meiri líkur eru á því, að unnt sé að bjarga þeim, sem falla fyrir borð.
Við, sem komum hér saman á morgnana til að stunda qi gong, höfum sett okkur óskrifað en skýrt markmið: að nýta okkur einfaldar orkuæfingar til að njóta lífsins betur. Við þurfum ekki að fara alla leið til Kína til að átta okkur á gildi þess. Í Hávamálum er varað við óminnishegranum, sem stelur geði guma –
því að færra veit,
(sá) er fleira drekkur.
Hvarvetna og um aldir hefur maðurinn áttað sig á því, að alsgáður, agaður og vel á sig kominn, nýtur hann sín best. Besta forvörnin felst í því að vinna sem flesta á þetta band.
Við upphaf þessa tímabæra málþings ítreka ég þakkir mínar til SÁÁ fyrir hið mikla og árangursríka starf, sem unnið hefur verið undir merkjum samtakanna í þágu betra mannlífs og heilbrigði.